18.02.1957
Sameinað þing: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

1. mál, fjárlög 1957

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér örfáar og litlar brtt. við fjárlagafrv., ekki vegna þess, að það sé ekki margt fleira, sem ég teldi ástæðu til að fá hækkað í frv., heldur af því, að ég tel, eftir því sem fram hefur komið, að það sé ákaflega vonlítið að fá miklar hækkanir fram, eins og málum er nú komið.

Ég mun ekki gera fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir, að umræðuefni hér í kvöld, en ég kemst ekki hjá því að minna á, hvað hæstv. fjmrh. sagði hér í kvöld, þegar hann var að tala um stjórnarandstöðuna. Hann sagði, að við sjálfstæðismenn hefðum ekki annað til málanna að leggja en yfirboð, ómerkileg yfirboð, að mér skildist á hæstv. ráðh. Mér finnst þessi ummæli hæstv. ráðh. vera mjög ómakleg, vegna þess að engin ríkisstj. á Íslandi hefur haft eins sanngjarna stjórnarandstöðu og sú ríkisstj., sem nú situr. Við sjálfstæðismenn erum ekki með yfirboð við fjárlfrv., sem nú er verið að ræða hér í hv. Alþ., en við leyfum okkur hins vegar að flytja hér fáeinar brtt. og freista þess að leiðrétta að nokkru misræmi, sem ávallt hlýtur fram að koma hjá hv. fjvn., jafnvel þótt hún sé öll af vilja gerð.

Það frv., sem nú liggur hér fyrir til umr., er það hæsta, sem nokkru sinni hefur verið nefnt eða sézt hér í sölum Alþingis, og ég sagði við sessunaut minn í kvöld, að hæstv. fjmrh. ætlaði að verða á undan áætlun í því að hafa há fjárlög, því að nú sýnist mér, að þetta frv. muni verða um 800 millj. kr., fjárlögin fyrir árið 1957.

Ég mun hafa sagt hér á s.l. ári, að ef þessi hæstv. fjmrh. yrði fjmrh. næstu tvö ár, mundu fjárlögin ná því að verða einn milljarð, en ég sé ekki annað en að því takmarki verði náð á næsta ári, á árinu 1958, með sama áframhaldi. Fjárlögin virðast ætla að hækka um 150 millj. kr. að þessu sinni frá því, sem þau voru á árinu 1956, og ef sama hraða yrði haldið áfram fyrir næsta árs fjárlög, þá yrði ekki of mikið að hugsa sér, að þau fjárlög hækki um 200 millj. kr., og er það eðlileg afleiðing af því, sem hefur gerzt undanfarnar vikur og undanfarna mánuði. Þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, hljóta að verða þess valdandi, að dýrtíðin eykst með meiri hraða en nokkru sinni fyrr, og það er því sérstaklega vel að orði komizt hjá hv. meiri hl. fjvn., þegar hann talar um það, að hún sé í kapphlaupi við dýrtíðarvagninn. Sannarlega er hv. meiri hl. og hæstv. ríkisstj. í kapphlaupi við dýrtíðarvagninn, og ég sé ekki annað en að hún hafi komizt langt fram úr og að nú sé meiri hraði á dýrtíðinni og verður næstu vikur heldur en nokkurn tíma hefur áður verið. Það er raunaleg staðreynd, sem hér er um að ræða, og það er staðreynd, sem mun leiða til ófarnaðar fyrir íslenzka þjóð. Það hefði sannarlega verið gott, ef það hefði tekizt, sem lofað var, að stöðva dýrtíðina og skapa meira öryggi og festu í fjárhagskerfinu heldur en verið hefur, en það er skaði, að nú virðist vera meira los og ringulreið í þessum efnum en nokkru sinni hefur áður verið.

Þegar ég settist niður í dag til þess að skrifa brtt., þá lá við, að ég hætti við það vegna þess, hvernig fjármálunum er komið, hvað fjárlögin eru há, en þær till., sem ég flyt hér, eru svo veigalitlar, að þótt þær verði samþ., þá hafa þær ekki nein teljandi áhrif á útgjaldahlið fjárl. Ég flyt þessar till. einn varðandi mitt kjördæmi, ekki vegna þess, að samþingismaður minn sé þeim ekki samþykkur, heldur vegna þess, að hann telur sig vera bundinn af því samkomulagi, sem meiri hl. fjvn. gerði. En vegna þess samkomulags, sem búið er að gera, og af því að ég veit, að það er vonlaust að fá þetta hækkað, hef ég ekki flutt neina brtt. í sambandi við vegamálin í sýslunni.

Ég hef hins vegar leyft mér að flytja till. um brú á Svaðbælisá í Austur-Eyjafjallahreppi, og það er vegna þess, að fyrir 2 árum var farvegi Svaðbælisár breytt. Það var grafinn skurður úr farvegi árinnar og henni veitt austar og grafið yfir sýsluveg, og er sá sýsluvegur ófær núna, vegna þess að enn vantar brú á skurðinn. Lausleg áætlun er, að þessi brú muni kosta 100 þús. kr., og hef ég gert till. um á þskj. 260, að þessar 100 þús. kr. verði veittar á þessa árs fjárlögum, og ef það telst ekki fært, þá til vara 50 þús. kr., og býst ég við, að við gætum með einhverjum ráðum látið byggja brúna í sumar, þótt ekki fengjust nema 50 þús. kr., með því þá að taka það, sem á vantar, að láni og eiga það á hættu, hvort fjárframlag fæst á fjárl. 1958.

Þegar tekið er tillit til þess, að fjárveiting til brúa í Rangárvallasýslu samkvæmt till. fjvn. er aðeins 100 þús. kr., þá veit ég, að hv. fjvn. öll í sameiningu, þegar hún hefur athugað þessi mál, getur fallizt a.m.k. á varatill. um brú á Svaðbælisá á þskj. 260. Veit ég, að samþingismaður minn, Sveinbjörn Högnason, mun freista þess í fjvn. að fá a.m.k. varatill. samþykkta.

Þá hef ég leyft mér að flytja till. á sama þskj. um byggðasafn Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga í Skógum, að liðurinn hækki úr 5 þús. í 15 þús. kr. Þetta byggðasafn var stofnað fyrir 3 árum, og þessi styrkur, sem nú er í frv., sama upphæð sem var á fjárl. fyrir árið 1956, var veittur sem byggingarstyrkur yfir skipið Pétursey, sem flutt hefur verið að Skógum og er geymt sem minjagripur og sýnishorn af hinum gömlu róðrarskipum, sem notuð voru víða við land í gamla daga. Þetta er nú ekki há upphæð, og veit ég, að hv. fjvn. mun geta fallizt á þetta.

Ég býst við, að ég taki þessar till. aftur til 3. umr. og gefi fjvn. þannig tækifæri til þess að fjalla um þær fyrir 3. umr.

Þá er það landþurrkun í Vestur-Landeyjum. Á frv. eru 40 þús. kr., en ég legg til, að í staðinn fyrir 40 þús. verði veittar 60 þús. Þetta er mikið fyrirtæki, þessi landþurrkun, það hafa verið 20 þús. kr. á undanförnum fjárl. og hefur núna verið hækkað upp í 40 þús. Það er verið að koma þessu verki áfram, það er allt í skuldum, miklar vaxtagreiðslur fyrir hreppsfélagið og erfitt að standa undir þessu fyrirtæki með svona lágum fjárveitingum. Ég stilli sannarlega kröfum mínum í hóf, þegar ég legg til að hækka þennan lið aðeins um 20 þús. kr., og það getur enginn sagt, að hér sé um yfirboð eða ósanngirni að ræða. Hér er aðeins farið eins vægt í sakirnar og unnt er, þegar litið er á þarfirnar, sem hér er um að ræða.

Þá er styrkur til skólpræsagerðar á Hvolsvelli.

Þetta fyrirtæki er mjög dýrt, það mun kosta á fjórða hundrað þús. kr. Þetta er lítið þorp, sem þarna er um að ræða, og oddvitinn í hreppnum hefur skrifað okkur þm. og talað við okkur og tjáð okkur, að það væri hreppsfélaginu ofviða að standa undir þessu.

Eins og kunnugt er, liggur fyrir þessu hv. Alþ. frv. um skólpræsagerð. Það eru reyndar 5 ár síðan þetta frv. var fyrst flutt, en það hefur aldrei fengizt samkomulag um að lögfesta þetta frv., sem fer þó ekki fram á annað en það, að skólpræsagerð njóti sama styrks og vatnsveitur. Það er þó engum vafa bundið, að það er ekki síður nauðsynlegt að leiða skólp frá þorpum eða kauptúnum en að hafa gott vatn. Hvort tveggja er vitanlega nauðsynlegt, en af heilbrigðisástæðum mun þó skólpið vera enn nauðsynlegra en vatnsveita, því að með einhverjum ráðum er kannske hægt að afla sér vatns, enda þótt ekki sé góð vatnsveita til staðarins. Við skulum nú vona, að það Alþ., sem nú situr, verði til þess að lögfesta þetta frv., sem fyrir þinginu liggur. En þá vil ég segja, að ef styrkur væri veittur á þessa árs fjárl. til þessa fyrirtækis, sem hér um ræðir, þá er ekkert auðveldara en að draga hann frá þeim styrk, sem fyrirtækinu bæri, eftir að lögin hefðu verið samþykkt.

Það er þess vegna ekki forsenda að vísa þessari till. frá, vegna þess að það sé von á l. um skólpveitur. Jafnvel þótt svo væri, að það frv., sem fyrir þinginu liggur, yrði lögfest nú, þá er ekkert síður ástæða til þess að veita styrk til þessa fyrirtækis nú strax, og mætti svo síðan draga hann frá, þegar að því kæmi að veita styrk samkvæmt lögunum.

Hv. 1. þm. Skagf. er fjarstaddur í kvöld, vegna þess að hann er veikur, en ég hef hér flutt till. ásamt honum og hv. 8. landsk. þm. um styrk til hrossaræktarbúsins í Kirkjubæ á Rangárvöllum. Það er vitað mál, að þar er rekið myndarlegt hrossaræktarbú og það er kostnaðarsamt og ekki arðvænlegt beinlínis. En þeir, sem þekkja til hrossaræktar og kunna að meta íslenzka hestinn, telja það mikils virði, að rekið sé bú eins og þetta, og hv. 1. þm. Skagf. ásamt mér og hv. 8. landsk. þm. höfum leyft okkur að flytja till. um, að þetta bú fái styrk að upphæð 37 þús. kr. til að standa undir þeim halla, sem er af rekstri þessa bús, að sjálfsögðu miklu meiri en þetta.

Ég hef nú lýst þeim brtt., sem ég flyt. Og eins og ég sagði í upphafi, þá eru þær mjög hóflegar, og það er augljóst, að hér er ekki um neinar yfirboðstill. að ræða. Þær eru fluttar vegna þess, að það er nauðsynlegt að taka tillit til þeirra mála, sem þessar till. snerta, og ég geri ráð fyrir því, að ég taki þær flestar eða allar aftur til 3. umr., svo að hv. fjvn. fái tækifæri til að fjalla um þær, og ég treysti svo á sanngirni hv. fjvn., að hún fallist á þessar till., þegar hún hefur haft tækifæri til þess að kynna sér málin.