26.10.1956
Neðri deild: 6. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

9. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eru opinberum starfsmönnum áskilin sumarfrí, þannig að allir skulu hafa a.m.k. 15 daga frí, en þeir, sem hafa verið 10 ár í starfi, skulu hafa 18 daga frí, en þeir, sem hafa verið 15 ár eða lengur, skulu hafa 24 vírkra daga frí. Þannig er þetta í lögum nú.

Nú var háð hér vinnudeila 1955, og var þá ákveðið, að orlof almennt í landinu skyldu hækka úr 15 dögum í 18 daga, en eins og menn sjá af þessu, voru orlof opinberra starfsmanna almennt séð jafnlöng og orlof tíðkuðust hjá öðrum. Í fyrravetur láðist að íhuga þetta mál á Alþ., og í vor minntu opinberir starfsmenn mjög á sig í þessu sambandi og töldu sín mál að þessu leyti komin úr samræmi við mál annarra. Fyrrv. ríkisstj. réðst þá í það, án þess að hafa til þess sérstaka lagaheimild, að láta opinbera starfsmenn hafa á s.l. sumri 18 daga orlof í stað 15 daga orlofs áður og þá, sem höfðu verið 10 ár í þjónustu eða lengur, fá 21 dag í stað 18 áður, en á hinn bóginn var ekki breytt neitt í framkvæmdinni orlofi þeirra, sem höfðu verið 15 ár eða lengur. Í sumar var þetta því framkvæmt þannig, án þess að sérstök lagaheimild væri til þess, að orlofin voru í staðinn fyrir 15 daga 18 daga og í stað 18 daga 21 dag eða 24 daga. Það voru sem sé ekki lengd orlof þeirra, sem höfðu 24 virkra daga orlof. Var það gert með tilliti til þess, að mönnum fannst, að þau orlof væru orðin svo rífleg, að ekki væri sama ástæða til þess að breyta þeim og hinum orlofunum. Á hinn bóginn hefur það komið fram frá samtökum opinberra starfsmanna, að þeim finnst eða stjórn þeirra, að það hefði átt að hækka líka orlof þeirra, sem hafa flesta orlofsdagana.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að setja þessa nýju reglu í lög, sem sé þessa reglu, að orlof hækki úr 15 dögum í 18 daga, en þeir, sem hafa verið lengur en 10 ár, fái 21 dag í stað 18, — það hækki sem sé um 3 daga hjá hvorum þessara hópa fyrir sig, en verði 24 dagar hjá þeim, sem hafa verið lengur en 15 ár, eins og áður var.

Vil ég leyfa mér að leggja til, að frv. þessu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umr.