02.06.1958
Neðri deild: 109. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

187. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta mál er stjórnarfrv. Það hefur gengið í gegnum hv. Ed., en þar var gerð á því ein breyting, sú, að sjóðfélagar í þessum tryggingum skuli hafa lokið iðgjaldagreiðslum sínum á 30 árum, en í frv. var lagt til, að þeir hefðu lokið þeirri skyldu gagnvart tryggingunni á 35 árum. Þessi breyting var gerð í n, í hv. Ed. í samráði við þann tryggingafræðing, sem hafði undirbúið málið frá þeirri tryggingafræðilegu hlið í samráði við þá mþn., sem stóð að samningu frv.

Ég vildi nú mælast til þess, að hlé yrði gefið á fundi, til þess að tóm gæfist til þess að vísa málinu til n., ef n. óskar þess að fá málið til afgreiðslu og umsagnar, eins og ég tel eðlilegt. Og væru það þá tilmæli mín til n., að hún starfaði nú að athugun málsins. En ef nm. væru hér viðstaddir og teldu ekki ástæðu til þess að taka málið til athugunar sérstaklega, þá er það einnig í samræmi við minn vilja. En eðlilegast tel ég hitt, að n. gefist kostur á að athuga málið.

Ég legg svo til, að málinu verði þá eftir atvikum vísað til hv. heilbr.- og félmn.