20.03.1958
Neðri deild: 69. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Frsm. meiri hl. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. Nd. tók til umr. á fundi sínum frv. til l. um breyt. á l. nr. 42 1. júní 1957, um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins, sparnað til íbúðabygginga, breyt. á I. kafla l. nr. 36 1952 o.fl. Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og nál. meiri hlutans á þskj. 317 ber með sér, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur athugað frv. og rætt það á fundi. Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Undirritaðir nefndarmenn mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Ragnhildur Helgadóttir taldi sig ósamþykka frumvarpinu í nokkrum atriðum og mun skila séráliti. Einn nefndarmanna, Kjartan J. Jóhannsson, var fjarstaddur, er málið var afgr. í nefndinni.

Alþingi, 17. marz 1958.

Steingrímur Steinþórsson, form. Gunnar Jóhannsson, fundaskr. Benedikt Gröndal.“

Minni hl. n., þau Ragnhildur Helgadóttir og Kjartan J. Jóhannsson, hafa skilað séráliti á þskj. 319 og flytja við frv. allmargar brtt. Í nál. minni hl. er því haldið fram, að meiri hl. n., fulltrúar stjórnarflokkanna, hafi hliðrað sér hjá því að taka til umr, og afgreiðslu frv. þeirra sjálfstæðismanna á þskj. 113, sem þeir fluttu í vetur. Heilbr.- og félmn. hefur ekki rætt frv. þeirra sjálfstæðismanna sérstaklega, enda fáir fundir verið haldnir í n. Má í því sambandi m.a. benda á, að það eru fleiri mál en frv. þeirra sjálfstæðismanna, sem hafa ekki verið afgr. frá n, enn sem komið er.

Í frv. sjálfstæðismanna er m.a. lagt til, að felld séu niður úr núgildandi lögum ákvæðin um skyldusparnað. Meiri hl. heilbr.- og félmn. er því algerlega mótfallinn og telur skyldusparnað ungs fólks vera eitt af veigameiri atriðum laganna frá 1. júní 1957. Það var því þegar vitað, að engin samstaða gat fengizt um frv. innan n., og miklar líkur voru til þess, að meiri hl. hefði tjáð sig mótfallinn því, að það næði fram að ganga í því formi, sem það var lagt fram. Nokkur fleiri atriði eru í þessu frv., sem orka mjög tvímælis, og eru um sum skiptar skoðanir.

Ég mun ekki frekar ræða um frv. þetta eða nál. minni hl. Í því eru upp tekin öll helztu ákvæði frv. á þskj. 113. Má því telja, að með því hljóti frv. þeirra viðhlítandi afgreiðslu.

Frv. á þskj. 271 er flutt af hæstv. félmrh. hér í hv. d. Við 1. umr. þessa máls flutti hæstv. félmrh. alllanga og skilmerkilega ræðu, þar sem hann skýrði frv. og benti á, í hverju væru fólgnar breytingarnar frá núgildandi lögum.

Í aths., sem fylgja frv., segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ákveðið hefur verið að innheimta skyldusparnað með sölu sparimerkja frá 1. jan. 1958. Lög nr. 42 frá 1957, um húsnæðismálastofnun o.fl., hafa hvorki að geyma ákvæði um viðurlög við vanrækslu sparimerkjakaupa skv. III. kafla laganna né heldur um það, hver skuli bera kostnað af framkvæmd á ákvæðum téðs kafla um sparnað til húsbygginga.

Nauðsynlegt er að koma á ströngu eftirliti með framkvæmd skyldusparnaðar, ella má búast við, að hann verði vanræktur að meira eða minna leyti og nái því ekki tilgangi sínum. Til þess að framkvæma slíkt eftirlit er óhjákvæmilegt að heimila allströng viðurlög, ef út af er brugðið ákvæðum laga og reglugerða hér að lútandi.

Þar eð byggingarsjóður ríkisins og veðdeild Landsbankans verða að svara út öllu því fé, sem safnast með skyldusparnaði, að viðbættri verðlagsvísitölu og fullum vöxtum, verður ekkert fé fyrir hendi hjá byggingarsjóðnum eða veðdeildinni fyrir greiðslu þess kostnaðar, sem framkvæmd skyldusparnaðarins hefur í för með sér. Er því lagt til, að sá kostnaður greiðist úr ríkissjóði. Hliðstæð regla þessu gildir um framkvæmd orlofslaga. Stofnkostnaður, prentun og útgáfa sparimerkjabóka, sparimerkja o.fl. í því sambandi mun nema 170 þús. kr.“

Um 1. gr. segir svo:

„Sú ein breyting felst í greininni, að vextir af umræddum bankavaxtabréfum skuli ekki vera vísitölubundnir, svo sem nú er fyrir mælt í 4. gr., 2. málsgr. Þar eð ómögulegt er að framkvæma vísitölubundna vaxtagreiðslu af slíkum bréfum, virðist óhjákvæmilegt að breyta ákvæðum þessum eins og hér er lagt til.“

Um 2. gr. frv. segir m.a.: „Sú ein breyting er á 10. gr., 1. málsgr., að á eftir fyrstu setningu er bætt nýrri setningu, sem kveður skýrar á um skyldusparnaðartímabilið. Skoðanir voru skiptar um það, hvort greinin, eins og hún hljóðar í lögunum, legði fyrir um skyldusparnaðinn í 9 eða 10 ár. Ætlunin mun hafa verið, að skyldusparnaðartímabilið væri 10 ár. Með þessari breytingu er tekinn af allur vafi um þetta atriði.“

Um 3. gr. segir:

„Nauðsyn þykir að undanþiggja útlendinga skyldusparnaði, þó aðeins á þann hátt, að þeir fái endurgreiddan skyldusparnað sinn, ef þeir hverfa af landi brott.“

Um 4. gr. segir:

„Grein þessi hefur að geyma heimild til að beita viðurlögum vegna vanrækslu sparimerkjakaupa og heimild til þess að skylda þá, sem háðir eru skyldusparnaði, til þess að gera grein fyrir sparimerkjaeign sinni, að viðlögðu 200 kr. gjaldi. Hvort tveggja er nauðsynlegt, svo að við verði komið fullnægjandi eftirliti með framkvæmd skyldusparnaðarins.

Loks er ákvæði um, að ríkissjóður greiði allan kostnað af framkvæmd skyldusparnaðarins.“ Ég sé nú ekki ástæðu til þess að flytja hér langa framsöguræðu. Eins og ég tók fram í upphafi máls míns, var þetta mál mjög mikið rætt, þegar það var lagt fram af hæstv. félmrh. við 1. umr., og þá kom fram allt það helzta, sem þessi lög hafa inni að halda, og inn í þessar umr. spunnust enn fremur fleiri atriði í núgildandi lögum. Ég get því látið útrætt um frv. að svo stöddu, en legg til, að því verði vísað til 3. umr. að lokinni þessari umr.