29.05.1958
Efri deild: 111. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. 2. minni hl. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Umfram það, sem ég sagði við 1. umr. málsins, tel ég mig ekki hafa þörf á að flytja langa framsöguræðu, enda kemur meginefni þeirrar ræðu glögglega fram í nál, mínu á þskj. 682. Eins og ég sagði þá, tel ég það alvarlegast við stefnu þess frv., sem hér er til umr., að þar er um að ræða gerbreytingu frá þeirri stefnu, sem farin hefur verið undanfarin ár, og kemur m.a. fram í því, að frv. þetta nýtur ekki þess sama stuðnings verkalýðssamtakanna og þau frv., sem á undanförnum tveimur árum hafa verið flutt til stuðnings við framleiðsluatvinnuvegina, auk þess sem mér sýnist, að í ýmsum veigamiklum atriðum muni hér stefnt að samdrætti, eins og t.d. hvað viðkemur byggingu íbúðarhúsnæðis og lánakerfi til íbúðarhúsabygginga. Ég læt því nægja að vísa til þessarar minnar ræðu við 1. umr. og nál. á þskj. 582 og vona, að af því sé ljóst, hverjar ástæður eru til þess, að ég get ekki stutt þetta frv. og er andvígur því. Mun ég greiða í samræmi við það atkv. gegn því og legg til, að það verði fellt.