28.05.1957
Sameinað þing: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2273 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Einn af ræðumönnunum í gærkvöld hóf ræðu sína á því, að nú væri vor í lofti, en svo hélt hann áfram og sagði, að samt blasi dimm og drungaleg ský við sjónum sínum. Hann sá ekki til sólar. Þetta var einn af ræðumönnum Sjálfstfl. Hvað veldur því, að foringjar Sjálfstfl. virðast nú hættir að sjá sólina? Hvað hefur gerzt? Það, sem hefur gerzt, er, að Sjálfstfl. er ekki lengur í ríkisstj. Þá finnst leiðtogum hans himinninn formyrkvast.

Í s.l. tæp 20 ár hefur Sjálfstfl. átt fulltrúa í öllum ríkisstj. Þessi völd sín hefur hann notað til þess að hlúa sem bezt að helztu máttarstólpum sínum. Hann hefur tryggt þeim geysimikilvæga aðstöðu og gróðamöguleika í útflutningsverzluninni og innflutningsverzluninni. Hann hefur tryggt þeim hreinan meiri hluta í bankaráðum og bankastjórnum tveggja aðalbankanna. Hann hefur staðið á verði um hagsmuni þeirra í atvinnu- og fjármálalífinu og séð þeim fyrir áhrifum á öllum sviðum þjóðfélagsins, en nú er þessi flokkur allt í einu orðinn valdalaus og áhrifalaus á Alþingi. Þá hættir hann að sjá sólina.

Þið hafið nú, hlustendur góðir, heyrt málsvara ríkisstj. skýra stefnu hennar og stjórnarandstöðuna gagnrýna hana. Hver er kjarninn í stefnu ríkisstj.? Hann er sá að leysa efnahagsvandamálin í sem nánustu samstarfi við samtök launþega og vinnandi framleiðenda, leysa þau þannig, að vinnandi fólk til sjávar og sveita geti talið hagsmunum sínum sem bezt borgið. Hann er sá að vinna gegn öllum verðhækkunum, efla vinnufrið og stuðla ekki að öðrum kauphækkunum en þeim, sem geta fært launþeganum raunverulegar kjarabætur, en knýja ekki verðbólguhjólið af stað öllum til tjóns.

Hvernig snýst Sjálfstfl. við þessari grundvallarstefnu ríkisstj.? Styður hann hana, eins og öllum þjóðhollum öflum að sjálfsögðu ber að gera? Nei, það gerir hann ekki. Ræðumenn hans í gærkvöld og í kvöld hafa að vísu ekki sagt, að þeir séu á móti því, að dýrtíðarhjólið sé stöðvað. Það væri í allt of augljósri mótsögn við allt það, sem flokkurinn hefur sagt undanfarin ár, meðan hann var í ríkisstj.

En hvað gerir Sjálfstfl.? Hann gerir allt, sem hann getur, til þess að koma aftur af stað því kapphlaupi milli verðlags og kaupgjalds, sem hann sér að ríkisstj. hefur verið að stöðva. Hann reynir af alefli að snúa verðbólguhjólinu, sem hann veit að var að nema staðar vegna samstarfs stéttasamtakanna og ríkisstj.

Aðferð Sjálfstfl. er sú að reyna að ala á óánægju með hverja þá ráðstöfun, sem gerð er til þess að lækna meinsemdir efnahagslífsins. Hann hvetur til uppsagnar samninga í hverju einasta stéttarfélagi, þar sem hann hefur nokkur áhrif. Hann er nú að senda þrjá erindreka út um land til þess að róa í verkalýðsfélögunum og hvetja þau til þess að segja upp samningum. Blöð hans auglýsa hverja einustu kauphækkun eða kjarabót, sem einstakar stéttir fá til leiðréttingar eða vegna eðlilegrar samræmingar við aðrar stéttir, og reyna að ýta undir það, að allar stéttir krefjist einhverrar kauphækkunar. Hann beinlínis hlakkar yfir sérhverri vinnustöðvun, sem verður. Þannig er nú komið fyrir flokknum, sem þeir Jón Magnússon og Jón Þorláksson stofnuðu og stýrðu í upphafi.

Nú langar mig til þess að spyrja ykkur og þó einkum og sér í lagi hina eldri meðal hlustenda: Haldið þið, að það hefði getað komið fyrir, að þessir menn, þeir Jón Magnússon og Jón Þorláksson, hefðu hvatt til almennra kauphækkana án alls tillits til afkomu atvinnuveganna? Haldið þíð, að það hefði getað gerzt, að þessir menn hefðu nokkurn tíma kynt undir verkföllum?

Nei, ég veit, hverju þið svarið: Slíkt hefði verið óhugsandi. Þessir menn voru að vísu íhaldssamir í stjórnmálaskoðunum, en þeir voru ábyrgir og heiðarlegir stjórnmálamenn. Þeir hefðu aldrei getað borið slíkan óvildarhug til ríkisstj., að þeir breyttu gegn því, sem þeir vissu að var rétt, til þess eins að reyna að gera henni óleik. Þeir hefðu enn síður nokkurn tíma gert það, sem þeir vissu að væri þjóðarheildinni til tjóns, aðeins til þess að reyna að skapa ríkisstj., sem þeir væru í andstöðu við, erfiðleika.

En þetta hvort tveggja gera núverandi leiðtogar Sjálfstfl. Flokkurinn, sem þeir stýra, á ekkert skylt lengur við heiðarlega borgaraflokka, eins og þeir gerast í nágrannalöndum. Hann er orðinn baráttutæki í höndum tækifærissinnaðs og ábyrgðarlauss hóps peningamanna og valdabraskara.

Þjóðin verður að gera sér þess skýra grein, hvaða aðferðum Sjálfstfl. beitir í stjórnarandstöðu sinni. Barátta hans gegn ríkisstj. fer ekki fyrst og fremst fram hér á Alþingi. Í störfum þingsins hefur stjórnarandstaða Sjálfstfl. reynzt næstum ótrúlega lítið málefnaleg og máttlaus. Í aðalmáli þessa þings, efnahagsráðstöfununum um síðustu áramót, bar stjórnarandstaðan ekki fram neinar heildartillögur. Hún vissi ekki, hvort hún vildi millifærslu tekna eða gengisbreytingu. Hún vissi ekki, hvort tekjuöflunin var of mikil eða of lítil. Hún gat yfirleitt ekkert til mála lagt nema nöldur.

En þetta verður skiljanlegt, þegar þess er gætt, að stjórnarandstaðan í þingsölunum á hinum lýðræðislega vettvangi er Sjálfstfl. aukaatriði. Aðalþungi stjórnarandstöðunnar er á vinnumarkaðnum. Þar telur Sjálfstfl. sig geta gert ríkisstj. mestan óleik. Með því að ýta undir verkföll og kaupkröfur telur hann sig geta komið verðbólguhjólinu aftur á stað, en ný verðbólgualda mundi gera hvort tveggja: torvelda ríkisstj. uppbyggingarstarf hennar og skara eld að köku auðmanna. Verðbólgan er versti fjandi launamanna, en hún er bjargvættur braskaranna.

Vonin um aukna verðbólgu er nú helzti bandamaður Sjálfstfl. í andstöðunni við ríkisstj. Venjulega afneita foringjar Sjálfstfl. verðbólgunni í ræðum sínum. Það hafa ræðumenn flokksins gert í ræðum sínum hér í kvöld. En fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn. Nd. voru þó óvenju hreinskilnir, er þeir skiluðu nál. um stóreignaskattinn um daginn. Þar sögðu þeir m.a.:

„Við viljum einnig á það benda, að hinir auknu skuldafjötrar atvinnurekstrarins, sem leiða mundi af samþykkt slíkrar skattálagningar, gera áframhaldandi verðbólguþróun að hagsmunamáli atvinnurekenda í miklu ríkara mæli en nú er.“

Hvað þýðir þetta? Hér eru fulltrúar sjálfstæðismanna í þingnefnd að játa, að atvinnurekendur og þó auðvitað fyrst og fremst stóratvinnurekendur og braskarar hafi hag, hafi beinan hag af áframhaldandi verðbólguþróun og að líklegt sé, að áhugi þeirra á henni fari vaxandi, ef stóreignaskatturinn verði samþykktur. Þurfa menn nú frekari vitna við um það, hverjir mundu græða á áframhaldandi verðbólguþróun?

Þjóðin verður að átta sig á þeim ljóta leik, sem foringjar Sjálfstfl. leika nú í íslenzkum þjóðmálum. Hér á Alþingi halda þeir ræður og segjast nú eins og fyrr og ævinlega vera andvígir verðbólgu og vilja styðja alla góða baráttu gegn henni. Þeir gera að vísu engar till. í helztu vandamálum þjóðarinnar. Þeir láta sér nægja orðin hér. Þetta er sá þáttur stjórnarandstöðunnar, sem leikinn er á Alþingi.

En hvað gera þeir svo utan Alþingis? Þar standa þeir á bak við heildsala og alla atvinnurekendur, sem krefjast hækkaðrar álagningar og hækkaðs vöruverðs, og þar espa þeir til verkfalla og kaupkrafna, þar sem þeir mega. Þetta er einn ljótasti leikur, sem leikinn hefur verið í íslenzkum stjórnmálum, sérstaklega þegar þess er gætt, að það er hægri sinnaður flokkur, að það er flokkur, sem hefur mikinn meiri hluta íslenzkra atvinnurekenda innan vébanda sinna, sem þannig hagar sér. Óvildin til ríkisstj. er svo mögnuð, að flokkurinn hikar ekki við að beita sér fyrir verkföllum og almennum kauphækkunum, þótt það sé beinlínis andstætt hagsmunum helztu umbjóðenda hans. Hann hikar ekki við að beita sér fyrir aukinni verðbólgu, þótt það sé augljóslega andstætt beinum hagsmunum þjóðarheildarinnar.

Ég gat þess í upphafi, að einn af ræðumönnum Sjálfstfl. hefði látið svo um mælt, að honum fyndist dimmt umhverfis sig. Það er meiri sannleiki í þessum orðum en ræðumaður hefur líklega gert sér grein fyrir. Það eru nefnilega sannkölluð myrkraverk, sem Sjálfstfl. er nú að vinna. En þeim mun nauðsynlegra er að bregða skærri birtu á háttalag hans. Það hefur verið gert í þessum umr., og það hefur afhjúpað Sjálfstfl. sem ábyrgðarlausan lýðskrumsflokk, sem hljóta mun þá einu uppskeru myrkraverka sinna að framlengja valdaleysi sitt og áhrifaleysi. En tími sá, sem ríkisstj. mun gefast til þjóðhollra starfa, til þess að vinna að allsherjarumbótum og framförum, mun verða þeim mun lengri. — Verið þið sæl.