01.02.1957
Neðri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

105. mál, lækkun tekjuskatts af lágtekjum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég leyfi mér að mótmæla því algerlega, sem hv. 1. þm. Rang. sagði hér, að það hefði verið verk sjálfstæðismanna fyrst og fremst, að lækkaður var tekjuskatturinn nú síðast. Það var ég, sem beitti mér fyrir þeirri löggjöf og stóð fyrir því, að hún var samþ. hér á Alþingi. Þetta er ekkert annað en tilhæfulaust skrum hjá hv. 1. þm. Rang. Það vita allir, hver það var, sem fór með fjármálin, þegar þessi löggjöf var sett, og menn eru ekki svo skyni skroppnir, að þeir viti ekki, hver það er, sem verður að hafa forgöngu um skattamálin. Það eru þeir, sem hafa þau mál með höndum.

En ég skal minna hv. 1. þm. Rang. á annað. Ég skal minna hann á, að það voru sjálfstæðismenn, fjmrh. Sjálfstfl., sem beittu sér fyrir þeirri skattalöggjöf, sem langlengst hefur gengið á Íslandi í sambandi við álögur með beinum sköttum, og það voru þeir, sem beittu sér fyrir þeirri löggjöf, sem ég beitti mér fyrir að breyta til lækkunar, að vísu í samvinnu við sjálfstæðismenn.

Hv. 1. þm. Rang er að tala hér um, að það sé óeðlilegt að taka skatt af þurftarlaunum. Það þarf hreysti til þess að koma hér úr hópi sjálfstæðismanna og halda fram svona skoðunum. Eins og nokkrum lifandi manni detti í hug að taka þetta alvarlega. Eins og allir viti það ekki, að Sjálfstfl. er allra flokka purkunarlausastur í því að leggja álögur einmitt á þarfavörur og yfirleitt á neyzlu manna og allra flokka lengst frá því marki að hlífa þurftartekjum við álögum. Eða þá t.d. útsvörin hérna í Rvík. Hann ætti að kenna borgarstjóranum hér í Rvík og sjálfstæðismeirihlutanum þetta, áður en hann fer að gera sig að athlægi með því að halda þessu fram við okkur hér á Álþingi. Hann ætti að kenna þeim þá reglu að leggja ekkert útsvar á þurftartekjur.

Hann tók því hér áðan heldur illa að ræða við borgarstjórann um útsvörin í Reykjavík, þ.e.a.s., hann fór allur hjá sér og fór utan um það mál. En ég ráðlegg honum að gera það. Ég ráðlegg honum að beita áhrifum sínum. Ég ráðlegg honum að beita áhrifum sínum í Sjálfstfl., ef þau eru einhver, til þess að sú stefna verði m.a. upp tekin hér í Rvík að leggja ekki útsvör á þurftartekjur. Þá hættum við að hlæja að honum, þegar hann kemur hér fram til þess að tala um þetta, en fyrr ekki.