01.02.1957
Efri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Páll Zóphóníasson:

Það var aðeins af því, að 2. þm. Árn., frsm. minni hl., virtist ég hafa farið út fyrir málið, sem til umr. er hér, en það vil ég alls ekki kannast við. Hann sagði sjálfur, að þessi lög leiddu til þess, að verzlunarhúsnæði minnkaði í bænum, og það væri ekki ákjósanleg þróun. Þess vegna leyfði ég mér að benda honum á, hvernig verzlunarhúsnæði hefði fjölgað í bænum, almennt séð, almennar verzlanir, með þeirri undantekningu, sem er á mjólkurbúðunum, sem hefur fækkað um 14, á sama tíma og hinum hefur fjölgað úr 669 og upp í nærri 760, — benti honum bara á þetta. Og ég rakti að minn viti orsakirnar til þessa, taldi það vera af því, að þeir, sem stjórnuðu öðrum flokk búðanna; mjólkurbúðunum, vildu fá minni tilkostnað í samhandi við mjólkursöluna og hefðu þess vegna fækkað þeim, ekki með þeim árangri, að mjólkursalan hefði minnkað og þjónusta þess vegna orðið verri við almenning, þvert á móti hefur hún aukizt, ekki bara í heild, heldur líka miðað við fólksfjölda. Og ég hélt, að það, að hinum hefði fjölgað svona mikið, eða úr 12.8% og upp í milli 14 og 15%, mundi stafa af öðrum ástæðum en fækkun mjólkurbúðanna. Það mundi stafa af því, að þeim þætti léttara að taka sínar lífsþarfir með því að leggja það á vöru, sem þeir réttu fram yfir búðarborðið, heldur en að vinna fyrir henni á annan hátt. Ég benti á þetta. Hann var að spyrja mig viðvíkjandi mjólkurbúðunum, og nú vil ég spyrja hann: Er nauðsynlegt, að milli 14 og 15% af öllum Reykvíkingum lifi á því að afhenda hinum mönnunum í Reykjavík vörurnar, sem þeir þurfa að nota til dagsdaglegra þarfa? Er það nauðsynlegt? Ég held, að það sé það ekki. Og ég held, að það sé ekkert á móti því, þó að við reynum að gera eitthvað til þess að draga svolítið úr, að þeim haldi áfram að fjölga og verzlununum sömuleiðis.