12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

5. mál, tollskrá o. fl

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af þessu vil ég aðeins segja það svona í gamni, að þegar sjálfstæðismenn hafa verið að fara fram á að fá slíkar fyrirframgreiðslur, hefur ekki verið spurt um það, hvort það væri af yfirdrætti eða greiðsluafgangi.

Varðandi það, sem hv. 1. þm. Rang. tók fram, vil ég aðeins segja þetta: Ég sagði, að ríkisstj. úthlutaði atvinnuaukningarfénu og úthlutunin væri undirbúin af embættismönnum. Þetta sagði hv. þm. að væri rangt, en þetta er rétt, og þessu getur hv. þm. vitanlega ekki mótmælt. En hann er að reyna að klóra sig út úr þessu núna, með því að segja, að ég hafi sagt, að sami háttur væri hafður á núna og áður. En hann veit, að þetta er frábrugðið að einu leyti, og það er í því, að það eru ekki að öllu leyti sömu embættismennirnir, sem undirbúa málin núna eins og þá. Ég sagði ekkert um þetta. Ég sagði, að ríkisstj. úthlutaði atvinnuaukningarfénu og úthlutunin væri undirbúin af embættismönnum, og það er rétt. Þetta læt ég nægja um það.