21.02.1957
Neðri deild: 58. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

105. mál, lækkun tekjuskatts af lágtekjum

Fram. (Skúli Guðmundsson):

Út af því, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Reykv., vil ég benda á það, að fjhn. mun sennilega hafa afgreitt frá sér fleiri mál en nokkur önnur n., að kannske undanskilinni hv. fjhn. Ed.; ég geri ráð fyrir, að málagjöldin sé svipaður þar. Ég hef ekki gert á því athugun, en ég gæti vel trúað, að það kæmi í ljós, ef athugun væri á því gerð einnig, að fjhn. hefði ekki afgreitt hlutfallslega færri mál af þeim, sem hún hefur fengið, heldur en aðrar nefndir, en það munu nú vera langflest málin, sem eru til meðferðar í deildinni, einmitt hjá þeirri nefnd eða fara þangað til athugunar. Hitt er annað mál, að það er náttúrlega sjálfsagt, að sú n. sem aðrar afgreiði mál, eftir því sem ástæður leyfa. Það hefur verið gert og verður væntanlega þannig.

Það er ekki margt, sem ég þarf að segja út af því, sem fram kom hjá hv. 9. landsk. um þetta frv., en ég efast nokkuð um, að hann og meðflm. hans að brtt. á þskj. 264 hafi gert sér grein fyrir því, hvernig ætti að framkvæma það, sem þeir leggja til. Og ég get búizt við því, að það yrði nokkru örðugra í framkvæmd en hann gerir ráð fyrir. Hann talar um agnúa á þessu frv. Eins og ég hef gert grein fyrir, er þetta byggt upp nákvæmlega á sama hátt og þau lög, sem giltu hér í fjögur ár fyrir skömmu um lækkun tekjuskatts af lágtekjum, og varð þá aldrei vart við neinn agnúa á framkvæmd ákvæðanna. Eins og ég hef áður bent á, er hér ekki ætlazt til að setja nýja skattstiga, heldur aðeins að veita þennan afslátt á skatti hjá mönnum, sem hafa tekjur undir vissu marki, og þannig var þetta einnig 1950.