29.05.1958
Efri deild: 111. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Vegna veikindaforfalla form. fjhn. þessarar d., hv. 1. þm. Eyf. (BSt), tók ég sæti fyrir hann í fjhn. og kem nú fram sem framsögumaður 1. minni hl. n. eins og sá, sem hleypur snöggvast í skarð.

Þau vinnubrögð hafa verið viðhöfð til að flýta fyrir málinu, að fjhn. Ed. vann með fjhn. Nd. að athugun þess, á meðan það var í Nd., og hv. 1. þm. Eyf. tók þátt í þeim störfum. Af þessum starfsháttum leiddi, að fjárhagsnefndarmenn Ed. áttu þátt í brtt., sem fram komu í Nd. og fengu afgreiðslu þar. Og vegna þessa gat n. nú komizt af með til athugunar á málinu þann stutta tíma, sem hún hefur haft til umráða, síðan 1. umr. lauk hér í gærkvöld.

N. klofnaði í þrennt, eins og ljóst liggur fyrir af þeim þrem nál., sem fram hafa komið, Við, sem 1. minni hl. skipum, ég og hv. 8. landsk. þm. (BjörnJ), leggjum til, að frv. verði samþykkt.

Frv. hefur þann höfuðtilgang að stuðla að hallalausum rekstri útflutningsatvinnuveganna og ríkisbúskaparins í heild. Ekki varð hjá því komizt að gera nýjar ráðstafanir til þess, að framleiðslan, sem er undirstaða afkomu allra landsmanna, gæti haldið áfram og þróazt. Tekjur útflutningssjóðs, sem ákveðnar höfðu verið með lagasetningu seint á árinu 1956, reyndust ónógar til þess að mæta útflutningsuppbótaþörfinni s.l. ár, Á s.l. ári varð einnig greiðsluhalli hjá ríkissjóði, sem þá annaðist almennar dýrtíðarbætur að nokkru leyti. Ljóst var einnig fyrir lok fyrra árs, að ekki varð hjá því komizt að auka aðstoð við framleiðsluna, t.d. við togaraútgerð og síldarútveg. Meiri tekjuöflun en áður er þess vegna með öllu óhjákvæmileg.

Þegar frv. er orðið að lögum, verður stuðningurinn við atvinnuvegina mun einfaldari í framkvæmd en hann var, aðstaða framleiðslugreina, er afla gjaldeyris, jafnari en var, öll útflutningsframleiðsla gerð bótahæf og þess vegna betri skilyrði, en áður til fjölbreytni í þeirri framleiðslu, en það hefur vitanlega mikla þýðingu. Minnkað er það misræmi, sem orðið er í verðlagi milli erlendrar vöru og innlendrar og milli erlendra vörutegunda innbyrðis. Þetta á að geta bætt aðstöðu innlends iðnaðar og innlendrar framleiðslu ýmiss konar í samkeppni við erlenda framleiðslu.

Ekki hef ég heyrt á frv. deilt fyrir það, að of mikið sé ætlað til uppbóta á framleiðsluna. Enginn flytur till. um að lækka þær uppbætur, enda ekki ástæða til, og yfirleitt þykir allt gott, sem er í vil. Hins vegar er talað um hækkun hins erlenda gjaldeyris, og þar kvarta ýmsir fyrir sig og sína. Vitanlega hefði verið æskilegt, að erlenda gjaldeyrinn hefði ekki þurft að hækka. Fyrir fjhn. komu ýmsar kvartanir frá félagssamtökum, en því miður gat fjhn. eða a.m.k. 1. minni hl. alls ekki gengið inn á að taka þær til greina, vegna þess að þá hefði verið rofið það samræmi, sem í frv. er. Hér var líka í gær bent á það, hvað ýmsar tilgreindar nauðsynjavörur erlendar hækkuðu í hundraðshlutföllum. En hvað hefðu þær hækkað, ef gjaldeyririnn, sem þær eru keyptar fyrir, væri rétt skráður? Vitanlega hefðu þær hækkað langtum meira, þessar vörur. Frv. er ekki uppfylling á óskhyggju, eins og hún hefur þróazt í landi okkar um skeið, það er alveg rétt. En frv. felur í sér tilraun til þess að forða á sem mildastan hátt frá grandi, sem að stefnir, ef látið er reka á reiða. Í því ljósi er skylt að skoða frv.

Annars ætla ég ekki að hafa þessa framsögu langt mál. Það væri ástæðulaust, alveg óþarft. Ýtarleg grg. fylgdi frv. í upphafi og hæstv. forsrh. fylgdi málinu úr hlaði hér í d, með glöggu yfirliti í ræðu sinni í gær. Málið má heldur alls ekki tefja úr þessu með óþarfa mælgi. Stöðvun tollafgreiðslu hefur þegar staðið of lengi.

Ég hef skyggnzt í nál. 2. og 3. minni hl. og ekki séð þar neitt nýtt koma fram, er taka þurfi til athugunar. Till. þær, sem hér hafa verið fram lagðar á þskj., eru nálega allar samhljóða till., sem lagðar voru fram í Nd, og felldar þar. Ég tel þess vegna ekki þörf á að eyða tíma í að sýna fram á, að þær trufla stefnu frv. og rjúfa samræmi þess, ef samþykktar yrðu. Stuðningsmenn frv. hljóta því að greiða atkv. gegn þessum till. Við í 1. minni hl. fjhn. leggjum til, að þær verði felldar og frv. samþykkt.