28.05.1957
Sameinað þing: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, vék hér nokkuð að olíumálunum, og það var Hamrafellsleigan, sem fór í taugarnar á honum. Mér er kærkomið að ræða þau mál.

Hvað var það, sem gerðist með leigu Hamrafellsins? Þegar fragtir á frjálsum markaði voru almennt orðnar 220–240 sh. á tonnið í vetur, var samningur gerður við Hamrafellið um flutningana fyrir 160 sh. tonnið. Það er rétt að geta þess, að þegar Hamrafellið var leigt, reyndist nær ómögulegt að fá skip til flutninga með olíu frá Svartahafi vegna stríðshættunnar, sem stafaði frá Súez-átökunum. Vetrarvertíðin var fram undan og beinn voði fyrir dyrum, ef ekki tækist að fá skip til olíuflutninganna. Hamrafellið var leigt í fjóra túra, og reynslan hefur nú sýnt, að leiga þess var mun hagstæðari en verð það, sem leigja varð á skip á frjálsum markaði.

En hvað er það þá, sem Bjarni Benediktsson finnur athugavert við leiguna á Hamrafellinu? Jú, það er það, að skipið skyldi ekki eitt allra íslenzkra skipa, sem flytur heila farma, vera sett undir verðlagsákvæði og skyldað til þess að taka að sér flutningana í þessu tilfelli á kostnaðarverði.

Á undanförnum árum hafa öll íslenzk skip, sem flutt hafa heila farma, eins og sement, timbur, kol, salt o.fl., verið fyrir utan allar verðlagsreglur, en fylgt hinum frjálsa fragtmarkaði. Íhaldið, sem prédikar hina frjálsu verðmyndun og frjálst athafnafrelsi, hafði enga ástæðu fundið á undanförnum árum til breytinga á þessu, ekki fyrr en leigan á Hamrafellinu var ákveðin. Hamrafellið flytur enn olíu á heimsmarkaðsverði, sem mun nú vera alllangt undir því kostnaðarverði, sem eigendur skipsins telja að skipið þyrfti þó að fá.

En leigan á Hamrafellinu leiðir hugann að olíumálum almennt. Á undanförnum árum hafa íhaldsgæðingarnir makað krókinn af leigðum erlendum olíuskipum. Þeir eru nú óánægðir að vera út úr þessu spili. Þeir eru líka sérlega reiðir við mig og Hannibal Valdimarsson fyrir verðlagninguna á olíunni. Þeir hafa ekki gleymt því, að í tíð í haldsins fengu þeir óáreittir að ráða olíuverðinu, en nú hefur verðið verið bundið fast um langan tíma og síðan var verðlagning þeirra skorin niður, sem nam hvorki meira né minna en 30 millj. kr., miðað við eins árs sölu á olíu. Þar af stafar reiði þeirra í olíumálunum og reiði Bjarna Benediktssonar.

Um þessar mundir leggur stjórnarandstaðan, Sjálfstfl., höfuðkapp á þrennt í þeim tilgangi að brjóta niður stefnu stjórnarinnar. Hið fyrsta og þýðingarmesta er að koma af stað verkföllum og knýja fram kauphækkanir, einkum hinna hæst launuðu, svo að verðstöðvunarstefna stjórnarinnar fari út um þúfur. Þá er tilraunin til þess að skapa gengislækkunarpólitík, svo að ómögulegt verði að koma á jafnvægi í fjárhagsmálum þjóðarinnar. Og loks er svo áróðurinn nm, að spariféð sé rifið út úr bönkunum, og þannig á að koma í veg fyrir, að fé safnist þar fyrir til nauðsynlegra útlána í sambandi við framkvæmdir í landinu.

Verkfallapólitík íhaldsins er eitt sérkennilegasta fyrirbrigði íslenzkra stjórnmála. Auðvitað dettur engum manni í hug, að foringjar íhaldsins hafi kjarabaráttu launþega í huga með þessu brölti sínu. Íhaldið hefur alltaf ætlað af göflunum að ganga, þegar verkamenn hafa bætt kjör sín. Það hefur blygðunarlaust haldið því fram, að allir erfiðleikar atvinnuveganna stöfuðu af of háu kaupi hinna lægst launuðu. Bjarni Benediktsson kallaði síðasta verkfall verkamanna hér í Reykjavík heræfingu í ofbeldisáformum. Þá hét 11% kauphækkun á máli í haldsins tilræði við þjóðfélagið og glæpur gagnvart atvinnuvegunum. Þá voru verkamenn þó að leiðrétta kjör sín, sem höfðu verið skert með dýrtíðarráðstöfunum, sem gerðar voru í andstöðu við verkalýðshreyfinguna í landinu. En nú, þegar dýrtíðarráðstafanir eru gerðar í samráði við verkafólk, kemur íhaldið og heimtar verkföll og þykist berjast fyrir hag almennings.

Það er margt furðulegt við stjórnarandstöðu íhaldsins. Hver hefði trúað því, að skrautbúnir forstjóra-kadiljakkar æddu um bæinn til þess að smala fólki á fundi í ýmsum verkalýðsfélögum í þeim tilgangi að heimta verkfall og hærra kaup? Hver hefði trúað því, að Bjarni Benediktsson ætti eftir að vaða jörðina upp að hnjám í verkfallabrölti? Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar, að iðnrekendur og aðrir vinnuveitendur byðu fram óbeðið launahækkanir til starfsfólks síns. Það er margt skrýtið í kýrhausnum, eins og þar stendur, og það er margt skrýtið í vinnubrögðum íhaldsins um þessar mundir. Samhliða verkfallsbröltinu læðir í haldið út þeim áróðri, að ákveðið sé að feila gengi krónunnar á næsta hausti. Íhaldið veit, að hér er um staðlausan tilbúning þess sjálfs að ræða. Því er fullkunnugt um, að stjórnin miðar alla stefnu sína við, að komizt verði hjá gengislækkun, en af því að það veit einnig, að almennur ótti um verðbreytingu peninganna getur skapað glundroða, grípur það til þessa gengislækkunarslúðurs.

Íhaldið heldur því fram, að ráðstafanir ríkisstj. um áramótin til stuðnings framleiðslunni hafi þegar leitt af sér óbærilega dýrtíð, sem hljóti að enda með gengisfellingu. Hér er ranglega skýrt frá staðreyndum, eins og við mátti búast. Vísitalan hefur að vísu hækkað um 4 stig, og veldur það nokkrum vanda. En hvernig eru þessi 4 stig í vísitölunni til komin? Það er rétt að gera sér fulla grein fyrir því. 21/2 stig af 4 stigum eru gersamlega óviðkomandi aðgerðum núverandi ríkisstj. Þar er um að ræða 0.61 stig vegna hækkunar á fiski í bæjarsölu, sem varð í tíð fyrrverandi ríkisstj. gegn öllum lögum og reglum, en verðlagseftirlit íhaldsins hirti ekki um að koma í veg fyrir og hirti ekki um einu sinni að reikna inn í vísitöluna og það var fyrst að gerast nú. Þá hefur vísitalan hækkað um 1.39 stig vegna erlendrar verðhækkunar á sykri, og standa vonir nú til, að lækkun geti orðið á þessum lið aftur. Þá nemur erlend verðhækkun á olíu 0.31 stigi, og fyrirsjáanlegt er nú, að sú hækkun hverfur á næstunni með verðlækkun á olíunni. Þá er næst að geta 0.23 stiga hækkunar á vísitölunni vegna verðhækkunar á rafmagni, sem bæjarstjórnaríhaldið í Reykjavík smeygði inn í vísitöluna nú við síðasta aflestur á rafmagnsreikningunum hér í Reykjavík. Þá hækkun framkvæmdi íhaldið án samráðs við verðlagsyfirvöldin í landinu, og sú hækkun var með öllu óleyfileg. Þessa hækkun ætti aðvitað að endurkalla hið fyrsta. Þannig eru 21/2 stig af 4 ýmist leifar af verðhækkunum íhaldsins eða óviðráðanlegar verðbreytingar erlendis frá.

Áróður íhaldsins um verðhækkanir þær, sem Ingólfur Jónsson flutti hér áðan, er býsna einkennilegur. Hv. þm. nefndi ekki dæmi um verðhækkanir á almennu útsöluverði á neinni vöru. Hann treysti sér ekki til þess, heldur nefndi hann nokkur dæmi um hækkun á innflutningsverði tiltekinna vara. Auðvitað voru þessi dæmi alröng og fjarri öllum sannleika. Þau voru af nákvæmlega sama toga spunnin og fyrri yfirlýsingar íhaldsins um það, að nælon-sokkarnir frægu ættu að hækka í verði um 70%, en reynslan varð sú, að þeir hækkuðu í verði um 3–5%. Það er rangt hjá íhaldinu, þegar það heldur því fram, að vöruverð hafi almennt stórhækkað. Hið sanna er, að stórlækkuð álagning og strangt verðeftirlit hefur haldið verðlaginu mjög í skefjum. Verðstöðvunarpólitík ríkisstj. hefur borið árangur og það svo, að vonir standa nú til, að engar nýjar ráðstafanir þurfi að gera til stuðnings framleiðslunni um næstu áramót, verði engin veruleg óhöpp á síðari hluta ársins. Spár íhaldsins um óhjákvæmilega gengislækkun og samninga í því sambandi eru því úr lausu lofti gripnar.

Þá er sagan um spariféð, sagan, sem Ingólfur Jónsson, hv. 1. þm. Rang., endurtók hér einu sinni enn. Íhaldspressan segir: Fólkið rífur út spariféð. Síðan ríkisstj. tók við, hefur ekkert sparifé safnazt. — Allt er þetta tilhæfulaus ósannindi, sögð í þeim tilgangi að skapa ókyrrð í fjármálum og trufla framkvæmdir. Sparifjármyndunin var nærri því sú sama árið 1956 eins og hún var 1955. Eins og venjulega var sparnaðurinn minni síðari hluta ársins bæði árin. Að undanförnu hefur spariféð vaxið nokkuð jafnt. Séu t.d. teknir fjórir fyrstu mánuðir yfirstandandi árs og bornir saman við fjóra fyrstu mánuði ársins 1956, kemur í ljós, að sparifjár- og hlaupareikningsinnlög í bönkunum uxu um 38 millj. kr. árið 1956, í tíð íhaldsins, en um 86 millj. á þessu ári. Þessar tölur sýna haldleysi íhaldsáróðursins um, að spariféð sé fremur rifið út nú en áður. Þannig er stjórnarandstaða íhaldsins öll miðuð við það eitt að koma á öngþveiti. Verkfallabröltið er liður í þeirri baráttu, gengislækkunaráróðurinn er liður í sömu baráttu og sparifjárósannindin eru af sama toga spunnin.

Frá því að ríkisstj. var mynduð, hefur það verið eitt af aðalverkefnum hennar að tryggja óslitinn rekstur framleiðslunnar. Þannig lagði stjórnin höfuðáherzlu á að ljúka samningum við sjómenn og útgerðarmenn um rekstur fiskiflotans fyrir síðustu áramót. Það tókst, eins og kunnugt er, og með því heppnaðist að bjarga tugum millj., sem glatazt hefðu í framleiðslustöðvun. Með samningunum um áramótin tókst að auka útgerðarþátttökuna allverulega. Sú aukning og lengdur útgerðartími hefur að verulegu leyti komið upp á móti lélegum afla á vertíðinni, og af þessum ástæðum er munurinn á heildaraflanum nú og í fyrra minni en búast hefði mátt við.

Nú í vor hófst í fyrsta skipti í mörg ár vorsíldveiði hér í Faxaflóa, því að nú var í tíma samið um rekstrargrundvöll fyrir þær veiðar. Enginn vafi leikur á, að hægt er að veiða óhemjumagn af síld hér á hverju vori, og aðstaðan til hagnýtingar er öll fyrir hendi, þar sem frystihúsin eru til og nægur verksmiðjukostur. Nú hefur bátunum verið tryggður rekstrargrundvöllur við þessar veiðar fram að norðurlandssíldartímanum.

Þá hefur þegar verið samið við útvegsmenn um sumarsíldveiðarnar. Ákveðið er, að síldarmálið til bræðslu verði 95 kr. í stað 80 kr. í fyrra og saltsíldarverðið hækki úr 120 kr. hver uppmæld tunna í 130 kr. Hér er um allverulega hækkun að ræða, sem óefað mun ýta undir aukna þátttöku í síldveiðunum í sumar. Í þessum efnum hefur enn sem fyrr verið lögð höfuðáherzla á að ná fullu samkomulagi, að ná samningum í tæka tíð og örva framleiðsluna svo sem hægt er. Það er von mín, að framleiðslan þurfi ekki að stöðvast einn einasta dag á þessu ári vegna ósamkomulags við stjórnarvöldin, eins og tíðast var þó í valdatíð sjálfstæðismanna.

Það er í samræmi við þá höfuðáherslu, sem stjórnin leggur á aukna framleiðslu og gernýtingu allra framleiðslutækja, að hún hefur þegar gert meiri og stærri fyrirframsamninga á aðalútflutningsvörum okkar en dæmi eru til um áður. Og það er í samræmi við þessa stefnu, að stjórnin vinnur að stóraukningu í fiskiflota landsmanna með togarakaupum, kaupum fiskibáta og fiskibátasmíði innanlands. Það er líka í samræmi við þessa stefnu um aukna framleiðslu, að stjórnin hefur jafnan samíð við framleiðendur um að bæta kjör fiskimanna jafnhliða betri kjörum útgerðinni sjálfri til handa. Hækkað síldarverð í sumar þýðir hækkað kaup sjómanna, og hækkað fiskverð í ársbyrjun þýddi hækkuð laun sjómanna. Engum getur blandazt hugur um, að þörf er á því, að fleiri landsmenn fáist að framleiðslustörfunum. Það er því alveg furðulegt, að stjórnarandstaðan skuli ganga svo langt í fjandskap sinum við ríkisstj. að reyna æ ofan í æ að nota launabætur sjómanna til réttlætingar á launakröfubrölti vegna hálaunamanna í landi.

Í þessu efni hefur Sjálfstfl. blásið út jafnvel hinar smávægilegustu launabreytingar sjómanna, allt í þeim tilgangi að kalla fram launakröfur annarra. Þannig nefndi Ólafur Thors hér í umr. í gær sem dæmi um almennar kauphækkanir, sem stjórnin hefði staðið fyrir, kauphækkun sjómanna á Akranesi í vetur. Hið rétta er, að þar varð engin breyting á kaupi nema til samræmis við aðrar verstöðvar. Þá nefndi Ólafur launahækkanir sjómanna í Grindavík. Hið rétta er, að sjómenn sögðu þar alls ekki upp samningum, heldur voru það útgerðarmenn, enda var þar um nokkra lækkun á kaupi að ræða frá þeim kjarasamningum, sem þar höfðu verið í gildi. Og síðast nefndi svo Ólafur Thors, að togarayfirmenn hefðu fengið allt upp í 40% launahækkun á saltfiskveiðum. Hér er um algerlega ranga túlkun á samningum að ræða. Launabreytingin var smávægileg, aðeins miðuð við að samræma saltfisksverð við aðra fiskverðshækkun, sem í gildi var komin.

En svona er málflutningur Sjálfstfl. allur miðaður við það að skapa glundroða og vinna ríkisstj. skaða.

Stjórnarandstaða Sjálfstfl. er ekki óeðlileg, ef betur er að gáð, þó að hún sé alleinkennileg svona á köflum. Það eru ástæður til alls og einnig þess, að gripið er til slíkra örþrifaráða sem Sjálfstfl. hefur nú gert. Íhaldinu er ekki rótt í stjórnarandstöðunni. Það finnur vel, hvað að er. Allir vita um þann auma blett á íhaldinu, sem kenndur er við heildsalana. Nú hefur verið stigið ofan á þann blett. Það skal engan undra, þó að rekið sé upp óp. Heildsalarnir, meginstoðir Sjálfstfl., eru nú látnir borga, ekki í flokkssjóðinn eins og áður, heldur í uppbótarsjóð framleiðslunnar í landinu. Stóreignamenn, þeir sem eiga yfir eina milljón í skuldlausri eign, verða nú að greiða nokkurn skatt í því skyni, að í framtíðinni verði hægt að lækka búsaleiguna. Völdin í bönkunum eru í voða, og fisksölumálin eru dregin úr höndum Thorsaranna.

Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga, er skiljanlegt, þó að nokkurt fum sé á forustuliði Sjálfstfl. hér í þingsölunum þessa síðustu daga.

En það fær engu breytt. Stefna stjórnarinnar er ákveðin. Hún verður framkvæmd þrátt fyrir kveinstafi íhaldsforingjanna. Nú er kominn tími til þess, að þeir skili aftur rangfengnum gróða sinum og að honum verði varið til uppbyggingarstarfa í landinu, til þess að styrkja framleiðsluna, honum verði varið til almennra hagsbóta fyrir alþýðu landsins.