28.05.1958
Efri deild: 110. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Um margra ára skeið hefur efnahagsástand íslenzku þjóðarinnar verið með þeim hætti, að ekki getur talizt heilbrigt. Útgerðin, sem er aðaluppistaðan í þjóðarbúskapnum, er rekin með halla. Á það bæði við togaraútgerð og bátaútgerð. Iðnaður allur er ennfremur rekinn með halla, hvort sem það er rekstur á sviði fiskiðnaðar eða öðrum sviðum, og ég ætla, að sama máli gegni um landbúnað.

Enginn atvinnuvegur þjóðarinnar virðist geta borið sig, og þarf að njóta þar ýmist útflutningsuppbóta eða styrkja eða niðurgreiðslna, hverju nafni sem slíkt á að nefnast, til þess að atvinnureksturinn geti haldið áfram. Það er líklega aðeins ein tegund atvinnurekstrar á Íslandi, sem enn þá getur borið sig að því er útflutning snertir, og það er hvalveiðar eða hvalútgerðin. En þessi eina útgerð, sem enn þá er talin bera sig eða svara kostnaði, á nú eftir þessu frv., sem fyrir liggur, að fá styrk eða útflutningsuppbætur, og má því segja, að það sé í rauninni eini hvalrekinn, sem rekið hefur á fjörur þessarar stjórnar.

Það þjóðfélag, sem býr við þann búskap, við þann fjárhag eða fjármálaástand, að enginn útflutningsatvinnuvegur getur borið sig án þess að fá styrki, útflutningsuppbætur eða eitthvað, sem öðru nafni kann að nefnast, en raunverulega er það sama, — slíkt þjóðfélag getur vitanlega ekki staðizt til lengdar. Slíkt þjóðfélag er helsjúkt, og hversu lengi sem reynt er að lappa upp á heilsuna og heilbrigðina með einhverjum bráðabirgðaráðstöfunum, þá getur það auðvitað ekki gengið til lengdar, allt slíkt er bráðabirgðaráðstafanir, og það kerfi, sem slíkt þjóðfélag byggist á, hlýtur að vera helsjúkt og bera dauðann í sjálfu sér. En það er ekki aðeins, að útflutningsatvinnuvegir þjóðarinnar séu helsjúkir, heldur er það svo líka, að flestallt, sem selt er á innlendum markaði, er meira og minna sjúkt á þá lund, að niðurgreiðslur eru viðhafðar, ekki aðeins svo að milljónum skiptir, heldur tugum milljóna og hundruðum milljóna.

Þeir, sem vilja framleiða kartöflur á Íslandi, geta ekki framleitt þær eða selt án þess, að ríkissjóður komi til og greiði þær niður. En nú er það svo, að manni virðist, að eitt af því allra nauðsynlegasta og sjálfsagðasta, sem íslenzka þjóðin ætti að gera, væri þó að sjá sjálfri sér fyrir jarðeplum. Það getur íslenzka þjóðin ekki nema með stórfelldum tugmilljónastyrkjum úr ríkissjóði, og það er ekki aðeins það, að til þessa þurfi stórkostlega styrki, heldur hefur það skipulag, sem nú ríkir og hefur ríkt um langan aldur, þær afleiðingar, að það dregur stórlega úr framleiðslu á jarðeplum, dregur úr hvöt manna, bæði bænda og annarra, til þess að framleiða þessa nauðsynlegu og hollu vöru. Ég býst við, að það sé orðið all algengt, að þeir, sem framleiða kartöflur, noti þær ekki til eigin afnota né selji þær grönnum, heldur leggi þær inn til ríkisins eða í kartöflusölu landbúnaðarins, sem er grímuklætt einkasölufyrirtæki, og kaupi þetta svo fullu verði, vegna þess að það borgar sig betur að hafa þann háttinn.

Þetta skipulag með kartöflurnar er aðeins eitt lítið dæmi um það öfugstreymi, sem nú er ríkjandi í okkar þjóðfélagi, — öfugstreymi, sem í rauninni birtist hvar sem stungið er niður eða leidd athygli að, vegna þess að útflutningurinn ber sig ekki og framleiðslan innanlands ber sig ekki heldur. Lítum t.d. á fiskframleiðsluna. Fiskurinn er okkar aðalútflutningsvara, og á fiskútflutningi, bæði hráum og meðhöndluðum í iðnfyrirtækjum og fiskiðjuverum, lifum við Íslendingar. Jafnvel er ástandið þannig með fiskinn, að Íslendingar geta ekki búið við sæmilegt skipulag í þeim efnum.

Nú í dag birtist t.d. í víðlesnasta blaði landsins grein eftir einn af okkar allra merkustu og athugulustu læknum, dr. Jóhannes Björnsson. Hann bendir þar á það öfugstreymi, að skipulagsmál í þessum efnum eru með þeim endemum í höfuðborginni, að fisksalar geta ekki selt bæjarbúum nýjan fisk, heilnæman og góðan, vegna heimskulegra verðlagsákvæða. Þar komum við að öðru atriði, sem er eitt af sjúkdómseinkennum hins íslenzka þjóðfélags, það eru niðurgreiðslurnar og verðlagsákvæðin. Með niðurgreiðslum og verðlagsákvæðum höfum við Íslendingar náð svo langt, að varðandi þetta atriði, eins og þessa ódýru og heilnæmu fæðu, neyzlufisk fyrir höfuðborgarbúa, þá er ekki hægt vegna aðgerða ríkisvaldsins að þjóna almenningi með þeim hætti, sem æskilegt og nauðsynlegt er.

Nú má það vel vera, að í vissum tilfellum og þegar þjóðfélagsástandið er með vissum og ákveðnum hætti, þá sé nauðsynlegt að hafa verðlagseftirlit og verðlagsákvæði. En fisksölumálin í höfuðborginni eru eitt af mörgum dæmum þess, hvernig verðlags- eða hámarksákvæði og verðgæzla getur verkað alveg öfugt, þannig að í stað þess að þjóna hagsmunum almennings verði verðlagseftirlitið og verðgæzlan til þess að skaða hagsmuni almennings. Ég skal ekki rekja það mál frekara, það er gert ákaflega vel, ýtarlega og skynsamlega í grein hins menntaða og fjölfróða læknis í þessu víðlesna blaði landsins í dag.

Þessar athugasemdir um annars vegar útflutningsuppbæturnar og hins vegar niðurgreiðslur og verðlagseftirlit tel ég nauðsynlegar sem inngang að því, sem ég ætlaði hér að segja varðandi það frv., sem liggur fyrir hér frá hæstv. ríkisstj. En áður en lengra er haldið, er þó nauðsynlegt að minnast á eitt meginatriði annað í verðlagsmálum okkar Íslendinga og efnahagsmálum, og það er vísitalan.

Vísitölukerfið, sem ríkt hefur alllengi, er að mínu viti meingallað á tvo vegu: annars vegar á þá lund, að allt verðlag skuli fylgja vísitölunni, og hins vegar, að vísitalan skuli vera jafnröng og fölsuð eins og hún nú er.

Varðandi fyrra atriðið er það að segja, að allt verðlag, bæði á innlendum og erlendum vörum og m.a. á íslenzkum landbúnaðarvörum, fylgir vísitölunni, eins og hún er útreiknuð á hverjum tíma. Nú er vísitalan ákaflega gölluð og vísitöluútreikningurinn að mörgu leyti. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram, að eftir minni skoðun, og ég vil taka það einnig skýrt fram, að það, sem ég segi hér, er mín persónulega skoðun, og ég tala þar ekki í öllum greinum í nafni þess flokks, sem ég fylgi, en ég ætla, að það sé gersamlega útilokað fyrir hvaða þjóðfélag sem er að láta launamál fylgja vísitölukerfi því, sem hér gildir. Ef einhverjar hreyfingar eða breytingar verða á verðlagi, þannig að fram komi í vísitölu, þá skal allt slíkt hafa áhrif á almennt verðlag meðal þjóðarinnar. Slík skipun getur ekki staðizt, og slíkt efnahagskerfi, sem byggist á þessu vísitölukerfi, hlýtur að leiða til gjaldþrots, áður en langt líður.

Nú er það annað mál í sambandi við vísitöluna, að hún er byggð á ákaflega hæpnum grundvelli. Hér á Íslandi er vísitalan byggð upp þannig, að hvaða verðbreytingar sem verða í höfuðstaðnum hafa áhrif á kaupgjald alls staðar á landinu. Ef strætisvagnafargjöld hækka í Reykjavík vegna aukins tilkostnaðar við það fyrirtæki, þá hækkar vísitalan, og landslýðurinn allur fær kauphækkun, þó að utan Reykjavíkur sé ekki í því tilfelli um aukinn kostnað að ræða. Sama máli gegnir í rauninni um hvað sem er. Allt er miðað við framfærslukostnað í höfuðborginni. Ef rafmagnsverð, hitaveituverð eða þess háttar breytist í Reykjavík, þá breytast um leið laun alls staðar á landinu, þó að jafnvel svo kynni að vera, að framfærslukostnaður hækkaði ekki að sama skapi, heldur lækkaði á öðrum stöðum.

Hitt atriðið, sem er mjög athugavert við vísitöluna, er það, að vísitalan er aðeins miðuð við vissa hluti, við verðlag á tilteknum vörutegundum, og þess vegna kannske hefur ríkisstj., sem nú er, miðað ýmsar sínar efnahagsráðstafanir við það, hvernig þetta verkar allt á vísitöluna. Þegar miklar verðhækkanir urðu fyrir rúmu ári með nýjum álögum frá hæstv. ríkisstj. og þáverandi eða núverandi þingmeirihluta, þá var það tekið alveg skýrt fram, að þessar verðhækkanir kæmu í engu fram á nauðsynjavörum svokölluðum, og þó að þarna væru lögð hundruð milljóna nýrra álagna á landslýðinn, þá átti það ekki að koma fram í vísitölunni.

Nú vita það allir menn, að ef t.d. landslýðurinn á að borga, við skulum segja 250 eða 300 millj. í nýjum álögum, þá þýðir það auðvitað nýja dýrtíð í landinu. Það þýðir kjaraskerðingu fyrir landslýðinn í heild. En þetta var svo snilldarlega samið allt saman, að það átti ekki að koma fram á nauðsynjavörum, en það eru nauðsynjavörurnar einar, svokallaðar, sem ganga inn í vísitöluna.

Nú er svo guði fyrir þakkandi, að lífskjör alls almennings hafa batnað á Íslandi, þannig að það eru ekki aðeins þessar gömlu nauðsynjavörur frá því 1939, sem allur almenningur notar, heldur er það margt fleira, sem allur almenningur með bættum lífskjörum á Íslandi notar, vill nota og þarf að nota. Þess vegna er það þannig, að margvíslegar verðhækkanir koma fram í neyzlu alls almennings á íslandi með þeim hækkunum, sem gerðar voru og ákveðnar af Alþ. fyrir rúmu ári.

Nú er hins vegar svo komið, að hæstv. ríkisstj. telur, að þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar, dugi ekki lengur, þannig að nú þarf — og það er lagt til eftir þessu frv., sem hér liggur fyrir — að leggja stór gjöld, mikil gjöld, hvort sem það heitir yfirfærslugjald eða innflutningsgjald, á neyzluvörur almennt, ekki aðeins vísitöluvörurnar frá 1939, heldur líka aðrar vörur. Þannig er komið, að nú verður allur almenningur að greiða þessi hundruð milljóna, sem með því frv., sem hér liggur fyrir, eru lögð á. En ég kem þá aftur að því, að vísitalan, sem á að sýna framfærslukostnaðinn, sýnir auðvitað ekki þann raunverulega framfærslukostnað. Nú er svo komið, að kostnaður fyrir hverja meðalfjölskyldu á Íslandi hækkar, hefur þegar hækkað, en hækkar alveg sérstaklega eftir samþykkt þessa frv. miklu meira, en vísitalan segir til um. Og það er vissulega ábyrgðarhluti, þó að vísitölukerfið sé rangt og hafi verið meingallað að undanförnu, að halda þessu vísitölukerfi, eftir að það er orðið svo rammfalsað eins og það verður eftir samþykkt þessa frv. Það má segja, að hæstv. ríkisstj. hafi séð þetta, m.a. með því að ákveðið er í frv., að næstu 9 vísitölustig skuli ekki reiknuð með í kaupi, heldur skuli því umsnúið í 5% grunnkaupshækkun, En varðandi vísitöluna vil ég aðeins draga saman í mínum athugasemdum þetta tvennt: annars vegar, að vísitalan er orðin alrangur mælikvarði á framfærslukostnaðinn á Íslandi og verður miklu rangari en áður eftir samþykkt þessa frv. — og í öðru lagi, að ég ætla, og það er mín skoðun persónulega, að fjárhagskerfi þjóðarinnar þoli ekki öllu lengur það vísitölukerfi, sem hér hefur ríkt.

Með þessu frv., sem á að vera til umbóta á efnahagskerfi þjóðarinnar, er gert ráð fyrir, að íslenzka krónan sé skráð að nafninu til með sama verði og verið hefur síðan 1950. Nú er það öllum vitanlegt, hv. alþm. sem öðrum, að íslenzka krónan er rangt skráð. Það er hvort tveggja, að innanlands er ekki hægt, miðað við kaupgetuna út á við, að kaupa fyrir íslenzku krónuna það verðmæti, sem hún er skráð á. Það vita allir í öðru lagi, að erlendis kemur tvennt saman, annars vegar, að það er ekki nokkur leið að fá það verðmæti fyrir íslenzku krónuna, sem hún er skráð á, og í öðru lagi, að hún er ekki seljanleg. Ég býst við, að teljandi séu þeir bankar eða lánsstofnanir erlendis, ef þeir eru þá nokkrir, sem kaupa íslenzkar krónur.

Íslenzka krónan er rangt skráð, og að mínu áliti er það ein höfuðmeinsemdin í okkar fjárhagskerfi, að krónan skuli vera rangskráð, eins og nú er, því að það hefur margvíslegar hættulegar afleiðingar. Það hefur afleiðingar hættulegar út á við á marga lund, sem ég skal ekki gera hér að umtalsefni. Það hefur afleiðingar inn á við einnig og ekki síður, og yrði í rauninni allt of langt mál að rekja það nánar.

Afleiðingar af rangskráningu krónunnar eru margvíslegar. Í fyrsta lagi, að meginútflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar getur ekki borið sig og ber sig ekki. Sjávarútvegurinn, hvort sem er bátaútvegur eða togaraútgerð eða útflutningur unninna fiskafurða frá frystihúsum eða fiskiðjuverum, allt þetta er framleitt og selt með halla vegna þess fyrst og fremst, að krónan er rangskráð, og þess vegna þarf að greiða styrki og útflutningsuppbætur. Þetta þarf að vera annaðhvort í því formi, að greiddar eru útflutningsuppbætur á hvert kíló, hvort sem það er miðað við magn eða verð, eða í föstum styrkjum á úthaldsdaga. Að mínu viti er þessi skipan mála stórháskaleg. Þessi skipan mála er stórháskaleg og það af mörgum ástæðum. Við vitum það allir, sem í þessari hv. d. sitjum, að fjöldi manna hér á landi, útvegsmanna, hvort sem þeir reka togara, báta eða annað er útgerð snertir, þeir eiga þá ósk heitasta að láta sín fyrirtæki bera sig. Ekkert slíkt útgerðarfyrirtæki getur borið sig með núgildandi skipulagi og skráningu krónunnar. Ég held, að það þurfi ekki að fara mörgum orðum um það til að lýsa þeirri siðspillingu, þeirri, ef ég má nota útlent orð, „demóraliseringu“, sem slíkt hefur í för með sér, að enginn útgerðarmaður getur gert sér von um það að láta sitt fyrirtæki bera sig nema með einhverjum uppbótum, styrkjum frá ríkissjóði eða frá útflutningssjóði. Það framtak og sú sjálfsbjargarviðleitni, sem verið hefur driffjöður og lífakkeri íslenzku þjóðarinnar í öll þau ár, sem hún hefur lifað, allt þetta er veikt og sljóvgað með því skipulagi, sem nú er. Ef hins vegar væri hægt að finna þá skipun á þessum málum, að útgerð á Íslandi, hvort sem það væri bátaútgerð, smábátaútgerð, stórútgerð, togaraútgerð eða vinnsla fiskafurða í fiskiðjuverum á marga lund, — ef hægt er að finna þá skipan, að þetta beri sig, þá ætla ég, að það væri hin mesta blessun, sem hægt er að finna og framkvæma fyrir íslenzka þjóðfélagið.

Ég hef hitt að máli marga útgerðarmenn, sem eru hlaðnir orku, atorku, dugnaði, ábyrgðartilfinningu og fyrst og fremst vilja, að þeirra fyrirtæki beri sig án styrkja frá ríkissjóði, frá útflutningssjóði, frá því opinbera, og óska þess fyrst og fremst að vera lausir við það ábyrgðarleysi, sem þessu fylgir, og lausir við eftirtölur og ásakanir almennings út af því, að ekki sé hægt að reka íslenzka útgerð nema með styrkjum og uppbótum. Og eins og þetta er í útgerðinni, þá ætla ég, að það sama sé hjá öðrum atvinnuvegum, svo sem landbúnaði og iðnaði. Svo er orðið nú um íslenzkan landbúnað, sem framleiðir fyrir okkur mest af okkar nauðsynlegustu matvörum og m.a. framleiðir nokkuð til útflutnings, að landbúnaðurinn þarf til þess að flytja út vörur að fá útflutningsbætur eins og sjávarútvegurinn, og enn fremur til þess, að afurðir landbúnaðarins séu seljanlegar á íslenzkum markaði, þarf að hafa hliðstæðuna, þ.e. niðurgreiðslurnar, vegna þess að það er öllum vitanlegt, að verðlagið á landbúnaðarafurðum er með þeim hætti, að erlendar landbúnaðarafurðir væri hægt að flytja inn og selja með miklu lægra verði, en íslenzkar landbúnaðarafurðir eru seldar án niðurgreiðslna. Allt þetta fjárhagskerfi, hvort sem litið er á útflutning eða neyzlu innanlands, er því, svo að ég noti orð hæstv. forsrh., sem honum var svo tamt fyrir síðustu alþingiskosningar, helsjúkt.

Með því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að veita uppbætur á útflutninginn og halda áfram niðurgreiðslunum, Það er gert ráð fyrir því að halda áfram því kerfi, sem því miður hefur verið ríkjandi hér um nokkur undanfarin ár, eða frá þeirri stund, er áhrifa laganna frá 1950 um efnahagsmál hætti að gæta. Nú er það svo, að fyrir 2 árum, þegar gengið var til alþingiskosninga á Íslandi, þá lýstu yfir Framsfl. og Alþfl., sem voru þá í bandalagi, að þeirra stefna væri sú og um það gefin alger loforð að finna úrræði, sem væru varanleg lausn á efnahagsmálum þjóðarinnar. Að vísu kom það ekki fram í stefnuskrá þessara tveggja flokka nákvæmlega, í hverju úrræðin væru fólgin. Það voru aðeins almennar athugasemdir, en aðalbjargráðið átti fyrst og fremst eftir yfirlýsingu þessara flokka að vera það að losna við stærsta flokk þjóðarinnar og sterkasta afl hennar, Sjálfstfl., út úr stjórnmálunum.

Nú eru liðin nær tvö ár. Enn í dag hefur Íslenzka þjóðin og Alþingi ekki litið augum þessi bjargráð, þessi varanlegu úrræði, og jafnvel nú eru till. hæstv. ríkisstj., eftir að hún hefur þó losnað við stærsta og sterkasta afl þjóðarinnar út úr ríkisstj. og eftir að hún hefur náð sínu langþráða takmarki að faðma að hjarta sér Kommúnistaflokk Íslands, þá eftir tvö ár liggja ekki fyrir þessi varanlegu úrræði. Það frv., sem hér liggur fyrir, er skrípi, þetta er bráðabirgðaskrípi, sem ekkert vandamál leysir.

Ég mun ekki nú við 1. umr. fara ýtarlegar út í einstakar greinar eða ákvæði þessa frv. En um leið og ég taldi mér skylt á þessu stigi að vekja athygli á megingöllum okkar fjármála- og efnahagskerfis, þá er um leið nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að þó að kjörtímabil sé um það bil hálfnað, þá hefur ekki verið sýndur litur á því að efna eitt meginkosningaloforð stjórnarflokkanna frá því 1956.

Nú býst ég við, að Framsfl. og Alþfl. muni svara því til: Við fengum ekki þann þingmeirihluta, sem við báðum þjóðina um. — Það er rétt, þeir fengu ekki, þessir tveir flokkar, þingmeirihluta. Þá skorti gersamlega fylgi þjóðarinnar til þess, og það er atriði, sem vissulega er nauðsynlegt að hafa í huga, að þessir tveir stjórnmálaflokkar, Framsókn og Alþfl., sem gengu til síðustu kosninga með öll þessi fögru fyrirheit, m.a. um hin varanlegu úrræði, töpuðu fylgi í síðustu kosningum. Vegna ranglátrar kjördæmaskipunar og vegna misbeitingar á kosningalögunum tókst þeim að vísu að fá 25 þm., miklu fleiri, en fylgi þeirra meðal þjóðarinnar segir til um, en þeir töpuðu, þessir tveir flokkar, fylgi hjá þjóðinni, þannig að bæði atkvæðatala þeirra saman og hlutfallstala var lægri við kosningar 1956, heldur en hún var árið 1953. Ástæðan til þess, að þeir samt sem áður náðu völdum á Alþingi og meðal þjóðarinnar, var eingöngu sú, að þeir þrátt fyrir gefnar yfirlýsingar og gefin loforð tóku höndum saman við svokallað Alþýðubandalag, öðru nafni Sósíalistaflokkinn, Sameiningarflokk alþýðu, öðru nafni Kommúnistaflokk Íslands. Engu að síður bar þeim skylda til þess að standa við þessi loforð, en þó að kjörtímabilið sé hálfnað, þá hefur enn ekki bólað á því. Það er ekki aðeins, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé ekki varanleg lausn á efnahagsmálum þjóðarinnar, heldur er því lýst yfir í grg. og í umr. hér og í yfirlýsingum hæstv. ráðh., að þetta sé aðeins bráðabirgðalausn aftur ofan á bráðabirgðalausnina fyrir rúmu ári, því að næsta haust, eftir við skulum segja eitt missiri, verði enn að finna ný úrræði, ný bjargráð til að leysa efnahagsmál þjóðarinnar.

Ég minntist á það, að krónan væri rangt skráð, og ég þykist vita, að stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. muni hefja upp hróp um það, að nú sé ég að boða gengislækkun. Allur landslýðurinn veit, að með ráðstöfununum fyrir ári og sérstaklega með þessum ráðstöfunum nú er verið og var verið að lækka íslenzka krónu.

Nú er það svo, að það eru margvíslegar hættur af lágu gengi hjá hverri þjóð, og það er vissulega bæði út á við og inn á við margvíslegur háski því samfara að skrá gjaldmiðilinn lágt. Það er t.d. vantraustið út á við, og það er hættan inn á við, að um leið og fólk fer að vantreysta gjaldmiðlinum, þá dregur það að sjálfsögðu úr sparnaði og hefur í för með sér margvíslegar afleiðingar, sem eru hættulegar fyrir festu þjóðarbúskaparins. Þó að lágt gengi sé háskalegt út á við og inn á við, þá held ég, að eitt það versta sé að skrá gengið rangt, því að það er alltaf varhugavert að skrökva. Það er varhugavert að skrökva að öðrum þjóðum, það er hættulegt að skrökva að þjóðinni sjálfri, en kannske háskalegast af öllu að skrökva að sjálfum sér.

Mín persónulega skoðun er sú, að ein af þeim ráðstöfunum, sem þarf að gera, ekki ein út af fyrir sig, en ein af ráðstöfunum í sambandi við fjölmargt annað, sé að viðurkenna opinberlega, hvers virði íslenzka krónan er, inn á við og út á við, og það sé skaðsamlegt fyrir íslenzku þjóðina, fyrir allan íslenzkan atvinnurekstur og fyrir okkur sjálf að vera að skrökva að okkur sjálfum.

Það eru í þessu frv. mörg atriði, sem ég vildi gjarnan gera að umræðuefni, en ég mun, herra forseti, geyma mér þær athugasemdir til síðari umræðna. En þó eru nokkrar athugasemdir, sem ég vildi strax á þessu stigi láta fram koma til viðbótar þeim almennu hugleiðingum, sem ég hér hef reifað.

Þegar núverandi stjórnarflokkar, Framsfl. og Alþfl., mynduðu stjórn og tóku til samstarfs við sig Alþýðubandalagið, Sósfl., Kommúnistaflokkinn, þvert ofan í gefin loforð og yfirlýsingar gagnvart landslýðnum, þá var meginástæðan og afsökunin sú, að það væri nauðsynlegt til þess að skapa vinnufrið á Íslandi; Sósfl., Alþb., réði yfir verkalýðssamtökunum að mestu leyti og til þess að halda frið við verkalýðssamtökin væri nauðsynlegt að hafa bandalag við Alþb.

Nú skal ég ekki rekja það hér ýtarlega, hversu þetta hefur til tekizt. En í stuttu máli er frá því að segja, að þetta meginverkefni, þetta meginhlutverk hefur mistekizt. Og það er af tveim ástæðum: Annars vegar vegna þess, að hið svokallaða Alþýðubandalag eða þau verkalýðssamtök, hin pólitísku samtök, sem Alþýðubandalagið ræður yfir, hafa ekki orðið við óskum eða vonum núverandi ríkisstj. Önnur meginástæðan fyrir því, að þetta hefur mistekizt, er sú, að Alþb. hefur brugðizt. Núverandi hæstv. félmrh., sem um leið er forseti Alþýðusambands Íslands, hefur annaðhvort vitandi eða óafvitandi ekki veitt ríkisstj. þann stuðning eða þann grundvöll, vil ég segja, sem ætlazt var til. Þetta kemur m.a. fram í því, að fjöldi verkalýðsfélaga ekki aðeins neitar að styðja efnahagsráðstafanir ríkisstj., heldur beinlínis mótmælir þeim, og í hinni svokölluðu „19 manna nefnd“, sem tilnefnd var af ríkisstj. á sínum tíma og átti að vera fyrst og fremst einingartáknið við verkalýðinn, var meiri hlutinn andvígur þessum efnahagsráðstöfunum.

Ég hef hér lista yfir nokkur af þeim verkalýðs- og stéttarfélögum, sem hafa neitað að styðja aðgerðir ríkisstj. og ekki aðeins það, heldur hafa beinlínis mótmælt. Þessi félög eru m.a. Félag járniðnaðarmanna, Félag verksmiðjufólks, Iðja, Félag ísl. rafvirkja, Múrarafélag Reykjavíkur, Bifreiðastjórafélagið Hreyfill, Vörubílstjórafélagið Þróttur, Trésmíðafélag Reykjavíkur, Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, Landssamband ísl. verzlunarmanna. Hið ísl. prentarafélag, Félag ísl. prentmyndasmiða, Sveinafélag skipasmiða, Landssamband vörubifreiðastjóra, Vörubifreiðastjórafélagið Neisti, Hafnarfirði, Bifreiðastjórafélagið Fylkir, Keflavík, Samband matreiðslu- og framreiðslumanna. Öll þessi verkalýðsfélög mótmæla frv. því, sem hér liggur fyrir um efnahagsaðgerðir ríkisstj. Núverandi hæstv. ríkisstj. þykist svo hafa verkalýðinn, hinar vinnandi stéttir, hið vinnandi fólk, eins og stjórnin kallar það, á sínu bandi og á bak við sig.

Það er vissulega margt í þessu frv., sem ástæða væri til að nefna, en eins og ég gat um við 1. umr., þá vil ég ekki fara út í einstök atriði. Þó kemst ég ekki hjá því að minna á það, að auk verkalýðsfélaganna, sem ég minntist hér á, hafa fjölmenn landssamtök mótmælt þessu frv., bent á og rökstutt það glöggum og skýrum rökum, að frv. komi illa og ekki aðeins illa, heldur ósanngjarnlega niður. Landssamband íslenzkra útvegsmanna er meðal fjölmennustu heildarsamtaka hér á landi. Núverandi hæstv. ríkisstj. hefur gumað af því, að við þetta landssamband hafi þó alltaf verið haft samráð og samkomulag. Í bréfi, sem þetta Landssamband ísl. útvegsmanna skrifaði 13. maí til Alþ. og ríkisstj., er skýrt tekið fram, að því fari fjarri, að nokkurt samkomulag sé við það um þessi mál. Það segir svo orðrétt í þessu bréfi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þykir oss rétt að gera hinu háa Alþingi og hæstv. ríkisstj. aðvart um, að samkomulag hefur ekki tekizt við samtök útvegsmanna og fiskvinnslustöðva þrátt fyrir viðræður við ríkisstj. og hæstv. sjútvmrh.“

Í þessu ýtarlega bréfi gerir landssambandið grein fyrir því, í hvaða efnum sambandið er ósamþykkt ríkisstj. og ósammála því frv., sem hér liggur fyrir. Þegar fjhn. beggja d. héldu fundi um þetta mál, þá voru fulltrúar Landssambands ísl. útvegsmanna eftir ósk og ég vil segja kröfu okkar sjálfstæðismanna í n. boðaðir á fund, og á fundum með fjhn. gerðu þeir ýtarlega grein fyrir sínu máli. Það liggur alveg ljóst fyrir, að samkomulag er ekki við Landssamband bátaútvegsmanna og að þeir telja ekki aðeins, að frv. gangi of skammt, til þess að útgerðin geti borið sig, heldur beinlínis rofna á sér samninga, sem núverandi ríkisstj. hefur gert um s.l. áramót. Það er vissulega mál, sem vert er að athuga og ég vænti að fjhn. þessarar d. taki alveg sérstaklega til meðferðar, ef svo er, að ríkisstj. með eða án umboðs hefur samið við Landssamband ísl. útvegsmanna um síðustu áramót um vissa hluti, sem nú eru sviknir með þessu frv. Þó að hæstv. núverandi ríkisstj. hafi að því er virðist og komið hefur fram hér undanfarna daga gert ýmiss konar samninga við hin og þessi samtök án heimildar frá Álþingi, þá er það vissulega athugandi, hvort ekki ber a.m.k. siðferðilega að standa við slíka samninga, hvað sem ríkisstj. sjálfri líður lagalega og móralskt.

Eitt af þeim bréfum sem borizt hafa til okkar, er frá Eimskipafélagi Íslands, óskabarni þjóðarinnar. Í því bréfi kemur það fram, að Eimskipafélag Íslands hefur verið neytt til þess vegna synjunar á gjaldeyrisleyfum undanfarið af hendi ríkisvaldsins að safna stórkostlegum lausaskuldum erlendis. Eimskipafélaginu hefur verið synjað um leyfi til þess að yfirfæra það, sem hverjum heilvita manni virðist alveg sjálfsagður hlutur að yfirfæra jafnóðum, ýmis útgjöld í sambandi við útgerð og útgjöld skipanna erlendis, Þegar maður athugar, hversu miklar gjaldeyristekjur koma fyrir íslenzka þjóðarbúið af hinum íslenzku skipum, virðist það ætti að vera alveg sjálfsögð krafa um hafnargjöld erlendis, vörugjöld, nauðsynleg útgjöld, vegna þess að skipin koma í erlendar hafnir, að það fengist þó leyfi til að yfirfæra þetta jafnóðum, enda þyrfti í rauninni ekki annað, en bara leyfa Eimskipafélaginu að nota sinn eigin gjaldeyri, sem það fær, til þess að greiða þessa hluti. Allur gjaldeyrir er af því tekinn, en Eimskipafélagið er neytt til þess um leið að safna stórskuldum erlendis vegna þessara útgjalda, ég vil segja daglegra rekstrargjalda.

Í bréfi, sem Eimskipafélagið hefur skrifað Alþingi, segir m.a., að alvarlegasta málið í þessu sé það, að félagið hafi verið neytt til þess að safna lausaskuldum með þessum hætti, sem nema um 13 millj. kr., og nú, eftir að félaginu hefur verið neitað um leyfi til að yfirfæra þetta, á með yfirfærslugjaldinu 55% að taka 7 millj. kr. skatt af félaginu.

Nú er það svo, að í þessu bréfi er að vísu minnzt á aðra hluti, og það er, hversu mjög hækki kostnaður við byggingu nýrra skipa, sem félagið á í smíðum erlendis. Ég vil ekki taka undir það atriði, vegna þess að ef íslenzka krónan væri rétt skráð, þá mundi þessi hækkun vitanlega koma fram á félaginu. En hitt atferlið er vitaskuld óverjandi gagnvart slíku þjóðþrifafyrirtæki og í rauninni gagnvart öllum að neita mánuðum saman um yfirfærslu á hreinum rekstrarútgjöldum og ætla svo að taka milljónir í skatt í ríkissjóð og í útflutningssjóð af þessum rekstrarhluta. Það eru sem sagt 13 millj. kr. í hreinum lausaskuldum af þessum ástæðum, sem Eimskipafélagið hefur neyðzt til að safna, og eftir þessu frv. eru sem sagt lagðar á það um það bil 7 millj. kr.

Fyrir þessu þingi liggja margvísleg mótmæli frá ýmsum aðilum, sem ég skal ekki tefja tímann með að lesa upp hér, en við síðari umr. þessa máls verða að sjálfsögðu bornar fram brtt. um sum af þeim atriðum, sem mjög réttilega er á bent af þessum samtökum. En þó vil ég geta þess m.a., að fyrir íslenzka námsmenn og fyrir sjúklinga þýðir þetta frv. stóraukinn kostnað, og meðal annars, sem Alþingi hefur borizt, er ályktun frá stúdentaráði Háskóla Íslands frá 17. maí s.l. Hún er — með leyfi hæstv. forseta — á þessa leið:

„Stúdentaráð Háskóla Íslands mótmælir harðlega þeirri grein í 4. kafla frv. til laga um útflutningssjóð o.fl., sem ríkisstj. Íslands lagði fyrir Alþingi 13. maí, þar sem lagt er til, að 30% yfirfærslugjald verði lagt á yfirfærslu fyrir námskostnaði. Vill stúdentaráð m.a. benda á, að tekjuauki ríkissjóðs af ráðstöfun þessari yrði mjög óverulegur, hins vegar kæmi gjald þetta afar hart niður á hverjum einstökum námsmanni. Yrði ráðagerð þessi að lögum, mundu íslenzkir námsmenn erlendis verða verst úti allra þjóðfélagsþegna vegna hinna nýju ráðstafana ríkisstj. í efnahagsmálum, því að hér yrði um beina og raunverulega kjaraskerðingu að ræða, þar eð námskostnaður þeirra hækkaði um 30%. Skorar stúdentaráð því á Alþingi að fella ákvæði þetta niður úr fyrrgreindu frumvarpi.“

Þessi ályktun var samþykkt einróma í stúdentaráði Háskóla Íslands.

Sjúkt fólk hefur ekki nein allsherjarsamtök, og frá íslenzkum sjúklingum hefur mér vitanlega ekki borizt neitt bréf eða mótmæli. En eins og þetta mál er tilfinnanlegt fyrir íslenzka námsmenn, þá er það þó að mínu viti enn tilfinnanlegra fyrir sjúklinga, sem neyðast til að fara til annarra landa til að leita sér lækninga, þegar ekki er slíka hjálp að fá á Íslandi þrátt fyrir góða hæfileika, reynslu og aðbúð hér á landi hjá íslenzkum læknum og sjúkrahúsum. En það er öllum vitanlegt, að í ýmsum tilfellum er óhjákvæmilegt að senda íslenzka sjúklinga til útlanda, og á þann gífurlega kostnað og tilfinnanlega, sem því er fylgjandi, á nú að leggja 30 % gjald.

Það er auðvitað ljóst, að með því frv., sem hér liggur fyrir, hækkar stórkostlega kostnaður við margvíslegar verklegar framkvæmdir, og ég vil sérstaklega nefna hér eina tegund framkvæmda, vegna þess að öll þjóðin hefur litið þangað með alveg sérstökum vonaraugum og ég vil segja ástaraugum, og það er rafvæðing sveitanna. Með áætlun þeirri, sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. Ólafs Thors gerði um rafvæðingu sveitanna, var gert ráð fyrir því, að vissum fjárfúlgum væri varið til þess að leiða rafmagn út um allar byggðir landsins. Með því frv., sem hér liggur fyrir, er sá kostnaður, sem af þessu leiðir, hækkaður stórkostlega, vegna þess að yfirfærslugjald og hækkuð innflutningsgjöld leggjast með öllum sínum þunga á efnið í rafveitur. Þetta bitnar ekki aðeins á þeirri stóru virkjun, sem nú er í gangi, virkjun Efra-Sogs, heldur líka á öllum öðrum virkjunum, sem ekki er enn lokið, auk þess sem það bitnar að sjálfsögðu á rafleiðslum víðs vegar um land og hvers konar framkvæmdum, sem hin merka 10 ára áætlun um rafvæðingu hefur í för með sér.

Nú má að vísu segja, að þessi aukni kostnaður mundi einnig koma á þessar framkvæmdir, ef sú leiðin yrði farin, sem hæstv. forsrh. tæpti hér á í sinni framsöguræðu, það er gengislækkun. Hún er ein af þeim leiðum, sem hæstv. forsrh, talaði um að til greina kæmu. En hins vegar er óhjákvæmilegt að benda á, að þessi kostnaður hækkar samkvæmt þessu frv., sem hér liggur fyrir, gífurlega, um tugi milljóna, án þess að um leið sé séð fyrir nokkrum auknum tekjum til þess að standa undir þessari tíu ára áætlun.

Þá kem ég að öðru atriði, sem er athyglisvert fyrir stefnu hæstv. núv. ríkisstj., og það er þetta, að um leið og á að hækka stórkostlega allar þessar álögur, eins og frv. gerir ráð fyrir, yfirfærslugjaldið úr 16 upp í 55% almennt, auk þess sem það nær til miklu fleiri vörutegunda, en áður og margvíslegra annarra ráðstafana, — um leið og flestar vörur, ef ekki allar, eru gerðar miklu dýrari, en verið hefur, þá ætlast hæstv. ríkisstj. til þess, að framlög til verklegra framkvæmda í þessu landi séu í krónutölu þau sömu og ákveðið hefur verið áður. Í desembermánuði s.l. voru afgr. fjárl. fyrir íslenzka ríkissjóðinn, að vísu með þeim endemum, að þau voru afgr. þannig, að það vantaði tugi milljóna, til þess að þau stæðust, og sú blekking, sú fölsun, sem stjórnarflokkarnir leyfðu sér að viðhafa, var því í fyrsta lagi ekki sæmandi fyrir Alþingi, en í öðru lagi var það náttúrlega fráleitt fyrir heilbrigðan þjóðarbúskap að afgr. fjárlög með þeim hætti, að þar vanti stórkostlegar fúlgur, sem einhvern tíma síðar kunni að verða aflað til að standa undir þessu.

En það er ekki nóg með það, heldur á nú eftir þessu frv. og eftir yfirlýsingu ríkisstj. að halda sömu krónutölu til verklegra framkvæmda og gert var í desember. T.d. til vegagerða, brúargerða og til annarra slíkra framkvæmda á, í krónutölu, að fara það sama og ákveðið var í desember, þrátt fyrir það þó að bæði efnið allt hækki stórkostlega og vinnulaunin. M.ö.o.: þetta frv. þýðir það að draga stórlega úr verklegum framkvæmdum ríkisins.

Manni hefði þó virzt, að það væri ekkert óeðlilegt, að um leið og slíkt frv. er lagt fyrir Alþ. eins og þetta, þá gerði þó ríkisstj. hinna vinnandi stétta einhverja tilburði til þess að láta fólkið halda sömu atvinnu við vegavinnu, við brúargerðir, við byggingarframkvæmdir eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. frá desember, en svo er ekki. Það er gert ráð fyrir að fækka verkamönnum og starfsmönnum við allar þessar framkvæmdir.

Um leið og ríkissjóður að sjálfsögðu á að fá stórauknar tekjur af þessu frv., að því er upp er gefið 144 millj. með hækkuðum verðtolli, söluskatti og ýmsu öðru, þá á það allt saman að fara í aukinn rekstrarkostnað ríkisins, en hinar verklegu framkvæmdir eiga ekki að njóta neins góðs af og ekki að fá einn einasta eyri af þessu.

Í sambandi við þetta mál er vissulega nauðsynlegt að minnast á það, að ein af yfirlýsingum núv. ríkisstj. og loforðum var, að allur landslýðurinn, og ég ætla, að Alþingi og alþm. falli þar undir, ætti að fá sem nákvæmastar upplýsingar um ástand þjóðarbúskaparins, hér ætti að fara fram úttekt á þjóðarbúinu og allir ættu að fá nákvæmar upplýsingar, ekki aðeins almennar, heldur álit sérfræðinga.

Ég skal viðurkenna, að ég er þolinmóður og hef mikið langlundargeð. En eftir að nær tvö ár eru liðin af starfsferil þessarar ríkisstj., fer mig vissulega að lengja eftir því, að eitthvað af þessum upplýsingum og sérfræðingaálitum og úttekt líti dagsins ljós, og ég held, að það sé ekki til of mikils mælzt, og ég held, að það sé engin ósanngirni í því, þótt maður fari fram á það, að hæstv. ríkisstj. leggi nú fyrir Alþingi eitthvað af þessum skýrslum og upplýsingum, sem hún lofaði fyrir tveim árum.

Í stjórnmálayfirlýsingu núv. stjórnarflokka, þ.e.a.s. Alþfl. og Framsóknar frá síðustu kosningum, segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Mikill vandi steðjar nú að íslenzku þjóðinni. Höfuðatvinnuvegum landsmanna er haldið uppi með beinum styrkjum af opinberu fé og gífurlegu álagi á neyzluvörur almennings. Þjóðin býr við römmustu gjaldeyrishöft, þótt frelsi sé í orði. Skortur er á gjaldeyri til kaupa á brýnustu nauðsynjum. Innflutningi hefur að verulegu leyti verið haldið uppi með gjaldeyrislántökum. Þrátt fyrir vaxandi framleiðslu, greiða sölu útflutningsafurða“ — ég vil biðja hv. dm. að athuga, að þetta er skrifað og birt 1956 — „og miklar gjaldeyristekjur vegna varnarliðsframkvæmda safnar þjóðin nú hraðvaxandi skuldum erlendis. Sparnaður fer þverrandi, en lánsfjárskortur vex óðum og stefnir í bráða hættu nauðsynlegustu framkvæmdum. Enn býr fjöldi fólks við óhæft húsnæði og okurleigu, en gróðabrall með húsnæði, þar á meðal nýbyggingar, er í algleymingi. Brask með verðbréf og erlendan gjaldeyri á svörtum markaði fer sívaxandi. Kauphækkanir launastétta verða að litlu eða engu vegna verðhækkana, en milliliðir og margs konar braskarar safna offjár í skjóli hins sjúka fjárhagskerfis.“ Síðan segir: „Meginorsök þess, að þannig er komið, að ekki verður hægt að stjórna landinu án þátttöku annaðhvort íhaldsafla eða kommúnista, er sú, að þótt lýðræðissinnaðir umbótamenn hafi haft kjörfylgi til að mynda samhentan meiri hluta á Alþingi, hefur sundrung þeirra við framboð tryggt öfgaflokkum úrslitaáhrif á stjórnarfarið, Nú verður að brjóta blað í íslenzkum stjórnmálum. Þess vegna ber nú brýna nauðsyn til þess, að tekin sé upp ný stefna í efnahagsmálum þjóðarinnar. Um hana eiga allir frjálslyndir umbótamenn að sameinast.“

Þetta var nú það, sem Framsfl. og Alþfl. lofuðu fyrir síðustu kosningar, og í stefnuskránni birtu þeir á forsíðunni meira að segja mynd, þar sem þeir tókust í hendur upp á það.

Eftir tvö ár höfum við nú myndina. Við höfum myndina af því, að engin varanleg úrræði hafa birzt. Bráðabirgðaúrræði, nýir skattar, nýjar álögur, meiri og þyngri, en nokkru sinni hafa þekkzt í sögu íslenzku þjóðarinnar, og það er ekki svo, að milliliðunum hafi verið fækkað, heldur hefur þeim í mörgum tilfellum verið fjölgað, eins og gleggst kemur fram í því, að nú er farið fram á, að sementsverksmiðjan á Akranesi fái rafmagn frá Soginu, ekki beint, heldur á Sogsvirkjunin að selja Rafmagnsveitum ríkisins, Rafmagnsveitur ríkisins eiga að selja Andakílsvirkjuninni, Andakílsvirkjunin á að selja bæjarstjórn Akraness, bæjarstjórn Akraness á að selja stjórn sementsverksmiðjunnar. Hvort þessir milliliðir eiga að taka einhverja þóknun, veit ég ekki, en ekki virðist mér, að þetta dæmi bendi til þess, að milliliðunum á Íslandi sé að fækka.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er margt ákaflega óljóst, og þegar málið var til 1. umr. í hv. Nd., bar formaður Sjálfstfl., Ólafur Thors, fram nokkrar fsp. til hæstv. ríkisstj. til þess að fá skýringar á frv. Þessum fsp. hefur ýmist alls ekki verið svarað eða ófullnægjandi upplýsingar gefnar. Ég vil því leyfa mér að ítreka þessar fsp, og vænta þess, að hæstv. ríkisstj. treysti sér til þess að svara þeim.

Spurningarnar eru á þessa leið:

1) Hverjar eru tekjur útflutningssjóðs eftir núverandi kerfi, og hverjar verða tekjur eftir frv.?

2) Hver er hækkun útflutningsuppbótanna a) til sjávarútvegs og b) til landbúnaðar,

3. Hverjar eru forsendur þess, að hækka verði uppbæturnar?

4. Hefur Landssamband ísl. útvegsmanna samþ. að breyta þeim samningi, sem ríkisstj. gerði við útvegsmenn um síðustu áramót, og ef svo er ekki, telur ríkisstj. þá heimilt að lögfesta stórfelldar breytingar á hinum umsömdu fríðindum án samþykkis L.Í.Ú.?

5. Hefur Stéttarsamband bænda samþykkt frv. fyrir sitt leyti, og hvernig hljóðar þá yfirlýsing þess?

6. Er það rétt, að ríkisstj. hafi lýst því yfir við stjórn Alþýðusambands Íslands og 19 manna nefndina, að án samþykkis þeirra yrðu ráðstafanir þessar ekki gerðar?

7. Telur ríkisstj. yfirlýsingu stjórnar Alþýðusambands Íslands og 19 manna n. samþykki á frv. eða mótmæli gegn því?

8. Felur frv. í sér bann gegn kauphækkunum umfram hina lögbundnu hækkun samkvæmt frv.?

9. Ef svo er ekki, hefur ríkisstj. þá tryggingu fyrir því, að Alþýðusamband Íslands beiti sér gegn frekari kauphækkun og einstök stéttarfélög hagi sér, þá í samræmi við það?

10. Telur ríkisstj., að ráðstafanir þessar standist, ef frekari kauphækkanir verða en frv. gerir ráð fyrir?

11. Er tekjuöflun frv. miðuð við 5% kauphækkun eða einhverja vísitöluhækkun umfram 200 stig og þá hve mikla?

12. Er gert ráð fyrir óbreyttum niðurgreiðslum, eða ætlar ríkisstj. sér að greiða niður að einhverju leyti væntanlegar verðhækkanir og þá hverjar og að hve miklu leyti?

13. Hvað er gert ráð fyrir mikilli hækkun framfærsluvísitölu til næstu áramóta?

14. Hvað mikið af tekjuþörf útflutningssjóðs og ríkissjóðs stafar af kvöðum vegna hinna nýju álaga skv. frv.?

15. Er það rétt, að vegna þessa frv. hækki verðlag á helztu nauðsynjavörum geigvænlega, t.d. á kaffi, sykri og kornvörum um 15%, sementi um 30%, timbri um 29%, benzíni úr 2.09 kr., sem það ætti að vera í nú, í 2.90, olíum um 24%, og hve mikið mun verðlagið hækka á fóðurbæti, tilbúnum fatnaði og vefnaðarvöru?

16. Hver verður hækkun á rekstrarvörum landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar skv. frv.?

17. Ætlar ríkisstj. sér að draga úr verklegum framkvæmdum ríkisins sem nemur þeim kostnaðarauka, sem leiðir af frv.?

18. Telur ríkisstj. þessar ráðstafanir leysa vanda útflutningsatvinnuveganna og ríkissjóðs til frambúðar?

19. Eru þessar till. ríkisstj. í samræmi við tillögur útlendu eða innlendu sérfræðinganna, sem unnið hafa að rannsókn efnahagsmálanna á vegum núverandi ríkisstj.? Ef svo er ekki, í hverju er munurinn fólginn?

20. Ætlar ríkisstj. sér ekki að birta almenningi eða a.m.k. Alþingi álitsgerðir og tillögur sérfræðinganna?

Þessar fsp. bar formaður Sjálfstfl. fram í Nd. og fékk ekki svör við þeim nema að örlitlu leyti. Og nú vil ég endurtaka þessar fsp. og vænta þess að fá svör við þeim.