28.02.1958
Neðri deild: 58. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Mér heyrðist á hv. 2. þm. Eyf., að hann hefði ekkert við þær breytingar að athuga, sem í þessu frv. felast, og þannig í raun og veru heyrði ég ekki annað, en afstaða hans væri sú, að hann væri því frv. samþykkur. Hins vegar dró hann hér inn í umræðurnar hugleiðingar um húsnæðismálalöggjöfina almennt og afstöðu sjálfstæðismanna til þeirrar löggjafar í síðasta þingi. Hann taldi, að frv. staðfesti það, sem sjálfstæðismenn hefðu sagt á síðasta þingi, að málið hefði verið illa undirbúið, og skal ég víkja að því nokkrum orðum.

Ég tel einmitt, að frv. sýni hið gagnstæða. Frv. sýnir aðeins það, að við reynslu kemur í ljós, að mjög fáum og óverulegum atriðum þurfi að breyta. Þannig sýnir það sig, að þrátt fyrir það að þarna væri um mjög stórfelld og margbrotin nýmæli að ræða í þessari löggjöf, þá hefur tekizt samt að haga löggjöf í byrjun á þann veg, að í öllum meginatriðum virðist þetta ætla að samþýðast vel eðlilegri framkvæmd á löggjöfinni. Þarna er aðeins verið að taka fram ein þrjú eða fjögur atriði, sum til þess að kveða skýrar á um orðalag og önnur, sem reynslan hefur sýnt að rétt er að taka með, en ekki voru í löggjöfinni, t.d. þetta með útlendinga, sem hér hafa atvinnuleyfi, að gefa þeim kost á endurgreiðslu síns skyldusparifjár, þegar þeir fari úr landi, en láta þá lúta skyldusparnaðarreglunum, meðan þeir dveljast hér og stunda hér atvinnu, alveg eins og innlent fólk og eins og unga fólkið verður að gera án undantekningar.

Ég held einmitt, að þetta frv. sýni það og sanni, að fullyrðingar sjálfstæðismanna á síðasta þingi um, að málið hefði verið mjög illa undirbúið, séu einmitt afsannaðar með því, að það kemur í ljós, að ekki er nauðsyn á að fá í lög veigameiri breytingar, en hér er farið fram á, og er þó allt tekið með, sem reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt sé að breyta við löggjöfina. Að þessu leyti hafa því sjálfstæðismenn reynzt litlir spámenn eins og um margt annað í sinni stjórnarandstöðu.

Það er rétt, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði, að sjálfstæðismenn peðruðu úr sér óvenjulega mörgum brtt. við húsnæðismálalöggjöfina á síðasta þingi. En það verð ég að segja, að sumt af þeim breytingum var gert meira af vilja en mætti, því að í raun og veru voru þær ákaflega smávægilegar og sumar, hygg ég, þess eðlis, að sjálfstæðismönnum hafi orðið ljóst, áður en umr. lauk í fyrra, að þær voru ekki til bóta.

Svo mikið er víst, að reynslan sýnir nú, að hún kallar ekki á neina af þeim breytingum, sem sjálfstæðismenn voru hér með fyrir ári. Það eru einmitt smávægilegar breytingar um nokkur önnur atriði, sem þeim datt þá alls ekki í hug fremur en þeim, sem stóðu að frv., en engar af þeim brtt., sem sjálfstæðismenn voru með í fyrra, reynast vera þess eðlis, að framkvæmd laganna kalli á, að þær verði lögfestar.

Ég efast ekkert um það, að ef sjálfstæðismenn eru þeirrar skoðunar nú, þegar þetta mál verður athugað í n., að þeirra brtt. frá því í fyrra séu eins nauðsynlegar og þeir vildu þá vera láta, þá koma þeir þeim till. aftur á framfæri nú undir meðferð málsins. En það er spá mín, að þeir sjái, að þær voru ekki þess efnis eða eðlis, að framkvæmd málsins ylti á þeim.

Það er rétt að, að því ráði var horfið að setja fyrstu mánuðina, sem lögin giltu, frá 1. júní og fram til áramóta, reglugerð um það, að skyldusparnaðurinn skyldi innheimtur fyrir það hálfa ár að skattaleiðum, og það var gert sökum þess, að með öðrum hætti var ekki hægt að ná til þess skyldusparnaðarfjár, sem koma átti inn frá þeim degi, sem löggjöfin var sett, 1. júní s.l. Hina aðferðina, sem fyrst og fremst var gert ráð fyrir í lögunum að viðhöfð yrði um innheimtu skyldusparnaðarfjárins, sparimerkjaleiðina, þurfti að undirbúa, það þurfti að gefa póststjórninni, sem samið var við um þá framkvæmd, tóm til þess að ganga frá sparimerkjum og útgáfu sparimerkjabóka, og það þurfti að setja reglugerðir um það, og var ekki hægt að koma slíku við fyrstu tvo mánuðina a.m.k. Hins vegar vildi ég ekki taka á mig að kasta frá mér þeim milljónum króna, sem skyldusparnaðurinn átti að gefa á slíku tímabili, og þá taldi ég sjálfsagt að fara þá leiðina að gefa út reglugerð til bráðabirgða um að innheimta þetta ásamt sköttum fyrir fyrsta hálfa árið, en eins og lögn gerðu ráð fyrir sem aðalleið, skyldi sparimerkjaleiðin farin frá áramótum, og er nú sú framkvæmd farin að sýna sig og virðist ætla að gefast vel.

Það er alveg rétt, að það mátti vel búast við því, að það væri hægt að koma af stað einhverri andúð, einhverri óánægju hjá ungu fólki þegar í fyrsta skipti, sem haldið var eftir 6% af launum hins unga fólks. En ég verð að segja það, að þær tilraunir hafa tekizt vonum verr. Við urðum þess að vísu varir í félmrn., þegar þetta kom fyrst til framkvæmda, að þá var verið að lauma því út meðal fólks, að þetta væri bara skattur, sem væri tekinn af unga fólkinu, það væri síður en svo, að þarna væri um ávöxtun fjár að ræða fyrir það, það fengi enga vexti, það fengi enga vísitölutryggingu, það fengi engan forgangsrétt til íbúðarhúsnæðislána, og af þessu tilefni sá félmrn. ástæðu til að gefa út yfirlýsingar, sem ég held að öll blöð í landinu hafi birt. Ég held meira að segja, að Morgunblaðið hafi birt það. Þó þykir mér nú miður, ef ég er að ljúga dyggðum á það, en ég vænti þess, að það hafi birt það. En hitt er rétt, að engar stórfyrirsagnir voru settar á þessar upplýsingar um framkvæmd skyldusparnaðarins.

En ef ég á að skýra nánar frá því, hvaða óánægju varð vart, þá er það þetta: Ungt fólk hérna í Reykjavík kvartaði sérstaklega undan því, ef það félli undir undanþáguákvæði laganna, að það skyldi samt eiga að fá sér sparimerkjabók og fá hana stimplaða og ganga eftir endurgreiðslu síns sparifjár, ekki endilega mánaðarlega, en nokkrum sinnum á ári væntanlega. Það er alveg rétt, að ef það væri alveg tilgangslaust og ástæðulaust að vera að heimta það af öllum á aldrinum 16–26 ára að fá sér slíka sparimerkjabók, þá væri bezt að sleppa við það. En ég sé ekki, að það sé neitt stórkostlegt atriði fyrir ungt fólk að leggja það á sig að fá sér í eitt skipti fyrir öll sparimerkjabók, fá hana stimplaða og taka síðan nokkrum sinnum á ári á pósthúsi fyrirstöðulaust sína endurgreiðslu. En þetta hefur mikinn tilgang. Það hefur þann tilgang, að það sé ekki hægt að komast fram hjá sparimerkjakaupunum almennt og að það liggi örugglega fyrir hjá skattayfirvöldunum að „kontrolera“ greidd vinnulaun í landinu og 6% gjaldið af unga fólkinu öllu saman án undantekninga. Með þessu einu fæst það örugglega „kontrolerað“, að ekki sé um vanefndir að ræða á sparimerkjakaupum þess fólks, sem kaupa á sparimerki. Undanþágurnar berast húsnæðismálastjórn eftir hendinni, og þannig fæst yfirlit yfir, hverjir í fyrsta lagi eru á skyldusparnaðaraldri; og í öðru lagi „kontrol“ yfir það, hverjir eru undanþegnir. Ég get kannske skilið það, að þeir, sem eru andvígir skyldusparnaðinum og vilja, að hann fari í ólestri og handaskolum, vilji ekki, að farnar séu þær leiðir, sem gera þetta öruggt í framkvæmd og gera ómögulegt að komast fram hjá því. En allir, sem vilja láta þetta fara vel úr hendi og þetta gangi réttlátlega yfir alla, sem ekki eru af skýrum rökum undanþegnir, þeir eiga ekki að biðja unga fólkið undan því smávægilega erfiði að útvega sér í eitt skipti fyrir öll sparimerkjabók og fara nokkrum sinnum á ári á pósthús til þess að taka sína endurgreiðslu.

Hvað hefur líka gerzt? Undireins og búið var að skýra frá því, að þetta væri gert til þess að tryggja nákvæmt og öruggt eftirlit með framkvæmd málsins, og unga fólkinu gert ljóst, hversu erfiðislitið og fyrirhafnarlaust þetta væri, þá hefur þessi óánægja algerlega hjaðnað og segir ekki til sín meir. Ég verð að segja, að óánægjan með þetta nýmæli virðist ætla að verða eins lítil og maður frekast gat búizt við, og þeir menn, sem hafa haldið, að það væri hægt að þyrla upp óánægju yfir því, að þarna væri verið að setja skatt á unga fólkið, hafa sannarlega orðið fyrir vonbrigðum.

Unga fólkinu er ljóst, að á Íslandi hefur aldrei verið verðlaunað með sama hætti og í þessu tilfelli að spara fé. Það hafa aldrei verið boðnir hæstu vextir, vísitölutrygging, forgangsréttur að lánum og hærri lán, en aðrir eigi kost á vegna þess sparnaðar, sem unga fólkið framkvæmir, fyrr en nú. Og þetta veit unga fólkið, og það er orðið alkunnugt, að þetta er eitt af vinsælustu málum, sem hafa verið framkvæmd með löggjöf síðustu ára.

Það var í tilefni af því, að okkur var ljóst í félmrn., að unga fólkið hafði að sumu leyti fengið rangar upplýsingar, að sumu leyti ekki nógu ýtarlegar upplýsingar um framkvæmd þessa nýmælis, að birtar voru í blöðum og útvarpi grg. um framkvæmd málsins. Ég held, að það sé rétt í tilefni af því, að hv. alþm. einhverjir eru til, sem halda, að þetta mál sæti mikilli andúð og gagnrýni og óánægju, og byggja það greinilega á því, að þeir hafa ekki kynnt sér málið nógu rækilega, að ég rifji hér upp, einnig fyrir þingheimi, þau atriði, sem við, eftir að hafa fylgzt með þeim óánægjuröddum, sem borizt hafa, höfum talið sérstaka ástæðu til þess að upplýsa í sambandi við framkvæmd þessa merka nýmælis. En atriðin viðvíkjandi þessu eru sem hér segir:

Í fyrsta lagi að benda á, að fé það, sem skylt er að spara, er undanþegið tekjuskatti og útsvari. Í öðru lagi: Umrætt sparifé er vísitölutryggt.

Ef verðlag hækkar og vísitala hækkar, meðan sparnaður þessi varir, fær unga fólkið, þegar það er leyst frá skyldusparnaði, uppbót í samræmi við hækkun vísitölunnar.

Í þriðja lagi: Sparifé þetta ber vexti eins og þau verðbréf, sem eru vísitölutryggð.

Í fjórða lagi: Þeir, sem safnað hafa a.m.k. 25 þús. kr. á þennan hátt, öðlast forgangsrétt til lána til íbúðabygginga.

Í fimmta lagi: Íbúðalán til þeirra, sem sparað hafa, mega vera allt að 25% hærri en almennt gerist, þó ekki yfir 2/3 af matsverði viðkomandi íbúðar.

Í sjötta lagi: Undanþegið skyldusparnaði er gift fólk, sem stofnað hefur heimili, skólafólk, sem stundar nám í skóla 6 mánuði eða meira á ári, og iðnnemar, meðan þeir stunda iðnnám. Enn fremur eru þeir undanþegnir skyldusparnaði, sem hafa börn eða aðra skylduómaga á framfæri sínu, þó ekki þeir, sem hafa yfir 30 þús. kr. skattskyldar tekjur, enda hafi þeir þá ekki fyrir heimill að sjá.

Loks er undirskattanefndum heimilt að veita tímabundna undanþágu frá sparnaðarskyldu þeim, sem verða fyrir veikindum eða slysum eða hafa sérstaklega þungar fjárhagsbyrðar.

Þeim, sem undanþegnir eru, skal bent á ákvæði 3. mgr. 11. gr. laga nr. 42 frá 1957, en þar segir svo:

„Þó að maður kunni að eiga rétt á undanþágu frá sparnaðarskyldu, verður hann að láta hið tilskilda sparifé af hendi, þar til hann hefur fengið formlega undanþágu, en þá á hann rétt til endurgreiðslu, svo fljótt sem við verður komið.“

Allir, sem á skyldusparnaðaraldri eru, verða því að fá sparimerkjabók. Hún er afhent ókeypis hlutaðeigandi manni á pósthúsi. Sá, sem telur sig eiga rétt á undanþágu, þarf að sanna undanþágurétt sinn hjá lögreglustjóra eða hjá hreppstjóra. Að því loknu ritar lögreglustjóri eða hreppstjóri á þar til gert eyðublað í sparimerkjabókinni vottorð sitt um undanþáguna, og þegar það vottorð er fengið, þarf ekkert annað en ganga á pósthús til þess að fá endurgreiðsluna. Þegar undanþeginn maður fær greidd laun sín, þar af í sparimerkjum 6%, límir hann sparimerkin á þar til gert blað í sparimerkjabókinni. Merki þessi fær hann endurgreidd á pósthúsi gegn framvísun bókarinnar og afhendingu blaðsins með merkjunum. Þess skal geta, að ekki er nauðsynlegt, að hann fari sjálfur með bókina. Getur hann því falið öðrum að sækja endurgreiðsluna. Sá, sem ekki er undanþeginn sparnaðarskyldu, þarf líka að afhenda pósthúsi sparimerkjabók sína öðru hverju, svo að póstmaður geti tekið úr henni blað eða blöð með álímdum merkjum, en umrætt sparifé ber vexti frá þeim degi, að umrædd sparimerkjablöð eru afhent pósthúsi. Rétt er hverjum manni að koma einu sinni á mánuði í pósthús til þess að fá endurgreidd sparimerki eða afhenda sparimerki vegna vaxtagreiðslu.

Þetta eru upplýsingarnar, sem við eftir að hafa hlustað á þær óánægjuraddir, sem okkur var ljóst að sumpart voru sprottnar af misskilningi, töldum ástæðu til að gefa út og teljum enn ástæðu til þess að endurnýja og munum óska eftir, að blöðin í Reykjavík vilji vera svo væn að birta fyrir húsnæðismálastofnunina í þjónustu góðs málefnis núna á næstu dögum einmitt í sambandi við þessi mánaðamót, og vona ég þá, að ekkert þeirra skorist undan því, því að það er vissulega þjónusta fyrir gott málefni, sem þau þá eiga kost á að inna af hendi.

Það er hægt að segja það, að það er í raun og veru alveg ofsagt hjá hv. 2. þm. Eyf., að margvíslegir annmarkar hafi komið fram. Þeir eru furðu fáir, og óánægjan, sem hefur orðið um þetta, er ekki um önnur atriði en þau, sem hér hafa verið upplýst, og virtist hjaðna strax eftir fyrstu mánaðamótin, að framkvæmd málsins hófst.

Það er alveg rétt, að þegar þetta kerfi fór af stað með sparimerkin, þá kostaði það að gefa út sparimerkjablöð og sparimerkjabækur, og nokkur fyrirhöfn fylgir þessu hjá atvinnurekendum sérstaklega. Fyrirhöfnin hjá unga fólkinu að taka sína endurgreiðslu, ég geri ekki mikið úr henni, það verð ég að segja. En ég geri miklu meira úr þeirri fyrirhöfn, sem atvinnurekendur hafa, og þeirri ábyrgð, sem á þá fellur við framkvæmd málsins, og var alveg skylt gagnvart þeim að haga málinu þannig í framkvæmd, að „kontrolið“ verði sem auðveldast og að þeir lægju ekki undir neinum grun um að fara ekki réttilega með þetta fé á hverjum tíma, og það er ekki gert sízt vegna þess. En með þessu móti er auðvelt að fylgjast með því, hvernig málið er í framkvæmd og hvort vanhöld eru á, að atvinnurekendur inni sína skyldu af hendi og unga fólkið sömuleiðis, og er hægt að „kontrolera“ þetta hvort tveggja.

Ég verð því að segja það, að ég get vel tekið á móti gagnrýni í sambandi við framkvæmd svona vandasams og margbrotins nýmælis eins og hér er um að ræða. En hingað til hefur það ekki sýnt sig, að málið hafi verið illa undirbúið, heldur þvert á móti virðist undirbúningur sá, sem fór fram, þegar verið var að undirbúa löggjöfina, hafa dugað furðuvel. Það var aldrei við því að búast, að ekki þyrfti úr neinu að bæta í sambandi við setningu slíkrar löggjafar, þegar reynslan hefði talað.

Mér er meira að segja kunnugt um allmörg dæmi þess, að ungt fólk, sem er á skyldusparnaðaraldri, en á tvímælalausan rétt til undanþágu samkvæmt lögunum, hefur sagt: Ja, við gerum okkur það ljóst, að við eigum rétt á undanþágu, en við viljum bara ekki nota hann. Við viljum heldur mynda okkar sjóð.

Eitt atriði hefur það verið, sem fólk hefur verið í vafa um. Það er það unga fólk, sem er að byggja og var þannig komið af stað með að leysa sitt húsnæðisvandamál, þegar löggjöfin var sett, hvort það eigi undanþágurétt. Það stendur ekkert um það berum orðum í lögunum, en það stendur, að ef ungt fólk á skyldusparnaðaraldri á við óvenjulega fjárhagsörðugleika að stríða, þá megi einnig veita því undanþágu. Nokkur dæmi hafa borizt okkur þannig í félmrn., og við höfum sagt: Vitanlega á hver einasti maður, sem er að byggja í þessu landi, svo framarlega sem hann er ekki stóreigna- eða hátekjumaður, í miklum, sérstökum fjárhagsörðugleikum í sambandi við sína byggingu, og við teljum, að þetta eigi að veita ungu fólki undanþágu, enda er það þar með að framkvæma þann sparnað, sem tilætlunin er að ná fram með lögunum, og er að leysa úr því mikla vandamáli, sem sjóðmyndunin fyrirhugaða með sparnaðinum átti að auðvelda.

Þá vil ég enn fremur segja það, að það eru allar leiðir og dyr opnar til frjáls sparnaðar. En ég tók eftir því, að hv. 2. þm. Eyf. sagði, að það væri miklu betra að fá fólk til frjáls sparnaðar heldur en með lagaskyldu. Í þessari húsnæðismálalöggjöf er sérstakur kafli um frjálsan sparnað, og það líður ekki á löngu, áður en þeim sparnaðarleiðum verði fundið ákveðið form, annaðhvort með samningum við banka og sparisjóði eða með öðrum hætti, og þá á fólk, hvort sem það er á þessum aldri eða ekki, einnig kost á frjálsum sparnaði til þess að leysa einmitt úr húsnæðismálavanda sínum.

Mig minnir, að hv. sjálfstæðismenn hafi flutt á þessu þingi frv. til breytinga á húsnæðismálalöggjöfinni. Er það ekki rétt? Þætti mér miklu eðlilegra, að þeir kæmu sínum hugmyndum um breytingaþörf á löggjöfinni almennt á framfæri í sambandi við það, og ættu þeir í raun og veru að hafa tekið allt það, sem máli skiptir, með í sitt eigið frv., þætti því að því er snertir meðferð málsins frekar óeðlilegt, ef þeir færu að koma þeim breytingum sínum á framfæri í sambandi við þetta. Hins vegar tæki ég því með góðu, að þeir gerðu breytingar við þetta frv. að öllu því leyti, sem það er málefnalega skylt þeim breytingum, sem í þessu frv. felast, og vil óska þess, að hv. n. taki til greina allar góðar og skynsamlegar till., sem hníga í þá átt að ganga betur frá þessum lagaákvæðum eða gera lagaákvæði um framkvæmd þessara vandasömu mála skýrari.

Ég held, að ég hafi þá með því, sem ég nú hef sagt, gert grein fyrir þeirri gagnrýni, sem við í félmrn. höfum orðið varir við í sambandi við framkvæmd þessara mála, og við höfum ekki fundið, að það væri þörf annarra breytinga á löggjöfinni, að fenginni þessari stuttu reynslu, heldur en við höfum hér borið fram í þessu frv., og hygg ég, að það verði ekki sagt með réttu, að þær breytingar séu stórfelldar. Vitanlega getur komið fyrir, að við aukna reynslu af framkvæmdinni þurfi einhverju þarna að breyta, og mundi þá verða leitað til Alþingis þegar í stað, ef það bæri að höndum, um aðrar breytingar.