25.02.1957
Sameinað þing: 38. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

1. mál, fjárlög 1957

Frsm. samvn. samgm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Samgmn. beggja þd. hafa í sameiningu fjallað um framlög til flóabáta og vöruflutninga á nokkra staði, eins og venja er, og liggur álit samvn. fyrir á þskj. 275 og brtt., sem n. ber fram við fjárlfrv., á þskj. 276.

Samvn. þótti ekki verða hjá því komizt að leggja til, að nokkur hækkun yrði gerð á þessum liðum. Stafar það af því, að rekstrarkostnaður við bátaferðir og vöruflutninga, sem hér er fjallað um, hefur aukizt, og sumir þeir bátar, sem njóta stuðnings skv. till. n., veita þjónustu til þeirra staða, sem búa við erfið samgönguskilyrði og geta ekki notið þjónustu Skipaútgerðar ríkisins nema að mjög takmörkuðu leyti.

Samvn. leggur til, að skipulag bátaferðanna verði með svipuðum hætti og undanfarin ár. N. leggur til, að framlag til Djúpbátsins, sem gengur um Ísafjarðardjúp, verði 460 þús. kr. Er það 60 þús. kr. hækkun frá því heildarframlagi, sem báturinn naut á s.l. ári, en þar sem strandferðaskip ríkisins sigla ekki á hafnir við innanvert Ísafjarðardjúp, er óhjákvæmilegt að halda uppi ferðum þessa báts, m.a. til flutnings á búvörum úr sveitum kringum Ísafjarðardjúp til kaupstaðarins, Ísafjarðar.

Enn fremur leggur n. til, að 100 þús. kr. styrkur verði veittur til ferða Strandabáts, sem heldur uppi ferðum um Húnaflóa, einkum frá Hólmavík og norður í nyrztu byggðir Strandasýslu í Árneshreppi.

Norðurlandsbáturinn siglir um Eyjafjörð og Skagafjörð og heldur uppi ferðum til Grímseyjar. Óhjákvæmilegt er að hækka nokkuð framlag til þess báts, og leggur n. til, að honum verði veittur 450 þús. kr. rekstrarstyrkur á þessu ári.

Þess má geta, að fyrir n. hafa legið eindregnar óskir frá Grímseyingum um það, að ferðum bátsins til Grímseyjar verði fjölgað að miklum mun á þessu ári. N. telur sanngjarnt að verða við þessum óskum, og í till. hennar um fjárframlag til bátsins er tekið tillit til þess.

Enn fremur leggur n. til, að framlag til Haganesvíkurbáts og Hríseyjarbáts hækki lítið eitt frá því, sem var á s.l. ári.

Íbúar Flateyjar á Skjálfanda njóta ekki þjónustu Skipaútgerðar ríkisins nema að mjög litlu leyti, og þeir hafa ekki flugsamgöngur. Aðalsamgöngur eyjarbúa við land eru ferðir flóabátsins milli Flateyjar og Húsavíkur. Þessi bátur naut stuðnings á s.l. ári, sem nam 22 þús. kr. Eindregnar óskir eru um það, að ferðum þessa báts verði fjölgað að mun frá því, sem verið hefur, og m.a. með tilliti til póstferða í byggðir landsins virðist n. full sanngirni mæla með, að tillit sé tekið til þessara óska og að styrkur til þessa báts verði ákveðinn 35 þús. kr.

Loðmundarfjörður er orðinn einhver einangraðasta byggð hér á landi. Einu samgöngurnar, sem sú byggð hefur, er bátur, sem heldur uppi ferðum við og við frá Seyðisfirði til Loðmundarfjarðar. N. leggur til, að framlag til þessa báts verði 25 þús. kr.

Enn fremur leggur n. til, að styrkur til Mjóafjarðarbáts verði 37 þús. kr. og að auk þess verði staðið við fyrirheit, sem gefið var á síðasta ári um 30 þús. kr. styrk til þess báts vegna endurnýjunar á vél í bátnum.

Vestur-Skaftafellssýsla hefur sérstöðu meðal héraða landsins að því leyti, að það hérað er algerlega hafnlaust, eins og nú er háttað. Áhugi er fyrir því í héraðinu, að ráðizt verði í hafnargerð við Dyrhólaey, en skilyrði til þess munu ekki vera fullrannsökuð, enda yrði sú framkvæmd að sjálfsögðu kostnaðarsöm. En vegna þeirrar sérstöðu, sem Vestur-Skaftafellssýsla á við að búa að þessu leyti, hefur að undanförnu verið veittur dálítill stuðningur til vöruflutninga í það hérað, og leggur samvn. til, að framlag til þess verði hækkað um 25 þús. kr. og verði 215 þús. kr.

Enn fremur hefur að undanförnu verið veittur styrkur til bátaferða á Hornafirði og til vöruflutninga til Öræfa, sem er mjög einangruð sveit og býr við örðug samgönguskilyrði. N. leggur til, að sá styrkur verði hækkaður um 15 þús. kr., upp í 80 þús. kr.

Vestmannaeyjar eru allfjölmennur kaupstaður, eins og kunnugt er, og ein hin mesta útgerðarstöð þessa lands, en skilyrði til landbúnaðarframleiðslu eru mjög takmörkuð í eyjunum til að fullnægja þörfum þess fólksfjölda, sem þar býr, og þó allra helzt á vertíðum, þegar til Vestmannaeyja safnast mikill fjöldi aðkomufólks í atvinnuleit.

Vegna þessarar sérstöðu Vestmannaeyja hefur verið kostað kapps um að halda uppi daglegum ferðum á bát milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, aðallega til mjólkurflutninga. Það er að sjálfsögðu örðugleikum bundið og ekki áhættulaust, hvernig sem viðrar, að halda uppi slíkum ferðum á fremur litlum bát. Auk þess eru mjólkurflutningar eftir þeirri leið mjög kostnaðarsamir, og hefur reynzt allmikill halli á rekstri bátsins. Samvn. samgm. telur óhjákvæmilegt að taka tillit til þessara staðreynda og leggur til, að Vestmannaeyja- og Þorlákshafnarbát verði veittur 350 þús. kr. rekstrarstyrkur á þessu ári. En til viðbótar því leggur n. til, að ríkisstj. verði heimilað að greiða í sama skyni allt að 50 þús. kr., ef óhjákvæmilegt reynist, vegna rekstrarhalla, sem leiðir af ferðum bátsins. Virðist n., að með þessum till. báðum sé fullnægt óskum Vestmanneyinga um fjárframlög til þessara ferða.

Hlutafélagið Skallagrímur í Borgarnesi hefur nú eignazt nýtt og vandað skip til ferða um Faxaflóa milli Reykjavíkur annars vegar og Akraness og Borgarness hins vegar. Lítil reynsla er komin af rekstri þess skips, en Skallagrímur h/f átti í örðugleikum með að halda uppi þessum ferðum, meðan hið nýja skip var í smíðum. Þurfti þá að sæta þeim kjörum að hafa í þjónustu sinni leiguskip til ferðanna og af þeim sökum og einnig vegna stofnkostnaðar hins nýja skips á hlutafélagið, sem annast ferðirnar, í fjárhagsörðugleikum og við allþunga skuldabyrði að etja. Stjórn h/f Skallagríms hefur því gert samvinnunefndinni grein fyrir því, að það þurfi á allháum rekstrarstyrk að halda á þessu ári, ef því eigi að vera auðið að halda í horfi með fjárhagsafkomu sína. Með tillíti til þess leggur n. til, að Skallagrími h/f verði veittur 450 þús. kr. rekstrarstyrkur á þessu ári og að enn fremur verði ríkisstj. heimilað að greiða Skallagrími h/f allt að 50 þús. kr. framlag, ef nauðsyn krefur, vegna rekstrarhalla, sem kunni að myndast á árinu. Væntum við, sem n. skipum, að með þessum till. sé komið svo til móts við óskir stjórnar Skallagríms h/f, að hún megi vel við una og að vel sé séð fyrir rekstri skipsins á þessu ári.

Um Breiðafjörð sigla 3 bátar, sem hafa þó verkaskiptingu sín á milli. Að undanförnu hefur verið haldið uppi ferðum á litlum bát til Skógarstrandar, eftir því sem nauðsyn hefur krafið, og enn fremur til nokkurra staða í Dalasýslu, einkum í grennd við Hvammsfjörð. Til þessara ferða hafa að undanförnu verið notaðir tveir bátar. En á s.l. ári skipaðist þó svo, að annar báturinn annaðist ferðirnar að mestu leyti. N. sýnist því rétt að sameina þetta til eins og sama báts, Langeyjarnesbáts, og leggur til, að þeim bát verði veittur 18 þús. kr. rekstrarstyrkur á þessu ári. Jafnframt gerir n. ráð fyrir því, að Langeyjarnesbátur annist ferðir til Skógarstrandar, eftir því sem nauðsyn krefur.

Þá er haldið uppi ferðum til Stykkishólms og á fleiri hafnir við Breiðafjörð með mótorbátnum Baldri, og flytur hann vörur frá Reykjavík til þeirra hafna, sem hér eiga hlut að máli. N. hefur með höndum skilríki fyrir því, að fjárhagur þessa báts er mjög erfiður, og stafar það m.a. af því, að fyrir skömmu var ráðizt í kostnaðarsama viðgerð á bátnum og þannig efnt til stofnkostnaðar, sem hvílir þungt á þeim, sem bátinn reka. Af þessum sökum telur samvinnunefndin óhjákvæmilegt að hækka nokkuð framlag til þessa báts og leggur til, að það verði 350 þús. kr. Enn fremur leggur n. til, að heimilað verði að greiða allt að 50 þús. kr. framlag til viðbótar, ef rekstrarhalli verður, sem leiðir af ferðum þessa báts, svo að óhjákvæmilegt reynist að hlaupa undir bagga umfram það, sem hinum beina rekstrarstyrk nemur.

Loks er hafður í förum sérstakur bátur, sem siglir um Flatey á Breiðafirði og til hafna við Barðaströnd. N. leggur til, að ferðum þess báts verði hagað á sama hátt og verið hefur og að rekstrarstyrkur til hans hækki um 15 þús. kr. og nemi samtals 130 þús. En n. vill jafnframt leggja til, að staðið verði við það fyrirheit, sem gefið var af samvn. samgm. á fyrra ári um að greiða 30 þús. kr. vegna vélakaupa, sem nýlega hafa verið gerð í þennan bát.

Samkvæmt þessu er sú niðurstaða a:f till. samvinnunefndarinnar, að hún leggur til, að styrkir til flóabáta og vöruflutninga verði samtals 2791600 kr. Er þar um að ræða 623600 kr. hærri fjárhæð en veitt var í þessu skyni á s.l. ári.