28.02.1958
Neðri deild: 58. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það var nú dálítið eftirtektarvert að bera saman ræðu hv. 2. þm. Skagf. og þá fullyrðingu hæstv. félmrh., að eftir að hann eða rn. hans hefði gefið einhverja yfirlýsingu í blöðum, þá hefðu allar óánægjuraddir út af framkvæmd skyldusparnaðarins þagnað, því að hv. 2. þm. Skagf. upplýsti einmitt um atriði, sem hlýtur að snerta æði margt ungt fólk í sveitum landsins, þar sem ríkjandi væri mjög mikil óánægja út af framkvæmd skyldusparnaðarins.

Hæstv. ráðh. hélt því fram í ræðu sinni hér áðan, að allar aðfinnslur að skyldusparnaðinum og framkvæmd hans byggðust á löngun til þess að gera þetta mál tortryggilegt og ófrægja það og það hlytu að vera andstæðingar málsins, sem leyfðu sér að impra á slíkum aths. Ég er þessari skoðun hæstv. ráðh. algerlega andvígur. Það er eins og máltækið segir: Sá er vinur, er til vamms segir. Það má vissulega eins rökstyðja það, að ef bent er með rökum á annmarka máls, þá sé það ekki síður til þess að greiða fyrir málinu, en að beinlínis sé verið að ófrægja það. Og það, sem ég áðan sagði í minni ræðu varðandi skyldusparnaðinn og framkvæmd hans, held ég að ekki hafi verið af neinum hægt að skilja sem andúð gegn þeirri hugmynd, að ungt fólk ætti að spara. Það var aðeins mismunandi viðhorf til þess, hvernig að því máli ætti að fara og hvernig skynsamlega væri að málinu unnið. Og ég held, að það sé alveg augljóst mál, að það sé mjög óskynsamlegt að haga framkvæmd málsins á þann veg, að það skapi megna andúð hjá ungu fólki.

Fyrsta skilyrðið sé að reyna að framkvæma málið þannig, að það njóti skilnings, verði vinsælt mál, eins og hæstv. ráðh. gat um í sinni ræðu, og þess vegna séu strax í byrjun athugaðir allir annmarkar, sem á því eru, og einmitt reynt eftir föngum að lagfæra þá. Ég held því, að hæstv. ráðh. vinni þessari skyldusparnaðarhugmynd ekkert gagn með því að berja höfðinu við steininn og slá því einu fram, að það sýni fjandskap við málið, ef með rökum er bent á annmarka, sem á framkvæmdum þess séu.

Hæstv. ráðh. vildi reyna að halda því hér fram, að gagnrýnin á skyldusparnaðinum, sem hefði valdið því, að yfirlýsing félmrn. var gefin út, hefði verið einhver rógur af hálfu sjálfstæðismanna. Ég satt að segja man nú ekki betur, en það hafi verið skrifuð löng grein af ráðuneytisstjóra félmrn. til þess að svara gagnrýni í Tímanum, þar sem var vikið að göllum á framkvæmd þessa máls, og m.a. því atriðinu, sem ég benti á hér áðan, hversu óheppilegt væri að leggja fyrirhöfn á það fólk, sem er undanþegið skyldusparnaðinum, eins og nú er gert. Ekki var það neinn rógur sjálfstæðismanna, sem þar kom fram, enda þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh. að reyna að bjarga sér undan gagnrýni á málinu með því að slá fram fullyrðingum eins og þessu gersamlega út í loftið. Og það er nú því miður svo, þó að kannske allir leggi ekki leið sína til hæstv. félmrh., að þá er mjög mikil óánægja hjá ungu fólki út af framkvæmd þessa máls. Það er mér vel kunnugt um. Og það stafar ekki af rógi eins né neins, heldur því, hversu óskynsamlega hefur verið á þessu máli haldið. Það sér hver heilvita maður, að það er ekki skynsamleg byrjun á þessu máli t.d. að fara að afhenda ungu fólki reikning eftir árið, þar sem það er krafið um 6% af launum sínum sex mánuði aftur í tímann. Ég held, að hver og einn geti litið í eigin barm um það, að engum mundi þykja það skynsamleg leið og ekki taka því sérlega vel, ef þeir ættu hlut að máli. Sannleikurinn er sá, að á öllu þessu máli hefur verið haldið mjög klaufalega. Og það er að sjálfsögðu engin afsökun í málinu, að það hafi ekki verið hægt að byrja innheimtu þessa skyldusparnaðar fyrr á s.l. ári, því að lögin voru sett það snemma, að ef málið hefði verið undirbúið af einhverri forsjálni, þá hefði að sjálfsögðu verið búið að sjá fyrir meginatriðunum varðandi möguleika á innheimtu. Það kemur síðan á daginn, eftir að búið er að bollaleggja um þetta mál mánuðum saman, eftir að lögin eru samþykkt, þá er rn. gersamlega í vandræðum með það, hvernig eigi að framkvæma skyldusparnaðinn. Hvað þýðir að vera að leiða í lög atriði, ef þeir, sem að því standa, hafa ekki minnstu hugmynd um, hvernig þeir ætla að framkvæma málið? Ég held, að það, sem betur fer, heyri til algerra undantekninga um framkvæmd löggjafar, að það þurfi að setja tvær reglugerðir svo að segja samtímis um mismunandi framkvæmd á viðkomandi lögum.

Það var því á þennan hátt mjög óskynsamlega af stað farið með þennan skyldusparnað og beinlínis lagður grundvöllur að því, að það kæmi fram rík óánægja hjá hinu unga fólki, sem á að leggja þennan sparnað á. Ég verð nú satt að segja að leyfa mér að halda því fram, að það komi ekki fram sérlega ríkur skilningur hjá hæstv. ráðh. á hagsmunum þessa unga fólks, þegar hann telur, að það séu mjög smávægileg óþægindi, sem það valdi fyrir það fólk, sem er undanþegið skyldusparnaðinum, að greiða þennan sparnað og svo öðru hverju að fara og sækja endurgreiðslurnar. Það er nú því fyrst þar til að svara, að ég hygg nú sannast sagna, að fjöldinn af því unga fólki, sem hefur þegar stofnað til heimilis, hafi ekki mikla aðstöðu til þess að leggja til hliðar 6% af sínum launum til þess að lána það í jafnvel nokkra mánuði. Löggjafinn sjálfur hefur viðurkennt, að það væri ekki hægt að leggja skyldusparnað á þetta fólk, en engu að síður eru af þeim tekin þeirra laun að þessu leyti til og það svo látið hafa fyrir því, eftir því sem það hefur tíma til, að sækja svo þessa peninga aftur.

Mér finnst, að hæstv. ráðh. geri of lítið úr þeim erfiðleikum, sem þetta kunni að valda, og það kann vel að vera, að það séu einhverjir erfiðleikar á eftirliti með framkvæmd skyldusparnaðarins, ef þessi leið er ekki valin, en mér er nú samt nær að halda, að það séu nokkur óþægindi á sig takandi í því sambandi að reyna að finna úrræði til þess, að svona fráleita framkvæmd þurfi ekki að viðhafa.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að af því að hér væri ekki um að ræða nema tiltölulega fáar breytingar á lögunum um húsnæðismálastofnun, sem sett voru á síðasta þingi, þá sanni það ótvírætt, hversu vel þau lög hafi verið úr garði gerð. Vitanlega er þetta engin sönnun í því sambandi. í fyrsta lagi var það nú svo, að ég man ekki betur, en það hafi verið samþykktar um 30 brtt. við frv. ráðherrans, eins og það var lagt fram. Og þó að ekki séu bornar fram hér nema nokkrar brtt., þá er það engum efa bundið, að það er þörf á að breyta mörgum öðrum atriðum laganna, og a.m.k. er framkvæmdin varðandi ýmsa þætti þessara mála, t.d. úthlutun lána og annað þess konar, sem að vísu er reglugerðaratriði, en henni hefur verið hagað á þann veg eftir fyrirmælum frá hæstv. félmrh., að það væri fyllilega ástæða til fyrir Alþingi að grípa inn í það mál og setja bein lagaákvæði, til þess að ráðh. gæti ekki viðhaft þær aðferðir, sem hann hefur haft á því sviði. Ég skal ekki nánar út í þá sálma fara hér, en það gefst tækifæri til þess að ræða það nánar síðar.

Hæstv. ráðh. heldur því fram, að það sé nú komið í ljós, að ekki hafi verið þörf þeirra brtt., sem sjálfstæðismenn báru fram á síðasta þingi og hafa nú að nokkru leyti endurflutt aftur á þessu þingi í sérstöku frv., og sérstaklega a.m.k. óskaði hann eftir því, að þeim till. yrði ekki blandað inn í þetta frv. Ég vil að sjálfsögðu engu lofa um, að það verði ekki gert, því að sannleikur málsins er sá, sem hv. þingmenn vita, að það frv. hefur ekki fengizt afgreitt úr n., og verður vafalaust sú aðferð viðhöfð að svæfa það þar, til þess að ekki þurfi að lenda í óþægindum við að ræða það mál nánar hér í þinginu, og það kann því vel svo að fara, að eina úrræðið fyrir sjálfstæðismenn til að koma því máli eitthvað áleiðis og fá a.m.k. þingmenn til að taka afstöðu til þeirra till. verði að flytja brtt. við þetta frv. Á þessu stigi málsins get ég að sjálfsögðu ekkert um það sagt.

Ég vil svo að lokum taka fram, að það er að sjálfsögðu algerlega rangur skilningur hjá hæstv. ráðh, að líta svo á, að ég hafi fyrir fram lýst samþykki við það frv., sem hér kemur fram, af því að ég hafi ekki í ræðu minni áðan sérstaklega gert aths. við einstaka liði þess. Það er ekki talið eðlilegt, að slíkar einstakar aths. komi fram við 1. umr. málsins, heldur að það sé almennt rætt þá, og hef ég að sjálfsögðu á engan hátt bundið mig um það, hvaða afstöðu ég tek til þessara brtt., hvort ég greiði þeim atkv. eða ekki.

Ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir, að við sjálfstæðismenn höfum í þessu máli sem flestum öðrum gerzt töluvert meiri spámenn en hæstv. félmrh. vill vera láta og að reynslan sé að leiða það glöggt í ljós, að aðvaranir þær, sem við bárum fram, hafi haft við full rök að styðjast, bæði varðandi framkvæmd skyldusparnaðarins og ýmis önnur atriði. Og það væri þess vegna full ástæða til þess, að hæstv. ríkisstj. breytti því nokkuð um stefnu. Ef hún vill skynsamleg vinnubrögð á hafa og hlustaði meira á þær athugasemdir og aðvaranir, sem við sjálfstæðismenn berum fram í einstökum málum, þá kannske gæti hún forðazt það að þurfa æ ofan í æ að flytja frumvörp til þess að lagfæra vitleysur, sem hafa verið t hennar eigin frumvörpum, sem hún hefur beitt sér fyrir.