18.02.1957
Sameinað þing: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

1. mál, fjárlög 1957

Jón Sigurðason:

Það er m.a. í tilefni af till. meiri hl. fjvn. um 600 þús. kr. viðbótarfjárveitingu til brúar á Norðurá í Skagafirði og brtt. minni hl. fjvn. um, að þessar 600 þús. kr. til Norðurárbrúar falli niður og í stað hennar komi Hjaltadalsá hjá Laufskálaholti með sömu fjárhæð, sem ég hef kvatt mér hljóðs til þess að gera grein þar fyrir atkvæði mínu.

Það hafa nokkrar deilur og hagsmunatogstreita verið um, hvar þessi brú ætti að standa, og hafa tveir staðir þar komið til álita, við svokallaðan Skeljungshöfða neðst í Norðurárdal og á svokölluðu Gvendarnesi 4 km innar í dalnum. Vegamálastjóri og verkfræðingar hans hafa lagt einróma til, að brúin yrði byggð inni í dalnum á Gvendarnesi. Færa þeir fyrir því þær ástæður, að þar falli áin í þrengslum, geti ekki haggazt úr þeim farvegi og botninn sé öruggur, hvað sem á gangi. Áætlar vegamálastjóri, að brú þar mundi kosta nú um 940 þús. kr. Til er geymslufé fyrri ára fjárveitingar til þessarar brúar, að upphæð um 920 þús. kr. Það er því til nú að kalla nægilegt fé til að byggja þessa brú á Norðurá í Gvendarnesi, eins og verkfræðingarnir hafa lagt til.

Um hitt brúarstæðið er það að segja, að brúnni undan Skeljungshöfða er ætlað að standa á viðáttumiklum eyrum, sem Norðurá fer yfir í stórflóðum og getur þá brotið sér farveg sitt á hvað. Árbotninn er þannig, að staurar verða ekki reknir niður til að tryggja undirstöðu brúarstöplanna, svo að ekki rífi undan þeim. Af þessu leiðir, að brúin verður í stöðugri hættu, að undan henni grafi og hún falli ofan í ána í stórflóðum, sem eru þarna tíð. Þetta er það, sem verkfræðingar og aðrir óttast. Við þetta bætist, að áætlað er, að brú á þessum stað kosti um 1 millj. og 700 þús. kr. eða nær helmingi meira en brúin í Gvendarnesi. Vegamálastjóri hefur því farið fram á 770 þús. kr. aukafjárveitingu, ef byggja eigi brúna hjá Skeljungshöfða, en meiri hl. fjvn. hefur tekið upp þar af aðeins 600 þús. kr. til brúarinnar. Eftirstöðvarnar, 170 þús. kr., eiga þá væntanlega að heimilast á fjáraukalögum á sínum tíma.

Brúnni á Norðurá, hvar sem hún verður staðsett, er ætlað að koma 8 heimilum sunnan árinnar í öruggt akvegasamband. Tvö þeirra óska mjög eftir, að brúin verði byggð í Gvendarnesi, en ábúendur hinna 6 jarðanna hafa flestir lagt mikla áherzlu á, að brúin yrði byggð undan Skeljungshöfða, ella yrðu þeir að fara 4 km leið inn í dalinn til að komast á brúna, þ.e. rúmlega 8 km krók, ef farið væri til Sauðárkróks.

Því miður verða margir að búa við það að taka á sig króka til að komast á brýr, og mun svo ávallt verða, því að engum kemur til hugar, að vatnsföll verði brúuð undan hverjum bæ. Hraðfara farartæki gera nú sitt til, að vegarlengdanna gætir litið eða þær gleymast að mestu. Undanfarið hafa bifreiðar verið á flestum þessum bæjum. Meðan svo er, mundi þessi krókur ekki valda miklum töfum.

Þetta brúarmál hefur því miður verið sótt meira af kappi en forsjá. T.d. var fyrir nokkrum árum safnað undirskriftum í nágrannasveitum undir áskorun um að byggja brúna á eyrunum undan Skeljungshöfða, áður en nokkrar botnrannsóknir höfðu farið fram eða endanlegar kostnaðaráætlanir lágu fyrir. Þá verður á það að líta í þessu sambandi, að samkv. brúalögum á að byggja brú á Héraðsvötnum nálægt Flatartungu, er tengir þessa bæi sunnan Norðurár við vegakerfið vestan Héraðsvatna til Sauðárkróks. Höfum við þm. Skagf. unnið að því. En með þessari brú og vegarkafla frá henni fá þessir 6 bæir nær 6 km styttri leið til Sauðárkróks en um veginn og brúna hjá Skeljungshöfða.

Loks má geta þess, að brú á Gvendarnesi í sambandi við fyrirhugaða brú á Héraðsvötnum hjá Flatartungu tryggir bezt öruggt vegasamband yfir Skagafjörð á leiðinni milli Suðurlands og héraðanna norðan Öxnadalsheiðar. Vísa ég um það til álits vegamálastjóra, sem hefur legið fyrir.

Þegar ég lít á þetta mál í heild og að mér finnst alveg hlutlaust, þá verða þrjú atriði þyngst á metunum. Í fyrsta lagi: Allir verkfræðingar vegamálastjórnarinnar eru sammála um að ráða frá því, að brúin sé byggð undan Skeljungshöfða. Það verður því gert algerlega á ábyrgð ríkisstj. og þeirra þm., sem knýja það fram. Í öðru lagi eru líkindi til, að það sé aðeins nokkurra ára tímaspursmál, að þessir 6 bæir fái styttri veg til Sauðárkróks en um brú hjá Skeljungshöfða, og að þeim peningum, sem færu í þá brú, væri,þess vegna betur varið til annars. Í þriðja lagi er áætlað, að ríkissjóður verði að leggja fram mer 800 þús. kr. til viðbótar, ef brúin verður byggð undan Skeljungshöfða. Fyrir þessa upphæð mætti byggja allstóra brú í Skagafirði eða 2–3 minni brýr. Ég gæti talið upp ekki allfáar brýr í Skagafirði, sem bændur bíða eftir með óþreyju, þar sem brúarleysið torveldar mjólkurflutninga og aðrar nauðsynlegar samgöngur, svo að jarðir haldist í byggð eða endurbyggist fyrir atbeina nýbýlastjórnar. Allar þessar brúarbyggingar verða að þokast aftur á bak, aftar í röðina um eitt eða fleiri ár, ef brúarfénu í Skagafirði í ár er að miklu leyti kastað í brúna undan Skeljungshöfða.

Hv. meiri hl. fjvn. virðist því miður ekki vorkenna þessum mönnum að búa við áframhaldandi brúarleysi og hvers konar vandræði, sem af því stafa. Í þess stað virðist áhugi meiri hl. beinast að því, að heimilisfólk á 6 bæjum losni við að taka á sig dálítinn krók til að komast á örugga brú, þar til hin brúin kemur, sem veitir þessu fólki stytztu akleið í kaupstað, sem það getur nokkru sinni átt kost á. Og til þess að spara því þennan bráðabirgðakrók á að verja nær 800 þús. kr. úr ríkissjóði og tefja með því byggingu aðkallandi brúa í héraðinu um lengri eða skemmri tíma. Ég ann þessu fólki alls góðs, en þetta tel ég of langt gengið. En hörmulegast væri þó, ef brúin stæði ekki og þetta fólk yrði svo brúarlaust eftir sem áður, eins og margir óttast.

Að endingu vil ég benda á, að telji þm., sem ég hef nokkra ástæðu til að ætla, að fyrrverandi samgmrh. hafi yfirsézt stórlega, er hann ákvað brúnni stað þvert ofan í eindregnar tillögur verkfræðinganna, þá er það skylda Alþ. að ógilda þann úrskurð með því að veita ekki fé til brúarinnar á þessum stað, svo að verra hljótist ekki af.

Með tilvísun til framangreindra aðstæðna mun ég greiða atkv. með till. minni hl. fjvn. um, að fjárveiting til Norðurárbrúar falli niður og í stað þess komi tilsvarandi fjárveiting til brúar á Hjaltadalsá undan Laufskálaholti, en samkomulag hefur verið um það, að Hjaltadalsárbrúin væri næst í röðinni af hinum stærri brúm í Skagafirði og löngu lofað af okkur þm. kjördæmisins. Þessi brú mun kosta álíka mikið og fé það, sem vegamálastjóri telur að vanti í brúna undan Skeljungshöfða. Brúin er aðkallandi vegna mjólkurflutninga og annarra samgangna, og bændur í Hjaltadal eru orðnir langþreyttir að bíða eftir henni.

Ég skal svo ekki ræða um þetta frekar. En ég á hér tili. ásamt samþingismanni mínum, sem er 1. flm. till., en þar sem hann er lasinn mjög og getur ekki mætt hér, þá vil ég segja um hana nokkur orð.

Till. er á þskj. 261,II. Við þm. Skagf. eigum þarna brtt., þar sem lagt er til, að 500 þús. kr. fjárveiting til Siglufjarðarvegarins ytri verði færð ofan í 300 þús. kr. og að 200 þús. kr., sem við það sparast, verði bætt við fjárveitingu til Siglufjarðarvegar, sem eru ætlaðar 210 þús. kr. í till. meiri hl. fjvn., svo að upphæðin til þessa vegar verði 410 þús. kr.

Þannig hagar til, að Siglufjarðarvegur nær frá Hofsósi út Höfðaströnd, um Sléttuhlíð og Fljót og um Siglufjarðarskarð til Siglufjarðar. Það er kominn góður upphleyptur vegur frá Hofsósi og alllangt út í Sléttuhlíðina að bæ, sem heitir Keldur og er utarlega í Sléttuhlíðinni. Þaðan að Haganesvík í Fljótum eru gamlir hestatroðningar, sem hafa verið ruddir og lagfærðir nokkuð, en verða ófærir strax í fyrstu snjóum. Bitnar þetta á þeim, sem þarna búa, og svo Siglfirðingum, sem leið eiga yfir skarðið. Siglufjarðarvegurinn ytri liggur aftur af Siglufjarðarvegi utan við Hraun, sem er yzti bær í Fljótum, og honum er ætlað að liggja með sjó fram langan veg og svo um jarðgöng gegnum fjallið til Siglufjarðar. Áætlað er, að þessi vegur kosti um 11 millj. kr., eftir því sem mér er sagt, og þar af jarðgöngin um 6 millj. kr. Allur þessi vegur liggur í óbyggð, eins og sakir standa, þar til hann kemst til Siglufjarðar. Þessi vegur kemur því engum að notum, fyrr en hann er kominn alla leið til Siglufjarðar.

Við þm. Skagf. erum því eindregið fylgjandi, að þessi vegur verði lagður. Teljum við það allmikið hagsmunamál fyrir Skagfirðinga eins og Siglfirðinga. Hitt getur svo engum dulizt, að hér er byrjað á öfugum enda, þegar lagt er stórfé í ytri Siglufjarðarveginn út undir Stráka, en ekki hirt um að leggja veginn um Fljót og Sléttuhlíð, sem ytri vegurinn á að tengjast við. Það yrði lítið gagn að slíkum vegi, ef hinn vegurinn, sem nefnist Siglufjarðarvegur, væri kolófær meiri hluta ársins. Þetta eru álíka vinnubrögð og ef vegurinn yfir Holtavörðuheiði hefði verið lagður, áður en akvegur var gerður frá Hvammi í Norðurárdal að Fornahvammi. Vitanlega datt engum manni slík vitleysa í hug.

Till. okkar þm. Skagf. er til þess að ráða nokkra bót á þessu, að það verði unnið meira í fremri veginum, svo að hann verði þó fullgerður, þegar nýi vegurinn til Siglufjarðar opnast og verður fær; annars komast þeir ekkert, þó að nýi vegurinn væri gerður, mikinn hluta ársins.

Við þm. Skagf. færðum það í tal við þm. Siglf., að hann gæfi samþykki sitt til þess, að vegamálastjóri mætti nota 200 þús. kr. af fjárveitingunni til Siglufjarðarvegar ytri til þess að þoka áfram veginum út í Fljót áleiðis til ytri vegarins, því að við höfum engan áhuga fyrir því að spilla fyrir þessum ytri vegi, þetta yrði lán eða geymslufé, sem yrði endurgreitt af framlagi til vegarins síðar, er ytri vegurinn þyrfti á því að halda. Þm. Siglf. tók þessu líklega, en við það hefur setið. Við ákváðum því að bera fram þessa till. okkar, sem ég nú hef gert grein fyrir, og vænti ég, að henni verði vel tekið.

Ég læt svo máli mínu lokið. Ég get raunar bætt einu hér við. Það var lýst hér skriflegri till. áðan um styrk til Norðurlandsbátsins eða bátsins, sem gengur frá Akureyri til Sauðárkróks. Ég vil fyrir hönd okkar þm. Skagf. geta þess, að það, að slíkur bátur gangi, er skilyrði fyrir því, að Siglfirðingar geti fengið mjólk frá Sauðárkróki, og vitanlega gildir það sama um, að þeir geti fengið mjólk frá Akureyri. Við erum samningum bundnir um það að láta Siglufirði í té ásamt Mjólkursamlagi Eyfirðinga þá mjólk, sem þeir þarfnast eða vanhagar um, en það er ekki með nokkru móti unnt, ef þessi bátur getur ekki gengið reglulega yfir vetrarmánuðina eða þangað til vegurinn til Siglufjarðar opnast, og geta allir séð, hve mikilsvert það er, fyrir utan alla þá mannflutninga, sem þarna eiga sér stað. Og þorpin austan fjarðarins, Haganesvík og Hofsós, eru að langmestu leyti með sína flutninga og samgöngur háð þessum báti eða því, að þessi bátur gangi.

Ég mæli þess vegna eindregið með, að þessi till. verði samþykkt.