24.03.1958
Neðri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það var nú ýmislegt, sem fram kom í ræðu hæstv. félmrh., þegar við síðast ræddum þetta mál, sem ég tel þörf á að leiðrétt yrði, en ég hef aðeins tíma til aths. og verð því að leiða það að mestu leyti hjá mér.

En það, sem ég vildi leyfa mér að gera stutta aths. um, er þetta, að hæstv. félmrh, staðhæfir enn, að ríkisstj. hafi efnt sín fyrirheit, eins og það er kallað, um lánveitingar til íbúðabygginga á árinu 1957, og vitnar í því sambandi til skýrslu sinnar í ríkisútvarpinu rétt fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í janúar s.l.

Við þetta hef ég tvennt að athuga: Í fyrsta lagi, að ríkisstj, lofaði við afgreiðslu húsnæðismálalöggjafarinnar á Alþ. í maí 1957, að hún mundi útvega 44 millj. kr. til íbúðalána, það sem eftir væri þá af árinu. Til viðbótar lofaði ríkisstj. fulltrúum verkalýðsfélaganna í október 40 millj. kr. til íbúðalána, og þetta voru loforð um 84 millj. kr. nýtt lánsfé, eins og ég hef áður tekið fram. Efndirnar eru þessar: Húsnæðismálastjórnin úthlutaði tvisvar á árinu 1957 eftir gildistöku nýju laganna samtals 20 millj. kr., 10 millj. í hvort skipti, í júlímánuði og nóvembermánuði. Þess skal þó getið, að 12 millj. var einnig úthlutað í júlí, en það var til að uppfylla áður gefið lánsloforð og þessu því óviðkomandi.

Þá er það skýrslugerð hæstv. félmrh. í ríkisútvarpinu í jan. s.l. um, að stjórnin hefði útvegað 52 millj. til íbúðalána. Þessi lánsútvegun, ef hún á að kallast því nafni, snertir vitaskuld ekki efndir á lánsloforðum vegna ársins 1957, því að ekkert af þessu fé kemur til útlána, fyrr en á árinu 1958. Samt sem áður er fróðlegt að gera sér grein fyrir, hvers konar lánsútvegun þetta er, en hún sundurgreinist í þrennt: Í fyrsta lagi fyrirheit seðlabankans á gamlársdag um, að hann mundi útvega frá bönkum og sparisjóðum 22 millj. kr. Í öðru lagi bráðabirgðalán seðlabankans sjálfs, 25 millj. kr., og í þriðja lagi vaxtatekjur byggingarsjóðs, um 5 millj. kr. En þetta eru samtals 52 millj. kr. En vissulega eru ekki vaxtatekjurnar nein ný lánsútvegun, sem eru þó 5 millj. af þessu, og 25 millj. kr. frá seðlabankanum eru ekki heldur ný lánsútvegun, því að húsnæðismálastjórn varð — eins og ég benti á –að veðsetja bankanum væntanlegar tekjur byggingarsjóðs ríkisins af skyldusparnaði og stóreignaskatti, og endurgreiðist lánið, um leið og þessar tekjur falla til á árinu. Þetta tvennt — eða 30 millj. kr. af þessum 52 millj. kr. — er auðvitað engin útvegun nýs lánsfjár og allra sízt til efnda á fyrirheitum um lánsfé á árinu 1957.

Þá vil ég til viðbótar þessu leyfa mér að gera stutta aths. vegna svigurmæla hæstv. félmrh. um það, að erfitt hafi reynzt — eins og hann orðaði það — að toga út úr mér — víst sem bankastjóra — og öðrum bönkum lánsfé til íbúðabygginga. Um þetta vil ég aðeins segja þetta: Hinn 20. júní 1957 voru bankastjórar og sparisjóðsstjórar kvaddir á fund framkvæmdastjórnar seðlabankans og óskað fyrir hönd ríkisstj., að þessir aðilar tryggðu ákveðið lánsfé til íbúðabygginga á árinu í tilteknum hlutföllum. Þann 24. júní, eða 4 dögum síðar, var þessari málaleitun svarað játandi af hálfu Útvegsbankans, þar sem ég á hlut að máli, og innan bankastjórnarinnar enginn ágreiningur um það mál. Síðan var ekki við bankann rætt frekar, fyrr en í desember, en þá hafði ríkisstj. loks aftur farið á stúfana með bréfi til seðlabankans þann 21. nóv., og það er eftirtektarvert í þessu sambandi, að það er fyrst 21. nóv., sem hæstv. ríkisstj. skrifar seðlabankanum að nýju á árinu 1957 með beiðni um að útvega meira lánsfé til íbúðabygginga, en það var í lok október, sem hún hét fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar eða verkalýðsstéttarinnar 40 millj. kr. nýju láni til íbúðabygginga og hefur þá samkv. þessu engin samráð haft við neina banka, áður en slíkt fyrirheit var gefið, ekki einu sinni seðlabankann, sem hefði þó staðið næst.

En hinni síðari beiðni um lán frá Útvegsbankanum, sem barst honum í desembermánuði, var hann búinn að svara fyrir sitt leyti fyrir áramót, að vísu með skilyrðum, en efnislega jákvætt, eins og raun hefur á orðið.

Hitt er svo annað mál, að mér hafa ofboðið vinnubrögð og háttalag hæstv. ríkisstj. í þessum vandasömu málum og alveg sérstaklega blekkingarnar og loforðagyllingarnar. Um það ritaði ég grein í Morgunblaðið þann 23. jan. s.l., eftir að félmrh. hafði flutt skýrslu sína í útvarpinu um efndir á loforðum ríkisstj. varðandi íbúðalánin, og þeirri grein lauk með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Að lokum endurtek ég aðvörun mína, að því miður horfir ískyggilega um lánsfjáröflun til íbúðabygginga. Það, sem veldur mestu þar um, er, að sparifjármyndun í landinu er því miður ekki eins mikil og skyldi. Viðskiptabankarnir geta ekki með sama lagi og verið hefur haldið áfram að festa fé sitt í 25 ára íbúðalánum nema með því að draga tilsvarandi úr lánveitingum til atvinnuveganna, en af því mundi enn verra hljótast. Þetta er mjög alvarlegt mál og áhyggjuefni hið mesta, þegar höfð er í huga hin brýna þörf fyrir aukið lánsfé. En engum er gerður greiði með því að gylla hlutina umfram það, sem efni standa til, hvað þá að gefa almenningi aftur og aftur tálvonir með loforðum og fyrirheitum, sem reynast haldlausar blekkingar.“