25.02.1957
Sameinað þing: 38. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

1. mál, fjárlög 1957

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vil stuttlega gera grein fyrir tveim brtt., sem ég stend að.

Við 2. umr. fjárl. fluttum við hv. 8. landsk. þm. og ég brtt., sem fól í sér, að embætti sendiherra í Osló yrði lagt niður, en í staðinn kæmi ræðismannsskrifstofa í Osló. Að lokinni þeirri umr. varð ég þess áskynja hjá nokkrum hv. alþm., að þeir hefðu frekar kosið, að í stað Osló hefði komið Stokkhólmur, að þeir hefðu betur getað fellt sig við, að sendiherraembættið í Stokkhólmi yrði lagt niður en embættið í Osló. Í samræmi við þessar óskir höfum við nú lagt fram brtt., sem felur í sér sams konar breytingu, en á öðrum lið (10. gr. III. 2.), að liðurinn orðist svo: „Ræðismannsskrifstofa í Stokkhólmi, 92800, enda verði ambassador Íslands í Kaupmannahöfn falin forsjá sendiráðs í Svíþjóð.“ Hef ég svo ekki um þetta efni fleiri orð.

Á þskj. 290, lið II, er brtt. frá mér varðandi rekstrarstyrk til St. Jósefsspítalanna í Hafnarfirði og Reykjavik. Minni hl. hv. fjvn. er þar einnig með brtt. til hækkunar úr 375 þús. upp í 750 þús. kr. Þessari till. er ég fylgjandi og flyt mína brtt. sem varatill. við till. hv. minni hl. fjvn., þannig að ég óska, að hún verði borin upp að hinni felldri.

St. Jósefsspítalarnir í Reykjavík og Hafnarfirði munu á síðasta ári hafa fengið styrk, sem nemur 5 kr. á legudag, og nú hafa þessir spítalar óskað eftir, að sá styrkur yrði hækkaður upp í 10 kr. á legudag. Þegar litið er til þess háa framlags, sem ríkisspítalarnir fá og mun nema í ár á annað hundrað kr. á hvert legurúm á dag, finnst mér ekki til mikils ætlazt, að St. Jósefsspítalarnir fengju í styrk sem svaraði 10 kr. á legudag.

Það eru ekki aðeins Reykvíkingar, heldur allir landsmenn, sem standa í þakkarskuld við St. Jósefsspítalann í Reykjavík, sem um margra ára skeið var eini boðlegi spítalinn á öllu landinu. St. Jósefsspítalinn sem stofnun á nú við mikla örðugleika að stríða í sambandi við rekstur sjúkrahússins. Það er ógerlegt fyrir spítalann að hækka daggjöldin eins og þörf krefur. Þau eru að miklu leyti bundin með samningum, og það verður með hverju árinu erfiðara að láta þau bera sig.

Meðan enn er hörgull á sjúkrarúmum í Reykjavík og annars staðar á landinu, er siðferðisleg skylda ríkisins að styðja stofnun eins og St. Jósefsspítalann. Í ráði er, að byggður verði nýr spítali í stað gamla spítalans í Landakoti, og mun þegar vera hafin framkvæmd. En það mun þykja nokkurn veginn víst, að ef ekki fæst nein leiðrétting, nein hækkun á styrk ríkisins, muni stofnunin verða að gefast upp við að byggja spítalann. Það fé, sem hefði þá átt að renna til byggingarinnar, verður að renna í tapreksturinn. Ég vil því eindregið mæla með því og mælast til þess við hv. alþm., að þeir ljái þessum brtt., sem fyrir liggja í þessu efni, athygli og stuðning.