25.02.1957
Sameinað þing: 38. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

1. mál, fjárlög 1957

Fram. meiri hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Fyrir þessa umr. hefur fjvn. sameiginlega gert rúml. 90 brtt. eða breytingartillögur í rúml. 90 liðum, og auk þess hefur meiri hl. n. gert till. um breytingar á tekjuáætlun frumvarpsins. Meiri hl. n. hefur gefið út varðandi þessi atriði sérstakt nál., sem því miður hefur ekki enn þá komið til útbýtingar, en er í prentun. Eru þar skýrðar nokkuð ástæður fyrir einstökum útgjaldaliðum svo og gerð nokkur athugun á frv. sem slíku, og fá hv. alþm. væntanlega í dag í hendurnar þetta nál., en þar er gerð nokkuð nákvæm sundurliðun á því, hvað það er, sem gerist með breytingum þeim, sem lagðar eru til við frv., ef þær verða samþykktar.

Ég vil þá fyrst gera nokkra grein fyrir þeim brtt., sem hefur verið útbýtt á þskj. 285 frá meiri hl. fjvn. varðandi tekjuhlið frv.

Þar er í fyrsta lagi lagt til, að tekju- og eignarskatturinn lækki úr 116 millj. kr., sem frv. gerir ráð fyrir, í 111 millj. Þessi lækkun stafar af því, að láglannafólki og fiskimönnum hefur verið heitið nokkrum skattfríðindum og Alþ. hefur einmitt til meðferðar um þessar mundir stjfrv. um þessi efni, og ef til samþykktar kemur á því frv., sem líklegt verður að telja, þá mun það hafa tekjurýrnun fyrir ríkissjóð í för með sér, að því er ætla má um nálægt 5 millj. kr.

Inn í 2. gr. frv. er till. um, að bætt verði nýjum lið, tekjum skv. lögum um útflutningssjóð o.fl. Tekjur þess sjóðs hafa verið áætlaðar um 540 millj., og ríkissjóðshluti á skv. lögunum að vera 20% af tekjum þess sjóðs, og því er hér gerð till. um, að upp verði tekinn nýr tekjuliður í frv. þessu samkvæmt upp á 108 millj.

Söluskatturinn í smásölu hefur verið lagður niður, og er áætlað, að sú niðurfelling nemi um 25 millj. kr. í tekjumissi, fyrir ríkissjóð, þannig að till. er gerð um, að tekjur af söluskatti verði lækkaðar í áætlun frv. úr 135 milljónum í 110 milljónir.

Það hafa nýlega farið fram verðbreytingar hjá einkasölum ríkisins á áfengi og tóbaki, þannig að gera má ráð fyrir auknum tekjum ríkisins af þessum stofnunum, og er hér gerð till. um, að tekjur af áfengisverzlun ríkisins hækki um 9 millj., en tekjur af tóbakseinkasölunni um 6 millj. kr. — Samtals er hér því um að ræða á þessum lið hækkanir umfram lækkanir, sem nema 93 millj. kr.

Það skal tekið fram, að auk þessara tillagna varðandi tekjur eru nýjar till. nm hækkun á tekjuáætlun hjá pósti og síma. Það er gert ráð fyrir, að þessi fyrirtæki, pósturinn og landssíminn, taki upp nýjar gjaldskrár, sem hækki tekjur þessara stofnana. Síðan er gert ráð fyrir því, að pósturinn hafi samt sem áður nokkurn rekstrarhalla, eða sem nemur 370 þús., en sjái að öðru leyti sjálfur fyrir tekjuþörf sinni. Gert er ráð fyrir, að síminn hafi rekstrarafgang á sínum rekstrarreikningi, svo að nemi 61/2 millj., og hafi hann þá það fé til umráða í fjárfestingu sína, en hún er áætluð nokkuð yfir 10 millj. kr., svo að það, sem á ríkissjóð kæmi að greiða af fjárfestingu landssímans á þessu ári, yrði tæpar 4 millj. kr.

Þá er hér till. um breytingu á áætluðum afnotagjöldum ríkisútvarpsins. Í frv. er reiknað með, að gjaldendur afnotagjalda hjá ríkisútvarpinu verði 39 þús. talsins. Upplýsingar liggja fyrir um það, að á árinn 1955 náði tala útvarpsgjaldenda 40 þús. og heldur meiru þó, og fer tala útvarpsnotenda yfirleitt vaxandi. Hefur því þótt hlýða að gera þá brtt. við frv. að reikna með 41 þús. afnotagjöldum útvarpinn til handa, og er tekjuáætlun þess því hækkuð um 400 þús. kr. En þetta hefur engin áhrif á aðra liði fjárlaganna, því að það fé, sem þannig er áætlað í tekjuauka, er útvarpinu ætlað að fá sem aukið rekstrarfé.

Þá er uppi leiðréttingartillaga varðandi hegningarhúsið í Reykjavík. Sú till. er um það að leiðrétta vanreiknað næturvinnuálag fangavarðanna, og er till. um að breyta þeirri upphæð úr 16 þús. kr. í 43 þús. kr.

Síldarmat ríkisins er nú á nokkrum tímamótum. Það liggur fyrir að gera á því nokkrar breytingar, þannig að síldarframleiðendur sjálfir greiði tímakaup síldarmatsmanna, svo sem aðrir fiskframleiðendur greiða matsmönnum hjá sér. En hingað til hefur verið sá háttur á, að síldarsaltendur hafa einungis goldið ákveðið gjald, eina krónu af hverri tunnu, sem hvergi nærri hefur hrokkið fyrir matskostnaði, enda hefur þetta gjald staðið í stað árum saman, þótt verðbreytingar í landinu hafi, svo sem allir vita, orðið miklar. Af þessum sökum eru hér gerðar brtt. varðandi síldarmatið um, að niður falli liður frv. um tímakaup matsmanna, en að hækkaður verði annar kostnaður síldarmatsins. Samtals verka þessar tvær till., ef samþykktar verða, til sparnaðar hjá síldarmatinn um 76 þús. kr.

Þá eru till. varðandi rekstur ríkisspítalanna. Þeir áætlunarliðir, sem í frv. standa, hafa verið endurskoðaðir, bæði með tilliti til þeirra verðbreytinga, sem stafa af lögum um útflutningssjóð, og til nokkurrar leiðréttingar að öðru leyti, og eru hér allmargar hækkunartillögur um rekstrarkostnaðarliði ríkisspítalanna. Samtals nema þær hækkanir 951 millj. kr. eða rúmlega það.

Vegagerð ríkisins hafði láðst að reikna með í útgjöldum sínum gjald sitt til atvinnuleysistrygginganna, og er till. um, að vegagerðinni verði veitt sérstök fjárveiting fyrir því, 140 þús. krónur.

Þá eru varðandi hafnargerðirnar tvær brtt. Önnur er sú, að framlag til Blönduóshafnar verði hækkað um 50 þús. kr., en hin um, að til hafnar á Bakkagerði verði lagðar 50 þús. kr. Báðar þessar till. eru byggðar á upplýsingum, sem fjvn. bárust, eftir að hún hafði gengið frá öðrum hafnartillögum sínum.

Þá er ekki minnst um það vert, að nokkurt nýmæli er tekið upp í brtt., varðandi hafnarmálin, en það er fjárveiting til dráttarbrautar fyrir togara á Akureyri, 200 þús. kr. Það þykir vera hin mesta nauðsyn, að víðar en á einum stað á landinu sé möguleiki til þess að taka upp til viðgerða og botnhreinsana togveiðiskipin, sem nú eru algeng og stendur til að fjölga. Þykir því hlýða, að stuðlað verði að því, að komið verði upp Norðanlands dráttarbraut, sem geti tekið upp togara.

Þá er einn lítill liður varðandi lendingarbætur, sem upp hefur verið tekinn í brtt. Það er 5 þús. kr. fjárveiting vegna lendingarbóta á Skógasandi. Þar hafði Jökulsá á Sólheimasandi flætt í gamla lendingarvör, sem þeir Eyfellingar nota þó ekki mjög, en ber við, að þeir nota til útróðra, og þurfti að grafa upp í Jökulsárósnum til að varðveita þessa gömlu lendingarvör.

Þá er lagt til, að álag vegna afhendingar kirkna verði hækkað um 100 þús. kr. Það er stefnt að því, að sem viðast verði söfnuðirnir sjálfir eigendur kirkna sinna og að þær kirkjur, sem enn eru í eigu ríkisins, flytjist í eigu safnaða. En til þess að greiða fyrir því, að svo geti orðið, þarf ríkið að greiða í sumum tilfellum nokkurt fé til þess að geta skilað þessum húsum í því standi, sem söfnuðunum þykir viðhlítandi.

Þá er lagt til, að styrkur til verzlunarskólans verði hækkaður um 100 þús. kr., úr 300 þús. í 400 þús. Skólakostnaður í landinu hefur almennt hækkað mjög á síðustu tímum, og hefur þótt hlýða að verða við óskum skólanefndar verzlunarskólans að nokkru, og er það gert í þessari tillögu.

Þá er ein till. varðandi hlutdeild ríkisins í íþróttahúsi. Það er til íþróttahúss á Seyðisfirði, 100 þús. kr. Það er sérstætt við þessa fjárveitingu, að hér er ekki um venjulegt íþróttahús að ræða, heldur er um það að ræða að byggja sérstakt gólf yfir sundlaugina í sundhöll á þessum stað, svo að nota megi þetta hús til íþróttaiðkana á vetrum, en sundhöllin er einungis rekin yfir sumarmánuðina. Hér er því um fróðlega tilraun að ræða, sem máske gæti víðar sparað byggingarkostnað íþróttahúsa, ef vel tækist.

Till. er um, að færeyskum fræðimanni verði veittur styrkur til þess að flytja hér erindi eða fyrirlestra um þjóðlíf og sögu og bókmenntir sinnar þjóðar. Færeyingar eru, svo sem allir kannast við, að verða stöðugt meiri þátttakendur í íslenzku atvinnulífi, og eykur það enn á þá sanngirniskröfu, sem verið hefur uppi, m.a. hér á Alþ. á undanförnum þingum, að þessari bræðraþjóð okkar verði meiri gaumur gefinn og hún betur kynnt Íslendingum en verið hefur fram til þessa.

Þá er lagt til, að framlag til þess að greiða niður byggingarskuldir stúdentagarðanna verði hækkað úr 50 þús. kr. í 100 þús. kr.

Þá eru till. um það, að á 15. gr. fjárlaga verði teknir upp nokkrir nýir menn, en á þeirri gr. er veittur styrkur til vísinda, lista og menningarlegrar starfsemi. Er þar um að ræða styrk til Valgerðar fyrrum húsmóður á Kolviðarhóli og hækkun á styrkjum til þeirra Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi og Þórarins Jónssonar, sem áður voru þarna með nokkra styrki.

Ég verð að áskilja n. rétt til þess að athuga, hvort alveg er rétt frá greint hér í till. meiri hl. n. Mér skilst, að hér muni vanta inn till. varðandi 15. gr., og kemur það til athugunar síðar.

Þá er lagt til, að almennt verði styrkur til leikfélaganna hækkaður nokkuð. Flest leikfélögin, sem styrk höfðu á 15. gr. fjárlaga, höfðu 5 þús. kr. styrk. Það er yfirleitt lagt til, að sá styrkur verði hækkaður í 8 þús. kr., en hjá Leikfélagi Akureyrar úr 25 þús. í 30 þús. Þess skal getið, að í fyrri till. n., sem nú hafa verið samþ., var gert ráð fyrir hækkun á styrk til Leikfélags Reykjavíkur, 20 þús. kr.

Þá hefur samkvæmt tilmælum, sem n. bárust frá mönnum í menntamálaráði, verið lagt til að breyta orðalagi á þeim lið, þar sem ákveðinn var styrkur til söngnáms erlendis, þannig að framvegis geti þar verið um að ræða styrk til söng og tónlistarnáms.

Það skal tekið fram, að það, sem ég minntist á, að líklegt væri, að ekki væri með öllu rétt hér í till. n., reynist raunar koma fram síðar í brtt. Þar er um að ræða nýjan styrk til Friðriks Friðrikssonar æskulýðsleiðtoga, sérstök heiðursverðlaun, 15 þús. kr.

Þá er lagt til, að vegna minnismerkis, sem Rangæingar eru að reisa í Hlíðarendakoti til minningar um Þorstein Erlingsson, verði veittar 10 þús. kr. Er þar um að ræða höggmynd, sem gerð er af Nínu Sæmundsson.

Einnig er gert ráð fyrir því, að tekin verði upp svolítil fjárveiting til minnismerkis á klausturgrunninum, þar sem stóð munkaklaustrið í Þykkvabæ í Veri, 5 þús. kr.

Það hefur þurft að leiðrétta örlítið einn lið varðandi veðurstofuna. Það er endurgreiðsla vegna flugveðurþjónustu, og er till. um það eingöngu til leiðréttingar.

Á 16. gr. eru gerðar nokkrar brtt. Er sú fyrst, að lagt er til, að vélasjóður fái 350 þús. kr. styrk til greiðslu skuldar, sem hann er í miklum vandræðum með, vegna kaupa á skurðgröfum.

Þá er lagt til í þrem liðum, að vegna landbúnaðarframkvæmda, nýbýla og aukinnar ræktunar verði veittar samtals 8 millj. kr., þ.e., að styrkurinn til ræktunar á nýbýlum verði hækkaður úr 21/2 millj. í 5 millj., að til íbúðarhúsa á nýbýlum verði veittur 11/2 millj. kr. styrkur og að inn á fjárlög komi nýr liður, framlag til túnræktar á þeim jörðum, þar sem ræktun er skammt á veg komin, 4 millj. kr. Það þykir nauðsyn til bera að gefa þeim bændum, sem minnstan hafa bústofn og minnstan afrakstur af búi sínu, möguleika á því að stækka búin og gera þau arðvænlegri en þau nú eru.

Þá er lagt til, að tveir nýir styrkir vegna sjóvarnargarða verði upp teknir, þ.e. vegna sjóvarnargarðs á Ísafirði 100 þús. kr. og vegna sjóvarnargarðs í Borgarnesi 50 þús. kr.

Þá er lagt til, að styrkur til landþurrkunar í Austur-Landeyjum verði hækkaður um 20 þús. krónur.

Á undanförnum árum hefur verið lagt nokkurt fé í það að leita að nýjum fiskimiðum, einkum fyrir togaraflotann, og hefur það borið allmikinn árangur. En stöðugt verður ljósara, að einmitt leit að fiskimiðum er eitt af því, sem íslenzkur þjóðarbúskapur þarfnast hvað mest að framkvæmt sé, og er lagt til, að þessi styrkur hækki um 250 þús. kr., upp í 1 millj. kr.

Á smíðum hefur á undanförnum árum verið beituskurðarvél, sem vonir standa til að geti komið að góðum notum fyrir íslenzka fiskibáta. Þessi vél hefur þurft langan prófunartíma, og hefur sitthvað í henni reynzt miður en vonir stóðu til, og hefur gengið í nokkru basli með að fá endurnýjanir sökum fjárskorts þeirra manna, er þetta verk hafa með höndum. Er þess vegna lagt til, að Fiskifélag Íslands fái til ráðstöfunar litla fjárhæð, 10 þús. kr., til þess að greiða fyrir framleiðslu á beituskurðarvél, ef það mætti fremur takast.

Samkvæmt lögum ber ríkinu að greiða ákveðinn hluta af byggingarkostnaði olíutanka, sem olíusamlög reisa. Það hefur verið sýnt fram á, að fjárþörf í þessu skyni á yfirstandandi ári muni verða allmiklu hærri en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, og er hér lögð til hækkun um 100 þús. kr. í því skyni. Er það einkum vegna slíkra framkvæmda, sem olíusamlag í Keflavík hefur með höndum.

Þá er lagt til, að iðnlánasjóður, sem búið hefur við mikinn fjárskort að undanförnu, fái framlag sitt úr ríkissjóði hækkað um 1 millj. kr., úr 450 þús. í 1 millj. 450 þús. kr.

Þær miklu raforkuframkvæmdir, sem nú eru á döfinni og hafa veríð um skeið, eru mjög fjárþurfi, og er lagt til, að ríkissjóðsframlag til raforkusjóðs verði hækkað um 10 millj. kr., upp í 15 millj. kr.

Kemur þá að þeim brtt., sem gerðar eru við 17. gr. frv. Þar er lagt til, að framlag til styrktar og sjúkrasjóða verði hækkað úr 20 þús. kr. í 40 þús. kr.

Þá er lagt til, að verkakvennafélagið Framtíðin í Hafnarfirði, sem um langt skeið hefur rekið dagheimili fyrir börn, fái byggingarstyrk á svipaðan hátt og veittur hefur verið til slíkra heimila hér í Rvík, og er áætlað í þessu skyni 30 þús. kr. framlag.

Þá er tekinn upp nýr liður á þessa grein, til orlofs og sumardvalar fyrir húsmæður frá barnmörgum heimilum, 40 þús. kr. Það er alkunna, að eins og þjóðfélagsskipun er hjá okkur nú, mæðir oft mjög mikið á húsmæðrum, sérstaklega þeim, sem standa fyrir stórum heimilum. Hefur þótt rétt að verða við óskum um það, að ríkið legði nokkuð af mörkum til þess að auðvelda sumardvöl slíkra mæðra, hvort sem þær væru frá heimilum í kaupstöðum eða sveitum landsins.

Á n.k. sumri er fyrirhugað, að heimsmeistarakeppni stúdenta í skák verði haldin hér á landi, og hefur framkvæmdanefnd sú, sem stendur fyrir því móti, sótt um fjárveitingu. Hefur fjvn. þótt hlýða að verða við þeirri beiðni og veita 40 þús. kr. styrk vegna þessa móts.

Byggingarsjóður kaupstaða og kauptúna, þ.e.a.s. sá sjóður, sem sótt er til til byggingar verkamannabústaða, hefur samkv. frv. tæplega 2 millj. kr. framlag, þ.e.a.s. framlög upp á 1 millj. 975 þús. kr. Það er lagt til, að þessi fjárveiting verði tvöfölduð og að styrkur þessi verði ákveðinn 3 millj. 950 þús. kr. Það þarf ekki skýringa við, að húsnæðisþörfin er slík, að vert þykir eftir þessari leið að reyna að bæta þar eitthvað úr.

Sömuleiðis er lagt til, að framlag ríkisins til útrýmingar heilsuspillandi íbúða verði hækkað um 1 millj. kr., úr 3 millj. í 4 millj. kr.

Varðandi báða þessa byggingaliði má geta þess, að nokkurt mótframlag á lögum samkv. að koma á móti þessari upphæð frá bæjar- eða sveitarfélögum, og eykur það enn líkurnar á því, að eitthvað verði hægt um að bæta í húsnæðismálunum með því að hækka þessi framlög.

Samkv. ábendingu ráðuneytisins er framlag til alþjóðagjaldeyrisstofnunarinnar talið geta fallið niður, og er till. gerð um það.

Varðandi 18. gr. frv. eru gerðar nokkrar brtt., sem fyrir liggja, og tel ég ekki ástæðu til að skýra þær sérstaklega, enda liggja þær ljósar fyrir á þingskjali 284. Er það bæði um nýja menn inn á þá grein og sömuleiðis um brottfellingu þeirra, sem fallið hafa frá, en höfðu styrk á þeirri grein. Enn fremur er í I. tölulið þeirrar gr. gert ráð fyrir svolítilli breytingu á lögboðnum eftirlaunum embættismanna, og er það aðeins smávægileg breyting.

Varðandi 19. gr. frv. er gerð brtt. um, að enn verði framlag til dýrtíðarráðstafana hækkað um 600 þús. kr. Er það vegna sérstaks framlags, sem fyrirhugað er til þess að greiða niður olíu til rafstöðva, sem framleiða rafmagn til almenningsnota.

Þá er gert ráð fyrir, að hækkað verði frá frv. framlagið til viðbótarhúsnæðis ríkisspítalanna úr 3 millj. og 600 þús. upp í 4 millj. og 600 þús. kr. Auk þess er gert ráð fyrir, að á heimildagrein verði ríkisstj. veitt heimild til þess að taka lán til viðbótarbyggingar spítalanna, allt að 5 millj. króna.

Varðandi sjúkraflugvelli er fyrirhugað að byggja á einum stað í Norðurlandi, væntanlega Akureyri, sérstakt skýli fyrir sjúkraflugvél henni til öryggis, en nú er svo, að hvergi er hægt að hýsa þá flugvél nema í Rvík. Er þess vegna lagt til, að framlagið til sjúkraflugvalla hækki um 75 þús. kr.

Húsmæðrakennaraskólinn er húsnæðislaus um þessar mundir og starfar ekki. Hann var áður til húsa í húsakynnum háskólans, en hefur nú orðið að hverfa þaðan, og standa mál hans sem sagt þannig, að skólinn starfar ekki um þessar mundir. Á síðustu fjárlögum hafði hann nokkurt framlag til byggingar, og enn er gert ráð fyrir í frv., að honum verði veittar 200 þús. kr. í því skyni. Hér er lagt til, að það framlag verði hækkað í 300 þús. kr., og má þó allt eins gera ráð fyrir, að þennan byggingarstyrk verði að nota til þess að kaupa húsnæði handa skólanum, því að sýnt þykir, að bygging, sem ætti eingöngu að vinnast fyrir það framlag, sem skólinn hefur þegar fengið og bægt er að veita honum á þessum fjárlögum, mundi koma seinna til sögunnar en svo, að skólinn geti við það búið að vera húsnæðislaus svo lengi.

Þá er lagt til, að atvinnubótafé, sem í frv. var gert ráð fyrir að yrði 5 millj. kr., verði aukið um 10 millj. kr., upp í 15 millj. kr. Það er sömuleiðis eitt af alkunnustu málum hér innan þingveggja a.m.k. og svo auðvitað á þeim stöðum, þar sem mest sverfur að í atvinnulegu tilliti, að óhjákvæmilegt er að gera einhverjar ráðstafanir til þess að undirbyggja öruggara atvinnulíf en nú er fyrir hendi á ýmsum stöðum á landsbyggðinni. Standa vonir til þess, að þessi till. geti miðað í þá átt að undirbyggja blómlegra atvinnulíf en verið hefur á ýmsum stöðum, þar sem dauft hefur verið yfir að undanförnu.

Liðurinn um tollstöð í Rvík, framlag til hennar, nam 850 þús. kr. Lagt er til, að sá liður verði felldur niður úr útgjöldum fjárlaga, enda hefur Alþingi þegar gert ráðstafanir til þess að afla tekna til þeirrar byggingar með öðrum hætti.

Þá er gert ráð fyrir, að fiskiðjuveri ríkisins verði fengnar 750 þús. kr. vegna aðkallandi skulda, sem á því hvíla. Með þessu framlagi er ekki tekin nein ákvörðun um framtíð fiskiðjuvers ríkisins. En hver sem framtíð þess kann að verða, þykir óhjákvæmilegt að leggja til, að því verði fengið þetta fé,

Er þá komið að heimildagrein frv., 22. gr., sem gerðar eru við nokkrar brtt.

Þar er fyrst, að lagt er til, að ríkisstj. verði heimilað að hækka nokkuð ábyrgð sína til menningarsjóðs. Eins og stendur í frv. nú, er ríkissjóði heimilt að greiða þeim sjóði það, sem á kann að vanta, að tekjur hans fyrir s.l. ár nemi 550 þús. kr. Þessi heimild er samkv. till. hækkuð um 1 millj. kr. Til mála hefur komið, að menningarsjóði verði fengin ný verkefni og að starfsemi sú, sem hann þegar hefur, verið aukin. En margt er enn óráðið um, með hverjum hætti þessir hlutir kunna að verða í framkvæmd, og er enda ekki víst, að heimild þessi verði notuð. En meðal þess, sem komið hefur til greina að menningarsjóður styrki eða taki þátt í að styrkja, er Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem eins og alkunnugt er hefur verið í nokkrum vandkvæðum hvað fjárhag snertir á undanförnum árum.

Þá er gerð hér ein brtt. við brtt. samvinnunefndar samgöngumála, en í þeirri brtt. gerir samvinnunefndin ráð fyrir því, að ríkisstj. verði heimilað að greiða að tilteknum upphæðum halla af rekstri nokkurra flóabáta. Hér er lagt til, að aftan við þá brtt. bætist heimild um, að ríkisstj. verði einnig heimilt að lána Hríseyjarhreppi allt að 50 þús. kr. til að endurbyggja ferjubát þann, sem í förum er á milli Hríseyjar og Árskógssands.

Þá er gerð brtt. við textann í rómverskum XIII í 22. gr., þar sem er allt að 50 millj. kr. ábyrgðarheimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán til hraðfrystihúsa, mjólkurbúa og fiskimjölsverksmiðja. Hér er gert ráð fyrir, að þessi heimild verði rýmkuð og ekki bundin nákvæmlega við þessar tegundir vinnslustöðva, heldur geti ábyrgðin náð til hvers konar fiskvinnslustöðva og stöðva, sem vinna úr landbúnaðarafurðum.

Þá er lagt til, að fyrir Siglufjarðarkaupstað megi ríkisstj. ábyrgjast allt að 1 millj. kr. rekstrarlán vegna síldarverksmiðjunnar Rauðku. Þetta er liður, sem staðið hefur inni á fjárlögum á undanförnum árum. Í síðustu fjárlögum var þessi heimild upp á 2 millj. kr., en þá munu hafa verið samandregnar þær ábyrgðir, sem þurfa þóttu til tveggja ára.

Þá er lagt til, að nýr liður komi inn í fjárlög, þar sem ríkisstj. sé heimilað að ábyrgjast allt að 4 millj. kr. lán fyrir skipasmiðastöðvar til að annast bátasmíðar innanlands. Sumar skipasmíðastöðvar telja sig búa við mikinn skort á rekstrarfé og sé af þeim sökum m.a. ókleift að smíða báta, sem þær hafa ekki ákveðinn kaupanda að. Á hinn bóginn telja þær, að mikil nauðsyn sé að hafa slík verkefni til að vinna að á skipasmíðastöðvunum jafnframt viðhaldi eldri báta, svo að fyrirtækin geti haldið smiðum í þjónustu sinni, þótt hlé verði á viðhaldsvinnunni.

Enn fremur er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast lán, sem tekið kann að verða til að smíða nýjan flóabát fyrir Eyjafjörð og nálægar hafnir, gegn tryggingum, er ríkisstj. metur gildar, þó ekki yfir 2/3 hluta af kostnaðarverði skipsins. Flóabáturinn Drangur, sem nú gengur á þessari leið, er orðinn mjög gamall og úr sér genginn. Fyrir forgöngu samvn. samgm. var þessu skipi veitt nokkur fjárveiting til vélakaupa, þar sem endurnýja þurfti vél í skipinu, en upplýsingar liggja nú fyrir um það, að sú vél hefur ekki verið sett í skipið, sökum þess að skipið sjálft þykir orðið of gamalt og lélegt til þess að breyta um vél í því, og þarf nú að endurnýja skipið sjálft. Hér er lagt til, að ríkið gefi kost á ábyrgðarheimild vegna lána til endurnýjunar á skipinu, sem nemi álíka hárri upphæð og fiskveiðasjóður Íslands veitir lán út á til fiskiskipakaupa.

Brtt. er gerð við þann lið 22. gr. fjárl., sem heimilar ríkisstj. að fella niður aðflutningsgjöld af snjóbifreiðum og sjúkrabifreiðum Rauða krossins. Breyt., sem gerð er, er í því fólgin, að lagt er til, að hætt sé að binda þessa niðurfellingu á aðflutningsgjöldum að því er sjúkrabifreiðar varðar eingöngu við bifreiðar Rauða krossins, því að nú hefur komið í ljós, að ýmis sjúkrahús eða hreppsfélög reka slíkar bifreiðar. Er lagt til, að þessi heimild nái til sjúkrabifreiða, sem notaðar eru í almenningsþágu.

Inni á frv. er í heimildagrein heimild til lántöku fyrir ríkissjóð til handa framkvæmdasjóði, allt að 5 millj. kr. Með því framlagi, sem lagt er til að tekið verði upp til atvinnuaukningar, en sú brtt. nam 10 millj. kr., er jafnframt lagt til, að þessi heimild verði felld niður.

Það þykir mikil þörf á því að koma upp uppeldisheimili eða uppeldisskóla fyrir stúlkur, sem lent hafa á glapstigum, og er hér lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að festa kaup á landi til að byggja slíkan uppeldisskóla á. Væri það þá fyrsta skrefið í áttina að því að koma upp slíkri stofnun.

Þá er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að selja fasteignir ríkissjóðs á Þórshöfn. Þar er um að ræða gömul timburhús og leigulóð, sem lentu í eigu ríkisins fyrir nokkrum árum, en ríkið hefur ekkert gagn af um þessar mundir.

Þá er lagt til, að í nýjum liðum á þessari gr. verði ríkisstj. heimilað að afhenda með þeim skilyrðum, sem ríkisstj. setur, bjargráðasjóði Íslands til eignar 101/2 millj. kr. skuldabréf, sem gefið var út vegna óþurrkanna á Suður- og Suðvesturlandi árið 1955, og enn fremur skuldabréf, sem nú er í vörzlu Búnaðarbanka Íslands og upphaflega nam 3 millj. kr. og út var gefið vegna harðinda og óþurrka á árunum 1949 og 1950 á Norður og Norðausturlandi. Varðandi þessa till. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. afhendi bjargráðasjóði þessar skuldakröfur, sem ríkissjóður er nú eigandi að, með fyrirmælum um, að innheimta þeirra verði mjög væg, og séu það skilyrði af hálfu ríkissjóðs fyrir þessari afhendingu, að lánstími á þessum lánum verði lengdur svo sem þurfa þykir, að vextir verði eins vægir og unnt er, að bjargráðasjóður sé við því búinn að útvega sérstaklega þeim bændum, sem eru ómegnugir að standa skil á lánunum, greiðslufrest. Þar getur komið til greina að veita slíkum bændum lengingu á lánstíma, sérstaka vaxtalækkun eða niðurfellingu vaxta, eftirgjöf á höfuðstól að meira eða minna leyti, enda verði í slíkum tilfellum leitað umsagna og álits hlutaðeigandi sveitarstjórnar.

Þá er till. um að gefa eftir svokölluð hallærislán, sem veitt voru úr ríkissjóði til bænda 1952, að upphæð 5 millj. 320 þús. kr. Þessi lán, sem hér um ræðir, voru veitt vegna snjóa og harðinda, einkum á Norðaustur- og Austurlandi, og er gert ráð fyrir því, að þau verði gefin eftir. Í hinu tilfellinu, sem áður var lýst, varðandi það, sem afhenda á bjargráðasjóði samkvæmt þessum till., er um að ræða styrki, sem veittir voru vegna óþurrka fyrst og fremst.

Þá er brtt. um að heimila ríkisstj. að gefa eftir eða taka á ríkissjóð greiðslu á lánum, sem veitt hafa verið útvegsmönnum vegna þurrafúa í fiskiskipum, eftir því sem rannsókn kann að leiða í ljós að nauðsynlegt sé, sökum þess að viðkomandi útgerðarmenn eða útgerðarfyrirtæki hafi ekki efnahagslegar ástæður til þess að greiða þessar skuldir, á svipaðan hátt og ætlazt er til, að bjargráðasjóður innheimti þær skuldir, sem lagt er til að honum verði fengnar til innheimtu, þannig að þörfin verði hverju sinni skoðuð og metin og eftirgjöf fari því aðeins fram, að efnahagur viðkomandi lántakanda sé með þeim hætti, að ástæða sé til þess að gefa lánið eftir eða hluta af því.

Ég skal geta þess, að ein till. n. mun ókomin fram og kemur væntanlega fram á þskj., sem ekki hefur verið útbýtt enn þá. Það er till. varðandi 22. gr. um heimildina fyrir 5 millj. kr. lántöku vegna aukins húsnæðis ríkisspítalanna. Hún er ekki á þskj. 284.

Þá hefur n. orðið ásátt um að flytja hér skriflega brtt. til viðbótar þeim, sem komnar eru, hún er varðandi 22. gr., ábyrgðarheimild svo hljóðandi: að ríkisstj. sé heimilt „að ábyrgjast gegn þeim tryggingum, er ríkisstj. metur gildar, lán fyrir Skúla Pálsson, Laxalóni, allt að 150 þús. kr., vegna óhjákvæmilegs tilkostnaðar hans við undirbúning og framkvæmd fyrsta útflutnings af regnbogasilungi, sem hann á undanförnum árum hefur ræktað.“

Leyfi ég mér að afhenda forseta þessa till. einnig.

Varðandi þær breyt., sem n. og meiri hl. n. hafa gert við fjárlagafrv. í heild, skal ég geta þess, sem ég raunar hef áður gert, að í nál. er rakið allmiklu nákvæmar en hér hefur verið gert, hverjar eru helztu breyt., sem frv. tekur skv. till. n. En ég vil lýsa því hér, að að niðurstöðu til, að samþykktum öllum tillögum fjvn. og meiri hl. fjvn. svo og að samþykktri tillögu samvn. samgm. um flóabáta, en að öðru óbreyttu, mundi fjárlagafrv. verða að upphæð 811 millj. 602 þús. kr. og verða með hagstæðum greiðslujöfnuði, sem nemur 1463177 kr. Í sambandi við þessar tölur skal þess þó getið, að ekki hafa þær verið þaulprófaðar eins og vert væri, en ég hef þó ástæðu til að ætla, að þær muni réttar.