22.10.1956
Sameinað þing: 3. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

1. mál, fjárlög 1957

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér skilst nú, að hv. 2. þm. Eyf., Magnús Jónsson, sem hér lauk máli sínu, beri í raun réttri allmiklu meira traust til hæstv. ríkisstj. heldur en hann vill vera láta, því að mér skilst, að hann hafi vænzt þess, að hún gæti lagt fram núna fyrir þetta Alþ. frv. til fjárl., sem glögglega sýndi, á hvern hátt ætti að bæta fyrir sjö ára afglöp og óstjórn af hálfu flokksmanna hans í ríkisstj. Sjálfum er honum þó fullvel um það kunnugt, að fjárlfrv. þetta eins og öll önnur frv. hlýtur að sjálfsögðu að byggjast á þeirri löggjöf, sem hefur áhrif á fjárl., annars vegar um tekjuöflunina, þar sem verður að sjálfsögðu að miða við þá löggjöf, sem í gildi er, þegar fjárlfrv. er samið, og hins vegar þær skuldbindingar, sem að lögum hafa verið lagðar á ríkissjóðinn og hann getur ekki komið sér undan án stórfelldra breytinga á löggjöfinni. Mér skilst því, að hv. ræðumaður hafi ætlað stjórninni of mikið, treyst henni of vel, ef hann hefur búizt við, að hún gæti á þessu tveggja mánaða tímabili verið búin að breyta löggjöfinni í það horf, að hægt væri að semja fjárlög, miðuð við hinar nýju aðstæður, sem væntanlega verður að mæta á komandi tíma.

Samkvæmt því frv., sem nú liggur fyrir til fjárlaga fyrir árið 1957 og hér er til umræðu, er gert ráð fyrir, að tekjur og gjöld ríkisins verði um 713 millj. kr. á árinu. Mest af gjöldunum, eða um 650 millj., er gert ráð fyrir að verði hrein rekstrargjöld hjá ríkissjóði. Af tekjum ríkissjóðs er áætlað, að um 1/6 hluti, rétt um 120 millj. kr., sé lagður á borgarana eftir efnum og ástæðum, þ.e.a.s. tekinn með tekju- og eignarskatti. Tekjur af sölu tóbaks og áfengis eru áætlaðar nokkru bærri, eða um 130 millj. kr., en langmestur hluti teknanna, milli 400 og 500 millj. kr., er tollar og gjöld, sem lögð eru á neyzluvörur almennings, og vega þar þyngst söluskatturinn, sem er áætlaður 135 millj. kr., og verðtollurinn, sem er áætlaður 203 millj. kr.

713 millj. kr. er geysihá upphæð, um það er ég sammála hv. þm., sem síðast talaði, og það jafnvel þótt tekið sé tillit til þess, hversu krónan hefur smækkað undanfarin ár. Þó fer því fjarri, að öll kurl séu komin til grafar, þegar lokið er lestri fjárlfrv. Hvorki bátagjaldeyrisálagið né heldur gjöldin til framleiðslusjóðs eru þar talin með. Gjöldin til framleiðslusjóðs voru á þessu ári áætluð um 140 millj. kr. skv. lögum frá seinasta Alþingi, og ætla má, að bátagjaldeyrisálagið nálgist sömu upphæð. Hvor tveggja þessi gjöld eru í eðli sínu neyzluskattar eins og önnur innflutningsgjöld, þótt fyrrv. hæstv. ríkisstj. hafi talið heppilegra að halda þeim utan fjárl. Með það fyrir augum að freista að leyna almenning þessum álögum.

Það er von mín, að hæstv. núverandi ríkisstj. hætti slíkum feluleik og að fjárl. verði að þessu sinni gerð svo úr garði, að þau segi satt og rétt frá um það, hversu miklar álögur eru lagðar á landsfólkið og hversu því fé, sem þannig er af því tekið, er varið.

Sé þeim upphæðum, sem bátagjaldeyrisálagið og framlagið til framleiðslusjóðs nemur, bætt við upphæð fjárl., kemur í ljós, að álögur á landsmenn eru áætlaðar nokkuð yfir 1000 millj. kr., nokkuð yfir einn milljarð á árinu 1957. Er þá að sjálfsögðu miðað við, eins og ég áðan sagði, gildandi tolla- og skattalöggjöf og önnur þau lagafyrirmæli, sem áhrif hafa á fjárl. Það mun láta nærri, að fólk á starfsaldri á þessu landi sé um 100 þús. manns. Þessi upphæð svarar því til þess, að tollar og skattar til ríkissjóðs og í þær stofnanir, sem ég áðan nefndi, nemi rétt í kringum 10 þús. kr. á hvern einasta karl og konu á öllu landinu á aldrinum milli 16 og 67 ára eða á starfsaldri, eins og venjulega er talið.

Engar skýrslur liggja fyrir um það, hversu þjóðartekjurnar verða miklar eða eru áætlaðar miklar á þessu ári. Ýmsir, sem þessum málum eru kunnugir, áætla, að á s.l. ári muni þær hafa verið nálægt 3000 millj. kr. Sé gert ráð fyrir svipaðri upphæð nú, þá lætur nærri, að þriðji hver peningur af tekjum þjóðarinnar í heild sé tekinn af ríkinu og til þeirra stofnana, sem ég áðan nefndi. Eru þá ótalin skattar og gjöld til sveita og héraðs- og sýslustjórna svo og sú feikna álagning, sem fellur í hlut milliliðanna á upphæðir tollanna og annarra innflutningsgjalda,

Í þessu sambandi þykir mér rétt að endurtaka það, sem ég fyrr sagði vegna ummæla hv. 2. þm. Eyf., að allar þær áætlanir um tekjur og gjöld, sem þetta fjárlfrv. er byggt á, eru miðaðar við gildandi löggjöf, gildandi tekjulöggjöf og gildandi löggjöf um, hverjar greiðslur beri að inna af hendi úr ríkissjóði og þeim sjóðum, sem ég hef drepið hér á áður. Þessi löggjöf var sett og mótuð í framkvæmd, áður en hæstv. núverandi ríkisstjórn tók við, af fyrrverandi ríkisstj. og þeim, sem hana studdu. Þetta er því sá arfur, sem fyrrverandi ríkisstj. lætur eftir sig í hendur hæstv. núverandi ríkisstj. á sviði fjármála ríkisins. Þörfin er metin samkvæmt þeim skuldbindingum, sem hvíla á ríkissjóði nú, nokkuð yfir 1000 millj. kr., sem tekið er af fólkinu með sköttum og álögum.

Vissulega eru fjármál ríkisins og fjárhagur ríkissjóðs þýðingarmikið fyrir þjóðina alla, engum dettur í hug að neita því. En því má þó aldrei gleyma, að afkoma ríkissjóðs er aðeins einn þátturinn í þjóðarbúskapnum í heild, afkoma atvinnuveganna til lands og sjávar er sá grundvöllur, sem búskapur þjóðarinnar og lífskjör hennar byggjast á. Til lengdar verður ekki hægt að tryggja fjárhag ríkissjóðs, nema þessi grundvöllur sé traustur. En svo er ekki nú. Það er vitað og viðurkennt af öllum, sem ekki neita bláköldum staðreyndum.

Hæstv. fjmrh. er þetta ljóst, eins og aths. þær, sem hann lætur fylgja frv., bera með sér. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Fjárlfrv. er miðað við núverandi ástand í efnahags- og framleiðslumálum landsins. Á hinn bóginn er það vitað mál, að þannig er nú um þau efni ástatt, að til frambúðar getur ekki staðizt án nýrra ráðstafana. Stendur nú yfir athugun á þessum málum öllum, og að henni lokinni verða teknar ákvarðanir um, hvað aðhafzt skuli. Verður fjárlfrv. að sjálfsögðu að taka þeim breytingum í meðförum á Alþingi, sem nauðsynlegar kunna að reynast í samræmi við úrlausnir þær, sem ofan á verða í efnahagsmálunum. Sama gildir og um frv. þau, sem fram eru lögð um framlengingu lagaákvæða um tekjur ríkissjóðs.“

Með þessu undirstrikar hæstv. ráðh. skýrt, að hann haldi sig að sjálfsögðu við samningu frv. við gildandi lagaákvæði, en játar hins vegar, að svo sé ástatt í efnahagsmálunum, að hér þurfi nýrra úrræða við, og beri þá að sjálfsögðu að breyta tekjulöggjöfinni og fjárlagafrv. í samræmi við þær niðurstöður, sem ofan á verða. Í orðum hans er vissulega hófsamlega og vægilega að orði komizt. Ástandið í atvinnumálum og efnahagsmálum og þá fyrst og fremst á sviði sjávarútvegsmálanna er þannig, að fullkomin stöðvun blasir við, ef ekki er að gert hið bráðasta í þessum efnum.

Um síðustu áramót stöðvaðist nær allur fiskiflotinn um mánaðartíma í byrjun vertíðar, meðan þáverandi ríkisstj. leitaði úrræða til að koma honum á flot. Úrræðið var sem kunnugt er stofnun framleiðslusjóðs og nýjar álögur í hann á neyzluvörur almennings, sem aftur hlaut að leiða, eins og reynslan hefur sannað, til hækkaðs vöruverðs og hækkaðrar vísitölu og aukins kostnaðar við framleiðsluna. Álögur þessar voru teknar í framleiðslusjóð til þess að greiða dagpeninga til togaranna og til uppbóta á sjávarafurðir til viðbótar við bátagjaldeyrisálagið, sem fyrir var og nokkuð hafði verið hækkað.

Öllum var ljóst, einnig þáverandi hæstv. ríkisstj., að hér var þó aðeins um bráðabirgðaúrræði að ræða, enga frambúðarlausn. En jafnframt var fullyrt, þegar lögin voru sett, að með stofnun framleiðslusjóðs væri séð fyrir hag útgerðarinnar til loka þessa árs.

Árið var þó ekki hálfnað, eins og hæstv. fjmrh. reyndar drap á, þegar það sýndi sig og kom í ljós, að því fór fjarri, að svo væri. Áður en síldveiðin fyrir Norðurlandi hófst í sumar, var því yfir lýst af útgerðarmönnum, að þeir treystu sér ekki til að hefja síldveiðar, nema þeim væri tryggt ákveðið verð, en til þess að það ákveðna verð teldist unnt að greiða af síldarsaltendum og verksmiðjum, sem við síldinni tóku, féllst fyrrverandi ríkisstj. á að greiða uppbót á hverja síldartunnu, sem fór í bræðslu. Uppbótin á hvert síldarmál skyldi vera 10 kr. á hvert mál, allt að 250 þús. málum, og á hverja síldartunnu kr. 57.50, allt að 300 þús. tunnum.

Sama var upp á teningnum, þegar hefja skyldi síldveiðar hér í Faxaflóa síðari hluta sumars og í haust. Þá féllst ríkisstj. einnig á að greiða uppbót á hverja síldartunnu, sem nam 110 kr. á hverja tunnu, allt að 60 þús. tunnum, og að greiða 500 kr. á smálest, allt að 4500 smálestum af síld, sem fryst yrði til útflutnings, enn fremur styrk til karfaveiða, ef karfinn var lagður á land til mjölvinnslu. Loks hefur síðan verið tekin upp í haust af hæstv. núverandi stjórn hækkun fiskverðs til togara, sem leggja fisk á land til vinnslu hér á landi, og það þótti eina leiðin til þess að koma í veg fyrir, að stöðvun yrði á starfsemi og framleiðslu fiskvinnslustöðva og hraðfrystihúsa í landinu. Loks er svo styrkur til báta til að greiða vátryggingarkostnað þeirra á síldveiðum norðanlands og við Faxaflóa.

Þessar upphæðir samtals telst mér til að nemi milli 32 og 35 millj. kr. samkvæmt þeim áætlunum, sem fyrir liggja, til viðbótar þeim framlögum, sem framleiðslusjóði var ætlað að greiða samkvæmt þeim lögum, sem um hann voru sett á s.l. vetri og talið var að þá mundi verða fullnægjandi hjálp til útgerðarinnar.

Samanlagt má því ætla, að þessi viðbótarframlög framleiðslusjóðs, sem talin voru óhjákvæmileg til þess að koma í veg fyrir, að síldveiðar féllu niður með öllu í sumar og haust, og til þess að starfsemi fiskvinnslustöðva og hraðfrystihúsa þyrfti ekki að stöðvast, nemi um 30–35 millj. kr.

Sé þessari upphæð bætt við áætluð útgjöld framleiðslusjóðs samkvæmt lögum um hann frá síðasta Alþ. og áætlað bátagjaldeyrisálag, þá virðist framlag hins opinbera til útgerðarinnar á þessu ári verða um eða yfir 300 millj. kr.

Hæstv. ráðh. upplýsti hér í ræðu sinni áðan líka, að bátagjaldeyrisálagið gerði meira en að greiða allt kaup skipverja á bátunum og að dagpeningarnir til togaranna, 5000 kr. á dag, létu nærri að nema sömu upphæð og kaupgreiðslur fólksins á togurunum öllum. Sjá þá allir, hversu ástatt er. En þrátt fyrir þessar risaupphæðir er mér tjáð, að nú sé fyrirsjáanlegt, að stórfelldur halli verði a.m.k. á rekstri togaranna á yfirstandandi ári, og líkur til, að svo verði einnig um verulegan hluta bátaflotans.

Þannig er þá ástandið í þessum málum. Þó ber þess að gæta, að með brbl., sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið út um festingu kaupgjalds og verðlags, hefur þessum atvinnurekstri sparazt stórfé og sparast á síðasta þriðjungi þessa árs, og yrði þá hagur hans þeim mun verri, sem þeirri upphæð nemur, ef ekki hefði verið gripið til þessara ráðstafana til þess að halda í skorðum, meðan undirbúnar væru frambúðarráðstafanir í efnahagsmálum og framleiðsluháttum hjá okkur.

Þannig er þá háttað afkomu og rekstri sjávarútvegsins eftir sjö ára stjórn íhaldsins á þessum málum. Þannig er viðskilnaður formanns Sjálfstfl. við sæti sjútvmrh., en það hefur hann fyllt, í því hefur hann setið nú nærfellt sjö síðustu árin, og þannig er þá aðkoma hinnar nýju stjórnar, sem við þessum málum tekur. Og svo furðar hv. 2. þm. Eyf. sig á því, að þegar fjárlfrv. er lagt fram, þá skuli ekki vera búið að finna örugg ráð til að bæta úr þessu ástandi, sem myndazt hefur undir handleiðslu hans eigin flokksmanna og flokksformanns á s.l. 7 árum.

En með þessu er ekki sagan sögð öll — fjarri fer því — um þann arf, sem hv. 2. þm. Eyf. talaði um og fyrrverandi ríkisstj. lét eftir, þegar hún veik úr sessi, og lét í hendur núverandi stjórnar. Einnig á öðrum sviðum er svipaða sögu að segja.

S.l. ár, 1955, var viðskiptahallinn við útlönd nærfellt 400 millj. kr., ef ég man rétt, eða til uppjafnaðar rétt í kringum Í millj. kr. hvern einasta dag, sem skorti á að verðmæti útflutningsins hrykki til þess að greiða verðmæti innflutningsins. Þrátt fyrir miklar aðrar gjaldeyristekjur, svo sem tekjur af framkvæmdum varnarliðsins o.fl., var greiðslujöfnuðurinn á árinu óhagstæður um hvorki meira né minna en hér um bil 150 millj. kr., sem kom fram sem auknar gjaldeyrisskuldir erlendis eða minnkaður gjaldeyrisforði og reyndar hvort tveggja.

Ekki virðist hafa orðið nein breyting á þessu ári, sem nokkru nemi, og sízt til batnaðar. Viðskiptahallinn, það sem af er þessu ári, er nokkuð svipaður og á sama tíma s.l. ár, en um aðrar gjaldeyristekjur er ekki upplýst enn.

Afleiðing þessara stjórnarhátta, þessara viðskipta, þessarar afstöðu til útlanda, er svo sá tilfinnanlegi fjárskortur, sem nú þegar lamar eða hefur stöðvað ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir og horfur eru á, ef ekki er að gert, að stöðvi enn fleiri.

Hæstv. ráðh. gerði í inngangsræðu sinni nokkra grein fyrir því, hversu lánsfjárskorturinn og fjármagnsskorturinn væri tilfinnanlegur. Ég hafði tekið saman nokkur atriði til ábendingar í þessu efni og vænti, að þó að eitthvað af því sé endurtekningar á því, sem hann sagði, þá verði það afsakað.

Búið er um alllangt skeið af fyrrverandi ríkisstj. og stjórnarvöldum Reykjavíkurbæjar að leita eftir lánsfé til Sogsvirkjunarinnar algerlega árangurslaust. Hæstv. ráðh. lýsti því, hversu mikið lægi við, að nauðsynleg stækkun á þeirri stöð yrði framkvæmd hið allra skjótasta. Hæstv. ríkisstj. skilur við þetta mál svo, að ekki liggja fyrir nokkur loforð eða ádráttur um fjárframlög, lán, fjármagn til þessara nauðsynlegu framkvæmda. Það fellur því í hlut hæstv. núverandi ríkisstjórnar að sjá, hvers hún er megnug í þessu efni.

Hæstv. ráðh. drap á, að fé mundi skorta stórkostlega til rafvæðingar þeirrar, sem ákveðin var af hæstv. fyrrverandi ríkisstj. Það er fyllilega rétt. Á þessu ári vantar a.m.k. 15–20 millj. kr. og nokkru hærri upphæðir hvert næstu ára, ef á að halda í horfinu með þá áætlun. Þó er rétt að minnast þess í sambandi við það, að með þeirri rafvæðingu er ekki um að ræða að skapa grundvöll undir nýjum starfsgreinum eða nýrri framleiðslu, heldur fyrst og fremst að sjá fyrir heimilisþörfum manna í dreifbýlinu, ljósi og rafmagni til heimilisþarfa, en nýjar virkjanir nema, ef ég man rétt, nýjar stöðvar, sem byggðar verða skv. áætluninni, ekki nema tæpum 7 þús. kw., eitthvað þar í kring, þannig að meginfengurinn við þessa rafvæðingu er bætt lífsskilyrði, ljós, hiti og annað slíkt úti um byggðir landsins.

Hæstv. ráðh. hefur gert grein fyrir fjárþörf fiskveiðasjóðs og ræktunarsjóðs og hversu horfir í því efni. Hann hefur einnig drepið á og sýnt fram á, að sementsverksmiðjuna vantar enn þá stórfé, til þess að hægt sé að tryggja, að henni verði komið á fót, og um nauðsynlega viðbót við áburðarverksmiðjuna gildir slíkt hið sama.

Sama er að segja og næstum verra þó að því er varðar húsnæðismálin og framkvæmdir í þeim efnum. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, hefur veðlánakerfið fengið til umráða og veitt lán allt í allt, frá því að lögin voru sett, um 80 millj. kr., sem hafa skipzt þannig, að um 25 millj. kr. hafa farið til lánveitinga hér í Reykjavík og 55 millj. kr. úti um land. Þetta er ekki nema lítill hluti þess, sem gert var ráð fyrir að hin nýja veðdeild hefði til umráða af fé á þessu tímabili, og er þó ekkert tillit tekið til þess, að á þessu sama tímabili hefur stórkostlega hækkað byggingarkostnaður, kostnaður við að koma sér upp íbúð.

Nú er mér sagt, að málin standi þannig, að til áramóta muni verða til umráða fyrir búsnæðismálastjórn rétt í kringum 6 millj. kr. og af því megi vænta eftir þeirri hlutfallaskiptingu, sem ákveðin var, að um 1.1 millj. kr. renni til Reykjavíkur. Hér í Reykjavík liggja nú fyrir einnig hvorki meira né minna en 1740 umsóknir um lán til húsnæðismálastjórnar. Sé það rétt, að það séu um 1100 þús. kr. til ráðstöfunar í þessu efni fyrir Reykjavík, þá svarar það til þess, að 22 af þessum 1740 umsækjendum gætu kannske fengið 50 þús. kr. lán hver á árinu, ef ekki verður úr bætt og séð fyrir meira fé.

Hæstv. ráðh. fór mörgum hörðum orðum um hina miklu lánsfjárþörf, hinn mikla skort á fjármagni, sem við blasir nú, þegar hæstv. ríkisstj. tekur við. Hann minntist einnig á þann mikla viðskiptahalla, sem veríð hefur undanfarin ár á viðskiptunum við útlönd, og að nauðsyn væri þar úr að bæta.

Ég er honum sammála um það, að vænlegasta og líklegasta leiðin til þess að bæta viðskiptajöfnuðinn er að auka framleiðsluna og verðmæti hennar. Þess vegna fagna ég því frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram um kaup á nýjum togurum til framleiðsluaukningar og atvinnujöfnunar í landinu.

Önnur leið til gjaldeyrissparnaðar er sú að framleiða meira í landinu af vörum, sem við þurfum sjálfir, og spara með því innflutning á tilsvarandi vörum. Einmitt að því hníga framkvæmdir eins og sementsverksmiðjan, aukning áburðarverksmiðjunnar og annað slíkt.

Ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. um það, að þörfin fyrir erlent fjármagn er mjög knýjandi, og ég er sammála honum um það, að það væri okkur alveg hættulaust að taka eðlileg lán með eðlilegum hætti í útlöndum til þess að auka framleiðslu okkar og starfsemina í landinu. Ég vil vona, að hæstv. ríkisstj. leggi á það hið mesta kapp og hina mestu áherzlu að vinna að slíku.

Ég get ekki látið hjá líða að minna á í því sambandi, að þess þarf að sjálfsögðu að gæta, eins og ég veit að hæstv. ráðh. er vel ljóst, að binda sig ekki um of við einn aðila í því efni, þannig að sá hinn sami geti haft ráð okkar í hendi sér, hvenær sem vera skyldi. Slíkt er ekki hyggilegt, og slíkt ber að forðast. Að sjálfsögðu ber, eins og ég áðan sagði, að leita eftir lánsfé erlendis á eðlilegum grundvelli og með eðlilegum hætti til hverra þeirra framkvæmda, sem vænta má að geti staðið undir fénu og skilað því aftur.

Tími minn er nú á þrotum. Mér hefur þótt rétt að nota þennan tíma til þess með fáum orðum að benda á nokkur einstök atriði, sem sýna viðskilnað hæstv. fyrrv. ríkisstj. á sviði atvinnumála, viðskiptamála og fjármála og hvernig aðkoman fyrir hina nýju ríkisstj. hefur verið. Ég álít, að það sé alveg nauðsynlegt, að allur almenningur eigi þess kost að gera sér grein fyrir því, hversu ástatt var við stjórnarskiptin, hverjum arfi nýja stjórnin tók við af fyrrv. stjórn og hver verkefni krefjast úrlausnar. Mig skortir að sjálfsögðu tíma og gögn til þess að gera þessu efni fullnægjandi skil. Ég vil því beina því til hæstv. ríkisstj. að taka til athugunar, hvort ekki sé full ástæða til þess að láta fram fara fullkomna úttekt á þjóðarbúinu, gerða af fróðum og óhlutdrægum aðilum. Síðan ætti að birta þjóðinni öll meginatriði þeirrar úttektargerðar, þannig að öllum megi ljóst verða, hver var viðskilnaður hæstv. fyrrv. ríkisstj. og hver aðkoman hjá hinni nýju ríkisstj. Með því móti skapast þjóðinni skilyrði til þess að leggja réttan dóm á þær leiðir, á þau úrræði, sem hæstv. núv. ríkisstj. hverfur inn á til þess að bæta úr því ástandi, sem nú þjakar okkur.