19.02.1957
Sameinað þing: 35. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

1. mál, fjárlög 1957

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ásamt hv. 6. landsk. þm. (GJóh.) og hv. 8. landsk. þm. (BjörnJ) hef ég leyft mér að flytja hér brtt. víð 22. gr. fjárlaga.

Till. fjallar um heimild ríkisstj. til að taka 25 millj. kr. lán til hafnargerða, þar af verði 10 millj. kr. varið til að greiða áfallin framlög, en 15 millj. kr. verði endurlánaðar bæjar- og sveitarfélögum skv. nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Í þessari till. felst viðurkenning á þeirri nauðsyn, að gert sé átak í hafnarmálum, og enn fremur er hún viðurkenning á því, að bæjar- og sveitarfélög geta ekki unnið svo að þessum málum sem nauðsyn ber til, án þess að lántaka komi til og ríkið aðstoði við útvegun lánanna. Í flestum byggðarlögum við sjávarsíðuna eru hafnarmálin þau mál, sem mest aðkallandi er að leysa, þótt margt annað kalli að á hverjum stað, þar sem afkoma fólks á þessum stöðum byggist á því, að unnt sé að stunda sjóinn. Auk þess eru samgöngur og flutningar nauðsynja víða háðir hafnarskilyrðum öðru fremur.

Á flestum stöðum eru hafnarmálin á því stigi, að framkvæmdum er þokað áfram á óhæfilega löngum tíma, og sums staðar er ekkert eða sama og ekkert gert árum saman.

Sem dæmi um aðkallandi framkvæmdir skal ég nefna hér nokkrar hafnir á Norðurlandi, og er þar fyrst að nefna Raufarhöfn. Þar er full nauðsyn á að byggja hafskipabryggju, svo að tvö skip geti samtímis legið þar. Á Húsavík þarf að lengja hafnargarð um 100 metra og byggja þar bátakví einnig. Á Drangsnesi þarf að lengja bryggju um 30 metra. Á Hólmavík þarf að endurbyggja hafnarbryggju með járnþili og steinkerum. Á Hofsósi þarf að lengja hafnargarðana um 30 meira, til þess að togarar geti komið þar að landi. Á Dalvík vantar bátakví í höfnina, svo að togarar geti komið þar í öllum veðrum og bátar geti verið þar að vetri til. Á Ólafsfirði þarf að styrkja hafnargarðinn og lengja bátabryggju um 30–40 metra. Á Sauðárkróki þarf viðbætur við hafnarmannvirki og loka höfninni og fyrirbyggja sandburð, sem þar á sér stað. Á Haugsnesi þarf að byggja hafnarbryggju. Á Akureyri þarf að fullgera togarabryggju og byggja dráttarbraut, eins og áður hefur verið getið hér. Um Hafnarfjörð sérstaklega skal ég geta þess, að önnur hafskipabryggjan þar er 40 ára gömul og hin er milli 20 og 30 ára, báðar að falli komnar, og getur borið upp á hvenær sem er, að þessar bryggjur hverfi, og þá horfir til stórkostlegra vandræða um skipin þar.

En svo sem fjárhag flestra bæjarfélaga er nú komið, má segja að í raun og veru sé nærri vonlaust, að þau geti án lántöku unnið að nokkrum hafnarframkvæmdum fram yfir það að nota þau litlu framlög, sem ríkissjóður greiðir þeim, sem eiga inni hjá ríkissjóði.

Í þeim þorpum og bæjum úti á landi, sem hafa búið og búa enn við ótryggt atvinnulíf og stundum atvinnuleysi, er geta sveitasjóðanna til að leggja fram fé til hafnarframkvæmda afar takmörkuð og nánast engin. Og hér á suðvesturhluta landsins, þar sem atvinna hefur verið nóg og menn skyldu halda að getan væri meiri, hefur hið öra aðstreymi fólks valdið því, að bæirnir eiga nóg með að sjá um lagningu vega, holræsa og vatnsæða í nýjum hverfum, sem upp rísa, auk þess að byggja skóla og önnur mannvirki, sem fólksfjölgunin krefst. Og er þá ótalið eitt stærsta hlutverk, sem þessi bæjarfélög þurfa að leysa af hendi, en það er að sjá um, að fyrir hendi séu atvinnutæki til þess að skapa þessu fólki atvinnuöryggi. Þegar svo bætast á bæina auknar álögur vegna ýmissa lagasetninga, og er þar skemmst að minnast ákvæðanna um greiðslu bæjarfélaga til atvinnuleysistrygginga, án þess að nýir tekjustofnar komi til, minnka enn líkurnar til þess, að bæirnir geti haldið uppi nokkrum hafnarframkvæmdum.

Það er í rauninni ekki nóg sagt, þegar hér er minnzt á, að bæirnir fái ekki nýja tekjustofna til að mæta auknum álögum, heldur hafa útgerðarbæirnir á síðari árum misst helztu tekjustofna sína, og skal ég nefna sem dæmi, að í forvitnisskyni athugaði ég eitt sinn skattagreiðslur togarafélaga til bæjarsjóðs Hafnarfjarðar árið 1945 og 1954, og kom þá í ljós, að árið 1946 greiddu 8 togarafélög 43.9% af öllum gjöldum bæjarsjóðs á því ári, en 1954 greiddu 7 togarafélög — eitt þeirra fluttist burt úr bænum á tímabilinu — 1.7% af bæjargjöldum það ár, þ.e.a.s. árið 1945 greiddu aðrir gjaldendur og þá fyrst og fremst einstaklingar 56.1% bæjargjalda, en árið 1954 98.3%. Einustu leiðir bæjarfélaganna til tekjuöflunar eru því orðnar þær að seilast dýpra í vasa hinna almennu gjaldenda eftir útsvörum, en öllu dýpra verður ekki komizt, ekki sízt þar sem þar eru aðrar bendur fyrir, skattheimtumanna ríkissjóðs, og þær hafa seilzt æ dýpra með hverju ári.

Bæjarfélögin flest skulda stórar upphæðir til almannatrygginga, sjúkrasamlaga, byggingarsjóða, að ekki sé talað um atvinnuleysistryggingar, sem fæst bæjarfélög munu hafa getað sinnt í neinu. Sér því hver maður, hve fráleitt er að ætla bæjarfélögunum að vinna að hafnarframkvæmdum, án þess að lán komi til. Það er of mikils krafizt að ætla því fólki, sem ekki hefur efni á því að byggja íbúð yfir sjálft síg, að greiða með útsvörum frá ári til árs byggingu hafnargarða og annarra stórmannvirkja, sem ætlað er að standa um óratíma. Til þeirra framkvæmda verður að koma lánsfé. En reynslan er sú, að bæjar- og sveitarfélög eiga ekki þann aðgang að lánastofnunum, að þau geti sjálf útvegað þau lán, sem til þarf. Þess vegna er með brtt. þeirri, sem hér liggur fyrir, lagt til, að ríkinu sé heimilað að taka allt að 25 millj. kr. lán til þessara framkvæmda til að greiða fyrir bæjunum. Treysti ég því, að hv. þm. skilji nauðsyn þessa og ljái till. fylgi sitt, og læt ég útrætt um þessa till.

Þá hef ég flutt till. um tvo nýja liði á fjárlögum.

Í fyrsta lagi, að 50 þús. kr. verði veittar til verkakvennafélagsins Framtíðarinnar í Hafnarfirði til byggingar dagheimilis. Verkakvennafélagið hefur allt frá því árið 1933 unnið hið mesta menningarstarf með rekstri dagheimilis í Hafnarfirði. Upphaflega reistu verkakonur dagheimilið til þess að geta tekið við börnum, á meðan mæður þeirra voru við fiskvinnu á reitum. En starfið hefur sífellt verið aukið, og hafa félagskonur einnig séð um leikskóla að vetrum, og nú standa þær í þeim stórræðum að stækka dagheimilið að miklum mun frá því, sem það var 1933, og er sú bygging komin undir þak.

Félagskonur hafa jafnan unnið starf sitt án launa og við þröngan fjárhag, en treysta á dugnað sinn og skilning og velvilja annarra.

Á fjárlögum nú eru ætlaðar 50 þús. kr. til barnaheimilis Vorboðans, og teldi ég sanngjarnt og eðlilegt, að verkakonur í Hafnarfirði fengju jafnháa upphæð í byggingarstyrk.

Í öðru lagi hef ég flutt till. um, að veittar verði 25 þús. kr. til Hellisgerðis í Hafnarfirði. Hellisgerði er einn af fegurstu og sérkennilegustu stöðum landsins, og koma fáir menn erlendir svo til Reykjavíkur, að þeim sé ekki sýnt Hellisgerði.

Málfundafélagið Magni hefur í hyggju að stækka gerðið allverulega á næstunni, en hefur lítið fjárhagslegt bolmagn til þeirra hluta, og teldi ég eðlilegt, að ríkið styrkti félagið til framkvæmdanna með þessari upphæð, sem áður er nefnd.

Þá hef ég ásamt hv. 6. landsk. þm. flutt till. um, að styrkir til leikfélaga utan Reykjavíkur og Akureyrar verði hækkaðir í 10 þús. kr., og er það nánast gert til samræmis við framlög til lúðrasveita á sömu stöðum. Telja verður, að fjárhagsafkoma leikfélaganna sé ekki betri en lúðrasveitanna, og auk þess hefur Leikfélag Reykjavíkur fengið hækkaðan styrk og því sanngjarnt, að þau félög, sem við verri aðstæður búa, fái einnig lítils háttar hækkun.