18.02.1957
Sameinað þing: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

1. mál, fjárlög 1957

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hv. þm. Snæf. (SÁ), þm. Dal. (ÁB) og 10. landsk. þm. (PP) flytja ásamt mér brtt. á þskj. 260, þess efnis, að fjárveiting til að gera akfæran veg um Heydal á Snæfellsnesi verði hækkuð úr 150 þús. kr., eins og gert er ráð fyrir í brtt. fjvn., í 500 þús. kr., eða til vara í 350 þús. kr.

Svo sem þm. mun kunnugt, var Heydalsvegur tekinn í tölu þjóðvega á þinginu 1942-43 fyrir forgöngu þm. Snæf., sem þá var Gunnar Thoroddsen borgarstjóri. Ekkert hefur enn verið unnið að vegagerð á sjálfum Heydal, en undanfarin ár hefur lagningu vega að sjálfsögðu miðað áfram um Dalasýslu til Skógarstrandar í áttina að Heydal að norðan og enn fremur um Hnappadal að sunnan. Hefur þessi vegagerð leitt til þess, að nú eru menn farnir að eygja lokatakmarkið í þessu efni, sem er akfær þjóðbraut yfir fjallgarðinn milli Mýra- og Hnappadalssýslu að sunnan og Snæfellsnes- og Dalasýslu að vestan og norðan. Athuganir hafa margleitt í ljós, að þessi leið er að jafnaði miklu snjóminni en aðrar leiðir, sem völ er á milli héraða þar um slóðir. Gefur það auga leið, þar sem Heydalur er aðeins í 140–160 m hæð yfir sjávarmál, en nær hæst 180 m á örmjóum hjalla eða rifi. Kerlingarskarð er hins vegar 300 m yfir sjó og Brattabrekka er á 5 km kafla í 300–400 m hæð yfir sjávarmáli.

Þegar Heydalur var samþykktur sem þjóðvegur 1943, raunar með naumum meiri hluta, komst hv. 1. þm. N-M. (PZ) svo að orði, með leyfi hæstv. forseta, — en hann mun nú, hv. þm. N-M., vera sá þm., sem er einna gerkunnugastur staðháttum um allt land. Hann sagði:

„Með því að þetta er eina leiðin milli Vestur og Suðurlands, sem ég þekki, sem er venjulega snjólaus að vetrinum og þess vegna oftast fær, segi ég já.“

Samkvæmt upplýsingum vegamálastjóra eru nú ólagðir um 20 km á umræddri leið, og er áætlaður kostnaður röskar 2 millj. kr. — 500 þús. kr. fjárveiting nú mundi því marka verulegt spor í áttina.

Á þingi 1954 gerðu þm. Snæf., Dal. og Str. merka tilraun til að hrinda þessari vegagerð áleiðis. Ekki bar það þó árangur. Það var fyrst í fyrra, að tekin var á fjárlög 150 þús. kr. fjárveiting í þessu skyni fyrir atbeina þm. Dal. og Snæf.

Það er öllum ljóst, að víða er þörf á nýjum vegum. Fáar sýslur munu þó vera öllu verr settar en Dalasýsla að vetrarlagi, þegar snjóalög loka vegum að og frá héraðinu og ís leggur á Hvammsfjörð og Gilsfjörð, eins og stundum kemur fyrir, síðast í fyrravetur um tíma, þó að sá vetur væri mildur. En þar við bætist, að meira en helmingur Dalasýslu er nú í sárum atvinnulega séð vegna endurtekinna fjárskipta. Hafa bændum að sönnu verið veittar tilskildar bætur úr ríkissjóði samkv. fjárskiptalögum, en þeir, sem bezt þekkja til, vita þó, að tjón það og áföll, er þeir verða fyrir vegna fjárskiptanna, eru seint að fullu bætt.

Eins og bent hefur verið á á þessu þingi, m.a. í grg. með þáltill. hv. þm. Dal. (ÁB) um aðstoð til bænda vegna fjárskipta, er sauðfjárrækt svo að segja eina atvinnugrein bænda í Dalasýslu. En nautgriparækt er einnig framkvæmanleg í miklu stærri stíl en nú er og þar með mjólkursala. Málin standa nú þannig, að mjólkursamlagið í Borgarnesi mun vera reiðubúið að taka við mjólk úr Dalasýslu, en til þess að geta þegið þetta boð þurfa bændur að geta komið mjólkinni frá sér suður yfir fjallið til Borgarness.

Ég býst við því, eftir því sem mér hefur skilizt, að margir hv. alþm. sjái ýmis tormerki á því að greiða Dalabændum hærri fjárskipta- og sauðleysisbætur en nú er ákveðið í lögum. En ég vil benda á, að ýmislegt annað er hægt að gera, sem beint og óbeint getur styrkt bændur í þessu byggðarlagi í lífsbaráttu þeirra. Eitt af því er það, sem þessi till. fer fram á, að opna bændum leið til að auka fjölbreytni atvinnulífsins með því að hraða vegagerð, sem er skilyrði fyrir því, að þeir geti snúið sér að mjólkursölu jafnhliða sauðfjárbúskap.

Það má einnig nefna, að vegur um Heydal er ekki eingöngu til hagsbóta fyrir Breiðafjarðarbyggðir, heldur jafnframt fyrir meginhluta Vestur- og Norðurlands.

Ég treysti þingheimi til að viðurkenna þá sérstöðu, sem hér er um að ræða. Með því að samþ. aðaltill. okkar fjórmenninganna væri miklum áfanga náð í þessu mikla hagsmunamáli, sem hlýtur allra hluta vegna að verða framkvæmt á allra næstu árum.