01.02.1957
Neðri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

105. mál, lækkun tekjuskatts af lágtekjum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég sagði það hér í gær í sambandi við umr. um frv. til laga um sérstakan skattfrádrátt fiskimanna, að það væri ekki mögulegt að gizka á, hvað það lækkaði ríkistekjurnar mikið. Það byggist á því, að þar er gert ráð fyrir, að fiskimenn fái til frádráttar ákveðna krónutölu, og snertir það fiskimenn með mjög mismunandi tekjur. Sumir af þeim hafa tiltölulega lágar tekjur, aðrir hafa mjög háar tekjur. Þetta gerir það að verkum, að óhugsandi er að reikna út, hvað lækkunin munar miklu í heildinni, nema þá að taka framtöl svo að segja allra fiskimanna á landinu eða taka stórar og miklar dreifiprófanir, sem við höfum ekki lagt í að gera í því sambandi. Þess vegna gat ég ekki upplýst þetta.

Aftur á móti var það bara af vangá hjá mér áðan, að ég gat þess ekki, hvað lækkun sú, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, muni verða mikil, miðað við siðasta ár, því að það er tiltölulega auðveit að sjá það. Það þarf bara að taka út úr skattskránum þann skatt, sem lækkar samkvæmt frv., því að frv. er miðað við, að tiltekin skattfjárhæð og allar lægri skattfjárhæðir lækki um 331/3%. Má gera sér nokkuð ákveðna hugmynd um þetta, og er það mat skattstofunnar hér, að miðað við s.l. ár mundi þetta frv. lækka tekjuskattinn í heild um 5 millj. kr.

Það atriði, sem hv. 9. landsk. þm. minntist á, er sjálfsagt að skoða í n. En þegar þessi aðferð er viðhöfð, sem hér er gert ráð fyrir, þá er sennilega ómögulegt að koma alveg í veg fyrir, að það verði nokkur stallur á skattstiganum í reyndinni. Það eru fordæmi fyrir lagaákvæðum eins og þessum, sem hér er gert ráð fyrir, en það er sjálfsagt að skoða í n. þetta atriði, sem hann minntist á.

Þá kom það fram hjá hv. 1. þm. Rang. aðallega, að honum fyndist smátt skömmtuð lækkunin. Ég hugsa, að það sé rétt hjá honum, að skattur hjóna með þær nettótekjur, sem tilgreindar eru í frv., muni vera 1120 kr. Það er náttúrlega ekki hægt að segja, að það sé hár tekjuskattur, og a.m.k. er hann hér í Reykjavík lágur samanborið við þau útsvör, sem slíku fólki er ætlað að greiða til bæjarins, því að þau eru drjúgum hærri en þetta.

Samt sem áður er nú stungið upp á því að lækka þennan lága skatt til ríkisins um þriðjung og svo þeirra, sem hafa lægri tekjur. Ég skal taka það fram, að það eru allmargir, sem koma þarna undir, vegna þess að 47500 kr. hreinar tekjur svara til nokkru hærri launa en 47500 kr., því að búið er að draga frá nokkurn skyldufrádrátt, áður en sú fjárhæð er fundin, þannig að þetta kemur þó æðimörgum til góða, sem ekki er þó hægt að segja að greiði háa skatta. Á hinn bóginn eru útsvörin hér í Reykjavík miklu, miklu hærri á þessu fólki en skatturinn, og hefur þó ekkert bólað á því, að gera ætti ráðstafanir til þess að lækka þau. Þvert á móti mun talað um að hækka þau verulega. Þar ráða búskapnum menn, sem mundu kannske vilja hlusta á ráðleggingar 1. þm. Rang. og 2. þm. Eyf. um, að nú sé stórkostleg nauðsyn að lækka einmitt gjöldin á þessu fólki. Vildi ég því ráðleggja þeim, m.a. vegna þess, hve þeim virðist nú lítið tillit tekið til þeirra hjá ráðandi þingmeirihluta, að Leggja nú til við flokksbræður sína, t.d. hér í Reykjavík, að lækka útsvörin, þar sem gera verður ráð fyrir, að orð þeirra verði meira metin þar á bæ.

Það er ánægjulegt að heyra þennan áhuga, sem hv. 1. þm. Rang. og sjálfstæðismenn yfirleitt hafa nú fyrir lágum álögum og lækkun á sköttum. Það skýtur dálítið skökku við það, sem áður var, því að meðan þeir voru í stjórnaraðstöðu, sáu þeir aldrei nein önnur úrræði en þau að hækka álögurnar.