01.02.1957
Efri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

2. mál, afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum

Frsm. minni hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Hv. þm. S-Þ. sagði hér í ræðu sinni áðan, að vegna þess að brbl. um afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum hefðu verið sett, væri það líklega þannig, eða ég skildi hv. þm. þannig, að nægilegt hefði verið að setja lögin, því að líklega hefði enginn verið sektaður og lögin því ekki komið til framkvæmda, m.ö.o., að þegar plaggið var komið út, þá urðu viðkomandi brotlegir menn eða þeir, sem voru að gerast brotlegir, svo skelkaðir. að þeir hættu við hinar saknæmu framkvæmdir, því að hv. þm. hefur ekki neinar fréttir af málarekstri né miklum sektum vegna þessara laga.

Um þetta skal ég ekki segja annað en það, að ef lögin hafa verið svona sterk á þessu sviði, að það þurfti ekki annað en að gefa þau út, hví er þá verið að eyða tíma í það hér á hv. Alþ. að vera að fá samþykkt þess fyrir lögunum, þar sem er nú von á öðrum lögum, sem eru um alveg sama efni, nú eftir nokkra daga, og það eftir svo stuttan tíma, að hv. þm. sagði, að ef okkar till. yrði samþykkt, minni hlutans, og málið færi til Nd. aftur, mundi hitt frv. ná því þar. Ég sé ekki annað en að þetta sé þá bara tóm vitleysa frá upphafi til enda, það hefði verið nóg, að lögin væru til, og það hefði aldrei þurft að leggja þau fyrir Alþingi til samþykktar, því að brbl. sem slík eru í gildi, strax þegar forseti er búinn að samþykkja þau, og þau hefðu þá verið allan þann tíma, svo að þessum tíma, sem hv. Alþingi hefur eytt í meðferð á þessum lögum, er öllum kastað á glæ.

Hv. 1. þm. N-M. sagði, að ég hefði sagt, að setning þessara laga yrði til þess að fækka verzlunarhúsnæði í bænum. Ég man ekki eftir, að ég hafi minnzt á það einu orði, að lögin yrðu sérstaklega til þess að fækka verzlunarhúsnæði. Ég minntist ekkert á það. Ég minntist aftur á þá þróun, sem liggur alltaf fyrir og er óneitanlega í bæ og borg, sem er að vaxa og fjölga, að verzlunarhúsnæði, skrifstofuhúsnæði og annað slíkt fylgir útþenslu bæjanna og fólksfjölguninni, ekki nokkur vafi á því. Ég skal aðeins benda á eitt t.d., þegar verið er að tala um skrifstofu og verzlunarhúsnæði hér í Rvík. Við vitum það allir, og hv. 1. þm. N-M. manna bezt, að Búnaðarfélag Íslands hefur verið í óviðunandi húsnæði núna í fjöldamörg ár, í gömlu timburhúsi, sem hefur verið allt of litið fyrir starfsemi þess. Nú er ákveðið, að Búnaðarfélag Íslands byggi stórhýsi. Verður það stórhýsi ekki eintómar skrifstofur og einmitt til þeirra nota fyrir Búnaðarfélag Íslands og starfsemi bændasamtakanna hér? Þetta er sjálfsögð þróun og nauðsynleg og óhjákvæmileg. Þetta er bara aðeins eitt dæmi um þetta.

Svo spyr hv. þm., hvort það sé nauðsynlegt, að 14–15% af íbúum þessarar höfuðborgar okkar lifi á verzlun. Ég skal ekkert segja um þetta. Ég hef ekki neinar skýrslur um það, hvað mörg prósent af íbúum hvers bæjarfélags lifa á verzlun. Það náttúrlega liggur í augum uppi, að ef maður lítur á Rvík og þýðingu hennar og aðstöðu hvað verzlun snertir fyrir allt landið, þá er eðlilegt, að það séu fleiri hér, sem lifa við verzlun og afhendingu og dreifingu á vörum, heldur en t.d. í bæ einhvers staðar úti á landi. Hingað til Rvíkur koma svo til allar vörur, sem koma frá útlöndum. Þær eru fluttar hingað til Rvíkur, hér er þeim umskipað, og hér er þeim aftur skipað um borð í skip, sem flytja þær út um allt land. Af þessu leiðir vitanlega, að fleira fólk þarf til að vinna að verzlun og vörudreifingu í Rvík en annars staðar á landinu. — Það voru aðeins þessar athugasemdir, sem ég vildi nú gera út af þeim umr., sem hafa fallið.