28.05.1957
Sameinað þing: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2256 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

Almennar stjórnmálaumræður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er gömul saga í stjórnmálaumr., að menn ásaki hverjir aðra um svikin kosningaloforð, og hefur vissulega ekki skort á slík brigzlyrði í þessum umr. Ég ætla að hefja mál mitt með ofur lítilli tilbreytingu að þessu leyti.

Sjálfstæðismenn eru í umr. allaðþrengdir, bæði hvað snertir tíma og röksemdir, svo að það mætti ef til vill verða þeim örlítið til hjálpar, ef minnzt væri á eitt þýðingarmikið kosningaloforð, sem þeir hafa ekki svikið, heldur staðið dyggilega við. Þetta ósvikna kosningaloforð sjálfstæðismanna gaf hv. formaður flokks þeirra í hinni miklu landsfundarræðu sinni fyrir rösklega ári, er hann sagði þá eftirminnilegu setningu: „Við berjumst fyrir hagsmunum okkar sjálfra, flokks okkar og þjóðar.“

Þetta kosningaloforð hafa sjálfstæðismenn gert að leiðarstjörnu sinni, og eftir þessari meginreglu hafa þeir hagað stjórnarandstöðu sinni á hv. Alþingi. Sést þetta svo glöggt, að ekki verður um villzt, þegar athugað er, hvenær hv. stjórnarandstæðingar hafa barizt af mestu kappi og hvenær baráttuhugur þeirra hefur verið minni. Haldið þið hv. hlustendur, að sjálfstæðismenn á þingi hafi haft mestan áhuga á kaupum 15 nýrra togara, — eða frumvörpunum um búfjárrækt, nýbýli og önnur framfaramál sveitanna, — eða að sjálfstæðismenn hafi logað af áhuga á margþættum menningar- og félagsmálum, sem legið hafa fyrir Alþ.? Nei, því fer víðs fjarri, enda snerta þessi mál ekki beinlínis eigin hag eða flokkshag þeirra. Aðaláhugamál sjálfstæðismanna á þessu þingi hafa verið mál eins og útflutningsmálin, þar sem beinlínis var komið við saltfiskhringinn, en þar er vissulega eigin hagur þeirra í veði.

Fleiri stórmál komu fyrir þingið, þar sem reyndi á eigin hag sjálfstæðismanna, og þeir brugðust ekki, heldur börðust kappsamlega. Voru það t.d. bankafrv., sem Alþ. afgr. sem lög í gær. Það er hverjum manni ljóst, að bankarnir eru hjarta fjármálakerfisins, sem dælir fjármagni út um allan þjóðarlíkamann. Í bönkunum hvílir meira vald yfir fjármála- og efnahagslífi landsmanna en hjá nokkrum öðrum aðila, og er því illmögulegt fyrir ríkisstj. að stjórna landinu eða koma fram stefnu sinni, ekki sízt varðandi atvinnumál og fjárfestingu, ef ekki ríkir gagnkvæmur skilningur og traust milli hennar og bankanna.

Þær breytingar, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir á bankakerfinu, eru tvenns konar. Í fyrsta lagi eru mikilvægar skipulagsbreytingar, þar sem seðlabankinn er í fyrsta sinn settur undir sérstaka stjórn og skilinn frá viðskiptabanka Landsbankans, en Útvegsbankinn er gerður að ríkisbanka. Hefur hann verið hlutafélag, enda þótt ríkið eigi um 95% hlutafjárins. Þessum skipulagsbreytingum á bönkunum virðast sjálfstæðismenn í meginatriðum vera sammála.

Í öðru lagi munu þessar skipulagsbreytingar á bönkunum hafa þær afleiðingar, að Alþ. verður að kjósa ný bankaráð og fleiri breytingar verða á forustuliði bankanna. Hlýtur svo að fara, að sjálfstæðismenn missi nú þann meiri hl., sem þeir hafa í bankaráðum Landsbankans og Útvegsbankans, svo og að þeir missi meiri hl. meðal bankastjóranna við þessa sömu banka. Þessu berjast sjálfstæðismenn að sjálfsögðu á móti af oddi og egg. Hér gerist hið sama sem í svo mörgum öðrum málum. Sjálfstæðismenn láta sig litlu skipta mikilvægar skipulagsbreytingar og eru þeim jafnvel sammála, en leggja alla áherzlu á að verja völd sín og yfirráð yfir peningakerfi landsins. Þeir eru enn sem fyrr fyrst og fremst að berjast fyrir eigin hag og flokks síns.

Þegar rætt er um bankamál hér á landi, verða menn að hafa í buga, að það er ekki nýtt, að pólitískir flokkar hafi bein og óbein áhrif á stjórn bankanna. Ég hygg, að allir geti verið sammála um, að æskilegra væri, að stjórn bankanna stæði utan við stjórnmálabaráttuna. Þetta hefur því miður aldrei tekizt hér á landi, heldur hafa flokkarnir reynt að koma sinum mönnum að bönkunum. Úr því að þessi skipan ríkir, er sjálfsagt, að stjórn bankanna skiptist í svipuðum hlutföllum og þjóðin skiptir sér, þannig að enginn flokkur hafi þar meiri völd en réttlátt er, miðað við fylgi hans með þjóðinni. Var svo um langt skeið, en nú á síðustu árum hefur sjálfstæðismönnum tekizt að sölsa undir sig meiri hl. í tveimur aðalbönkunum og notfæra sér þá aðstöðu sína til hins ítrasta. Það er sérstaklega athyglisvert, að þrír bankastjórar íhaldsmanna, sem settir hafa verið í stöður sínar á síðustu árum, eru allir ýmist náskyldir, nátengdir eða á annan hátt nákomnir bæði formanni og varaformanni Sjálfstfl. Þetta er engin tilviljun. Þetta sýnir betur en nokkuð annað, hversu mikils virði sjálfstæðismenn telja það flokkslega að hafa þessi yfirráð í bönkunum.

Hv. þm. N-Ísf., Sigurður Bjarnason, fullyrti í ræðu sinni í gærkvöld, að stjórnarsinnar hefðu ekki nefnt eitt einasta dæmi um hlutdrægni sjálfstæðismanna í stjórn bankanna, og hneykslaðist mjög af því. Þarna fór hann með hrein öfugmæli, því að slík dæmi voru nefnd í umr. um málið í hv. Nd., og spunnust um þau allmiklar umr. Dæmið, sem nefnt var, er í stuttu máli á þessa leið: Þrír aðalbankar þjóðarinnar hafa lánað til sveitarfélaga 112.6 millj. kr. Eru þetta eingöngu lán til venjulegra sveitar- eða bæjarframkvæmda, en ekki meðtalin lán til útgerðar og fiskvinnslu, svo sem byggingar frystihúsa. Af þessum 112.6 millj. til sveitarstjórnarmála hefur þriðja stærsta sveitarfélag landsins, Hafnarfjörður, þar sem sjálfstæðismenn hafa ekki farið með bæjarstjórn, aðeins fengið 0.3 millj. að láni, þótt mikið væri eftir leitað. Því fá Hafnfirðingar aðeins 0.3 millj. af 112, sem lánað er til sveitarfélaga? Þetta er það, sem hv. formaður Sjálfstfl., Ólafur Thors, kallar að þjóna hlutdrægnislaust fólkinu.

Það væri hægt að nefna mörg fleiri dæmi. Mér kemur til hugar annað sveitarfélag, sem fékk myndarlegt lán til hafnarframkvæmda í Landsbankanum, meðan sjálfstæðismenn fóru með stjórn í þessu sveitarfélagi, en ekki grænan eyri síðan sjálfstæðismenn misstu þar meiri hl. Hér er aftur á ferðinni hlutdrægnislaus þjónusta sjálfstæðisbankastjóranna. Slík dæmi sem þessi þekkja þeir menn um land allt, sem standa í athafnalífinu, og það er gersamlega tilgangslaust fyrir sjálfstæðismenn að setja upp sakleysissvip og segja, að þeir hafi sölsað undir sig meirihlutaráð stærstu bankanna til þess að þjóna hlutdrægnislaust. Því fer víðs fjarri. Með því að sölsa undir sig yfirráð bankanna og misnota þau meira eða minna hafa sjálfstæðismenn kallað yfir sig þá breytingu, sem nú hlýtur að verða. Það er ekki ætlun stjórnarflokkanna að ofsækja nokkurn mann, og það er ekki ætlunin að bola sjálfstæðismönnum burt úr bönkunum. Það þarf aðeins að koma heilbrigðu jafnvægi á stjórn bankanna. Sjálfstæðismenn munu þar hafa sín áhrif, eins og réttlátt er, en ekki meirihlutavald, sem þeir eiga engan rétt á.

Mörg af þeim málum, sem mest hefur verið deilt um, síðan núv. ríkisstj. komst til valda, kaupgjald, verðlag, skattar, bankar og fleira slíkt, eru mál, sem fyrst og fremst varða skiptingu þess fjár, sem þjóðin aflar, og meðferð þess. En sagan sýnir okkur, að það eru önnur mál, sem lifa lengur í hugum fólksins. Það eru framkvæmdirnar, sem auka framleiðslu og tekjur þjóðarinnar, sem efla vellíðan og velmegun landsfólksins. Það er mjög líklegt, að eftir 10, 20 eða 30 ár verði munað eftir því tímabili, sem nú er að líða, fyrst og fremst fyrir þær framkvæmdir, sem lagt er í, bæði af einstaklingum, bæjarfélögum og hinu opinbera. Ég hygg, að hin skelegga barátta sjálfstæðismanna fyrir eigin hag og flokkshag sínum muni fljótlega gleymast. Hins vegar munu ekki gleymast raforkuverin, sem eru að rísa, ekki sízt Sogsvirkjunin. Fólkið mun ekki gleyma 15 togurum og 12 minni togurum. Það mun ekki gleyma sementsverksmiðju og fiskiverum, nýjum skipum og þrýstiloftsfarþegaflugvélum. Fólkið gleymir furðu fljótt dægurþrasinu. En það gleymir ekki þeim nýju atvinnutækjum, sem þjóðin fær í hendur í lífsbaráttu sinni. Þess vegna skulum við nú þegar beina meiri athygli að þeim framkvæmdum, sem ýmist voru komnar í strand í tíð fyrrv. stjórnar og núverandi ríkisstj. hefur kippt á flot eða voru algerlega vanræktar á síðustu árum.

Það er furðulegt, þegar til þess er hugsað, að enginn nýr togari skuli hafa verið keyptur til landsins í 8 ár og því skuli þurfa að kaupa 15 í einu til þess að sjá fyrir eðlilegri endurnýjun og þróun flotans.

Núverandi ríkisstj. hefur átt við mikla örðugleika að etja, sérstaklega varðandi dýrtíðarmálin. En hún er í eðli sinu bjartsýn og stórhuga stjórn. Hún lætur ekki erfiðleika líðandi stundar drepa kjark sinn og setur markið hátt á því sviði, sem mestu máli skiptir, að þjóðin haldi áfram að afla sér fleiri og betri atvinnutækja, haldi áfram að auka svo framleiðslu sína, að smám saman skapist það jafnvægi í atvinnu- og fjármálalífi landsins, sem allir þrá.

Það er furðulegt að heyra önuga stjórnarandstæðinga segja: Hvað ætlið þið að gera við 15 nýja togara, þegar ekki eru til menn á þá 42, sem fyrir eru? Við svörum þessum bölsýnismönnum með annarri spurningu: Á hverju ætlið þið að láta þjóðina lifa, ef hún hættir að endurnýja fiskiskipaflota sinn? Eigum við að leggja árar í bát, þótt móti blási örlítið um sinn fyrir útgerðinni? Nei, við eigum að takast á við slík vandamál sem þetta af bjartsýni og trú á þjóðina. Ef ungir menn fást ekki til að stunda sjómennsku nú, þá verðum við að skapa sjómönnum þau lífskjör, að ungu mennirnir sæki sjóinn eins og forfeður þeirra hafa gert mann fram af manni. Ríkisstj. hefur þegar gert nokkrar ráðstafanir í þá átt að veita sjómönnum veruleg skattfríðindi, og það verður að halda áfram að leita allra ráða til að gera sjómennskuna eftirsóknarverða. Og hverjir eiga frekar skilið bættan hag en þeir menn, sem framleiða 95% af útflutningsverðmæti þjóðarinnar? Við skulum gera allt nema gefast upp, eins og fyrrverandi sjútvmrh., Ólafur Thors, sem keypti engan nýjan togara í 8 ár.

Við verðum að halda áfram að byggja upp iðnaðinn í landinu. Við megum ekki láta hugfallast, þó að eitt fyrirtæki — eins og glerverksmiðjan — gangi verr en vonir stóðu til. Við verðum að koma upp fleiri iðjuverum eins og áburðarverksmiðjunni, þar sem rúmlega hundrað iðnverkamenn framleiddu s.l. ár verðmæti fyrir 37 millj. kr., verðmæti, sem ella hefði þurft að flytja inn. Við verðum að leggja höfuðáherzlu á að ljúka við sementsverksmiðjuna og halda síðan áfram að leita nýrra möguleika, finna hinar hagnýtustu iðngreinar fyrir okkar aðstæður og auka sem mest afköst hvers einstaklings. Á þann hátt fást raunhæfustu kjarabæturnar. Á þann hátt batna lífskjör þjóðarinnar örast.

Ríkisstj. tekur ekki undir kreppusöng hv. þm. A-Húnv., Jóns Pálmasonar, um landbúnaðinn. Þvert á móti hefur hún gengizt fyrir stórmerkum lagabálkum, sem sýna trú á mikla framtíð sveitanna, trú á gróðurmátt íslenzkrar moldar og ótæmandi framtíðarmöguleika þróttmikillar bændastéttar. Ríkisstj. hefur undirbúið og tryggt fé til stórfelldrar sóknar til þess að stækka minnstu býlin um land allt, veita þeim drengilega aðstoð til hverra þeirra framkvæmda, sem geta gert þau lífvænlegri og tekjuhærri.

Ég vil ljúka máli mínu með þeirri áskorun til vinnandi manna um land allt, í sveit og við sjó, að láta ekki moldviðri stjórnarandstöðunnar blinda sig, heldur styðja þá bjartsýnu uppbyggingarstefnu, sem er höfuðeinkenni núverandi stjórnar. Ríkisstj. hefur á þessu þingi markað stefnuna fram á við fyrir allar atvinnugreinar þjóðarinnar. Hún treystir því, að þjóðin muni velja uppbyggingu og framfarastefnu stjórnarinnar, en hafna bölsýni og krepputali stjórnarandstöðunnar. — Góða nótt.