18.02.1957
Sameinað þing: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

1. mál, fjárlög 1957

Frsm. minni hl. (Magnús Jónason):

Herra forseti. Áður en ég vík að þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar af hæstv. fjmrh. og hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar, langar mig til að tala hér lítillega fyrir nokkrum brtt., sem ég er annaðhvort einn flm. að eða ásamt öðrum.

Það er í fyrsta lagi brtt. á þskj. 261, VII. töluliður, um það, að veittar verði 75 þús. kr. til Ólafsfjarðarkaupstaðar til greiðslu helmings áfallins kostnaðar við boranir eftir heitu vatni. Þessi kostnaður er á fallinn fyrir alllöngu og sumt fyrir nokkrum árum. Það hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að fá þetta greitt eftir ýmsum leiðum, en því miður ekki tekizt til þessa. Samkv. lögum er gert ráð fyrir, að ríkið styrki heitavatnsboranir að vissu hlutfalli eða helmingi kostnaðar, og hefur þetta verið greitt ýmsum stöðum og það allstórar fjárhæðir, og ég hygg, að Ólafsfjörður sé nú eini staðurinn utan Reykjavíkur, sem ekki hefur fengið þetta framlag ríkissjóðs greitt.

Ég hef leitað eftir því í fjvn. að fá stuðning fyrir þessu máli, en því miður hefur meiri hl. n. ekki enn séð sér fært að fallast á þetta, þótt að vísu nauðsyn og sanngirni hafi verið viðurkennd í þessu sambandi. Ég vil nú leyfa mér að freista þess að flytja þetta mál hér inn í þingið í trausti skilnings á málinu og vænti þess jafnframt, að meiri hl. fjvn, snúist ekki gegn því, þar sem ég tel, að Ólafsfjarðarkaupstaður hafi orðið hér verr úti en aðrir, og það er fátækt bæjarfélag, sem áreiðanlega hefur jafnmikla, ef ekki meiri þörf fyrir slíka aðstoð en flestir kaupstaðir aðrir. Vil ég því mega vænta þess, að hv. þm. gætu fallizt á að ljá þessari till. sitt lið.

Þá flyt ég hér á sama þskj. í X. lið ásamt hv. þm. Ak. tillögu um það, að við heimildagrein fjárlaga verði bætt nýjum lið um það að heimila ríkisstj. að lána Hríseyjarhreppi allt að 70 þús. kr. til smíði ferju til flutninga milli eyjar og lands. Það er mikið nauðsynjamál að fá nýja ferju til þessara flutninga, enda er það eina samgöngutækið, sem Hríseyingar hafa til samgangna milli eyjar og lands, og það er alveg óviðunandi í slæmri veðráttu að geta ekki haft bát til þessara ferða, þar sem fólk geli búið við sæmilega aðbúð og þurfi ekki að vera úti, hvernig sem viðrar. Hreppsnefnd Hríseyjarhrepps hefur mikinn áhuga á að byggja nýjan bát til þessara flutninga. Málið hefur legið til athugunar í hv. samvinnunefnd samgöngumála. Sú nefnd hefur að vísu ekki skilað áliti, en mér skilst, að nefndin telji sig raunverulega ekki geta gert till. um stofnstyrki til flóabáta, og höfum við því leyft okkur að flytja þetta mál inn í þingið við þessa umr. Það má auðvitað segja, að hér sé ekki um stórt fyrirtæki að ræða. En þótt fyrirtækið sé ekki stórt, þá er það þó allmikið fyrir ekki stærra hreppsfélag en Hríseyjarhreppur er. Þessi ferja mun kosta um 150 þús. kr. Og eins og nú er ástatt með lánamál, þá er ekki sjáanlegt, hvar auðið yrði að fá lán til þessara framkvæmda. Er því lagt til, að ríkið hlaupi hér undir bagga í því formi, að veitt verði þetta lán, og fyrir því eru fordæmi. Það var veitt t.d. til Breiðafjarðarbáts, ef ég man rétt, á síðasta þingi nokkru hærra lán, og er því hér ekki um nýjung að ræða, en mjög mikilvæga og nauðsynlega aðstoð við fjárvana sveitarfélag.

Þá flyt ég á þskj. 260 eina brtt. við till. fjvn. um framlög til vega. Hún er um það, að Múlavegur verði hækkaður úr 200 þús. í 500 þús. kr., eða að til hans verði veitt sama fjárveiting og gert er ráð fyrir að veita nú til Siglufjarðarvegar. Að Múlavegi hefur verið unnið í þrjú ár, og hefur þar nokkuð á unnizt, en þó vantar enn allverulegt átak, til þess að þessi mikilvæga samgönguæð opnist. Ég skal á engan hátt draga úr nauðsyn þess að veita fjárveitingu þá, sem ég gat um, til Siglufjarðarvegar. Fjárveiting til hans hefur verið hækkuð úr 100 þús. í 500 þús. kr., en Múlavegur hafði í síðustu fjárlögum 200 þús. kr. fjárveitingu, eins og nú er lagt til að verði óbreytt í tillögum fjvn. Mér virðist ekki nema sanngjarnt, af því að hér er um mjög hliðstæða vegi að ræða, að sams konar fjárhæð verði veitt til Múlavegar. Á það mun að vísu verða bent, að aðrir millihéraðavegir hafi ekki verið hækkaðir, en um þá, hygg ég, alla nema þessa tvo, Siglufjarðarveg og Múlaveg, er það að segja, að þeir eru færir, en þessir vegir alls ekki, nema hægt verði að vinna þar enn allmikið til að koma þeim í samband. Að vísu er vissulega mikil nauðsyn að auka fjárveitingar til annarra tengivega, en miðað við þá mjög miklu samgöngubót, sem þessi vegur mundi verða fyrir sveitir Eyjafjarðar og þá ekki hvað sízt Ólafsfjörð og Dalvík, er mikil nauðsyn að reyna að hrinda þessum umbótum lengra áleiðis.

Þá er loks ein till., sem liggur hér aðeins fyrir skriflega og ég vil leyfa mér samt að leggja fram sem slíka, þar sem ég veit ekki, hvort umræður endast það lengi, að það verði hægt að prenta þskj., áður en þeim lýkur, en hún er frá mér, hv. þm. Ak., hv. 6. landsk. og hv. 2. þm. Skagf. og hljóðar svo, að við 20. gr. Út, VI. lið, komi nýr liður, svo hljóðandi:

„Til byggingar flóabáts milli hafna á Eyjafirði og Skagafirði og verði leitað samkomulags við þann, sem nú annast ferðir þessar, og aðra viðkomandi aðila um stofnframlag og rekstur skipsins, 750 þús. kr.“

Það liggur fyrir í samvn. samgm., að það horfi mjög alvarlega með bát þann, sem er í þessum ferðum nú. Þarna er oft um erfiða siglingaleið að ræða og snjóasamt að vetrarlagi, og er því mikil nauðsyn á og rannar alls ekki annað viðunandi en að þarna sé öruggt skip í förum. Fyrir ýmsa þessa staði, sérstaklega er það varðandi Ólafsfjörð og Siglufjörð og raunar Haganesvík og staðina þar ytra, getur mánuðum saman svo verið, að þetta sé eina samgöngutækið, sem þessir staðir hafi, og liggur því í augum uppi, að það verður að hafa þarna viðunandi skip í förum, bæði hvað snertir traustleika og allan aðbúnað. Það hefur mjög verið leitað eftir því af þeim manni, sem hefur haft þessar ferðir með höndum, að reyna að fá fyrirgreiðslu um lán til þess að byggja nýtt skip. Það hefur ekki tekizt að fá neina fyrirgreiðslu í því efni, og engir sjóðir eru hér til, sem lána fé til slíkra framkvæmda. Nú hefur verið tekið í tillögur fjvn. 2 millj. kr. framlag til Vestmannaeyjaskips. Þar er einnig um mikið nauðsynjamál að ræða, sem síður en svo skal haft á móti að sé reynt að hrinda í framkvæmd, því að Vestmanneyingar hafa alls ekki viðunandi samgönguöryggi milli eyja og lands. En ég vil leyfa mér að halda því fram, að það sé ekki síður ástæða til þess að bæta úr þeim vandræðum, sem Eyfirðingar og Skagfirðingar búa við varðandi þetta sama atriði. Ég hef leyft mér að miða þessa till. eða upphæð hennar nokkurn veginn við hliðstæða fjárhæð og gert er ráð fyrir að veitt verði til Vestmannaeyjaskips, miðað við heildarkostnað beggja þessara skipa, og vildum við flm. leyfa okkur að vænta þess, að þessi mikilvæga samgöngubót og það mikla öryggismál, sem hér er um að ræða í samgöngum á þessu svæði, hljóti ekki síður skilning og stuðning hv. Alþ. en sú till., sem þegar hefur verið samþ. varðandi Vestmannaeyjaskipið.

Það hefur ekki verið í fjvn. gengið sérstaklega til atkv. um þetta mál, enda ekki formlega þar upp tekið, vegna þess að það hefur verið til meðferðar í samvn. samgm., en eins og ég gat um áðan varðandi Hríseyjarbát, telur sú n. ekki auðið fyrir sig að gera till. um stofnfjárveitingar til flóabáta. Er þessi till. því hér flutt, en vitanlega munum við taka þessa till. aftur við atkvgr. við þessa umr., þannig að fjvn. gefist kostur á að taka hana til nánari athugunar fyrir 3. umr.

Þá vil ég leyfa mér að minnast aðeins örfáum orðum á ýmsar aths., sem komu fram frá hæstv. fjmrh. og hv. frsm. meiri hl. fjvn.

Hæstv. fjmrh. fannst, að ómaklega væri kvartað yfir ýmsum atriðum í hans vinnubrögðum í áliti minni hl. n. Þar er um tvö atriði að ræða, annars vegar það, að lýst var nokkurri undrun yfir því, að ekki skyldu vera gerðar tilraunir til þess að afgreiða fjárl. fyrr og ekki lægju fyrir nú um miðjan febrúar upplýsingar um tekjuhorfur ríkissjóðs á þessu ári, og í annan stað var fundið að því, að ekki hefði verið gerð nægilega grein fyrir ýmsum till., sem fjmrh. hefði sent n. með ósk um flutning af hennar hálfu.

Mér kom það satt að segja nokkuð á óvart, þegar hæstv. ráðh. hélt því fram, að það hefði verið auðveldara að afgreiða fjárl. fyrir jól í fyrra en nú, vegna þess að þá hefði verið vitað nægilega snemma um þær ráðstafanir, sem hefði átt að gera til stuðnings útflutningsframleiðslunni, en nú hefði það ekki verið. Mér hefur nú sannast sagna skilizt í öllum umr. um þetta mál að undanförnu, að það hafi verið fært hæstv. ríkisstj. fram til alveg sérstaks hróss, að nú hafi þetta legið allt ljósar fyrir og verið frá öllu gengið miklu fyrr en í fyrra, enda er sannleikur málsins sá, að fyrir jól var ekkert vitað um það, hvaða endanlegar leiðir yrðu farnar varðandi vandamál útvegsins þá, en aðeins vissar hugmyndir höfðu komið fram um það, en nú voru lög um það efni afgreidd frá Alþ. fyrir jól. Og mér þykir það mjög undarlegt a.m.k., ef ekki hefur verið það snemma gengið frá því máli, að fjmrh. hafi snemma í desember haft nokkurn veginn endanlega vitneskju um það, hver hlutur ríkissjóðs yrði af þeim sköttum, sem þar átti að leggja á, því að varla hefur það verið tilviljun háð fram á síðustu stundu, hvernig endanleg afgreiðsla þess máls varð. Af þessum sökum held ég. að það standi algerlega óhaggað og hljóti að liggja í augum uppi, að það var mun auðveldara nú, miðað við allar aðstæður, að afgreiða fjárlög fyrir jól heldur en það var í fyrra. Ég skal hins vegar játa, að það var mikið að starfa í þinginu nú fyrir jólin vegna frv. ríkisstj. um útflutningssjóð, og kynni að hafa verið erfitt að ljúka þá endanlegri afgreiðslu fjárl., en alla vega hefði verið mjög auðvelt að ljúka 2. umr. þeirra fyrir jól, eins og gert var í fyrra.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að það hlyti að vera um misskilning að ræða hjá mér, þar sem því væri haldið fram, að upplýsingar um afkomu ríkissjóðs hefðu legið fyrr fyrir í fyrra heldur en nú, og talaði jafnframt um, að það hefði verið auðvelt að fá allar þær upplýsingar, sem fyrir hendi væru, ef við hann hefði verið talað. Ég efast ekkert um það, að hann með sinni miklu þekkingu á þessum málum, eins og ég sagði í minni framsöguræðu, hafi haft um þetta miklu meiri vitneskju en lá fyrir n. og að það hefði verið hægt að fræðast um ýmsa hluti með því að tala við hann. En ég álít, að það sé sú eðlilega leið og í rauninni sú sjálfsagða leið, sem verði að hafa í n., að afla upplýsinga í gegnum form. n., og það er það, sem við höfum gert, en ekki sé raunverulega viðeigandi að vera að fara þar eftir öðrum leiðum. Með þessu er ég ekki á nokkurn minnsta hátt að halda því fram, að form. hafi leynt nokkrum upplýsingum fyrir mér eða okkur í minni hl., heldur hafði hann ekki aðrar upplýsingar tiltækar um þetta efni.

Ég skal játa það hér, að það orðalag nál. okkar kann að geta valdið misskilningi, að þar hafi engar upplýsingar verið til um afkomu ársins. Það er alveg rétt, sem form. n. gat um áðan, að upplýsingar lágu fyrir um tekjur ríkissjóðs til nóvemberloka. Þetta orðalag stafar þó af því, að reynslan hefur alltaf sýnt, að það er ákaflega erfitt að byggja á þeim upplýsingum um hina raunverulegu niðurstöðu ársins, því að sveiflurnar eru oft svo miklar í desembermánuði frá ári til árs, enda hefur reynslan verið sú, að það hefur reynzt mjög erfitt að komast nærri lagi um tekjur ríkissjóðs, ef þurft hefur að byggja á þeim upplýsingum, sem aðeins hafa verið til við nóvemberlok.

Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða það og tel mig þekkja það af æðimikilli reynslu í þessum málum, að það hafi verið fullkomlega auðið að gera n. um miðjan febrúar og raunar allmiklu fyrr grein fyrir tekjum ríkissjóðs á s.l. ári. Ég veit það vel, að það er miklum mun erfiðara með gjöldin og mun ekki vera hægt að komast að niðurstöðu um þau fyrr en jafnvel í marzmánuði, eins og hæstv. ráðh. gat um, en þau skipta ekki neinu meginmáli í sambandi við samningu nýrra fjárlaga, heldur er það höfuðatriðið að vita um tekjuhliðina, vegna þess að útgjaldahliðina hefur maður í fjárlagafrv. sjálfu og verður einmitt að afla sér tekjuhliðarinnar til þess að gera sér grein fyrir, hve útgjöldin mega vera há. Þessar upplýsingar lágu fyrir n. í fyrra, eins og í nál. er sagt, og þær hefðu getað legið fyrir nú. Það þori ég að fullyrða.

Þá taldi hæstv. ráðh., að hann hefði gert fulla grein fyrir öllum útgjaldatill. og að ómaklega væri talað um, að það hefði vantað skýringar í því efni. Ég held, að ég muni það rétt, að ég hafi innt eftir því nokkrum sinnum í fjvn., hver niðurstaða s.l. árs hefði orðið, t.d. varðandi ríkisábyrgðarlánin, hvað gjöld ríkissjóðs vegna þeirra hefðu orðið há, og við því fengust ekki svör. Um frystihúsin var einnig spurt. Hæstv. ráðh. gerði grein fyrir því, að hann hefði svarað því til, að það væri ekki hægt að gefa þær upplýsingar. Það var mér ekki kunnugt um, og hefði það legið fyrir, þá hefði vitanlega ekki verið að þessu fundið varðandi þann lið, en það stafar af því, að okkur var ekki kunnugt um það svar.

Um atvinnuleysistryggingarnar er það að segja, að það er vitanlega rétt og maður skilur það vel, að það er gert vegna þess, að það er áætlað, að útgjöldin verði þetta hærri. Hins vegar lágu ekki neinir útreikningar fyrir um það, heldur aðeins beiðni um að taka 2 millj. kr. inn í fjárlögin í þessu skyni, og ég verð að segja, að mér finnst það ekki alls kostar góð grg. til þess að byggja á tilætlun um það, að fjvn. flytji till. um 2 millj. útgjöld.

Um niðurgreiðslurnar segir hæstv. ráðh., að hann hafi oft talað um þetta hér á þingi og annars staðar. En ég tel nú satt að segja, að það séu engar upplýsingar að ætlast til þess, að maður hafi einhvers staðar annars staðar hlýtt á skýringar á þessu atriði, heldur verði að ætlast til þess, að þær skýringar fylgi til fjvn. formlega,þegar hún er beðin um að flytja hvorki meira né minna en 24 millj. kr. útgjaldalið, þá sé ekki til of mikils ætlazt, að það sé gerð grein fyrir því til n., en ekki gert ráð fyrir því, að menn hljóti einhvers staðar annars staðar að hafa aflað sér vitneskju um þetta eða heyrt um það í ræðum.

Að lokum er það svo það atriðið, sem ég einnig minntist á, varðandi 1 millj. til orlofsheimills verkalýðssamtakanna, sem enn hefur engin skýring fengizt á og ráðherrann upplýsti ekkert um, ekki einu sinni hér, og það er því algerlega jafnmikilli þoku hulið og áður.

Með þessum atriðum er ég ekki að kasta neinu dómsorði á hæstv. fjmrh., heldur aðeins að við töldum ekkí verða hjá því komizt að benda á, að þetta væru ekki heppileg vinnubrögð, og ég held, að það sé ekki með sanngirni hægt að halda því fram, að það hafi verið röng aðfinnsla hjá okkur eða ómakleg í garð hæstv. ráðh.

Varðandi þau orð hæstv. ráðh., að þessar aðfinnslur mundu aðeins hafa verið bornar fram til þess að geta fengið þær lesnar í útvarp, þá geta menn náttúrlega haft þær skoðanir um það, sem þeim sýnist. En ég get ekki séð með hliðsjón af öllum aðstæðum málsins, að með þessum aðfinnslum og athugasemdum hafi verið á nokkurn hátt ómaklega gerðar árásir á hæstv. fjmrh., eins og mátti helzt skilja á hans orðum.

Þá skýrði hæstv. ráðh. frá því, að embættisbáknið, sem talað væri um í minni ræðu, stafaði fyrst og fremst frá fyrrv. stjórn, að það væri arfur frá henni. Ég vil nú aðeins vekja athygli á því, að samkv. fjárlögum er ekki heimilt að ráða neinn mann til starfa hjá ríkinu nema með samþykki fjmrh., þannig að ef þetta er svo vitaverður arfur frá fyrrv. stjórn, þá þykir mér skörin vera,farin að færast upp í bekkinn, þegar hæstv. ráðh. er farinn að skamma sjálfan sig.

Ég skal ekkert um það segja að öðru leyti, hvenær þessir menn hafa verið ráðnir, og ég var ekki á neinn hátt að finna að því, að þeir hefðu verið ráðnir. Ég minntist á þetta aðeins í sambandi við þau stóryrði, sem höfðu verið höfð í fyrra af hálfu stjórnarandstöðunnar um þetta stórkostlega og vítaverða embættismannabákn, sem væri verið að hrúga upp, og benti á, að það væri nú síður en svo, að það væri um neinn samdrátt að ræða þar, eins og nú standa sakir.

Hvaðan allir þessir ágætu menn taka laun sín, sem vitað er um að eru nú ráðnir til starfa hjá ríkinu undir ýmsum nöfnum, — ég hirði ekki að nefna neina sérstaka menn í því sambandi, því að það vita vafalaust allir hv. þm. um bæði þær n. og þá einstaklinga, sem ráðnir hafa verið til sérstakra trúnaðarstarfa, þó að það þyki kannske ekki heppilegt að vera að flagga því mjög mikið, — þá hygg ég, að það verði að greiða flestum þessara manna einhver laun. Mér þykir það a.m.k. mjög ótrúlegt, ef þeir vinna þetta af ósérplægni einni saman. En við sjáum kannske á næsta ári, hvernig það kemur út.

Þá lauk hæstv. ráðh. ræðu sinni með því að segja, að við í minni hl. hefðum ekkert til málanna að leggja nema yfirboð. Ja, ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. telur, að það sé hrein ósvífni af minni hl. n. að fallast ekki skilyrðislaust á allar till. meiri hl. og láta þar við sitja. Það getur vel verið, að það væri auðveldara á ýmsan máta. En eins og ég gat um í minni framsöguræðu, þá verð ég að segja, að hér er um mjög ómakleg ummæli að ræða hjá hæstv. ráðh., þar sem við í minni hl. n. leggjum aðeins fram till., sem leiða af sér rúmlega 7 millj. kr. hækkun og eru um 1% af öllum útgjöldum ríkissjóðs, eins og líkur eru til að þau verði. Ef það á að bera vott aðeins um yfirboð og ábyrgðarleysi að halda sér innan svo þröngra takmarka um flutning brtt., þá veit ég ekki, hvað má segja um þann flutning, sem hefur verið á undanförnum þingum um 60–80 millj. kr. hækkun, sem þá hefur verið flutt af minni hluta n. Og ég held sannast sagna, að hæstv. ráðh. þurfi í engu að kvarta yfir afstöðu okkar og að við höfum reynt að spilla fyrir því, að hægt væri að afgreiða fjárlög undanfarin ár eða nú á þann hátt, að þar væri ekki greiðsluhalli.

Ég skal játa, að það er erfitt að miða till. nú við það, hvort þær leiði til greiðsluhalla eða ekki, þar sem engar upplýsingar liggja fyrir um tekjur, og má þá hæstv. ráðh. sjálfum sér um kenna varðandi það atriði. Ég þarf svo ekki að fara fleiri orðum um ræðu hæstv. ráðh.

Það voru aðeins örfá atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl. n., sem ég vildi minnast á. Ég skal taka það fram, svo að það valdi engum misskilningi, að almennt höfum við í minni hluta n. ekki í neinu að kvarta yfir hans stjórn á n. Hann hefur sýnt okkur fulla lipurð í öllum efnum og aldrei neitað okkur um öflun upplýsinga og annað, sem við höfum óskað eftir, þannig að þau ummæli, sem fram koma í grg. og minni ræðu, má með engu móti skilja sem neinar árásir á hann eða að það hafi vísvitandi verið reynt að gera okkur sem erfiðast fyrir. Það er aðeins á þetta bent í nál. vegna þess, að það að leggja allar till. fyrir til atkvgr. degi áður en á að útbýta þeim, að undanskildum þeim till., sem þar er tekið fram, varðandi verklegar framkvæmdir, hlýtur auðvitað að valda minni hl. allmiklum erfiðleikum, þar sem ekki er vitað fyrr en á þessu stigi málsins um till. meiri hl. um einstök atriði. Þó að erindin liggi fyrir, þá vitum við, að þau eru margfalt hærri jafnan, kröfurnar, sem þar eru, heldur en kemur til mála að sinna, og því er mjög æskilegt að hafa einhverja vitneskju um það, hvað meiri hluti n., sem stefnunni ræður, muni vilja fallast á í því efni, áður en till. eru undirbúnar, þ.e.a.s. ef maður vill hafa einhver skynsamleg vinnubrögð og ekki flytja og undirbúa till. gersamlega út í loftið, án hliðsjónar af gjaldgetu ríkissjóðs.

Ég sem sagt efast ekki um, að þessi vinnutilhögun hefur ekki verið höfð með það í huga að skapa okkur erfiðleika, heldur aðeins vegna þess, að form. n. er nýtekinn við því starfi og hefur sennilega ekki haft fulla vitneskju um þær starfsreglur, sem um þetta hafa gilt. Það er auðvitað alveg rétt, að það er alltaf erfiðara fyrir minni hluta nefndar að starfa, hvort sem það erum við, sem nú erum þar, eða aðrir flokkar. Það gildir nokkuð sama. En það hefur þó verið venjan á undanförnum árum, eftir því sem ég bezt veit og minnist, að það hafa ekki verið bornar upp í einu lagi slíkar till., heldur á nokkrum fundum, þannig að menn hafa þó getað áttað sig á þeim milli funda. Frá þessu er skýrt í nál., m.a. til að gera grein fyrir því, af hverju við í n. sátum hjá við atkvgr. um stóran hluta þessara till., sem byggðist á því, að við höfðum ekki svigrúm til þess að átta okkur á þeim og bera okkur saman um þær, áður en gengið var til atkvæða, og til atkvæða var gengið það seint eða till. voru fluttar það seint í n., að ef átti að koma þeim út fyrir tilskilinn tíma, þá var þess naumast kostur að fresta afgreiðslu þeirra lengur.

Grg. okkar í nál. er því nánast flutt til þess að útskýra þá afstöðu okkar við atkvgr. í n., sem af þessu leiddi, en ekki til þess að bera fram neinar ásakanir á formann n. fyrir, að hann hafi á nokkurn hátt viljað vísvitandi valda okkur erfiðleikum, þó að þessir erfiðleikar óneitanlega hafi orðið af þessari vinnutilhögun.

Þá sagði hv. frsm., að það væri ekki rétt með farið, að felld hefði verið till. okkar um 20% hækkun á vegafé, heldur aðeins hefði verið fellt að nota það sem skiptigrundvöll handa þeim embættismönnum, sem gera till. um skiptingu fjárins. Ég sé nú sannast sagna ekki svo ákaflega mikinn eðlismun á þessu. Till. var borin upp og hún var felld á sínum tíma í n. Ég hygg, að bækur n. vitni um það. Hvort menn hafa gert það með einhverjum fyrirvara í huga sér um síðari hækkun, það er ekkert nema gott um það að segja, og reynslan hefur enda sýnt, að það varð svo, og ber að viðurkenna það og þakka. En engu að síður stendur sú staðreynd óbögguð, að þegar þessi till. var borin upp, þá var hún felld.

Þá benti form. n. einnig á, að það væri ekki rétt hjá okkur, að það hefði verið till. sjálfstæðismanna um eftirgjafir lána til Búnaðarbankans, sem hefði verið samþykkt, heldur till., sem hefði komið frá ríkisstj. og var lögð fram í n. daginn eftir að hv. þm. Borgf. lagði þar fram sína till. Ég skal játa það og biðja afsökunar á því, að till. hv. þm. Borgf. var ekki samþykkt óbreytt, vegna þess að það voru ekki gefin eftir öll þau lán, sem hann lagði til, og er sjálfsagt að viðurkenna þetta og staðfesta, að það sé rétt. En að öðru leyti var hin endanlega afgreiðsla í samræmi við þessa till.

Þá kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. kenning um það, hvernig stæði á þeim erfiðleikum, sem nú væri við að stríða varðandi útgjöld ríkissjóðs, og að það þyrfti að leggja á nýja skatta til þess að mæta þessum útgjöldum, og ástæðan átti að vera sú fyrst og fremst, að laun embættismanna ríkisins hefðu verið hækkuð á s.l. ári með nýjum launalögum; og þó raunar væri nú ekki vandinn kannske mestur af þessu, heldur það, að laun hinna hæst launuðu hefðu verið hækkuð, en þessi vandræði stöfuðu alls ekki af afleiðingum verkfallanna, sem verið hefðu 1955.

Ég satt að segja vil nú ekki vera, þar sem það er ætlunin að ljúka þessum umr. hér í kvöld, að fara út í langar umr. um þetta, en ég hygg samt, að þessi hv. þm., sem hefur nú manna bezta aðstöðu til að kanna fjárhagsþróunina hjá ríkinu og orsakir hennar, hljóti í alvöru að gera sér grein fyrir því, að þessi kenning fær alls ekki staðizt nema að mjög litlu leyti. Það er auðvitað, að meginhlutinn af vandanum stafar frá þeim afleiðingum, frá þeirri skriðu, sem þessi verkföll hleyptu af stað, og sannast það bezt af því, hvaða afleiðingar hafa af þeim orðið,að það var talið nauðsynlegt hjá núv. hæstv. ríkisstj. að láta það vera eitt sinna fyrstu verka að stöðva eða koma í veg fyrir hluta þeirrar kauphækkunar, sem leitt hafði af samningum eftir þau verkföll, þannig að þar var auðvitað að finna mjög veigamikla játningu um það, hvað ríkisstj. taldi að þarna hefði alvarlegur hlutur gerzt, og ef hv. form. fjvn. lítur í grg. hæstv. fjmrh. fyrir síðasta fjárlagafrv. og ræður hans og útskýringar í því sambandi, þá hygg ég, að hann geti fengið glögga og skýra staðfestingu á þeim ummælum, sem ég hafði hér um það efni.

Varðandi svo það atriðið, að þeir skattar, sem nú hefðu verið lagðir á, þessar 250-300 millj., legðust ekki á alþýðuna, sem væri nýbreytni, þá er það kenning, sem er mjög haldið á lofti nú, og að þessa peninga sé hægt að taka, án þess að það helzt komi við nokkurn mann. Ég sé enga ástæðu til að fara að ræða það nánar við þessa umr. Það verður reynslan, sem bezt sker úr um það. En hitt held ég liggi í augum uppi og það muni hv. frsm. meiri hlutans hafa orðið var við við afgreiðslu fjárlaga og þær endurskoðanir, sem gerðar hafa verið af ríkisstofnunum, að ekki er líklegt, að þessar ráðstafanir, sem nú hafa verið gerðar, dragi sérstaklega úr verðbólguskriðunni, þannig að enn verði nú um skeið að hlaupa með vagninum, eins og þeir komast svo skáldlega að orði í sínu nál. Hvort þarf að grípa til enn róttækari og sársaukafyllri aðgerða, eins og einnig er nefnt í nál., skal ég ekkert um segja, því mun reynslan skera úr. Ef ætlunin er sú, að við samningu næstu fjárlaga verði búið að leysa verðbólguvandamálið, þá er það vissulega fagnaðar- og gleðiefni, en ég vil leyfa mér að láta í ljós nokkrar efasemdir um það, a.m.k. bendir sú byrjun, sem varð nú um áramótin, sannarlega ekki í þá átt.