18.02.1957
Sameinað þing: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

1. mál, fjárlög 1957

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það væri nú raunar dálítið freistandi að fara fáeinum orðum um þetta fjárlagafrv. almennt, en ég mun ekki gera það, heldur aðeins segja hér fáein orð um brtt., sem ég flyt á þskj. 260.

Það er kunnugt mál, að á undanförnum árum hafa verið teknir í þjóðvegatölu sýsluvegir eitthvað á þriðja þúsund kílómetrar. Þetta hefur verið gert vegna þess, að héruðin hafa ekki verið fær um að standa undir þeim mikla kostnaði, sem af vegaframkvæmdunum hefur leitt, og það hefur verið gert í trausti þess, að Alþingi eða fjárveitingavaldið yki framlög til vegabóta í hlutfalli við þá aukningu á þjóðvegum, sem þetta hefur í för með sér. En því miður hefur þetta brugðizt. Bæði s.l. ár og nú hefur það sýnt sig, að það er eins og vegabótamálin séu eitthvert sérstakt olnbogabarn ríkisstj. Svo langt er gengið varðandi það frv., sem hér liggur fyrir, að það á að lækka um 4 millj. till. um framlög til vegabóta frá því, sem var á síðustu fjárl., eins og þegar hefur verið bent á.

Hv. meiri hl. fjvn. lagfærir það nú að vísu, en þar með er ekki vei fyrir séð, vegna þess að reynslan sannar það og sýnir, að það er alltaf að verða minna og minna úr fénu á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum, og eins og þegar hefur verið upplýst af frsm. minni hl. fjvn., lítur vegamálstjóri svo á nú, að það, sem kostaði 100 þús. kr. árið 1956, muni á þessu ári kosta 120 þús. kr.

Ég skal geta þess, að í mínu héraði var í síðasta mánuði haldinn fjölmennur þingmálafundur og þar saman komnir menn af öllum flokkum. Þar var rætt mjög rækilega um samgöngumál innanhéraðs, og kom í ljós, að allir menn, sem þar voru mættir, af hvaða flokki sem þeir voru, voru sammála um tillögur í því sambandi, alveg eins þeir, sem eru stuðningsmenn stjórnarflokkanna, eins og mínir flokksmenn, og það var farið þar fram á m.a. að óska eftir sem lágmarki til vegaframkvæmda í mínu héraði 800 þús. kr. og mér eðlilega falið að koma þeirri kröfu áleiðis við ríkisstj. og Alþingi. Hef ég lagt hana fyrir hv. fjvn.

Nú er útkoman hins vegar sú, að í till. meiri hl. hv. fjvn. eru mínu héraði ætlaðar aðeins 500 þús. kr. til þessara framkvæmda á þessu ári. Það getur þess vegna engan undrað, þó að ég fari fram á nokkra hækkun á þessu fjárframlagi. Skiptingin, sem liggur fyrir í till. fjvn., er eftir till. vegamálastjóra, og ég vildi ekki fara að gera þar breytingar á, vegna þess sérstaklega, að í alla vegina er lögð til minni fjárhæð en þörfin krefur.

En ég flyt hér á þskj. 260 till. um nokkra fjárveitingu í tvo aðra vegi, sem ekki er neitt fé ætlað til í þessum till. fjvn., og er þar í fyrsta lagi Reykjabraut, sem er vegur, er liggur frá Húnvetningabraut rétt norðan Giljár og upp að Svínavatni, mjög þýðingarmikill vegur. Ég skal taka það fram, að ég hef ekki sótt um fjárveitingar í þennan veg undanfarin ár, vegna þess að það hefur verið unnið að því að byggja Svínadalsveginn, sem er áframhald af þessum vegi og er ætlað að tengja saman þessar byggðir.

Það má nú segja, að ef það væri eingöngu um innanhéraðssamgöngur að ræða, þá skipti ekki ákaflega miklu máli um þennan veg, enda þótt hann sé þeirra vegna einnig nauðsynlegur. En hér er um meira að tala, því að ef þessi vegur er lagður, þá mundi hann stytta leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um 15 km, því að þá yrði leiðin um fremri Blöndubrú. Það má þó í sjálfu sér segja, að það skipti ekki ákaflega miklu máli að sumrinu um 15 km leið, hvort hún er lengri eða skemmri á þessum þýðingarmikla þjóðvegi. En hitt skiptir miklu meira máli, að að vetrinum, þegar snjóalög eru og harðindi, þá er það iðulega, að þessi vegur mundi vera snjóléttur og alltaf fær, þó að Langadalsvegurinn væri ófær. Þess vegna er hér um þýðingarmikið mál að ræða, og þó að ég fari ekki hér fram á nema 50 þús. kr. fjárveitingu, þá er það, eins og menn skilja, aðeins byrjun.

Þá er annar vegur, sem ekki er neitt ætlað til í þessum till. hv. fjvn., og það er Norðurárdalsvegur, sem liggur upp frá Skagastrandarvegi um Norðurárdal og til Sauðárkróks. Sá vegur er þýðingarmikil samgönguleið, ekki einasta fyrir þann dal, sem er byggður dalur, heldur er hún og byrjun á lögðum vegi milli héraða, Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu. Ég fer einnig fram á, að í þennan veg verði lagðar fram 50 þús. kr.

Þá flyt ég í þriðja lagi brtt., sem er enn stærra mál en það, sem ég hef hér vikið að, og það er um Skagastrandarhöfn. Hv. fjvn. leggur til, að aðeins séu veittar 100 þús. kr. til þessarar hafnar. Ég fór fram á hálfa aðra milljón og sendi hv. n. áætlun frá vitamálastjórninni, sem að vísu var gerð s.l. sumar, um það, að sú viðgerð, sem þarna er óhjákvæmileg, kosti aldrei undir hálfri annarri milljón króna. Nú hefur sú breyting á orðið til hins verra. Í fyrsta lagi, að frá því að þessi áætlun var gerð, hefur kostnaðurinn við slík verk stórkostlega aukizt. Í öðru lagi hefur það óhapp skeð, að í ofviðrunum, sem geisuðu í s.l. mánuði, hafa orðið mjög alvarlegar bilanir á hafnargarðinum á Skagaströnd, sem ég hef engar áætlanir um, hvað muni kosta að gera við.

Ég vil í þessu sambandi algerlega mótmæla þeirri reglu, sem tekin hefur verið upp af fjvn., ekki nú í fyrsta sinn, heldur stundum áður, að miða framlögin til hafnargerða eingöngu við þær skuldir, sem ríkissjóður á ógreiddar til hafnargerðanna. Með því móti er farið inn á þá leið að veita þeim alltaf hæst, sem sterkasta hafa aðstöðuna, þeim stöðum, sem mesta möguleika hafa til þess að útvega sér lánsfé eða leggja fram fé sjálfir, og það verða auðvitað alltaf fjölmennustu kaupstaðirnir. Í þessu efni verður fyrst og fremst að líta á þörfina, og þó að alltaf geti veríð álitamál og sennilega aldrei samkomulag um, hvar þörfin sé mest varðandi nýbyggingar á hafnarumbótum, þá ættu þó allir hv. þm. að geta verið sammála um það, að á því er þörfin mest að sjá um það, að þau mannvirki á þessu sviði, sem búið er að gera, séu ekki látin drabbast niður, vegna þess að það fáist ekki fjárveitingar til þeirra, og það er það, sem hér er um að ræða á þessu sviði, þó að ég fari ekki fram á þarna nema 600 þúsund króna fjárveitingu, þá mundi það ekki nægja, því að það yrði að gera aðrar ráðstafanir til lánsútvegunar til björgunar því milljónafyrirtæki, sem þarna er búið að byggja.

Ég vil þess vegna mega vona, að hv. þm. skilji það, að hér er um svo mikið nauðsynjamál að ræða, að það má alls ekki lengur ganga fram hjá því að bæta þar úr. Ég skal játa, að það væri mikil þörf á því að fara fram á fjárveitingu til aukningar á höfninni þarna, en ég fer ekki fram á neitt slíkt, heldur aðeins fer ég fram á, að það sé veitt fé til þessa mannvirkis þannig, að því sé nokkurn veginn óhætt, og gert við þær skemmdir, sem orðið hafa, svo að það sé ekki í sífelldri hættu, sem það er og að mjög miklu leyti stafar af því, að það hafa ekki fengizt fjárveitingar til þess að fullgera þann garð, sem áður var búið að leggja.

Nú er það svo á þessum stað, að í raun og veru á ríkið mannvirkið, og ríkið á þarna fasteignir upp á marga tugi milljóna, svo að það er sannarlega ríkisins mál að sjá um, að það sé ekki haldið svo í fjárveitingar á þessu sviði, að það sé látið viðgangast, að mannvirki slíkt sem þetta sé látið drabbast niður, vegna þess að það fást ekki neinir peningar til þess að gera við það. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að á stöðum slíkum sem þessum, þar sem óhöppin hafa steðjað að hvert á fætur öðru, síldveiðibrestur og fiskveiðibrestur umfram það, sem áður var, þá eru ekki miklir möguleikar til þess að útvega sér lánsfé til þess að gera við það stóra mannvirki, sem þarna er um að ræða.

Ég skal geta þess hér, að það liggja líka fyrir beiðnir um verulega fjárveitingu til framhaldandi hafnarbóta á Blönduósi, en vegna vanrækslu frá vitamálastjóra hef ég ekki í höndum áætlun um þá viðbót, og þess vegna verð ég að geyma till. um það fram til 3. umr. og vona, að mér gefist tækifæri til þess að tala við hv. fjvn., áður en þar að kemur. Raunar komu hér nokkrir menn nú í vetur úr hreppsnefndinni á Blönduósi og töluðu um þetta þýðingarmikla mál við hv. fjvn. En það hefur ekki enn þá fengið áheyrn, og skal ég ekki um það fara fleiri orðum að svo stöddu, en vænti að geta náð samkomulagi við hv. n. fyrir 3. umr. um það atriði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þessar till. nú, og varðandi aðra vegi en þessa tvo fresta ég því að sjálfsögðu að bera fram brtt. um framlög til þeirra, þangað til séð verður, hvernig fer um brtt. hv. minni hl. fjvn. um framlög til vegabóta yfirleitt.