29.05.1958
Efri deild: 111. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvmrh. fyrir það, að hann lét uppi skoðun sína á því málefni, sem ég ber fram í brtt., sem það mál varðar. Ég skildi hæstv. ráðh. svo, að honum hefði verið við samningu frv. ljóst, að svo gæti farið með þann fisk eða þær fiskafurðir, sem eru í verkun, að verkunarkostnaðurinn gengi langt fram yfir þann tíma, sem þessi lög taka gildi, og hann bætti því við, að þetta yrði athugað nákvæmlega, þegar til kæmi, og að því stefnt að gera þá aðila, sem standa að skreiðarverkun og saltfiskverkun, þurrfiskverkun, þannig úr garði, að kjör þeirra yrðu fyllilega sambærileg við kjör annarra fiskverkenda, sjá svo um í framkvæmdinni, að þessar vörur, sagði hann, eða þessar afurðir verði ekki verr úti - eða þannig skildi ég hann — en aðrar í þessum efnum.

Að fenginni þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh. sé ég ekki ástæðu til að halda till. minni fram til streitu og mun við atkvgr. gera aðvart um, að hún verði tekin aftur, þ.e.a.s. fyrri till. á þessu þskj., sem um ræðir.

Ég var að heyra núna síðast ræðu hv. þm. N-Ísf. og þykir vænt um, að hann varð við þeim tilmælum mínum að gera grein fyrir því, hvaða tölur lægju til grundvallar þeirri upphæð, sem hann og margir aðrir hafa haldið fram að yrði hér bætt við sem álögum á þjóðina, eða 780 millj. Hæstv. ráðh. bar mjög á móti þessu í sinni fyrri ræðu, og það væri nú fróðlegt til samanburðar, ef hæstv. ráðh, tíundaði á eins skilmerkilegan hátt sitt álit á þessari upphæð eins og hv. þm. N-Ísf. hefur gert að sínu leyti.