01.02.1957
Neðri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

105. mál, lækkun tekjuskatts af lágtekjum

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að þetta mál væri ofur einfalt og þyrfti ekki mikilla skýringa við. Eigi að síður væri fróðlegt að vita, hvað þetta frv. kostar ríkissjóðinn mikið í tekjumissi frá því, sem áður var reiknað með. Mér skilst, að eftir þessu frv. sé það ekki nema lítið, sem gefið er eftir. Ef hjón með eitt barn, sem hafa í hreinar tekjur 47500 kr., borga eftir núverandi skattstiga, eins og mér skilst, 1120 kr. á ári í tekjuskatt, þá eru þetta ca. 350 kr., eftirgjöfin, það er um 30 kr. á mánuði.

Þetta frv. kemur til þess að mæta hinum miklu útgjöldum, sem lögð voru á fólk með lögum um stofnun útflutningssjóðs fyrir áramót, en samkvæmt þeim lögum eru lagðar byrðar á landsfólkið, sem nemur 1500 kr. á hvert mannsbarn í landinu, börn og gamalmenni. Hjón með eitt barn greiða þá 4500 kr., en fá aftur á móti endurgreiddar hjá ríkisstjórninni 350 eða 360 kr. Það má segja, að hæstv. ríkisstj. geri þarna góð viðskipti við borgarana, og það getur vel verið, að borgararnir telji það mikils vert að fá þessa eftirgjöf á tekjuskatti og verði hæstv. ríkisstjórn þakklátir fyrir þessi viðskipti.

Ég ætla svo ekki að segja meira um þetta frv. Ég mun að sjálfsögðu fylgja því, það er spor í áttina. Það má segja, að það sé endurgreiðsla, en hún er of lítil, miðað við það, sem hæstv. ríkisstj. tekur af fólkinu, miðað við þá skatta, sem á voru lagðir núna fyrir jólin.