01.02.1957
Neðri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

105. mál, lækkun tekjuskatts af lágtekjum

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. var að tala um það hér áðan, að ég og hv. 2. þm. Eyf. ættum að benda borgarstjóranum í Reykjavík á það, að það væri ekki gott að leggja á þurftartekjur manna, ef við værum með þá skoðun. En ég vil benda hæstv. fjmrh. á, að það er víðar en í Reykjavík fólk, sem hefur aðeins brýnustu þurftartekjur. Þetta er um sveitarfélögin öll á landinu og það er þannig með þau, að þau hafa orðið að leggja á þurftartekjur fólks, vegna þess að þau hafa ekki haft tekjustofna. Sveitarfélögin hafa ekki getað haft þá aðferð, sem hæstv. fjmrh. hefur notað, að fara með lögum ofan í vasa borgaranna og innheimta það, sem hann hefur talið að ríkissjóður þyrfti að fá á hverjum tíma. Og að vera að bera sveitarfélögin nú saman við það, sem ríkisstj. gerir, er náttúrlega alger fjarstæða. Sveitarfélögin hafa ekki fengið nýja tekjustofna. ríkisstjórnin hefur með lögum tekið 240 eða 250 millj. úr vasa borgaranna, en ætlar aðeins að skila 5 millj. aftur að hámarki. Ef hæstv. fjmrh. vildi nokkuð missa af þeim tekjum, sem hann hefur fengið og innheimtir, ef hæstv. fjmrh. teldi ekki nauðsynlegt að hækka fjárlögin árlega um 100 millj. kr., þá gæti hann gefið sveitarfélögunum eftir nokkurn tekjustofn, t.d. part af söluskattinum. En það hygg ég að hæstv. fjmrh. sé ófáanlegur til að gera. Ef sveitarfélögin fengju hluta af söluskattinum, gætu þau, ekki aðeins Reykjavík, heldur einnig fátækir sveitahreppar jafnvel hætt að leggja á þuftartekjur fólks, fátæks fólks. En ég býst við, að hæstv. fjmrh. muni framvegis eins og hingað til standa gegn því, að sveitarfélögin geti rekíð þá pólitík að létta álögum af fátækum almenningi.

Hæstv. fjmrh. var hér áðan að tala um það, að við sjálfstæðismenn vildum þakka okkur skattalækkanir, en kenna andstæðingunum um skattahækkanir. Heldur fjmrh., að hann geti talið þingheimi eða landsfólkinu trú um það, að hann hafi ekki á sínum tíma verið neyddur til af sjálfstæðismönnum að ganga svo langt í skattalækkuninni eins og raun bar vitni um? Það muna margir eftir þeim fundum og eftir þeim átökum, sem þá ríktu. Hæstv. fjmrh. taldi, að ríkissjóður mætti ekki missa svo miklar tekjur sem skattalækkuninni nam. Við sjálfstæðismenn héldum því hins vegar fram, að innflutningurinn og tolltekjurnar væru það miklar, að ríkissjóður gæti séð af þessum tekjuskatti. Þess vegna voru lög um tekjuskattslækkunina samþykkt.

Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan: Það er tilgangslaust að ætla sér að halda því fram, að ég, fjmrh., beri ábyrgð á öllu, sem gerzt hefur í efnahagsmálunum. — Við höfum nú lesið Tímann undanfarna daga, undanfarna mánuði, og við, sem vorum í ríkisstj. með Framsfl. s.l. 3 ár, þekkjum alveg, hvað mikill drengskapur kemur fram hjá þeim flokki og í því flokksblaði, þegar rætt er um stjórnarathafnir og stjórnarsamstarf.

Hæstv. ráðh. talaði hér áðan um fjárfestingarmálin. Og ég var að lesa bæði í gær og í dag leiðara í Tímanum um fjárfestingarmálin. Það var vitnað í orð, sem ég sagði á fundi 1953, þar sem ég hélt því fram, að það væri fyrir baráttu okkar sjálfstæðismanna, að fjárhagsráð var afnumið. Það er rétt. Það var fyrir baráttu okkar, að fjárhagsráð var afnumið, að bændur fengu að byggja, án leyfis, peningshús, hlöður, fjós, hesthús og fjárhús og að einstaklingar fengu, án leyfis, að byggja íbúðir af hóflegri stærð, sem voru ekki yfir 520 rúmmetra. Það var þetta, sem gerðist með afnámi fjárhagsráðslaganna. En skrauthýsin, sem framsóknarmenn eru að tala um að hafi verið byggð hér í Reykjavík, hafa verið byggð, ef um mörg skrauthýsi er að ræða, með samþykki framsóknarmanna, því að ekkert fjárfestingarleyfi var hægt að gefa, nema samþykki framsóknarmannsins í innflutningsskrifstofunni kæmi til.

Ég verð að segja það, að það fer hálfilla í munni framsóknarmanna, þegar þeir eru að tala um skrauthýsi og skrauthallir. Það gæti verið, að það yrðu ekki færri skrauthallir framsóknarmannanna, sem byggðar hafa verið á síðustu árum hér í Reykjavík, heldur en t.d. sjálfstæðismanna. Hvers vegna þá að vera með þessi svigurmæli og dylgjur í garð okkar sjálfstæðismanna?

Í öðru lagi gleymir hæstv. fjmrh. því, að hann hefur verið, siðan Framkvæmdabanki Íslands var stofnaður, yfirmaður þeirrar stofnunar. En í lögum um Framkvæmdabankann er sagt, að hann skuli vera ríkisstj. til ráðuneytis í fjárfestingarmálum, að Framkvæmdabankinn skuli gera rökstudda áætlun um það, hversu fjárfestingin megi vera mikil á hverjum tíma. Ætlar hæstv. fjmrh. að halda því fram, að hann hafi vanrækt að láta Framkvæmdabankann gefa þessa skýrslu til ríkisstjórnarinnar, til þess að hægt væri að haga fjárfestingunni eftir henni? Ætlar hæstv. fjmrh. að halda því fram? (Forseti: Ég vil minna hv. þm. á, að það er aðeins athugasemdartími.) Ég ætla ekki að níðast á tímanum, herra forseti, ég á aðeins eftir að segja örlítið. Ég ætla aðeins að segja það, að hæstv. fjmrh. hefur í rauninni játað þá yfirsjón á sig hér í þingsölunum, að hann hafi vanrækt að láta þá stofnun, sem hann var og er yfirmaður yfir, Framkvæmdabanka Íslands, gera skýrslu til ríkisstjórnarinnar og fylgjast með fjárfestingarmálunum. Það var lagaleg skylda Framkvæmdabankans að gera þetta. Og það er þá einnig skylda yfirmanns bankans, fjmrh., að hafa fylgzt með því, að þetta væri gert. Og þegar þetta er athugað, lög Framkvæmdabankans, þá efast enginn um, hver raunverulega er yfirmaður fjárfestingarmálanna á Íslandi. Það hlýtur að vera yfirmaður þeirrar stofnunar, sem á að sjá um og fylgjast með, að fjárfestingin sé innan hóflegra takmarka.

Þegar innflutningsskrifstofan gefur út leyfi fyrir fjárfestingu og það eru aðeins tveir menn og annar maðurinn framsóknarmaður og ekkert fjárfestingarleyfi er hægt að gefa út nema með samþykki framsóknarmannsins, er þá heiðarlegt af framsóknarmönnum að vera sí og æ að vera að klifa á því, að fjárfestingin í landinu hafi verið of mikil, vegna þess að sjálfstæðismenn hafi viljað byggja skrauthýsi í Reykjavík? Er þetta heiðarlegt? Hvað finnst ykkur, sem hlustið á? Nei, ykkur finnst það ekki heiðarlegt. Landsfólkinu finnst það ekki heiðarlegt. Þeir, sem lesa Tímann, líka framsóknarmenn, telja þessa málafærslu óviðeigandi og fyrir neðan það, sem bjóðandi er lesendum íslenzkra blaða.