22.10.1956
Sameinað þing: 3. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

1. mál, fjárlög 1957

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þann 19. apríl s.l. birtist í Tímanum ritstjórnargrein með yfirskriftinni: „Brotið hlað í stjórnmálasögunni“. Var með þessu átt víð þá algeru stefnubreytingu, sem verða mundi í fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar, ef Framsfl. ég Alþfl. fengju aðstöðu til þess að framkvæma málefnasamning sinn, sem jafnframt var birtur í þessu sama tölublaði Tímans.

Í kosningabaráttunni lögðu síðan talsmenn þessara tveggja flokka höfuðáherzlu á að sannfæra þjóðina um það, hvílíkt öngþveiti væri ríkjandi í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar og hvernig allt mundi fært til betri vegar, ef þjóðin fæli þessum flokkum forustu sinna mála.

Að vísu vottaði þjóðin þessum tveimur flokkum ekki traust í alþingiskosningunum, en með klækjabrögðum tókst þeim þó að hagræða fylgi sínu þannig, að þeir hlutu 25 þingsæti. Ekki kom samt að sök, þótt þeir fengju ekki hreinan meiri hl. á Alþ., því að kommúnistar lýstu sig strax að kosningum loknum reiðubúna til að tryggja meiri hl. svokallaðrar vinstri stjórnar. og var núverandi ríkisstj. síðan mynduð að frumkvæði kommúnista, þótt forsætisráðuneytið kæmi af skiljanlegum ástæðum í hlut Framsfl.

Þótt málefnasamningur núverandi ríkisstj. sé í mörgum atriðum harla óljós, þá hafa höfuðmálgögn Framsfl. og Alþfl. lýst því yfir hvað eftir annað, að ríkisstj. starfaði í meginatriðum í anda kosningastefnuskrár þessara tveggja flokka. Það sýnist því augljóst, að þeir hafa fengið það tækifæri til þess að brjóta blað í stjórnmálasögunni, sem þeir lýstu yfir að þeir mundu gera, ef þeir næðu valdaaðstöðu í landinu.

Þjóðin hlýtur því að mega vænta mikilla átaka og mikilla breytinga til batnaðar frá því ástandi, sem ríkjandi hefur verið í þjóðfélaginu að undanförnu. Fer þó naumast hjá því, að mönnum þyki harla broslegar fordæmingar framsóknarmanna á þessu ástandi, þegar það er haft í huga, að undanfarin 6 ár hefur Framsfl. átt jafnmarga ráðh. í ríkisstj. og Sjálfstfl. Og lítur sannarlega ekki út fyrir, að ráðh. Framsfl. hafi ráðið miklu í þessum ríkisstj., þegar því nú er haldið fram, að Sjálfstfl. beri einn alla ábyrgð á stjórnarstefnunni undanfarin ár.

En látum það gott heita. Sjálfstfl. mælist ekki undan ábyrgðinni, og framsóknarmenn mega gjarnan gera eins litið úr sínum ráðh. og þeir vilja.

Fjárlög eru spegilmynd þeirrar stefnu, sem á hverjum tíma er fylgt í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar, þótt þeirri furðulegu kenningu hafi að vísu verið haldið fram síðustu mánuðina af framsóknarmönnum, að fjármál og efnahagsmál væru sitt hvað. Það liggur þó í augum uppi, að efnahagsþróunin og fjármálastefna ríkisstj. eru tveir þættir, sem ekki verða sundur greindir, þótt framsóknarmenn hafi neyðzt til að halda fram þeirri kenningu, svo að þeir ekki beinlínis yrðu að játa, að árásir þeirra á fjármálaþróun í landinu væru fordæming á störf átrúnaðargoðs þeirra í fjármálum, hæstv. núverandi fjmrh., sem farið hefur með fjármálastjórnina allt frá árinu 1950 og því allra manna bezt hefur haft aðstöðu til þess að hafa áhrif á þróun þessara mála. Hafa þó árásir höfuðmálgagns Framsfl. hvað eftir annað höggvið svo nærri fjármálastjórninni, að það hefðu áreiðanlega þótt ósæmilegar árásir á fjmrh., ef slík skrif hefðu birzt í málgögnum Sjálfstfl. í tíð fyrrverandi ríkisstj., eins og t.d. þegar Tíminn í sumar átaldi ríkisstj. fyrir að taka á ríkissjóð stórábyrgðir vegna síldveiðanna, svo sem hæstv. fjmrh. gat um í framsöguræðu áðan, án þess að sjá fyrir tekjum á móti. Veit þó væntanlega hvert mannsbarn, að engar slíkar kvaðir er hægt að leggja á ríkissjóð, nema fjmrh. samþykki. En hæstv. fjmrh. lætur þetta allt gott heita, og menn hafa því jafnvel búizt við því, að hann bæði opinberlega afsökunar á skyssum sínum í fjármálastjórninni undanfarin ár og lofaði bót og betrun á kommúnistíska vísu, ef honum yrðu nú gefnar upp sakir.

En þegar litið er á fjárlagafrv. fyrir árið 1957, sem nú hefur verið lagt fyrir Alþ., liggur við, að maður láti sér koma til hugar, að hæstv. fjmrh. sé hér að ná sér niðri á árásarmönnum sínum, bæði í eigin flokki og í núverandi samstarfsflokkum, því að frv. ber það sannarlega ekki með sér, að verið sé að taka upp algerlega nýja fjármálastefnu. Og að svo miklu leyti sem hægt er að segja, að með þessu fjárlagafrv. sé brotið blað í stjórnmálasögunni, eins og stjórnarflokkarnir ætluðu að gera, þá er það helzt á þann hátt, að hæstv. fjmrh. hefur tekizt að hækka útgjöld ríkissjóðs, miðað við síðasta fjárlagafrv., miklu meira en nokkru sinni hefur áður þekkzt hér á landi, þannig að útgjöld ríkissjóðs samkvæmt þessu fjárlagafrv. eru 135 millj. kr. hærri en í fjárlagafrv. því, sem sami hæstv. fjmrh. lagði fyrir síðasta Alþ., í tíð þeirrar slæmu ríkisstj., sem þá var að dómi núverandi stjórnarflokka, og er þó ekki í frv. nú reiknað með neinni vísitöluhækkun.

Þetta er sú staðreynd, sem blasir við augum, og þótt reynt sé að milda áhrifin með því að bæta því við í athugasemdum við fjárlagafrv., að það muni að sjálfsögðu taka þeim breytingum í meðförum á Alþ., sem nauðsynlegar kunni að reynast í samræmi við úrlausnir þær, sem ofan á verði í efnahagsmálunum, þá gefur slík yfirlýsing harla litlar vonir um samdrátt útgjaldanna, því að bæði er það, að enginn veit enn, ekki einu sinni hæstv. ríkisstj., hvort slíkar ráðstafanir leiða til hækkunar eða lækkunar á útgjöldum ríkissjóðs, og enn fremur kemur hitt til, að verulegar hækkanir hljóta að verða á ýmsum útgjaldaliðum frv., svo sem venja hefur verið á öllum þingum, en sérstaklega af ástæðum, sem ég mun víkja að síðar. Er þess heldur raunar alls ekki að vænta, að boðaðar aðgerðir í efnabagsmálum hafi áhrif á fjárlagafrv. til lækkunar, því að hæstv. fjmrh. hefur tekizt að koma því svo fyrir til þess að geta sýnt fjárlögin í fallegra ljósi að taka út úr fjárlögunum allar þær miklu upphæðir, sem varið er til styrktar útflutningsframleiðslunni, en þau útgjöld hafa stóraukizt þá fáu mánuði, sem núverandi ríkisstj. hefur setið að völdum, enda hafa stjórnarblöðin sérstaklega fært henni til lofs og dýrðar, að hún hafi samþykkt stóraukna útflutningsstyrki, þótt því að vísu hafi verið bætt við, að ekki hafi enn verið séð fyrir neinn fé til þess að greiða þá styrki, og enn bólar ekki á fjáröflun í þessu skyni, hvorki í fjárlagafrv. né skattafrv. þeim, sem ríkisstj. hefur lagt fyrir þingið þegar á fyrsta starfsdegi þess.

En það er ekki aðeins í sambandi við útflutningsuppbæturnar, heldur á flestum öðrum sviðum, sem það þykir nú góð latína, sem fordæmt var hjá fyrrverandi tveimur ríkisstjórnum.

Því fer þannig víðs fjarri, að fyrsta fjárlagafrv. núverandi ríkisstj. beri nokkurn vott um þá góðu fjármálastjórn, sem væntanlega hefur verið ætlunin að innleiða með lækkuðum álögum á almenning og miklum sparnaði í ríkisrekstrinum, svo að vitnað sé í helztu ákæruatriði fulltrúa Alþfl. og Sósfl. í fjvn. á síðustu þingum á hendur hæstv. fjmrh. Er full ástæða til að minna á þá gagnrýni nú, þar sem einmitt báðir þessir hv. þm. eiga nú sæti í þessari ríkisstj. og hafa vafalaust haft aðstöðu til þess að koma sínum sjónarmiðum að í sambandi við fjárlagafrv. En manni sýnist næstum, að hæstv. fjmrh. sé að storka þessum samstarfsmönnum sínum, því að ekkí í einn einasta atriði er um sparnað að ræða í ríkisrekstrinum, heldur er víða um að ræða aukið mannahald og aukinn tilkostnaður í ýmsum greinum, og í annan stað hefur fjmrh. þegar á fyrsta þingdegi lagt fram frv. um framlengingu á öllum núgildandi skatta- og tollaálögum, sem falla áttu úr gildi um næstu áramót, þ. á m. söluskattinum og tollunum, sem voru á lagðir á síðasta þingi, og hvort tveggja var þá harðlega fordæmt bæði af Alþfl. og sósíalistum. Að vísu er einnig til þess að milda áhrif þessara frv. látið í það skína, að allt kunni þetta að fara á annan veg, þegar bjargráðin margumtöluðu koma. En mér er spurn: Ef það er ekki endanlegur ásetningur ríkisstj. að láta samþykkja þessi lagafrv., til hvers er þá verið að leggja þau fram þegar á fyrsta degi þingsins? Öll þessi tolla- og skattaákvæði gilda til áramóta, og naumast verður þessari afkastamiklu bráðabirgðalagaríkisstjórn ætlað það, að hún hafi ekki, a.m.k. í sinn hóp, í meginatriðum gert sér grein fyrir væntanlegum bjargráðum það löngu fyrir áramót, að nægur tími hefði verið að leggja tollafrv. þá fram, ef þeirra yrði áfram þörf. En ef taka á alvarlega allar fordæmingar tveggja núverandi stjórnarflokka á flestum þessum málum undanfarin ár, þá verður því naumast trúað, að þeir ætli sér að sitja í ríkisstj., sem þurfi að lifa á slíkum blóðpeningum.

Framlagning allra þessara skattafrv. nú hlýtur þó óneitanlega að vekja þær grunsemdir, að einnig á þessu sviði verði lítið úr stóru orðunum, þannig að skatta- og tollalækkanirnar verði heldur lítilmótleg búbót fyrir almenning í landinu.

Það hefur fallið í minn hlut nokkur undanfarin ár að gera grein fyrir stefnu Sjálfstfl. varðandi afgreiðslu fjárlaga. Ég hef í því sambandi lagt áherzlu á, að meginstefna Sjálfstfl. væri sú, að fjárlög væru á hverjum tíma afgreidd greiðsluhallalaus, að skatta- og tollaálögum væri stillt svo í hóf sem frekast væri unnt, en jafnframt innan þess ramma reynt í sem ríkustum mæli að stuðla að andlegum og verklegum framförum í landinu.

Þessi stefna Sjálfstfl. hefur að sjálfsögðu ekkert breytzt, þótt flokkurinn sé kominn í stjórnarandstöðu, og afstaða hans til afgreiðslu fjárlaga í þetta sinn mun því markast af þessum meginsjónarmiðum.

Fjmrh. verður að sjálfsögðu á hverjum tíma að ráða mestu um afgreiðslu fjárlaga, því að hann á að bera ábyrgð á fjármálastjórninni, og hefur svo einnig verið undanfarin ár. En þótt Sjálfstfl. hafi einhuga stutt fjmrh., þá fer auðvitað ekki hjá því, að við höfum ekki verið ánægðir með ýmis atriði í fjármálastjórninni og afgreiðslu fjárlaga, þótt sú gagnrýni hafi ekki verið fram sett opinberlega, meðan samstarfið stóð.

Sjálfstfl. ætlar sér ekki í stjórnarandstöðu sinni að laka upp hina ábyrgðarlausu afstöðu Alþfl. og sósialista, meðan þeir voru utan ríkisstj., þótt segja megi að vísu, að hæstv. núverandi fjmrh. muni hafa þótt sú afstaða þessara flokka harla góð, úr því að það á að vera eina bjargráðið til lausnar á fjármála- og efnahagsvandamálum þjóðarinnar að mynda samfylkingu við þessa tvo flokka. Hins vegar mun Sjálfstfl. að sjálfsögðu gagnrýna harðlega þær misfellur, sem hann telur vera á fjármálastjórninni og afgreiðslu fjárlaga.

Það er vitanlega eðlilegt, að fjárlög hækki eitthvað ár frá ári vegna fjölgunar þjóðarinnar og aukinnar þjónustu við þjóðfélagsborgarana á ýmsum sviðum. Er ekkert við þessu að segja, ef fé ríkisins er varið á skynsamlegan hátt og gjaldþoli borgaranna ekki ofboðið. Þróunin hefur þó verið til meiri hækkunar að undanförnu heldur en góðu hófi gegnir, og nú hefur hæstv. fjmrh. tekizt að slá öll sín fyrri met með því að hækka fjárlagafrv. um 135 millj., miðað við síðasta fjárlagafrv., og rúmar 50 millj., miðað við núgildandi fjárlög. Frá því að núverandi hæstv. fjmrh. tók við fjármálastjórn ríkisins 1950, hefur gjaldabálkur fjárlagafrv. hækkað úr 261.6 millj. í 712.7 millj., eða um 451 millj. Hafa útgjöld ríkissjóðs þannig vaxið á þessu tímabili um nærfellt 175%, og hefur þó fjmrh. tekizt að koma því svo fyrir, eins og ég áðan gat um, að halda utan við fjárlög öllum þeim feiknaháu upphæðum, sem árlega er varið til útflutningsuppbóta, þannig að raunverulega er útgjaldaaukningin miklum mun hærri. Áður hefur mesta hækkun fjárlagafrv. á einn ári verið rúmar 80 millj. kr., þannig að umbótastjórnin heldur myndarlega úr hlaði.

Nú mun hæstv. fjmrh. vafalaust koma hér í ræðustólinn á eftir og segja: Hvar á að spara? Vill ekki Sjálfstfl. benda á einhver úrræði til þess að draga úr þessum miklu útgjöldum ríkissjóðs? — Nú er það svo, eins og stjórnarandstæðingar hafa raunar réttilega bent á áður, að enginn hefur svo góða aðstöðu sem fjmrh. til þess að hafa yfirsýn yfir ríkisbúskapinn og gera sér grein fyrir, hvar mætti helzt koma við sparnaði. Sparnaður, svo að neinu nemi, verður heldur ekki framkvæmdur með sparðatíningi út úr fjárlagafrv., heldur verður að taka fjármálakerfið og fjármálastefnuna í heild til endurskoðunar. Er því ekki með nokkru móti hægt að ætlast til, að hægt sé í þinginu að umskapa fjárlagafrv. án þess að hafa þá yfirsýn, sem fjmrh. og ráðunautar hans hljóta á hverjum tíma að hafa. Fjármálastefnunni verður ekki breytt í andstöðu við fjmrh., og eina úrræðið til þess að breyta um stefnu er því að skipta um fjmrh.

Ég skal fúslega á það fallast, að það er hægara sagt en gert að spara á einstökum liðum. En það verður hins vegar ekki séð, að hæstv. fjmrh. hafi hvorki nú né síðustu árin haft nokkra sérstaka tilburði í þá átt að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Sérstakar nefndir hafa að vísu verið skipaðar til þess að gera till. um sparnað, en yfirleitt hefur ekki verið farið eftir þeirra ábendingum um nein þau atriði, er máli skipta.

Miðað við það, að núverandi stjórnarflokkar hafa lýst því yfir, að brjóta ætti blað í stjórnmálasögunni og taka upp ný vinnubrögð, vitanlega þá ekki hvað sízt í fjármálastjórninni, þá vil ég biðja þjóðina að taka vel eftir því, þegar fjmrh. vinstri stjórnarinnar nú lýsir því yfir, að óumflýjanlegt sé að hækka fjárlagafrv. nú meira en nokkru sinni áður hefur verið gert, að hann geti ekki og samráðherrar hans fundið nokkur minnstu úrræði til að draga úr kostnaði við ríkisbáknið, sem hæstv. núverandi viðskmrh. (LJós) hefur oft deilt á, og að ríkisstj. sé því sammála um það, að engin önnur úrræði séu fyrir hendi en að brjóta blaðið öfugt við það, sem ætlað var, stefna með miklu meiri hraða en áður að milljarðsmarkinu í útgjöldum ríkissjóðs, heimta af þjóðinni alla þá skatta og tolla, sem hún hefur borið til þessa, og festa kaupgjaldið að auki. Einhvern tíma hefði hæstv. núv. félmrh. sagt, að hér væri íhaldsúrræði á ferðinni.

Eitt af þeim stefnumálum, sem núv. ríkisstj. flaggar mjög með, eru þau miklu átök, sem hún ætli að gera til eflingar hag strjálbýlisins og til þess að skapa jafnvægi í byggð landsins. Í þessu skyni hefur verið tilkynnt, að kaupa eigi 15 nýja togara, og sérstök nefnd verið sett á laggirnar, ein af mörgum, sem núverandi ríkisstj. hefur skipað, til þess að gera tillögur um staðsetningu þessara togara og jafnvægisráðstafanirnar yfirleitt. Út af fyrir sig er ástæða til að fagna þessum stefnumálum, enda voru það sjálfstæðismenn, sem áttu frumkvæðið að því, að gerðar væru skipulagðar ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Fyrrverandi forsrh. skipaði tvo alþm., þá Gísla Jónsson og Gísla Guðmundsson, til þess að rannsaka þetta vandamál niður í kjölinn og gera till. til úrhóta.

Fyrsta ráðstöfunin í þessa átt var frv., sem þeir tvímenningarnir sömdu og ríkisstj. flutti á síðasta Alþingi, en hlaut þá þær furðulegu viðtökur, að framsóknarmenn gengu fram fyrir skjöldu til þess að eyðileggja málið. Þar sem hér var hins vegar um vinsælt mál að ræða, sem fólk víðs vegar um land bindur miklar vonir við, taldi núv. ríkisstj. sjálfsagt að taka málið upp. En þá varð auðvitað jafnframt að reyna að hindra, að upphafsmenn málsins, sjálfstæðismenn, gætu haft af því nokkurn heiður, og því þótti sjálfsagt að skipa nýja nefnd í málið og losna þannig við Gísla Jónsson úr nefndinni, einmitt þann manninn, sem allra manna mestan áhuga hefur sýnt á raunhæfum aðgerðum í þessu vandamáli og hefur aflað sér mjög góðrar þekkingar í sambandi við undirbúningsathuganir á málinu, en þetta er í fullu samræmi við aðrar hliðstæðar aðgerðir núv. ríkisstj.

En hvað reynist svo verða fyrsti vinsemdarvottur ríkisstj. til strjálbýlisins, því að varla ímyndar ríkisstj. sér, að hún hafi uppfyllt allar sínar skuldbindingar með því einu að skipa þriggja manna nefnd?

Vinsemdarvottinn er einmitt að finna í fyrsta fjárlagafrv. ríkisstj. Þar er að finna þær eftirtektarverðu till. til eflingar jafnvægi í byggð landsins, að gert er ráð fyrir að lækka framlög til nýrra þjóðvega um 3 millj. 910 þús. kr., að lækka framlög til brúargerða um 1 millj. 270 þús. kr., að lækka framlög til hafnargerða um 1 millj. 334 þús. kr. og að lækka framlög til skólabygginga um 1 millj. 750 þús. kr. Samtals nema þessar lækkanir frá núgildandi fjárlögum rúmum 8.2 millj. kr. Hér er sannarlega rösklega að verið, og verð ég raunar að biðja afsökunar á þeirri staðhæfingu minni áðan, að hæstv. fjmrh. hefðu ekki komið til hugar nein úrræði til sparnaðar á útgjöldum ríkissjóðs. Hér eru einmitt sparnaðarúrræði, og þetta eru einu sparnaðarúrræðin, sem finnanleg eru í fjárlagafrv., ef undan er skilið framlagið til ráðstafana vegna ófriðarhættu, sem auðvitað er fellt niður í samræmi við þá skoðun hæstv. ríkisstj., að nú sé svo friðvænlegt í heiminum.

Það er naumast að efa, að íbúar strjálbýlisins, þar sem enn vantar nýja vegi, þar sem enn eru óbrúaðar ár, ófullgerðar hafnir og ófullnægjandi skólar, muni fyllast gleði og þakklæti til hæstv. ríkisstj. fyrir þessi merkilegu átök hennar til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Framlög til vegaviðhalds eru að vísu nokkuð aukin, en það hefur ætíð þótt sjálfsagt að reyna að halda við þjóðvegum landsins og kostnaður við vegaviðhald því oft farið fram úr fjárlagaáætlun. Er því hér ekki um neitt þakkarvert atriði að ræða umfram það, sem verið hefur undanfarin ár. Sú staðreynd stendur því óbögguð, að hin mikla umbótastjórn leggur fram fjárlagafrv. með 135 millj. kr. hærri útgjöldum en fjárlagafrv. s.l. árs og lækkar jafnframt framlög til áðurgreindra verklegra framkvæmda um rúmar 8 millj. kr. Þótt framlag til flugvallagerðar sé hækkað um 2 millj. kr., sem er vissulega mikil nauðsyn, afsakar það að engu leyti þennan niðurskurð. Það lítur því út fyrir, að hæstv. ríkisstj. hugsi sér helzt að brjóta blað í stjórnmálasögunni á þann hátt að verða öllum stjórnum meiri íhaldsstjórn varðandi nauðsynlegar framkvæmdir í landinu.

Nú segir vafalaust hæstv. ríkisstj., að þjóðin verði enn um skeið að framlengja víxil hennar, því að enn séu úrræðin í efnahags- og fjármálum ófundin og því verði menn enn að fara mildum höndum um ríkisstj. í sambandi við frv. þetta, þar sem henni hafi ekki gefizt tóm til að marka sína fjármálastefnu, áður en það var lagt fram. Látum svo vera. En það er ýmislegt, sem gerzt hefur, síðan núverandi ríkisstj. tók við völdum, sem óneitanlega bendir ekki í þá átt, að ætlunin sé að draga saman ríkisbáknið og lækka almenna kostnaðarliði ríkissjóðs,

Varla hefur sú vika liðið að undanförnu, að ekki væri tilkynnt með miklu yfirlæti af hæstv. ríkisstj., að nú hefði hún skipað enn nýja nefnd til þess að gera till. um þetta eða hitt, og ekki nóg með það, heldur hefur ríkisstj. talið svo mikla nauðsyn að hraða eyðslustarfseminni, að gefin hafa verið út sérstök brbl. til þess að fjölga forstöðumönnum innflutningsskrifstofunnar og fjölga í húsnæðismálastjórn, til þess eins að geta komið fulltrúum hinna nýju stjórnarflokka í áhrifamikil embætti. Er naumast að efa, að áfram verði haldið á sömu braut, og getur því innan tíðar myndazt hér myndarlegur nýr útgjaldapóstur í fjárlögum ríkisins. Til allrar ólukku fyrir ríkisstj. er sums staðar svo frá málum gengið, að hún getur ekki blátt áfram rekið andstæðinga sína frá störfum, en þá er sú leið valin að láta þá sitja áfram starfslausa á fullum launum, svo sem t.d. á sér stað í húsnæðismálastjórninni. Í sannleika sagt virðist aðaláhugamál ríkisstj. til þessa ekki hafa verið það að leita að bjargráðum í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar, heldur að leita að bjargráðum til þess að tryggja sem bezt völd sín í landinu og að tryggja stuðningsmönnum sínum vegtyllur og embætti, þótt af því leiði stórfelld útgjöld og tjón fyrir þjóðarbúið.

Til þess að standa straum af hinum miklu útgjöldum er tekjubálkur fjárlagafrv. hækkaður um 52 millj. kr. frá núgildandi fjárlögum. Er þá ekki gert ráð fyrir neinum nýjum tekjustofnum, heldur að núgildandi tekjustofnar gefi af sér hækkun, sem þessu nemur. Þessa áætlun er að sjálfsögðu ekki hægt að gagnrýna á þessu stigi málsins, en ætla má eftir reynslu undanfarandi ára, að fjmrh. hafi áætlað þessa hækkun mjög varlega. Í sambandi við þetta vil ég taka það fram, að við endanlega afgreiðslu núgildandi fjárlaga taldi hæstv. fjmrh. teflt á yztu nöf með tekjuáætlunina. Voru viðbótartollar þeir, sem á voru lagðir á síðasta þingi, miðaðir við þessa fullyrðingu fjmrh., sem vitanlega hafði bezta aðstöðu til þess að gera sér grein fyrir tekjuhorfunum. Gaf fjmrh. fjvn. jafnframt upplýsingar um það, hver tekjuauki mundi verða af hinum nýju tollum. Tekjuáætlun hæstv. fjmrh. nú bendir ótvírætt í þá átt, að hann hafi áætlað tekjuaukann af hinum nýju tollum allt of lágt og viðbótartollarnir því ákveðnir hærri en raunverulega hefði verið þörf fyrir. Verður að átelja þetta.

Ég hef hér brugðið upp nokkurri heildarmynd af fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir Alþingi. Hlýtur frv. þetta að valda þjóðinni miklum vonbrigðum eftir öll stóryrði núv. stjórnarflokka um það, að nú muni hæstv. forsrh. undir hinum rauða fána leiða þjóðina út úr þeirri eyðimörk fjármálaöngþveitis, sem þessi sami hæstv. ráðh. lýsti fyrir kosningar með átakanlegum orðum, að þjóðin væri nú stödd í eftir sex ára samfellda fjármálastjórn flokksbróður hans, hæstv. núv. fjmrh. Hafi lýsing hæstv. forsrh. þá verið rétt, þá bendir hið nýja fjárlagafrv. ótvirætt í þá átt, að það verði ekki Hermann Jónasson og hinir rauðu vinir hans, sem leiði þjóðina og Eystein Jónsson út úr eyðimörkinni, heldur muni þeir í innilegu samfélagi við hæstv. fjmrh. halda beint af augum það langt inn í eyðimörkina, að út úr henni verði ekki komizt.

En þótt það sé auðvitað fjarri öllum sanni, að þjóðin hafi verið stödd á nokkurri eyðimerkurgöngu, þegar fyrrv. ríkisstj. lét af völdum, þá er hitt rétt, að verðbólguþróunin er orðin mjög alvarleg meinsemd í efnahags- og fjármálakerfi þjóðarinnar. Það er eftirlætislýsing núv. stjórnarflokka á sjálfstæðismönnum, að þeir séu verðbólgubraskarar. Skýtur hér nokkuð skökku við staðreyndirnar, því að enginn flokkur í landinu hefur jafnoft og jafnalvarlega varað við hinum hættulegu afleiðingum verðbólgunnar og einmitt Sjálfstfl. Nú er því hins vegar haldið að þjóðinni, að það séu sjálfstæðismenn, sem fyrst og fremst eigi sök á verðbólguþróuninni. Hafa framsóknarmenn einkum haldið þessu á lofti og fært fram til réttlætingar stjórnarsamvinnu sinni við kommúnista. En hverjar eru staðreyndir málsins? Þegar verðbólgan var að sliga atvinnuvegina og dýrtíðin ríkissjóðinn árið 1949, höfðu sjálfstæðismenn forustu um gengisbreytinguna til þess í senn að bæta hag útflutningsframleiðslunnar og afkomu ríkissjóðs. Allt frá þeim tíma hefur hagur ríkissjóðs staðið með miklum blóma, og þótt vísitala framfærslukostnaðar hækkaði af ýmsum ástæðum meira en gert hafði verið ráð fyrir, tókst þó smám saman að koma því jafnvægi á í efnahagsmálunum, að frá árslokum 1952 þar til í byrjun árs 1955 var verðlag í landinu svo að segja stöðugt.

Í ávarpi sínu um áramótin 1954–55 vakti þáverandi forsrh., Ólafur Thors, athygli á þeim mikilvæga árangri, sem náðst hafði í efnahagsog fjármálum þjóðarinnar til aukins jafnvægis, og varaði jafnframt alvarlega við því, að gerðar yrðu almennar kauphækkunarkröfur á árinu 1955, heldur yrði beðið átekta og séð, hver þróunin yrði það ár. Því miður var þessum varúðarorðum ekki sinnt, og kommúnistar öttu verkalýðssamtökunum út í harðvítugt og langvarandi verkfall, sem leiddi af sér miklar kauphækkanir á pappírnum, en því miður litlar í reynd.

Afleiðingar þessa ógiftusamlega tiltækis kommúnista voru ekki lengi að koma í ljós. Dýrtíðarhjólið tók nú aftur að snúast af fullum krafti, hallarekstur atvinnuveganna óx stöðugt, og jafnframt jukust útgjöld ríkissjóðs. Það voru þannig óvefengjanlega kommúnistar, núverandi samstarfsmenn hæstv. fjmrh., sem vöktu upp þann dýrtíðardraug, sem núverandi ríkisstj. stynur undir átökunum við að kveða niður, og má raunar segja, að það komi vel á vondan. Hins vegar er það furðuleg óskammfeilni, þegar reynt er að eigna uppvakning þennan þeim mönnum, sem alvarlegast vöruðu við þessu ógiftusamlega tiltæki.

Séu stuðningsmenn hæstv. núverandi ríkisstj. í nokkrum vafa um, að ég hafi hér lýst sök á hendur réttum aðilum um það dýrtíðarflóð, sem ógnar nú atvinnuvegum landsmanna og afkomu þjóðarinnar, þá víl ég leyfa mér að leiða hér fram máli mínu til stuðnings ekki ómerkara vitni en hæstv. núverandi fjármálaráðherra, en hann komst svo að orði í síðustu eldhúsdagsumræðu:

„Ég benti á það þá, að með þessum ráðstöfunum, þ.e. kauphækkununum, væri brotið blað í efnahagssögu þjóðarinnar, fram að þeim tíma hafi framleiðslan faríð vaxandi, verðlag haldizt stöðugt í 21/2 ár, sparnaður aukizt mikið, greiðsluafgangur verið á ríkisbúskapnum, hægt að lækka skatta- og tollaálögur árlega nokkuð.“

En aðeins nokkrum mánuðum eftir að hæstv. fjmrh. hefur gefið þessa lýsingu á óhappaverknaði kommúnista, þá er hann kominn í einlægt samfélag við þá í ríkisstj. landsins, og hæstv. forsrh. gengur berserksgang til þess að tryggja kommúnistum öll völd í verkalýðshreyfingunni, þannig að öruggt verði, að þeir geti misnotað hana eftir vild. Þetta er svo þjóðinni sagt að sé eina úrræðið til þess að koma atvinnulífi hennar og efnahagsmálum á heilbrigðan grundvöll, enda þótt hæstv. núverandi fjmrh. hafi flestum mönnum fremur réttilega á það bent, að kommúnistar stefndu ætíð með aðgerðum sínum að því að skapa upplausn og vandræði í þjóðfélaginu.

Ég skal að vísu játa, að kommúnistar hafa sjálfir viðurkennt afglöp sín í verkföllunum á s.1. ári, er þeir láta það verða eitt sitt fyrsta verk, eftir að þeir komu í ríkisstj., að banna vísitöluhækkun á launum. Mun það mál nánar rætt á öðrum vettvangi, en hræddur er ég um, að þessar játningar kommúnista á eigin afglöpum kosti þjóðina fórnir á öðrum sviðum.

Svo sem fjárlfrv. ber með sér, standa stjórnarflokkarnir gersamlega ráðþrota gagnvart vandamálunum. Reyna þeir að afsaka úrræðaleysið með því að staðhæfa, að arfurinn frá fyrri árum sé svo slæmur, að ekki sé við öðru að búast en að það taki nokkuð langan tíma að brjóta blaðið í stjórnmálasögunni.

Ég hef áður bent á þá staðreynd, að sá arfahluti, sem erfiðastur mun reynast eftirkomendunum, er til orðinn fyrir verknað kommúnista, einmitt eins stjórnarflokksins. Að öðru leyti er arfurinn meiri velmegun almennings en nokkru sinni hefur áður þekkzt hér á landi, meiri og betri framleiðslutæki og miklum mun meiri framleiðsluverðmæti en nokkur önnur ríkisstj. hefur fengið til ráðstöfunar. Það er framleiðslan, sem á hverjum tíma er undirstaðan að afkomu þjóðarinnar, og eins og hæstv. viðskmrh. benti á á fundi Verzlunarráðs Íslands nýlega, hefur framleiðslan aukizt mjög ár frá ári og því engin ástæða til svartsýni, ef skynsamlega er á málum haldið.

Við sjálfstæðismenn höfum ætíð lagt á það megináherzlu, að aukning framleiðsluverðmætanna er eina leiðin til bættra lífskjara. Arfur sá, sem Sjálfstfl. lætur eftir sig, er slíkur, að það er vissulega illa stjórnað, ef nú þarf að rýra lífskjör þjóðarinnar. Sjálfstæðismenn hafa sannarlega ekki ástæðu til þess að bera sig upp undan því, þegar stjórnarflokkarnir halda því fram, að þeir hafi ráðið mestu eða jafnvel öllu um stjórnarstefnuna undanfarin ár. Um áhrif þeirrar stefnu hefur sjálft stjórnarblaðið Tíminn sagt, að árin eftir 1950 séu mesta framfaratímabil í sögu þjóðarinnar.

Það er sannarlega ekki sú stjórnarstefna, sem Sjálfstfl. markaði, sem hefur skapað það fjármálaöngþveiti, sem við er að fást í dag, heldur er það verk þeirrar fylkingar, sem nú stendur að baki hæstv. fjmrh.

Þegar hæstv. fjmrh. segir nú, að við óskapnað í fjármálakerfinu sé að fást, er hann leggur þessi langhæstu fjárlög í sögu þjóðarinnar fyrir Alþ., þá er það sá óskapnaður, sem á upptök sín í herbúðum núverandi stjórnarliðs.

Sjálfstfl. hefur æ ofan í æ varað við afleiðingum verðbólguflóðsins fyrir afkomu ríkissjóðs og þjóðarinnar í heild. Hvað eftir annað hefur Sjálfstfl. staðið að ráðstöfunum til þess að stöðva dýrtíðarhjólið, en óheillaöflin hafa jafnan komið því í gang aftur. Nú síðast í lok síðasta þings gerðu sjálfstæðismenn tilraunir til þess að fá samkomulag við Framsfl. um nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir vísitöluhækkun á þessu ári með það í huga, að væntanlegri ríkisstj. gæfist tóm til að íhuga leiðir til frekari aðgerða.

Framsfl. og hæstv. fjmrh. höfðu þá engan áhuga á að stöðva verðbólguþróunina, og till. sjálfstæðismanna voru fordæmdar sem óhæfilegar álögur á ríkissjóð og kjaraskerðing fyrir alþýðu manna. En hvað gerðist svo? Eitt fyrsta verk núverandi ríkisstj. var að gefa út brbl., þar sem í senn var ákveðið að auka stórum uppbótagreiðslur úr ríkissjóði og jafnframt svipta launþega umsaminni vísitöluhækkun á kaup. Þá var ekki lengur erfitt að taka kvaðir á ríkissjóðinn, og nú áttu ekki aðeins niðurgreiðslurnar, heldur bein kauplækkun að vera til mikilla hagsbóta fyrir launastéttirnar. Sjálfstæðismenn fagna vitanlega sérhverri skynsamlegri ráðstöfun til þess að stemma stigu við verðbólgunni, en ég held, að enginn geti með rétti kallað það goðgá af sjálfstæðismönnum, þótt þeir bendi á hinn dæmalausa hringsnúning og skollaleik stjórnarliðsins.

Herra forseti. Ég hef hér gert grein fyrir nokkrum meginatriðum, sem nauðsynlegt er að hafa í huga, er menn athuga efnahags- og fjármálaþróunina síðustu árin og hvaða öfl hafa einkum verkað á þá þróun. Hið risaháa fjárlfrv. hæstv. ríkisstj. nú er bein afleiðing þeirrar stefnu, sem við sjálfstæðismenn höfum jafnan varað við. Það væri vissulega gleðiefni, ef þau öfl, sem nú standa að hæstv. ríkisstj. og mestu hafa valdið um þá erfiðleika, sem nú er við að glíma í sambandi við fjárhagsafkomu ríkissjóðs og þjóðarinnar í heild, vildu nú fyrir alvöru ganga í endurnýjung lífdaganna og reyna að leggja fram krafta sína til þess að bæta fyrir það tjón, sem þau hafa valdið. Úr þessu mun endanlega fást skorið á þessu þingi, en fjárlfrv. þetta ber ekki nein merki um þá nýsköpun hugarfarsins, nema síður sé.

Sjálfstæðismenn hafa ekki aðstöðu til þess að hafa áhrif á þá meginstefnu, sem einkennir þetta fjárlfrv. Þeir munu hins vegar beita áhrifum sínum til þess að lagfæra verstu annmarkana, sem á því eru. Má þar fyrst og fremst nefna þann óhæfilega niðurskurð á framlögum til ýmiss konar verklegra framkvæmda, sem ég hef áður vikið að, en annars mun verða tækifæri til þess að ræða nánar einstaka liði frumvarpsins við 2. umr. þess.

Sjálfstfl. vill sem fyrr styðja að því, að fjárl. verði afgr. greiðsluhallalaus, en það er í senn krafa hans, að sköttum og öðrum álögum á þjóðina sé haldið innan skynsamlegra takmarka, og eins hitt, að hinn mikla fé, sem ríkissjóði áskotnast, verði svo sem framast er unnt varið til eflingar menningu og alhliða framförum í landinu.