29.05.1958
Efri deild: 111. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. 3. minni hl. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér í upphafi míns máls að fara nokkrum orðum um meðferð þessa stórmáls á hv. Alþingi.

Frv. um útflutningssjóð, sem hér liggur fyrir til 2. umr., er lagt fram í Nd. 13. maí. Það er til meðferðar þar til 28. maí og er sama dag, einni klst. eftir að Nd. afgreiðir það, tekið fyrir til 1. umr. í þessari hv. þd. Síðan er gert ráð fyrir því, að Ed. ljúki afgreiðslu málsins á 1–2 dögum. Þrátt fyrir það að fjhn. Ed. gafst kostur á því að vinna um skeið með fjhn. Nd, að athugun á þessu máli, þá kemst ég ekki hjá því að láta þá skoðun í ljós, að þessi vinnubrögð séu algerlega ósæmileg og ósamboðin þessari hv. þd. Þetta stórmál, sem Alþingi er búið að bíða eftir allan veturinn og langt fram á sumar, er til meðferðar um það bil hálfan mánuð í hv. Nd., en síðan er þess krafizt af hæstv. ríkisstj., að því sé lokið á 1–2 dögum í þessari hv. þd. Ég álít, að slíkt ósamræmi í vinnubrögðum þingdeilda sé ekki aðeins ósæmilegt, heldur og hættulegt þingræðinu og þeim reglum, sem gilda um starfaskiptingu milli þingdeilda. Ef það á að verða almenn regla, að síðari þd. kasti algerlega höndunum til frv., jafnvel hinna mikilvægustu mála, þá virðist tvískipting þingsins í deildir vera orðin harla þýðingarlítil. Ég vil vara hæstv. núv. ríkisstj. við því að halda áfram slíkum vinnubrögðum.

Okkur Íslendinga greinir á um marga hluti, eins og eðlilegt er í lýðræðisþjóðfélagi, þar sem menn hafa rétt á því að láta í ljós skoðanir sínar á prenti og á mannfundum. En þrátt fyrir þennan mikla ágreining, ekki sízt um efnahagsmál okkar, þá mun það naumast valda deilum, að hallarekstur íslenzkra framleiðslutækja sé ein mesta meinsemd efnahagslífs íslenzku þjóðarinnar í dag.

Orsakir þessa hallarekstrar eru að sjálfsögðu fleiri, en ein. En meginástæða hallarekstrarins er of hár framleiðslukostnaður, sem aftur sprettur af því, að þjóðin hefur ekki gætt þess sem skyldi að miða lífskjör sín við hinn raunverulega arð af atvinnutækjum sínum. Kröfurnar hafa ekki verið miðaðar við það, hver greiðslugeta framleiðslunnar væri. Þess vegna hefur hið opinbera orðið að hlaupa undir bagga, og upp hefur verið tekið hið svokallaða uppbóta- og styrkjakerfi, sem hefur hins vegar þann megingalla, að til grundvallar því eru ekki lagðir fjárhagslegir greiðslumöguleikar ríkisins og þar er yfirleitt tjaldað til einnar nætur, en ekki stuðzt við staðreyndir um það, hvað þjóðfélaginu sé kleift og hvernig skipta eigi réttlátlega byrðunum á milli þjóðfélagsþegnanna.

Við sjálfstæðismenn höfum jafnan lagt megináherzlu á það að gera þjóðinni ljóst, að hún yrði að miða lífskjör sín við raunverulegan arð atvinnutækja sinna, ef hún hallaðist að því að miða kröfur sínar til lífsins gæða við eitthvað annað, þá hlyti það að koma henni í koll fyrr eða síðar.

Það er nú svo komið, að uppbóta- og styrkjakerfið, sem leiðir af of miklum kröfum á hendur framleiðslunni, hefur gengið sér til húðar. Þetta er a.m.k. í annað skiptið, sem slíkt hefur gerzt. Árið 1949 voru atvinnutækin komin í bólakaf í hallarekstur, og þá þótti auðsýnt, að ekki yrði unnt að halda því skipulagi áfram öllu lengur. Það kom þá í hlut sjálfstæðismanna að mynda minnihlutastjórn og hefjast handa um undirbúning till., sem bættu úr því ófremdarástandi, sem þá ríkti í þjóðfélaginu.

ríkisstj. fékk færustu hagfræðinga, sem þá var völ á, til þess að kryfja allt ástand efnahagsmálanna til mergjar, gera samanburð á þeim leiðum, sem til greina kæmu til úrbóta, og leggja að lokum fram till. um þau úrræði, sem skynsamlegust væru og tiltækilegust til framkvæmda.

Þegar þessar till. lágu fyrir, lagði ríkisstj. sjálfstæðismanna þær fyrir Alþingi, en hún hafði áður fengið þingflokkunum það frv., sem sérfræðingar hennar höfðu samið um þessi vandasömu mál, og þannig gefið þeim tækifæri til þess að kynna sér málið nokkuð, áður en það var lagt fyrir Alþingi.

Ég vil benda á, að þessi vinnubrögð voru í mjög miklu ósamræmi við vinnubrögð núv. hæstv. ríkisstj. Hún hafði s.l. tvö ár látið innlenda og erlenda sérfræðinga sína sitja yfir því að rannsaka allt ástand efnahagsmálanna og gera till. um það, hvernig úr skyldi bætt. En það er fyrst þremur dögum áður, en þetta frv., sem hér liggur fyrir, er lagt fyrir Alþingi, fyrst þremur dögum áður, en þetta stóra og flókna frv. er lagt fyrir Alþingi, sem stjórnarandstöðunni er gefinn kostur á að kynna sér það. Vitanlega var enginn tími til þess að kryfja þessi mál öll til mergjar og setja sig eins inn í þau og brýna nauðsyn ber til á þessum stutta tíma, frá því á laugardag 10. maí þangað til á þriðjudag 13. maí. Það var enginn tími til þess á þessum örfáu dögum að kynna sér þessi flóknu mál til hlítar. Aðstaða okkar sjálfstæðismanna til þess að ræða þetta mál og sérstaklega að gera till. til breytinga á því er því allt önnur og verri en hv. stjórnarflokka, sem fjallað hafa um málið svo að mánuðum skiptir og sumir hverjir svo að árum skiptir.

Um frv. það, sem sjálfstæðismenn lögðu fyrir Alþingi 1950 um lausn vanda efnahagsmálanna, tókst samkomulag milli mikils meiri hluta þingmanna. Var síðan mynduð ný ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. til þess að framkvæma þessar till., sem fyrst og fremst miðuðu að því að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum, um leið og rekstur bjargræðisveganna yrði tryggður, og loks að því að útrýma greiðsluhallabúskap þeim, sem verið hafði hjá ríkissjóði nokkur undanfarin ár.

Enda þótt nokkuð sé um liðið, tel ég nauðsynlegt að rekja í örstuttu máli árangurinn af þessum viðreisnartill. í efnahagsmálum, sem Sjálfstfl. beitti sér fyrir í árslok 1949 og ársbyrjun 1950, ekki sízt vegna þess, að hv. málsvarar núv. hæstv. ríkisstj. eiga í raun og veru aðeins eitt úrræði, þegar öll rök eru þrotin fyrir nytsemi þessa frv. Það úrræði er að spyrja um úrræði sjálfstæðismanna og hver viðhorf þeirra hafi verið til efnahagsvandamála þjóðarinnar og hver þau séu í dag.

Sannleikurinn er nefnilega sá, að þegar sjálfstæðismönnum var falin forusta þjóðarbúsins, þá hikuðu þeir ekki við að taka á þeim vanda, sem við blasti þá og var mikill og uggvænlegur, af festu og raunsæi, kveðja færustu menn sér til ráðuneytis, leggja síðan fram till. og síðan bera þær fram til sigurs og framkvæma þær. Með þessu er í raun og veru svarað öllum ásökunum hv. stjórnarflokka nú um það, að Sjálfstfl. haldi aðeins uppi neikvæðri gagnrýni, en bregðist þeirri frumskyldu stjórnarandstöðunnar að leggja fram sínar eigin sjálfstæðu till. til lausnar þeim vanda, sem við er að etja og vitað er að þó hefur fyrst og fremst skapazt í tíð núv. hæstv. ríkisstj. og fyrir stefnuleysi hennar og úrræðaleysi.

En árangurinn af viðreisnartill. sjálfstæðismanna varð í stuttu máli sá, að það reyndist unnt á grundvelli þeirra að útrýma greiðsluhallabúskap ríkissjóðs á örskömmum tíma, tryggja þróttmikinn rekstur atvinnutækjanna, auka útflutningsframleiðsluna að miklum mun og treysta þar með afkomugrundvöll þjóðarinnar og loks að halda uppi fjölþættum framkvæmdum í landinu. Meðal þeirra framkvæmda má nefna húsnæðisumbæturnar, þar sem mörkuð var ný stefna, er haft hefur í för með sér meiri umbætur í húsnæðismálum almennings, en nokkru sinni fyrr í sögu þessarar þjóðar. Í öðru lagi var þá hafizt handa í skjóli fyrrgreindrar viðreisnartill. um rafvæðingu strjálbýlisins og byggingu raforkuvera í þeim landshlutum, sem hingað til hafa orðið að fara á mis við þau glæsilegu lífsþægindi og bættu atvinnuskilyrði, sem næg raforka hefur alls staðar í för með sér.

Á það má svo benda í framhaldi af þessu, að allt fram til ársins 1955 tókst að halda jafnvægi í þjóðarbúskapnum á grundvelli þessara viðreisnarráðstafana frá 1950.

Eftir að áhrifum Kóreustríðsins linnti, tókst að halda dýrtíðinni nokkurn veginn í skefjum, og til marks um það má nefna, að vísitala framfærslukostnaðar hélzt óbreytt frá október 1952, þangað til í maí 1955. Má segja, að þetta tímabil hafi verið eitt hið giftusamlegasta og hagstæðasta tímabilið í efnahagslífi þjóðarinnar um margra áratuga skeið. Hefur einn af færustu hagfræðingum þjóðarinnar haldið því fram ómótmælt, að síðan á tímabilinu 1924–28 hafi ekki tekizt jafngiftusamlega til um að halda í skefjum verðbólgu, og dýrtíð og halda jafnhliða uppi miklum framkvæmdum og gagnlegum í landinu.

En á öndverðu árinu 1955 má segja, að þáttaskil hafi orðið í íslenzkum efnahagsmálum. Þá hófust kommúnistar handa um pólitísk verkföll, sem fyrst og fremst stefndu að því að eyðileggja árangur þeirrar jafnvægisstefnu, sem tekizt hafði að framkvæma í efnahagsmálum þjóðarinnar allt frá árinu 1950. Kommúnistar höfðu árið 1955 nýlega náð undirtökum að nýju í Alþýðusambandi Íslands og hugðust nú láta kné fylgja kviði og ryðja kommúnistaflokknum braut til valda.

Árangur þessara pólitísku verkfalla varð svo sá, að kaupgjald hækkaði á þessu ári, 1955, að meðaltali um rúmlega 20%, og geta allir gert sér í hugarlund og þekkja það raunar af staðreyndum, hvaða áhrif sú breyting hafi haft á afkomu alls atvinnulífs og framleiðslu í landinu. Niðurstaðan varð sú, að hin nýja stefna kommúnista, nýtt kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags, hafði í för með sér stórhækkaðan framleiðslukostnað, þannig að nauðsynlegt var að koma til aðstoðar sjávarútveginum og raunar öllum atvinnurekstri í landinu um áramótin 1955–56. Þáv. ríkisstj. neyddist þá til þess að tryggja rekstur fiskiskipaflotans með því að leggja á nýja skatta og tolla, sem talið var að næmu um 150 millj. kr. á árinu 1956.

Næsti áfangi í íslenzkum stjórnmálum og efnahagsmálum, eftir að viðnámsstefnan gegn dýrtíð og verðbólgu hafði verið brotin á bak aftur af hálfu kommúnista og bandamanna þeirra á árinu 1955, var svo myndun „vinstri stjórnar“ á miðju árinu 1956. Þessi ríkisstj. lýsti því yfir, að nú væri allt í kaldakoli í íslenzku efnahagslífi, það væri „helsjúkt“, og hún lýsti því yfir, að hún mundi leysa vandamálin að „nýjum leiðum“ og með „varanlegum úrræðum.“

Það er rétt að benda á það í þessu sambandi, af því að það var fyrst og fremst Framsfl., sem hefur haldið fram þessari lýsingu á ástandi efnahagslífsins árið 1956, að þegar Framsfl. lýsti þessu yfir, þá hafði hann átt sæti í ríkisstj. níu ár samfleytt með Sjálfstfl. Hann hafði enn fremur notið þar forustu og fjármálavits hæstv. núv. fjmrh., Eysteins Jónssonar, í s.l. sex ár. Þrátt fyrir þetta, níu ára stjórnarþátttöku Framsfl. og sex ára fjármálaforustu hæstv. núverandi fjmrh., Eysteins Jónssonar, var þá ástandið þannig að áliti framsóknarmanna, að hér blasti við eyðimörk ein, efnahagslífið var „helsjúkt“ og ekkert gat bjargað þjóðinni annað en það, að Framsfl. tæki höndum saman við kommúnista og Alþfl. um „nýjar leiðir“ og „varanleg úrræði“.

Ég kemst í þessu sambandi ekki heldur hjá því að minna á það, að hæstv. núv. sjútvmrh., Lúðvík Jósefsson, lýsti því yfir á Alþ. við umræður um hina nýju skatta fyrrv. ríkisstjórnar, sem nota skyldi til stuðnings atvinnulífinu, eftir að kommúnistar höfðu hrundið nýrri dýrtíðarskriðu á stað, að þessir nýju skattar, sem nema áttu um 150 millj. kr. á árinu 1950, væru einhver „stórfelldasta árás“, sem gerð hefði verið á lífskjör vinnandi fólks á Íslandi, þessi skattheimta fyrrv. ríkisstj. væri efnahagslegt glapræði, sem mundi draga enn meiri ófögnuð á eftir sér.

Þannig var nú afstaða hv. málsvarsmanna kommúnista á árinu 1956. Ég mun siðar koma að því, hvað núv. hæstv. ríkisstj. hefur aðhafzt í skattamálum, ekki aðeins með góðu samþykki þessa hæstv. ráðherra, heldur og undir forustu hans.

Síðan fyrirheitin um „nýjar leiðir“ og „varanleg úrræði“ voru gefin, eru nú liðin nær tvö ár. Engar tillögur um ný og varanleg úrræði hafa komið frá hæstv. ríkisstj. Eina úrræði hennar, sem sézt hefur fram til þessa frv., var jólagjöfin fyrir áramótin 1956, en með henni voru lagðar 300 millj. kr. nýjar skattaálögur á almenning. En sú skattheimta og tollheimta þýddi 9.400 kr. nýja útgjaldabyrði á hverja einustu fimm manna fjölskyldu í landinu. Allt árið 1957 og rúml. fjórðungur ársins 1958 leið, án þess að nokkrar nýjar till. kæmu frá stjórninni um ný úrræði í efnahagsmálunum, Málgögn stjórnarflokkanna lýstu því aðeins yfir, að styrkja- og uppbótaleiðin hefði gengið sér gersamlega til húðar og óhjákvæmilegt væri að hverfa frá henni hið allra fyrsta. Eitt stjórnarblaðanna, málgagn Alþfl., gekk meira að segja svo langt að lýsa því yfir sem dæmi um fánýti þeirrar stefnu, sem stjórnin þó hafði fylgt, þ.e.a.s. uppbóta- og styrkjastefnunnar, að góð síldveiði eða hagfelld grasspretta hlyti óhjákvæmilega að gera íslenzka ríkið gjaldþrota, ef haldið yrði áfram á sömu braut og stjórnin hefði fetað undanfarið.

Þeir menn, sem þannig hafa talað, hljóta að hafa verið með eitthvað nýtt og merkilegt uppi í erminni. Ella hefðu þeir trauðla getað fordæmt svo ákaflega þá stefnu, sem þeir sjálfir höfðu þó fylgt töluvert á annað ár. Mun því þjóðin almennt hafa gert ráð fyrir því, að þegar bjargráðin loksins litu dagsins ljós, þá mætti vænta þar „nýrra leiða“ og „varanlegra úrræða“. Nú hefur hæstv. ríkisstj. hins vegar lagt fram það frv., sem hér liggur fyrir, og alþjóð hefur gefizt tækifæri til þess að kynna sér það að nokkru, enda þótt það sé svo flókið og margbrotið, að engu virðist líkara, en leikur sé að því gerður að varpa reykskýi um kjarna málsins, þannig að fólkið eigi sem allra erfiðast með að sjá það, a.m.k. í fljótu bragði, hvernig er verið að laumast í kringum það, aftan að því og ofan í vasa þess af hálfu hæstv. ríkisstj.

Í frv. þessu felst fyrst og fremst þetta: Þar er gert ráð fyrir, að núgildandi styrkja- og uppbótakerfi verði haldið áfram. Í öðru lagi er viðurkennt, að gengi íslenzku krónunnar sé fallið, og dulbúin gengislækkun framkvæmd, þar sem engar gjaldeyrisyfirfærslur mega í framtíðinni fara fram á skráðu gengi nema þær, er snerta viðskipti við varnarliðið. Í þriðja lagi: Lagðar eru á þjóðina stórfelldar nýjar álögur, sem ætla má að muni nema allt að 790 millj. kr. á ári. Í fjórða lagi: Lögfest er nýtt kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags, þar sem ákveðið er, að allt almennt kaupgjald skuli hækka um ákveðinn hundraðshluta og jafnframt skuli tilteknar innlendar afurðir hækka í verði frá 1. júní.

Það hefur verið sagt og með réttu, að í raun og veru sé gengi íslenzkrar krónu fallið. En hv. stjórnarflokka brestur aðeins kjark til þess að viðurkenna það. Þess vegna reyna þeir nú á nýjan leik að gripa til ráðstafana, sem dulbúa viðurkenningu þeirra á gengislækkuninni.

Það er rétt að minnast á það, að árið 1956 lögðu stjórnarflokkarnir 16% yfirfærslugjald á ýmsar vörur, en helztu rekstrarvörur atvinnuveganna og nauðsynjar almennings voru þó undanþegnar. Þetta var fyrsta sporið til þeirrar gengislækkunar, sem verið er að dulbúa með þessu frv. En nú er gengið í öðru skrefi miklu lengra. Nú eru allar vörur settar undir yfirfærslugjald, og greiða á 30% yfirfærslugjald af helztu neyzluvörum og 55% af öllum öðrum vörum, þar á meðal rekstrarvörum atvinnuveganna. Yfirfærslur á hinu skráða gengi íslenzku krónunnar eru þess vegna felldar niður nema gagnvart þeim greiðslum, er snerta viðskipti við varnarliðið. Veit ég ekki, hvort hv. fulltrúar Alþb. í ríkisstj. hafa sérstaklega beitt sér fyrir því, að sá háttur skuli á hafður, en fróðlegt væri að heyra afstöðu ráðherra þeirra til þess atriðis.

Í stuttu máli sagt er gert ráð fyrir því, að núgildandi styrkja- og uppbótakerfi sé í aðalatriðum haldið áfram. Hin dulbúna gengislækkun er fyrst og fremst notuð sem tekjuöflunarleið, til þess að hægt sé að halda áfram að ausa í hít verðbólgunnar uppbótum á afurðir útflutningsframleiðslunnar og niðurgreiðslum á verðlagi innanlands. Frv. er því í raun og veru sambland af áframhaldandi lögfestingu á styrkja- og uppbótakerfinu og gengislækkun, en úr þessu hlýtur óhjákvæmilega að verða hreinn óskapnaður.

Við sjálfstæðismenn teljum því, að í frv. þessu felist síður en svo nokkur lausn á efnahagsvandamálum þjóðarinnar. Af samþykkt þess hlýtur óhjákvæmilega að leiða stóraukna dýrtíð og verðbólgu í landinu, enda hefur það hreinlega verið viðurkennt af sjálfum málsvörum ríkisstj. hér á hv. Alþ. og í málgögnum þeirra frammi fyrir þjóðinni. Hallarekstri atvinnutækjanna verður ekki útrýmt með þessu frv. Þvert á móti virðist sem samtímis því, sem verið er að gera ráðstafanir, sem eiga að heita framleiðslunni til bjargar, þá sé verið að íþyngja henni með nýjum álögum, sem geri aðstöðu hennar enn þá miklu verri, en hún jafnvel er í dag, áður en þetta bjargráðafrumvarp verður lögfest og kemur til framkvæmda.

Núverandi hæstv. ríkisstj. hefur lagt mikið kapp á að sanna þjóðinni, að hún vildi hafa gott samband og samstarf við verkalýðshreyfinguna og „vinnustéttirnar“, eins og það hefur verið kallað, og að hún hygðist byggja allar sínar ráðstafanir í efnahagsmálum og hvers konar öðrum málum á samþykki verkalýðshreyfingarinnar og nánu samráði við hana.

Áður, en ég fer lengra út í að ræða sannleiksgildi þessara staðhæfinga og hvernig þetta hefur verið í framkvæmd, vildi ég leyfa mér að rekja nokkur atriði úr nál. hv. 2. minni hl. fjhn. í þessari d., sem nýlega hefur verið útbýtt í hv. þingdeild. Það er nál. hv. 4. þm. Reykv., fulltrúa Alþfl. í fjhn. Hann lýsti því yfir við 1. umr. þessa máls, að hann mundi greiða atkv. gegn frv. Fyrir þeirri afstöðu sinni færir hann nokkru nánari rök í nál. sínu, og þar kemst hann m.a. að orði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Á undanförnum tveim árum hafa fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar átt þess kost að ræða fyrirætlanir hv. núverandi ríkisstj. í efnahagsmálum, þegar slík frv. hafa verið á frumstigi. Við þær aðstæður telja verkalýðssamtökin, að þau hafi fengið ýmsu þokað í rétta átt fyrir hag og heill launþega. Við samningu þessa frv. var þessu allt annan veg farið. Þegar þar til kjörnir fulltrúar síðasta þings Alþýðusambandsins komu saman til þess að ræða málið, reyndist það fullfrágengið og þess því ekki kostur að fá þar nokkrar breytingar á. Við umræður hér á Alþingi hefur reynslan orðið sú sama, þegar frá eru teknar örfáar minni háttar breytingar, sem nánast eru leiðréttingar. Enn fremur hefur reynzt ógerlegt að fá nokkur fullnægjandi svör við því, hvernig fyrirhugað er að mæta þeirri stórlega auknu rekstrarfjárþörf til handverks og verksmiðjuiðnaðar, sem af samþykkt þessa frv. leiðir. Hið sama gildir um aukið lánsfé til íbúðarhúsabygginga, svo að nokkuð sé nefnt. Við fyrrnefnda athugun í fulltrúaráði verkalýðssamtakanna leyndi sér ekki, að vel flestir fulltrúar fjölmennustu verkalýðsfélaganna voru andvígir framgangi þessa frv. í núverandi mynd og vitnuðu þar til áður samþykktrar stefnu síðasta þings Alþýðusambandsins, sem gerð var þar í einu hljóði.“

Hv. þm. rekur síðan nokkur fleiri atriði, sem hnígi að því, hversu andstætt þetta frv. sé að öllu leyti verkalýðshreyfingunni, og segir að lokum: „Alvarlegasta verður þó að telja þá grundvallarstefnubreytingu, sem frv. þetta felur í sér, þ.e. að horfið er frá þeirri stöðvunarstefnu, sem verkalýðssamtökin höfðu fagnað og lýst fylgi sínu við allt frá vinnudeilunni 1952 og síðasta Alþýðusambandsþing lagði sérstaka áherzlu á að farin yrði. Það er því augljóst,“ segir hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ), „að þrátt fyrir nauman meiri hl. í áðurnefndum fulltrúahópi verkalýðssamtakanna fyrir þeirri stefnu, að á móti ráðstöfunum þessa frv. skyldi ekki unnið, þá verður það ekki í samræmi við það, er síðasta þing alþýðusamtakanna fól þessum aðilum að semja um.“

Þetta segir hv. 4. þm. Reykv., sem eins og kunnugt er er einn af aðalverkalýðsleiðtogum Alþfl., og má ætla, að hann tali fyrir munn mikils meiri hluta þeirra manna í verkalýðshreyfingunni, sem fylgt hafa Alþfl. að málum.

Það er því nokkurn veginn auðsætt, að sá hluti verkalýðshreyfingarinnar, sem fylgir Alþfl., hefur gersamlega snúizt gegn þeirri stefnu hæstv. ríkisstj. eða réttara sagt stefnuleysi hæstv. ríkisstj., sem felst í þessu frv. því til sönnunar vil ég enn leyfa mér að geta þess, að við atkvgr. í hv. Nd. um þetta frv. í gær rökstuddi hv. þm. Siglf. (ÁkJ) andstöðu sína gegn frv. á eftirfarandi hátt:

„Með því að sýnt er, að frv. þetta fullkomnar það að leiða efnahagsmál þjóðarinnar út í öngþveiti og lög þessi eru sett gegn vilja mikils meiri hluta verkalýðshreyfingarinnar, sem ríkisstj. í upphafi lofaði að hafa samráð við og taka tillit til í sambandi við lausn efnahagsmálanna, lýsi ég mig andvígan frv. og segi nei.“

Sá hluti verkalýðshreyfingarinnar, sem fylgir Alþfl. að málum, er þess vegna örugglega ekki einungis andvigur þessu frv., sem hér liggur fyrir, heldur og kominn í harða andstöðu við núv. hæstv. ríkisstj.

En hvernig mundi þá vera afstaða hins svokallaða verkalýðsflokksins, sem styður hæstv. ríkisstj., kommúnistaflokksins, Sameiningarflokks alþýðu, sósíalistaflokksins, Alþýðubandalagsins? Það eru til nokkuð örugg vitni einnig um þá afstöðu. Í fyrsta lagi má minna á það, að formaður Sósfl., hv. 3. þm. Reykv. (EOl), lýsti strax við 1. umr. málsins í hv. Nd, yfir harðri andstöðu við þetta frv., taldi það vera tilræði við verkalýðshreyfinguna og hafa í för með sér „nýja verðbólguskriðu yfir þjóðina“. Þessi hv. þm. var sjálfum sér samkvæmur og greiddi atkv. gegn frv., eftir að hann hafði fyrst gert tilraun til þess að fá því vísað frá.

Málgagn Sósfl. og Alþb. og kommúnistaflokksins lýsir einnig afstöðu sinni á mjög ótvíræðan hátt og þess hluta verkalýðshreyfingarinnar, sem styður kommúnistaflokkinn. Þann 14. maí kemst Þjóðviljinn í forustugrein sinni m.a. þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta; blaðið ræðir fyrst um það í þessari forustugrein sinni, að ekki sé hróflað við uppbótakerfinu og haldið sé áfram sama sukkinu og áður, en segir síðan:

„Hitt er ljóst, að þessar ráðstafanir leysa engin vandamál nema um stundarsakir. Þær valda nýrri verðbólguskriðu, sem enn eykur bilið milli verðlagsins innanlands og þess verðs, sem við fáum fyrir útflutningsafurðirnar, og munu innan tíðar gera nýjar aðgerðir óhjákvæmilegar.“

Það liggur þannig fyrir sannað bæði í ræðum einstakra leiðtoga verkalýðsflokkanna, sem styðja hæstv. ríkisstj. hér á Alþingi, og í blöðum þessara sömu flokka, að stefna eða stefnuleysi þessa frv. nýtur einskis trausts þess hluta verkalýðshreyfingarinnar, sem styður þessa flokka. Þvert á móti. Þessir leiðtogar hafa lýst sig í harðri andstöðu við þessar ráðstafanir og talið þær leiða nýja verðbólguskriðu, lífskjaraskerðingu og ófyrirsjáanleg ný vandræði yfir þjóðina.

Við þetta bætist svo enn það, sem öllum hv. þm. er kunnugt um, að mikill fjöldi verkalýðsfélaga, sem stjórnað er af mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum, einnig úr hópi stjórnarandstöðunnar, hefur sent Alþ, harðorð mótmæli gegn þessu frv. Við hv. 6. þm. Reykv. (GTh) höfum leyft okkur að prenta upp í grg. okkar nöfn nokkurra þessara félaga, sem okkur er kunnugt um að þegar hafa sent bein mótmæli til Alþingis. En mörg önnur hafa mótmælt án þess að senda þinginu mótmæli. Þau félög, sem þegar hafa sent mótmæli sín, eru þessi: Félag járniðnaðarmanna í Reykjavík, Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík, Félag íslenzkra rafvirkja, Múrarafélag Reykjavíkur, Bifreiðastjórafélagið Hreyfill, Vörubílstjórafélagið Þróttur, Trésmíðafélag Reykjavíkur, Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna, Hið íslenzka prentarafélag, Félag íslenzkra prentmyndasmiða, Sveinafélag skipasmiða, Landssamband vörubifreiðastjóra, Bifreiðastjórafélagið Neisti, Hafnarfirði, Bifreiðastjórafélagið Fylkir, Keflavík, Samband matreiðslu- og framreiðslumanna.

Það er af þessari upptalningu ljóst og því, sem ég áður hafði hermt um afstöðu einstakra verkalýðsleiðtoga úr hópi sjálfra stjórnarflokkanna, að hvorki þetta frv. né heildarstefna eða stefnuleysi ríkisstj. í efnahagsmálum á minnsta fylgi að fagna meðal verkalýðshreyfingarinnar. Vinnustéttirnar, sem svo hafa verið kallaðar af hæstv. forsrh. og hann hefur talið sig sérstaklega kjörinn til þess að starfa með og fyrir, hafa lýst yfir harðri andstöðu við þær ráðstafanir, sem ríkisstj. loks eftir tæp tvö ár hefur sýnt Alþingi framan í, í efnahagsmálunum.

Ég segi: Stærri ósigur var varla hægt að biða af hálfu hæstv. forsrh. og raunar ríkisstj. í heild, ekki sízt vegna þess, að hún taldi tilveru sína að verulegu leyti byggjast á hinu nána sambandi og samvinnu við verkalýðshreyfinguna. Og hæstv. forsrh. réttlætti samvinnu sína við kommúnista einmitt með því, að það væri ekki hægt að finna varanleg úrræði og nýjar leiðir í efnahagsmálunum án samvinnu við þau verkalýðssamtök, sem kommúnistar ráða yfir. Hæstv. forsrh. sér nú framan í staðreyndirnar, raunveruleikann sjálfan í þessu máli.

Nú er það út af fyrir sig ekki algildur mælikvarði á gagnsemi tillagna í efnahagsmálum þjóða, að ýmsir verði til þess að mótmæla þeim, t.d. hagsmunasamtök launþega. Það skal ég fúslega viðurkenna. En hæstv. ríkisstj. segist með þessu frv, fyrst og fremst vera að bjarga framleiðslunni, útflutningsframleiðslunni og þá fyrst og fremst sjávarútveginum. Ég get ekki stillt mig um að gera nokkrar aths. við þetta frv. einmitt út frá því sjónarmiði, hvernig það skipulag, sem það byggist á, búi að sjávarútveginum.

Það er ekki óeðlilegt, að varpað sé fram þeirri spurningu, hvernig þetta frv. leysi vandamál útvegsins og hvort útvegurinn, útvegsmennirnir og sjómennirnir, muni ekki hafa tekið því fagnandi, þó að launþegasamtökin hafi mótmælt því. Það væri hugsanlegt, ef þetta frv. væri alvarleg tilraun til þess að rétta hlut útflutningsframleiðslunnar, að það hlyti ekki fyrst í stað a.m.k. vinsældir hjá launþegasamtökunum, en hins vegar væri vel tekið og fagnandi af hálfu útflutningsframleiðslunnar.

Ég hef bent á það í sambandi við þetta mál, að það feli í sér gengislækkun, dulbúna, en þessi gengislækkun leiðir að sjálfsögðu til hækkunar útgerðarkostnaðar, þar sem mikill hluti af rekstrarnauðsynjum útvegsins er innfluttur.

Í frv. er þó gengið út frá hækkun á útflutningsuppbótum sjávarútvegsins. Í 3. gr. þess eru ákvæði um útflutningsbætur, sem greiða skal sjávarútveginum, og hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar í hv. Nd., og er gert ráð fyrir, að útflutningsuppbæturnar nemi 55-80% af fob-andvirði afurðanna. Með þessum útflutningsuppbótum á sjávarútvegurinn væntanlega að fá bættar a.m.k. þær hækkanir rekstrarkostnaðar, sem óhjákvæmilega hlýtur að leiða af lögfestingu frv., jafnframt því sem hann ætti að halda öllum þeim rétti, sem hann hefur samkvæmt gildandi samningi við ríkisstj.

Í þessu sambandi verður þó að gæta þess, að ekki eru til samningar um starfsgrundvöll togaraútvegsins eða síldarútvegsins, eins og gerðir voru við bátaútveginn um síðustu áramót. Þegar sá samningur var gerður um rekstur bátaflotans, var hann háður því skilyrði, að fjárhagsafkoma vélbátaútvegsins verði ekki rýrð með nýjum álögum eða ráðstöfunum af hálfu ríkisvaldsins á árinu 1958 frá því, sem felst í nefndu bréfi, þ.e. samningstilboði sjútvmrh. Þessi fyrirvari var borinn undir hæstv. sjútvmrh., áður en hann var sendur honum, og samþ. af honum. Enginn vafi leikur á því, að hér var því um gildandi samning að ræða.

Nú víkur því svo við, að Alþingi og báðum hv. fjhn. þess hafa borizt bréf frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, dags. 13. þ. m., ásamt samriti af bréfi til ríkisstj., dags. 3. þ. m., þar sem því er haldið fram, að bætur þær, sem greiddar skuli skv. a-lið 3. gr. frv., þ.e. 80% af fob-andvirði fiskafurða, að undanteknum síldarafurðum, séu ekki í samræmi við áðurnefndan samning. Það kemur einnig fram í fyrrgreindu bréfi, að Landssambandi ísl. útvegsmanna hefur verið gefinn kostur á að ræða þessi mál við fulltrúa hæstv. ríkisstj. og sjútvmrh., áður en frv. var lagt fram á Alþingi, og hafa þessir aðilar vafalaust borið saman útreikninga sína.

Niðurstöðum L.Í.Ú, ber ekki saman við það, sem lagt er til í frv. Eru þessar niðurstöður landssambandsins þó studdar rækilegum rökum, sem hægt er að fá aðgang að, og er athyglisvert, að ríkisstj. hefur ekki gert neina tilraun til þess að hrekja þær hér á hv. Alþ.

Aðalniðurstöður útreikninga L.í.Ú. eru þessar:

Útflutningsuppbætur samkvæmt a-lið 3. gr. frv. ættu, miðað við línuveiðar, að vera 83.34%, en miðað við þorsknetjaveiðar 87.13%. Samkvæmt þessu og miðað við reynslu undanfarinna ára ætti í a-lið 3. gr. að standa 85% í stað 80%. Ef vikið er strax að þessu atriði og byggt á því, að útreikningar L.Í.Ú. séu réttir, en það er ekki óeðlilegt, þar sem ríkisstj. hefur við meðferð málsins hér á Alþingi ekki vefengt þá, hlýtur það að vekja furðu, að hún skuli leggja fyrir Alþingi frv., sem felur í sér brot á samningi, sem hún sjálf hefur gert. — Ég vildi mega mælast til þess við hæstv. sjútvmrh., að hann sýndi fram á, að útreikningar landssambandsins séu ekki á rökum reistir. Enn fremur þætti mér vel fara á því, að hæstv. ráðh. endurtæki þá fullyrðingu sína frá umr. í Nd., að ekki hafi verið um að ræða bindandi samning við landssambandið fyrir allt árið 1958 um s.l. áramót, því að það skiptir ákaflega miklu máli, að afstaða hæstv. ráðh. komi alveg hreint og klárlega í ljós til þessa atriðis.

Ég vil líka vekja athygli á þeirri staðreynd, að útreikningar landssambandsins miðast við það eitt, að ekki sé um að ræða beinar hækkanir á kostnaði útvegsins, aðrar en þær, sem leiðir af 55% yfirfærslugjaldi. En nú er komið í ljós, að hækka á útflutningsgjöld um 65% og tollar eiga að leggjast á cif-verð vöru að viðbættu yfirfærslugjaldinu. Af þessu leiðir að sjálfsögðu, að útflutningsuppbætur samkvæmt a-lið 3. gr. ættu raunverulega að vera hærri en 85%.

Hér má einnig geta þess, að Alþ. hefur borizt bréf frá S.Í.F., þar sem bent er á, að umsamdar útflutningsbætur frá 1. jan. til 14. maí á saltfiskafurðir séu skertar með frv. Það sama gildir samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, einnig um skreið og freðfisk.

Loks er á það að líta, að samningar milli ríkisstj. og sjávarútvegsins, sem nú eru í gildi, ná aðeins til fiskafurða bátaflotans, að undanskildum síldarafurðum. Engir samningar eru til um togaraflotann né heldur síldveiðarnar. Hins vegar hefur ríkisstj. í frv. þessu gert ráð fyrir ákveðnum útflutningsuppbótum til togara og til síldveiðiskipanna. Útflutningsuppbætur á afurðir togara skulu vera hinar sömu og afurðir vélbáta, aðrar en síldarafurðir. Útflutningsuppbætur á síldarafurðir norðan- og austanlands skulu vera 55%, eins og frv. kemur nú frá hv. Nd., og á Suðvesturlandi 70%. Hins vegar leitast L.Í.Ú. við í áðurnefndum bréfum sínum að sanna, að útflutningsuppbætur á afurðir togaranna þyrftu að vera allt að 126.2%, á síldarafurðir norðan- og austanlands allt að 122.8% og síldarafurðir sunnan- og vestanlands, haustsíldina, allt að 113.8%,

Í bréfum L.Í.Ú. til Alþingis og ríkisstj. svo og í ályktun fulltrúaráðsfundar landssambandsins 16. þ. m., sem einnig hefur verið send Alþ. og er samhljóða þessum bréfum að meginefni, er lagt til eða þess öllu heldur krafizt, að útflutningsuppbætur verði a.m.k. hinar sömu á allar sjávarafurðir, eða 85%, en eins og áður segir, er þá miðað við gildandi samning landssambandsins við ríkisstj., en ekki reiknað með 65% álagi á útflutningsgjöld eða auknar tollaálögur.

Fyrrgreind ályktun fulltrúaráðsfundar samtaka útvegsmanna ber greinilega með sér, að útflutningsuppbætur þær á síldarafurðir, sem gert er ráð fyrir í frv. þessu, eru svo ófullnægjandi, að ekki er annað sjáanlegt, en alger stöðvun síldveiða vofi yfir, ef ekki er einhver bót á ráðin.

Ég vildi nú leyfa mér að óska þess að fá að heyra skoðun hæstv. sjútvmrh. á þessu og jafnframt fá upplýsingar um, til hvaða ráða ríkisstj. hyggst gripa, ef síldveiðarnar stöðvast þrátt fyrir ákvæði þessa frv. Sjálfur skal ég ekki fullyrða um það endanlega, að þeir útreikningar séu réttir upp á punkt og prik, sem samtök útvegsmanna hafa lagt fram. En hingað til hefur hæstv. ríkisstj. í aðalatriðum stuðzt við upplýsingar frá samtökum útvegsmanna, og að sjálfsögðu hljóta forustumenn heildarsamtaka útvegsins að vera langsamlega kunnugastir þessum málum og vita bezt, hvar skórinn kreppir að. En sú spurning hlýtur að rísa, hvort hæstv. ríkisstj. telji síg, þegar Alþ. hefur verið slitið og þm. farnir heim, hafa heimild til þess að bæta úr því, sem ábótavant kynni að vera í þessum efnum, í skjóli f-liðar 3. gr. frv., en þar segir, að ríkisstj. sé heimilt að flytja einstakar vörur milli bótaflokka. Ef ég skil þetta ákvæði rétt, fær hæstv. ríkisstj. m.a. heimild til þess að greiða hæstu uppbætur á síldarafurðir. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh, um það, hvort þessi skilningur sé réttur, og ef hann er réttur og ef heimildin yrði notuð, þá hlyti það að hafa í för með sér stórkostlega aukin útgjöld fyrir útflutningssjóð, langt umfram það, sem gefið er í skyn í frv. þessu.

Hvaðan á svo að taka það fé? Mér finnst, að Alþ. geti trauðla skilað þessu stóra máli frá sér, án þess að fullkomnari upplýsingar liggi fyrir um þetta atriði.

Mér virðist því, að varðandi sjávarútveginn, þá horfi þetta frv. þannig við: Í fyrsta lagi: Frv. er ætlað að tryggja afkomu hans og rekstur á þessu ári. Í öðru lagi: Ráðstafanir þær, sem frv. gerir ráð fyrir í þessu skyni, eru að allra áliti, er bezt bera skyn á þessi mál, gersamlega ófullnægjandi. Rekstrarkostnaðurinn er stóraukinn hjá allri útgerð í landinu, og útflutningsuppbæturnar eru ekki hækkaðar neitt nándar nærri í samræmi við það. Frv. felur að áliti samtaka útvegsmanna í sér brot á veigamiklum atriðum í gildandi samningi varðandi rekstur útflutningsframleiðslunnar á árinu. Samkv. áliti landssambandsins eru útflutningsuppbætur á síldarafurðir í þriðja lagi áætlaðar svo lágar, að stöðvun virðist fyrirsjáanleg hjá bátaútgerðinni. Í fjórða lagi vildi ég spyrja, hvort hugsanlegt sé, að bæta eigi úr þessu með heimildinni í f-lið 3. gr., og ef það er meiningin, í fimmta lagi, eru þm. þá ekki stórlega blekktir með ákvæðum frv. um tekjuöflun?

Ég hef hér reynt að bregða upp mynd af því, hvernig þetta frv. snertir sjávarútveginn, sem stendur að langsamlega mestu leyti undir útflutningsframleiðslunni og svo til allri gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Frá heildarsamtökum útvegsins hafa borizt mótmæli gegn frv. og fjölmargar ábendingar um það, að till. ríkisstj. feli beinlínis í sér yfirvofandi hættu um stöðvun sjávarútvegsins á miðju ári. Ég hef gert nokkra grein fyrir þeim mótmælum og þeirri gagnrýni, sem komið hefur fram á stefnu eða réttara sagt stefnuleysi þessa frv. frá samtökum verkalýðs og launþega í landinu annars vegar og frá samtökum framleiðenda hins vegar. Ég tel mér skylt að greina til viðbótar frá allmörgum öðrum athugasemdum, mótmælum og brtt., sem borizt hafa hv. fjhn., en ekki hefur verið talið mögulegt af hv. stjórnarflokkum að koma til móts við.

Frá bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur borizt svo hljóðandi símskeyti:

„Út af lagafrv. um útflutningssjóð o.fl. bendir bæjarstjórn Seyðisfjarðar á það, að síldarsöltun á Austfjörðum er miklum örðugleikum bundin vegna þess, hve afli er blandaður og langt sóttur og gengur því mikið saman við söltun. Bæjarstjórnin telur því brýna nauðsyn bera til þess, að Austurlandssíld fái hæstu verðuppbætur, sem frv. gerir ráð fyrir. Síldarsöltun hefur undanfarin ár verið meginþáttur í sumarvinnu verkafólks hér og víðar á Austfjörðum, og mundi samdráttur hennar þýða verulega kjararýrnun.“

Auðsætt er af þessu, að bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar elur í brjósti mikinn ugg um það, að afleiðing samþykktar þessa frv. muni verða samdráttur í atvinnulífi kaupstaðarins.

Þá hafa borizt frá lyfsölustjóra ríkisins ummæli, þar sem m.a. er komizt að orði á þessa leið:

„Vér efumst ekki um, að hv. fjhn. muni ljóst, að fáir megi síður við auknum útgjöldum en þeir, sem mesta þörf hafa fyrir lyf, og því sé mikil nauðsyn á því að íhuga gaumgæfilega, hvort ekki megi færa lyf í flokk með þeim vörum, sem ráðgert er að greiða 30% yfirfærslugjald af. En samkv. frv. er gert ráð fyrir, að greiða eigi 55% yfirfærslugjald af andvirði lyfja, og mundi það að sjálfsögðu hafa í för með sér stórfellda hækkun á lyfjum, sem mundi að sjálfsögðu bitna fyrst og fremst á sjúku fólki og veikluðu.“

Þá liggja fyrir hér ýtarlegar till. frá stéttarfélagi verkfræðinga, sem fer fram á, að tilteknar breytingar verði gerðar á frv., og færir rök að því, að ákvæði frv. séu ósanngjörn og óskynsamleg.

Þá eru hér mótmæli gegn ákvæðum frv. frá Félagi íslenzkra atvinnuflugmanna, og vegna þess að mótmæli þeirra eru nokkuð sérstaks eðlis, tel ég rétt að lesa þau í heild:

„Í tilefni af frv. um útflutningssjóð o.fl., sem nú liggur fyrir hæstv. Alþ., leyfum vér oss að vekja athygli fjhn. Ed. á eftirfarandi:

Þann 12. febr. 1957 var gerður kjarasamningur milli flugfélaganna og félags vors. Hafði ríkisstj. milligöngu við samningagerð þessa hvað snertir gjaldeyrisfríðindi flugmönnum til handa til samræmis við aðra farmenn. Varð að samkomulagi, að flugmenn hlytu 30% launa sinna greidd í erlendum gjaldeyri á lögskráðu gengi.

Er það álit vort, að með ákvæðum frv. sé algerlega rift forsendum samkomulags þess, sem samningurinn var byggður á. Er hér um að ræða mjög verulega skerðingu á kjörum flugmanna, einkum með tilliti til þess, að ofangreindur samningur var gerður til þriggja ára í trausti þess, að gjaldeyrir þessi fengist keyptur á lögskráðu gengi. Eru það eindregin tilmæli vor, að fyllsta tillit verði tekið til þessa við væntanlega afgreiðslu frv.“

Hér er sem sagt um það að ræða, að brotnir eru með lögum samningar á einstöku stéttarfélagi og meðlimir þess ekki aðeins látnir bera þær byrðar, sem aðrir launþegar eiga að bera samkv. frv., heldur er lagt til, að framkvæmd verði á þeim mjög veruleg kjaraskerðing.

Þá liggur fyrir hér ályktun frá Félagi síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, og sendir stjórn félagsins svo hljóðandi ályktun:

„Aðalfundur Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, haldinn í Reykjavík 23. maí 1958, skorar á Alþ. að breyta ákvæðum frv. um útflutningssjóð o.fl. þannig, að útflutningsuppbætur á síldarafurðir verði þær sömu og á afurðum úr þorski. Til rökstuðnings þessa vísar fundurinn til þess, að síldarútvegurinn á við enn meiri örðugleika að etja heldur en aðrar greinar sjávarútvegsins vegna aflabrestsins á undanförnum árum og verðfalls á síldarafurðum.“

Þá liggja hér fyrir áskoranir frá hreppsnefnd Dalvíkurhrepps, þar sem hún fer fram á, að verðuppbætur á Norðurlandssíld verði jafnháar og á Suðurlandssíld.

Þá er ályktun frá Útvegsmannafélagi Vestmanneyinga, þar sem m.a. er skorað á Alþ. að rjúfa ekki gerða samninga frá s.l. áramótum við útveginn, m.a. um greiðslu vátryggingargjalda o.fl.

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands mótmælir tilteknu ákvæði í 31. gr. frv. og skírskotar til samninga um það atriði. Er hér um að ræða nokkuð hliðstætt mál og með flugmennina. Í bréfinu segir:

„Viðkomandi sambandsfélög vor hafa falið stjórn Farmannasambandsins að senda hv. fjhn. Alþ. ákveðin mótmæli vegna 31. gr. frv. til laga um útflutningssjóð o.fl.“ En þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Áhafnir flugvéla og skipa, sem eiga rétt á að fá hluta launa sinna á ákveðnar fjárhæðir í erlendum gjaldeyri, skulu greiða 55% yfirfærslugjald af öllum gjaldeyri, sem þeim er afhentur“. — „Það er einróma skoðun allra þeirra félagsmeðlima vorra, er þetta atriði snertir, að hér sé um beina kjaraskerðingu að ræða, með því að gjaldeyrishlunnindi þau, sem farmenn og fiskimenn hafa notið, eru einn liður í heildarsamningum um kaup og kjör og önnur kjaraákvæði í samningum sett með hliðsjón af þessum sérstöku ívilnunum þeim til handa, enda stendur í öllum samningum viðkomandi sambandsfélaga vorra þessi grein: „Nú verður breyting á lögskráðu gengi íslenzku krónunnar, og er þá samningur þessi uppsegjanlegur með mánaðar fyrirvara.“ — Enda þótt hér sé ekki um neina gengisbreytingu að ræða eftir orðalagi 31. gr. téðs frv., þá er það engu að síður staðreynd, að það verkar á sama hátt sem kjaraskerðing hjá far- og fiskimönnum eins og um gengisbreytingu væri að ræða. Væntum vér þess, að hv. n. sjái sér fært að taka mál þetta til vinsamlegrar yfirvegunar og geti fallizt á þau rök, sem hér hafa verið fram sett.“

Ég hygg, að hv. þm. Reykv., Ásgeir Sigurðsson skipstjóri, formaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem á sæti í hv. Nd., hafi freistað þess að fá fram komið brtt., sem fæli í sér þetta efni, en það mun ekki hafa tekizt. Ég fæ persónulega ekki séð betur, en að bæði á flugmönnunum og far- og fiskimönnum séu að þessu leyti brotnir samningar. Og ég vænti, að hæstv. ríkisstj. hafi þá gert sér það ljóst, hverjar afleiðingar þess kynnu að verða.

Enn fremur er hér álitsgerð frá Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda, þar sem bent er á ýmiss konar agnúa á ákvæðum frv., sem hafa muni í för með sér mikil vandkvæði fyrir saltfiskframleiðslu landsmanna. Svipuð grg. kemur frá Samlagi skreiðarframleiðenda, og hafa þannig öll sölusamtök útvegsins sent fjhn. Alþ. gagnrýni eða bein mótmæli gegn þessu frv., án þess þó að komið hafi verið til móts við þessar till. nema að örlitlu leyti. Það liggur því ljóst fyrir, að útflutningsframleiðslan telur, að með þessu frv. sé stefnt út í fullkomið óefni og öngþveiti. Fæ ég ekki séð, hvernig hæstv. ríkisstj. getur með sæmilegri samvizku skellt skollaeyrunum við allri þessari gagnrýni og mótmælum frá þeim samtökum þeirra atvinnugreina, sem fyrst og fremst eiga að sækja styrk og stoð í þessa nýju löggjöf.

Þegar við þetta bætist, sem ég nú hef rakið, að af verulegri hækkun byggingarkostnaðar hlýtur að leiða samdrátt í framkvæmdum og atvinnulífi þjóðarinnar, verður enn auðsærra, hversu lánlítil, ef ekki lánlaus hæstv. ríkisstj. hefur verið í undirbúningi þessa máls.

Enn má bæta því við, sem einnig hefur verið bent á af hv. 4. þm. Reykv., sem mælti hér gegn frv., þótt hann sé einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., að af samþykkt þessa frv. hlýtur að leiða samdrátt í iðnaðinum.

Loks má á það benda að, af þessu frv. hlýtur að leiða stórfelldan samdrátt verklegra framkvæmda á vegum sjálfs ríkisins samkv. fjárl. Þeir vegir, sem byggðir verða í sumar, verða allmiklu styttri, og það verða færri brýr, sem mögulegt verður að byggja á þessu ári, heldur en ráð hefur verið fyrir gert, jafnvel í fjárl. fyrir yfirstandandi ár. Væri þess vegna engan veginn óeðlilegt, að hæstv. ríkisstj., sem hefur lýst því margsinnis yfir, að hún vilji ekki draga saman verklegar framkvæmdir, aflaði sér heimilda til þess að mega hækka á þessu sumri framlag til þjóðvega og brúargerða frá því, sem ákveðið er í fjárl. ársins 1958, í samræmi við þá hækkun á kostnaði við þau verk, er orsakast af samþykkt þessa frv., sem hér liggur fyrir. Mér hefði fundizt mjög gagnlegt að fá upplýsingar um það frá hæstv. ríkisstj., byggðar á skýrslu vegamálastjóra, hvað hækkunin við vegagerðir og brúargerðir mun verða mikil sem bein afleiðing af samþykkt þessa frv. Ef hæstv. sjútvmrh., sem er eini fulltrúi hæstv. ríkisstj., sem hér er staddur í bili, vildi afla upplýsinga um þetta, þá fyndist mér það nokkurs virði. Og þjóðin á raunar rétt á því og kröfu á því, að upplýsingar um slíka hluti liggi fyrir, þegar frv. eins og þetta er afgr.

Við hv. 6. þm. Reykv. höfum ekki talið okkur mögulegt á þeim skamma tíma, sem hv. n. og hv. Ed. hefur haft þetta frv. til meðferðar, að flytja breytingartillögur um meginstefnu þess og þýðingarmestu atriðin. En við höfum leyft okkur að flytja hér örfáar brtt.

Það er fyrst Brtt. við 21. gr. frv. um það, að b-liður gr. falli niður, en þar segir, að af yfirfærslum fyrir námskostnaði og sjúkrakostnaði skuli innheimta 30% yfirfærslugjald. Við leggjum til, að þessi liður falli niður og aftan við gr. bætist ný málsgrein, svo hljóðandi: „Yfirfærslur fyrir námskostnaði og sjúkrakostnaði skulu undanþegnar yfirfærslugjaldi.“

Um það þarf ekki að hafa mörg orð, að fátækir námsmenn og sjúkt fólk er allra sízt fært um að greiða þetta háa álag á sjúkrakostnað eða námskostnað sinn. Og það má á það benda, að fram til þessa dags hefur ríkissjóður ekki talið fært að vega í þann knérunn, þegar aflað hefur verið tekna í ríkissjóð eða útflutningssjóð til stuðnings framleiðslunni. Mér virðist því, að núverandi hæstv. ríkisstj. hafi vikið þarna út af braut, sem aðrar fyrrv. ríkisstj. hafi talið eðlilegt að mörkuð yrði gagnvart þessu fólki. Allt öðru máli gegnir, ef skráðu gengi íslenzku krónunnar væri opinberlega breytt. Þá yrði þetta fólk eins og aðrir borgarar í landinu að borga erlendan gjaldeyri sama verði. Þá yrðu allir borgarar í landinu að kaupa erlendan gjaldeyri á einu verði. En þegar gengislækkun er framkvæmd sem gjaldeyrisskattur á svo að segja alla gjaldeyrissölu, virðist mjög ósanngjarnt að láta hana bitna á ungu, efnalitlu námsfólki og sjúku fólki og veikluðu, sem vissulega á erfiðast allra með að rísa undir miklum útgjöldum.

Þá flytjum við hv. 6. þm. Reykv. brtt. við 36. gr. frv. um, að við hana bætist, Í niðurlagi gr. stendur: „Ríkisstj. er einnig heimilt að fella niður innflutningsgjald af ilmefnum til sápugerðar, sem teljast til nr. 13b í 31. kafla tollskrár.“

Við leggjum til, að við þetta bætist: eða öðrum hráefnum til iðnaðar, ef hún telur það nauðsynlegt vegna afkomu einstakra iðngreina.“ Ég vil í fyrsta lagi lýsa yfir vanþekkingu minni á því, hvernig stendur á því, að ríkisstj. er sérstaklega heimilað að fella niður innflutningsgjald af „ilmefnum til sápugerðar.“ Ég veit, að hæstv. viðskmrh. er margfróður maður um þetta. Ég vænti, að hann upplýsi hv. þd. um ástæðuna. Ég veit ekki, hvort þetta er vegna þess, að stjórnin ætlar sér að loknum þingverkum í bað og langar til að koma ilmandi fram fyrir þjóðina. En ég býst við því, að það þyrfti töluvert af sápu til þess, jafnvel þótt með „ilmefnum“ væri, að hæstv. ríkisstj. ilmaði og spryngi út eins og blóm á vordegi frammi fyrir augliti þjóðarinnar. En mér þætti ánægjulegt að fá upplýsingar um það, hvernig stendur á þessari sérstöku heimild, þó að ég vilji ekki draga í efa, að hún geti verið sanngjörn og eðlileg.

En það, sem vakir fyrir okkur hv. 6, þm. Reykv, með þessari viðbótartill., er aðeins það, að við sjáum fram á það, eins og margir aðrir, að iðnaðurinn og einstakar greinar hans sérstaklega muni standa frammi fyrir stórfelldum erfiðleikum, eftir að þetta frv. hefur verið samþ., og að fullkomin hætta sé þar á samdrætti, sem valda muni vaxandi og jafnvel stórfelldu atvinnuleysi í stærstu kaupstöðum landsins. Ástandið hjá iðnaðinum nú er þannig, að fjöldi verksmiðja er í vandræðum með hráefni, og við borð liggur, að segja þurfi tugum, ef ekki hundruðum verkafólks upp vinnu sinni. Mér virðist, að þetta mál muni horfa enn þá alvarlegar við, eftir að þetta frv. hefur verið samþ., og þess vegna álítum við hv. 6. þm. Reykv., að skynsamlegt væri að víkka þessa heimild nokkuð, sem hæstv. ríkisstj. hefur í niðurlagi 36. gr. til þess að fella niður innflutningsgjald af ilmefnum til sápugerðar, þannig að við bætist: „eða öðrum hráefnum til iðnaðar, ef hún telur það nauðsynlegt vegna afkomu einstakra iðngreina.“

Þá flytjum við breytingartillögu við 40. gr. frv. í tveimur liðum, a-lið, að efnivara, sem iðnaðarmenn og iðnfyrirtæki selji í sambandi við iðn sína, sé undanþegin þeim skatti, sem um getur í gr., og enn fremur vinna og þjónusta látin í té af iðnaðarmönnum og iðnfyrirtækjum. — Rök hafa verið leidd að því af samtökum iðnaðarmanna, að slík breyting væri sanngjörn og eðlileg, og talið er, að breyting sú, sem við leggjum til, muni ekki hafa í för með sér stórfelldan tekjumissi fyrir ríkissjóð.

Þá leggjum við loks til, að álag á gjald af innlendum tollvörutegundum skuli innheimt með 100% álagi, en ekki með 150%, eins og gert er ráð fyrir í gr.

Loks vil ég lýsa yfir fylgi minni hl. fjhn., okkar hv. 6. þm. Reykv., við þær brtt., sem hv. þm. Vestm. hefur flutt á þskj. 581, í fyrsta lagi viðbót við 3. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að hlutur vinnslustöðva verði réttur nokkuð, og enn fremur brtt. hans um greiðslu vátryggingargjalda fyrir útgerðina, við 18. gr. frv. Hv. þm. mun gera grein fyrir þessum brtt., en við lýsum yfir fylgi okkar við þær og mundum hafa flutt þær, ef hann hefði ekki tekið þær upp.

Ég hygg þá, að ég hafi gert grein fyrir þeim brtt., sem minni hl. fjhn. hefur flutt.

Ég vil að lokum fara nokkrum orðum um þær staðhæfingar hv. stjórnarliða, sem þeir nota helzt til afsökunar frv. sínu og stefnuleysi þess, að Sjálfstæðisfl. hafi brugðizt þeirri frumskyldu sinni að bera fram sjálfstæðar tillögur til lausnar þeim vanda efnahagsmálanna, sem við blasir í dag og vissulega veldur öllum ábyrgum og hugsandi mönnum þungum áhyggjum.

Þessari staðhæfingu hv. stjórnarflokka er fyrst því að svara, að Sjálfstfl. hefur aldrei sagt þjóðinni, að hann hefði á takteinum einhver töframeðul, sem leyst gætu allan vanda íslenzks efnahagslífs, án þess að nokkur maður í landinu þyrfti nokkru að fórna. Það eru hv. stjórnarflokkar, sem þetta hafa gert. Þess vegna er vandi þeirra í dag og klípa miklu átakanlegri, en nokkur ríkisstj. hefur nokkru sinni komizt í. Núverandi hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir við valdatöku sína, að hún hefði á takteinum nýjar leiðir og varanleg úrræði til þess að leysa með vandamál efnahagslífsins. Hún hefur setið tvö ár að völdum, og þjóðin hefur ekki lítið neitt af þessum nýju leiðum eða varanlegu úrræðum, aðeins stórfelldir nýir skattar hafa verið lagðir á þjóðina til þess að framkvæma styrkja- og uppbótakerfið áfram, til þess að heimta af þjóðinni aftur það fé, sem hún eða launþegar hennar ofkröfðu framleiðsluna og þá fyrst og fremst sjávarútveginn um í hinum pólitísku verkföllum kommúnista 1955.

Þannig hafa hinir svokölluðu verkalýðsflokkar — og þó ekki sízt kommúnistaflokkurinn — viðurkennt það, að hin pólitísku verkföll voru ekki framkvæmd til þess raunverulega að bæta kjör verkalýðsins og launþeganna, sem kastað var út í löng og dýr verkföll, heldur til hins, að brjóta niður þá jákvæðu jafnvægisstefnu, sem þáverandi ríkisstj. hafði framkvæmt með góðum árangri s.l. 3–4 ár. Þetta hafa kommúnistarnir og Alþýðuflokksmennirnir orðið að viðurkenna, eftir að þeir komu í ríkisstj. með Framsfl., með því að láta það vera sitt fyrsta verk að stöðva kauphækkanir og síðan taka af fólkinu aftur það, sem kreist var undan blóðugum nöglum hallarekins atvinnulífs á verkfallsárinu 1955, þegar allt kaupgjald í landinu var hækkað um 22% að meðaltali.

Ég tel, að þetta sé lærdómsríkasta staðreynd þess stjórnarsamstarfs, sem staðið hefur undanfarin tæplega tvö ár, að kommúnistarnir, þegar þeir eru í ríkisstj., beita sér fyrir því, að tekið sé af fólkinu það, sem þeir, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, beittu sér fyrir að fólkið tæki af atvinnulífinu með verkföllum og kommúnistar þá töldu að stefndi til kjarabóta. Ég held, að íslenzkur almenningur hafi á þessum tveim árum lært meira um eðli og starfsaðferðir kommúnista, heldur en á áratugum áður fyrr, meðan þeir voru í stjórnarandstöðu og gátu lofað og krafizt án þess að þurfa sjálfir að standa við orð sín.

Ég vil enn fremur benda á það, sem ég einnig drap lauslega á í upphafi máls míns, að þegar við sjálfstæðismenn erum í ríkisstj., þá hikum við ekki við að kryfja vandamálin til mergjar og leggja niðurstöðurnar fyrir þjóðina og gera síðan till. okkar um það, hvernig við vandanum skuli snúast, á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fyrir liggja. Það hefur núverandi hæstv. ríkisstj. ekki árætt, Hún lofaði þjóðinni „heildarúttekt“ á þjóðarbúinu, þegar hún kom til valda. Hún hefur haft erlenda og innlenda sérfræðinga starfandi að þessari úttekt í tæp tvö ár. En almenningur í landinu, varla Alþingi, hefur fengið að sjá niðurstöðuna af þessari úttekt. Það eina, sem þing og þjóð fær að sjá, er þær till., sem liggja fyrir í þessu frv., till., sem bæði launþegasamtök og framleiðendasamtök telja tilræði við hagsmuni sína og stefna að kyrrstöðu og vaxandi erfiðleikum í efnahagslífi þjóðarinnar.

Sjálfstfl. mun enn sem fyrr halda áfram að segja þjóðinni það hreinskilnislega og umbúðalaust, að efnahagsvandamál hennar verða ekki leyst með skrumi og loforðum um töframeðul, sem svo engin eru til. Kjarni málsins er sá, sem við höfum jafnan lagt áherzlu á, að þjóðin verður að miða eyðslu sína við arðinn af framleiðslu sinni. Ef hún ekki gerir það, þá megna engin töframeðul að leysa vanda hennar. Þá eru ekki til „nein varanleg úrræði“ eða „nýjar leiðir“, sem geti leyst þjóðina frá þeirri skyldu sinni að koma fram á ábyrgan og skynsamlegan hátt.

Hv. stjórnarsinnar hafa ásakað okkur fyrir það ýmist, að við flyttum engar till. eða að ábendingar okkar og gagnrýni væri neikvæð og fálmkennd. Ég vil nú aðeins nefna þrjár tölur sem dæmi um það, hversu sjálfum sér samkvæmir hv. stjórnarflokkar eru, þegar þeir eru að ræða um efnahagsmálin.

Hæstv. sjútvmrh. sagði í blaðagrein í febrúar eða byrjun marz í vetur, að tekjuþörf ríkissjóðs og útflutningssjóðs á þessu ári til viðbótar væri um 90 millj. kr. Nokkru síðar upplýsti málgagn Alþfl., að þetta væri eintóm vitleysa hjá hæstv. sjútvmrh., ríkissjóð og útflutningssjóð vantaði hvorki meira né minna en 200 millj. kr. til þess að geta sinnt skuldbindingum sínum, haldið fjárlögum greiðsluhallalausum og gert útflutningssjóði kleift að standa við skuldbindingar sínar gagnvart útflutningsframleiðslunni. Þann 13. maí leggur svo öll hæstv. ríkisstj, fram frv., sem felur í sér tekjuöflun, er nemur allt að 790 millj, kr.

Af þessu geta hv. þm. og allur landslýður séð, hversu sjálfum sér samkvæmir hv. stjórnarflokkar eru, þegar um er að ræða tekjuþörfina til þess að halda uppi greiðsluhallalausum ríkisbúskap og útflutningsframleiðslunni í gangi. Sjútvmrh., sem ætti að hafa góða yfirsýn um þessi mál, vegna þess að undir hann heyrir aðalgrein útflutningsframleiðslunnar, segir, að útflutningssjóð vanti aðeins 90 millj. kr. Málgagn utanrrh. og menntmrh. segir, að það vanti 200 millj. kr. Og svo flytur ríkisstj. frv. um 790 millj. kr. álögum á þessu yfirstandandi ári. Ég held, að þetta varpi ákaflega góðu ljósi yfir vinnubrögð hæstv, ríkisstj. við undirbúning þessa máls, og það er vissulega engin furða, þó að afkvæmi þessara sundruðu flokka, þessarar sundurþykku ríkisstj. yrði ekki burðugra, en það frv., sem hér liggur fyrir.