01.02.1957
Neðri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

105. mál, lækkun tekjuskatts af lágtekjum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það var aðeins eitt atriði í ræðu hv. 2. þm. Eyf. (MJ), sem gaf mér tilefni til að standa upp, en fyrst ég er staðinn upp, þá vil ég minnast á annað í leiðinni.

Hann sagði, að ég hefði hafið hér árásir á sveitarstjórnir fyrir að leggja á þurftartekjur. En ég vil minna hv. 2. þm. Eyf. á, að það var hv. 1. þm. Rang. og hann, sem leiddu þetta hér inn í umr., að það ætti ekki að leggja á þurftartekjur. Þá leyfði ég mér að benda á, hvernig hagað er útsvarsálagningunni í Reykjavík.

En fyrst farið er að ræða um þetta, þá vil ég enn þá einu sinni benda á, að ef Reykjavíkurbær færi eins að og ríkisstj. með þessu frv. og legði til að lækka um 1/3 álögurnar á þær tekjur, sem hér um ræðir, þá mundi það muna menn miklu meiru en þau hlunnindi, sem veitt eru með þessu frv., vegna þess að útsvörin munu vera margföld á við tekjuskattinn, einmitt á því fólki, sem býr við þessar lágu tekjur.

En það, sem kom mér til að standa upp, var það, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði um fjármálastjórn mína og umr. þær, sem nú ættu sér stað um þróun efnahagsmála á síðustu árum.

Ég sagði hér áðan, að það mundu flestir vita, hver það hefði verið, sem hefði farið með fjármál ríkisins undanfarið, og ég bygg, að flestir geri sér grein fyrir því, að ef skattar hafa verið stórlega lækkaðir, eins og þeir voru stórlega lækkaðir á tímabili á beinum tekjum, þá hlaut það að vera fyrir forustu þess manns, sem hafði fjármál ríkisins með böndum, enda var það svo. Þetta var það, sem ég sagði.

Á hinn bóginn þurfa sjálfstæðismenn ekki að halda, að þeim muni takast að koma því inn hjá þjóðinni, að ég beri ábyrgð á þeirra verkum í efnahagsmálum fyrir það eitt, að ég fór með fjármálastjórn ríkisins. Það er alveg vonlaust verk fyrir þessa menn að ætla sér að telja fólki trú um, að ég beri höfuðábyrgðina á þróuninni hér í efnahagsmálum fyrir það eitt, að ég fór með fjármálastjórn ríkisins. Og þær tilraunir, sem þeir hafa gert í þá átt, munu verða þeim til verðugrar skammar, áður en lýkur.

Það var ekki á mínum vegum að ráða stefnunni í fjárfestingarmálum eða mörgum öðrum þáttum efnahagslífsins, svo sem bankamálum og gjaldeyrismálum, í þeirri ríkisstj., sem síðast sat. Það var á annarra manna vegum. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta hér, en ég vil þó sýna fram á, hvað það er lítilmótlegt af hendi sjálfstæðismanna að flytja fram þær blekkingar, sem þeir hafa gert í þessu sambandi, þar sem þeir vilja halda því fram, að fjmrh., sá sem fer með fjármál ríkisins, hljóti að bera ábyrgð á öllum þáttum efnahagslífsins. Því fer alls fjarri, og það mun á sínum tíma við viðeigandi tækifæri verða tekið fyrir hér á hv. Alþ., þó að það sé ekki tilefni til þess í sambandi við þetta mál.

Það er lítill manndómur, sem lýsir sér í þessum málflutningi sjálfstæðismanna, og það bætist nú við, að þeir vilja eigna sér það, sem bezt hefur tekizt af annarra verkum. Ef það hafa verið lækkaðir skattar, þá er það þeirra verk, þó að fjmrh. sé úr öðrum flokki, en ef það hafa verið hækkaðir skattar, þá er það auðvitað ekki þeirra verk, þá er það fjmrh., sem hækkar skattana.

Finnst mönnum þetta vera myndarskapur? Mér finnst ekki, mér finnst þetta fjarskalega ómyndarlegt og bera vott um lítinn manndóm, og ég held, að þessi áróður borgi sig ekki fyrir þá, sem beita honum.