01.02.1957
Neðri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

105. mál, lækkun tekjuskatts af lágtekjum

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég held nú næstum, að það hefði ekki aðeins verið bezt fyrir hæstv. fjmrh. að hætta, heldur að byrja aldrei þessa síðustu ræðu sína og kannske fleiri.

Það eru nú aðeins örfá orð, sem ég má hér segja, og get ég þess vegna ekki farið út í ræðu hans nema að mjög litlu leyti. Hann var að tala um, að Sjálfstfl. hefði eignað sér frelsið í byggingarmálunum. Nú vildi hann hins vegar helzt ekki við það kannast. Þetta er auðvitað fullkomin rangfærsla. Sjálfstfl. hefur eignað sér — það er rétt — frelsið í byggingarmálunum, og ráðh. upplýsti hér sjálfur og staðfesti, að það hefði verið Sjálfstfl., sem hefði lagt áherzlu á að fá fjárhagsráð afnumið og fjárfestingarhömlurnar á íbúðabyggingum og byggingum í sveitum, eins og hv. 1. þm. Rang. gerði hér grein fyrir. Svo sagði ráðh. í sambandi við þetta, þar sem hann þóttist kenna einhvers tvískinnungs í okkar málflutningi, sem er mesti misskilningur, af því að það er enginn tvískinnungur, því að við höldum því fram, sem við héldum fram þá, og blygðumst okkar ekki fyrir að hafa átt hlut að því og barizt fyrir því, að það frelsi var gefið, — en þá sagði ráðh. í því sambandi, hvort sjálfstæðismenn hefðu þá logið eða sagt satt. Nú vil ég vísa þessu aftur til hæstv. ráðh. og benda honum á, að hann ætti að lesa blað sitt, ef hann ekki gerir það. Ef hann hefur ekki gert það, þá ætti hann að gera það sér til upplýsingar í þessu máli að lesa blað sitt fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar hér í Rvík. Það væri hollt fyrir hann, og þá kannske kæmist hann að raun um, hvort Tíminn hefði þá verið að tala um frelsisskrum og annað þess háttar. Nei, þá var Reykvíkingum sagt, að eina leið þeirra til þess að fá frelsi í byggingarmálum væri að stórauka fylgi Framsfl. Og við skulum bíða og sjá, hvað Tíminn segir, þegar fer að nálgast næstu bæjarstjórnarkosningar, hvort það verður þá haldið mjög á lofti, að það hafi verið sjálfstæðismenn, sem beittu sér fyrir byggingarfrelsinu, eða ekki. Það verður gaman að bera það saman.

Það var svo aðeins annað atriði, sem gaf mér tilefni til þess að óska hér eftir að fá að gera athugasemd, en það var í sambandi við þá yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að sjálfstæðismenn hefðu verið honum mjög óþægur ljár í þúfu við fjármálastjórnina síðustu árin.

Það vill svo til, að ég veit dálítið um þessi mál nú síðustu árin og hvernig búið hefur verið að hæstv. fjmrh. í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, og ég verð að segja það, að mig undrar mjög, að hann skuli leyfa sér að fara með þá ósanngjörnu staðhæfingu, bera hana hér á borð, eins og hann gerði, eftir að hann veit mætavel, hvaða stuðning hann hafði frá Sjálfstfl. við skynsamlega afgreiðslu fjárlaga, sem bezt kemur fram í því, að á síðustu árum hefur fjárhagsafkoma ríkissjóðs verið slik, að það hefur verið tugmilljóna króna greiðsluafgangur hjá ríkissjóði. Og ég veit, að ef hann talaði ekki hér af einhverjum óskiljanlegum hita og ofsa um þetta mál, mundi hann játa það, sem rétt er og satt, að hann hefur notið sem fjmrh. nú þessi síðustu ár a.m.k., sem ég þekki til, alveg óvenjulegs — verð ég að segja — stuðnings frá sínum meðstarfsmönnum, bæði í fjvn. og í Sjálfstfl. yfirleitt við afgreiðslu skynsamlegra fjárlaga. Ég mótmæli því harðlega og tel algerlega ósæmandi fyrir hæstv. ráðh. að bera þær fullyrðingar á borð, sem hann hér hefur flutt.

Að það sé svo borið á hann, að hann standi í vegi fyrir útgjöldum til ýmissa þarfra hluta, það getur vel verið, að einhvern tíma hafi það verið sagt, og ég hugsa, að það hafi stundum verið rétt. En mér verður nú á að spyrja, hvort hann muni ekki hafa orðið var við eitthvað svipaðar ásakanir á sig í hæstv. núv. ríkisstjórn.