01.02.1957
Efri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ. gat um það, að n. þessi hefði klofnað þar, sem nefndir eru .,kleyfastar“ á þessu þingi. Hann gat um það í sinni fyrri ræðu. Ég er ekki þingvanur maður, en mig satt að segja furðar stórlega á því, hvað nefndir klofna reglulega hér á þessu hv. Alþ. Ég er ekki að segja, að það hafi gerzt í þessu máli, en nefndir virðast yfirleitt klofna eftir fyrir fram ákveðnu striki, jafnvel þótt maður hafi rökstuddan grun um að ætla, að hv. þm. hafi skilið eftir sál og sannfæringu hinum megin við strikið.

Hv. þm. S-Þ. gat um það, að ný húsnæðismálalöggjöf væri á ferðinni, sem samþ. yrði á þessu þingi, og fór honum í því efni ekki ósvipað og hæstv. félmrh. í gær, en þeir virðast báðir telja, að það sé óþarfi að gera nokkrar aths. við húsnæðismálafrumvörp stj., vegna þess að um það efni verði sett löggjöf á þessu þingi. Hv. þm. talaði einnig um það, að þessar aðfinnslur okkar væru til þess að tefja það, að málið næði fram að ganga, en ég vil benda honum á, að þetta frv. er þegar orðið að l. Það eru brbl., sem hægt er að beita og hefur væntanlega verið beitt í einhverjum tilfellum, svo að ég álít enga goðgá, þó að það sé rætt og við það gerðar nokkrar aths.

Hv. þm. S-Þ. gat um það í seinni ræðu sinni, að það væri sjúkleiki, hve margir vildu taka að sér verzlunarstörf i þjóðfélaginu, og á hann þá sennilega við verzlunar- og fleiri svokölluð hvítflibbastörf. Ég er honum sammála í því, að það er sjúkleiki eða a.m.k. óæskileg þróun, að of margir menn taki að sér slík störf. En er það ekki einmitt þetta, er það ekki þessi þróun, sem hæstv. núverandi ríkisstj. virðist vera að ýta undir? Ég veit ekki annað en að hún hafi gengið vasklega fram í því að fjölga mönnum í nefndum og ráðum og stofna nýjar nefndir. Þeir menn, sem þannig taka að sér nefndastörf ríkisstj., taka að sér störf, sem áður gátu færri menn unnið, og það verður að telja óæskilega þróun. T.d. var rætt hér í hv. d. í gær um það, að fjölgað hefði verið um tvo í húsnæðismálastjórn? Nú er bezt að bíða átekta og vita, hvort hæstv. ríkisstj. fækkar sendiherrum á Norðurlöndum. Stjórnarsinnar hafa haft orð á því áður, að það væri sjálfsagt. Við skulum bíða og sjá, hverju fram vindur í því efni.

Ég er sammála hæstv. félmrh. að því leyti, að nauðsyn hafi verið að setja löggjöf svipaða þessari til þess að stöðva þróun, sem að ýmsu leyti var óæskileg. En ég álít, að þessi brbl. séu allt of fortakslaus, og það er það, sem ég og hv. 2. þm. Árn. erum að reyna að sýna fram á. Þess vegna höfum við flutt brtt. á þskj. 212. En við álítum, að yrði hún samþ., mundu l. verða þjálli í meðferð, en það er alltaf vitað, að lög, sem ekki gera ráð fyrir neinum undanþágum, koma misjafnlega og illa niður viða hvar.

Hæstv. ráðh. spurði um það áðan, hvað yrði eftir af l., ef till. yrði samþ. Ja, ég vona, að allir hv. þdm. geti svarað þeirri spurningu. Lögin yrðu bókstaflega öll eftir. Það yrði einungis sú breyting, að heimild til að víkja frá ákvæðum l. yrði í höndum hæstv. félmrh., og ég skil satt að segja ekki um jafnákveðinn og metnaðargjarnan mann, að hann skuli hafa á máti því að fá þessa heimild, sem veitir honum einum aukinn rétt, en enga skyldu.

Þá virtist það einnig liggja í orðum hæstv. ráðh., að íbúðir sem eru til sölu, þyrftu helzt að standa auðar. Ég hef nú satt að segja ekki heyrt þetta fyrr. Ég þykist þekkja nokkra fasteignasala hér í bænum, og hef ég yfirleitt ekki heyrt þá tala um, að það væri nauðsynlegt, til þess að íbúð seldist, að hún væri auð.

Hv. stjórnarsinnar hafa bæði í dag og í gær gert nokkurt veður út af því, að við stjórnarandstæðingar skulum vera að gera aths. við húsnæðismálafrumvörp þeirra. En þeir gætu sparað sér ónæðið með því að framvisa hinni nýju húsnæðismálalöggjöf, sem þeir segja að fram verði lögð og samþ. á þessu þingi. Það er rétt að hvetja þá til þess að sýna þetta merkilega frumvarp sem fyrst. Það gæti orðið til þess að flýta störfum þingsins.