24.03.1958
Neðri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mér datt í hug að koma hér hæstv. félmrh, nokkuð til liðsinnis, þar sem hann hefur ekki getað svarað fsp., sem beint var til hans um það, hve mikið af tekjum byggingarsjóðs ríkisins á þessu yfirstandandi ári, 1958, hafi þegar verið veðsett, því að það vill svo vel til, að ég hef einmitt upplýsingar um það eftir skýrslu, sem hæstv. félmrh. gaf sjálfur í ríkisútvarpinu í jan. s.l. Hann upplýsti þá, að seðlabankinn hefði lánað 10 millj kr. eða lofað 10 millj. kr. 3. des. og 15 millj. kr. þann 17. jan., eða 25 millj. kr. samtals. En þessum 25 millj. kr. var lofað með því skilyrði, að tekjur byggingarsjóðsins yrðu veðsettar og þetta lán yrði endurgreitt, jafnóðum og tekjurnar féllu til, annars vegar af skyldusparnaði og hins vegar af stóreignaskattinum. Þetta hélt ég nú að hæstv. félmrh. gæti munað, ef hann hefði viljað.

Þá er aðeins eitt atriði, sem ég skal að lokum víkja að, og það er það, að hæstv. félmrh, segir, að í gegnum veðlánakerfið, A- og B-lán, hafi verið veittar 34 millj. kr. í tíð fyrrv. ríkisstj., en núna hafi á s.l. ári, 1957, verið veittar 65 millj. kr. Hér skýtur ákaflega skökku við, og er alls ekki sambærilegt það, sem ráðh. vill bera saman, vegna þess að hann tekur annars vegar lánveitingarnar í A- og B-lánunum í tíð fyrrv. ríkisstj., en lánveitingarnar á árinu 1957 núna og það, sem verið er að úthluta eða lofa úthlutun á á árinu 1958. En mér er kunnugt um það og bað um upplýsingar um það hjá veðdeild Landsbankans í janúarmánuði s.l., að þá voru innan við 30 millj. kr. lánin, sem veitt höfðu verið frá veðdeildinni, A- og B-lánin í veðlánakerfinu, innan við 30 millj. kr., svo að jafnvel þótt þetta eitt sé borið saman, þá er þó minna veitt af slíkum lánum í tíð núverandi ríkisstj. en í tíð fyrrv. ríkisstj., sem hæstv. ráðh. vill þó gera nokkuð mikið úr, enda sést þetta á þeim tölum, sem hæstv. ráðh. sagði, — hann sagði 65 millj. kr., en gat þess líka, að þar í væri sú úthlutun, sem byrjað hefði fyrir áramót og haldið enn áfram. En í þessum 65 millj. kr. eru einmitt 25 millj. kr., sem eru veðsettar af væntanlegum tekjum byggingarsjóðs. Einnig eru þarna 5 millj. kr. vaxtatekjur einmitt, sem falla til af því fé, sem fyrrv. ríkisstj. var þegar búin að útvega, en það eru 30 millj. kr. Og ef þessar 30 millj. eru dregnar frá þessum 65 millj. kr., sem hæstv. ráðh. talaði um, þá verða þó ekki eftir barna nema um 35 millj. kr. En eftir þeim upplýsingum, sem ég hafði í janúarmánuði, þá munu lánveitingarnar í veðdeildinni í A- og B-lánum árið 1957 vera innan við 30 milljónir króna. En þetta er að sjálfsögðu allt saman hægt að upplýsa nánar og staðfesta síðar meir.