27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi gera athugasemd við það, að hæstv. ráðh. telur, að ég hafi stungið einhverjum upplýsingum undir stól, vegna þess að það standi í þessari skýrslu frá húsnæðismálastjórn, eins og hann las: „Þess skal getið, að skilin milli áranna 1957 og 1958 eru ekki glögg, því að segja má, að sama úthlutunin hafi staðið yfir frá því í nóvember og þangað til í marz.“ Segjum, að það séu ekki glögg skilin 1957 og 1958, af því að úthlutun hafi staðið yfir. En getur ekki staðið svona yfir við önnur áramót, að úthlutun hafi farið fram um áramót og eftir áramót? Það, sem sker úr í þessu sambandi, er það, að hér liggur fyrir sundurliðun fyrir árið 1957, alveg glögg sundurliðun, sem hæstv. ráðh. hafði fyrir framan sig. Samkvæmt sundurliðun húsnæðismálastjórnar þá er úthlutunin fyrir 1957 23 millj. 140 þús., og samkvæmt skýrslunni er svo úthlutunin frá áramótum til 14/3 22 millj. 262 þús. Það liggur alveg skýrt fyrir frá húsnæðismálastjórninni sjálfri sundurliðun fyrir árin 1957 og 1958, og skiptir í þessu sambandi engu það, sem sagt er síðar um þessar tölur, að skilin séu óglögg á milli 1957 og 1958, vegna þess að mennirnir hafi setið að við úthlutunina fyrir áramót og eftir áramót. Til þess að bíta höfuðið af skömminni kemur ráðh. og segir: Og það eru meira að segja enn of lágar tölurnar hjá mér fyrir árið 1957, vegna þess að það stendur líka í þessari skýrslu, að það er gert ráð fyrir því, að tryggingafélögin muni lána einhverja upphæð og Sparisjóður Reykjavíkur muni lána einhverja upphæð. — Kemur það þá á skýrslugerð 1957, sem nú er gert ráð fyrir að þessir aðilar kunni að veita af lánum? Auðvitað kemur það í lánsúthlutuninni og lánveitingunum og afgreiðslu lánanna 1958.

Það þýðir ekki að halda áfram að berja svona stöðugt höfðinu við steininn. Hæstv. ráðh. er staðinn að því að hafa sagt hér í ræðustólnum, að hann hefði ekki grg, um árið 1957, þegar hann hefur sundurliðaða mjög nákvæma grg. fyrir árið 1957, svo nákvæma, að ný lán árið 1957 eru talin 777, A-lán 17 millj. 505 þús., B-lán 10 millj. 651 þús., eða alls 28 millj. 156 þús. Viðbótarlán eru talin 479, í A-lánum 4 millj. 967 þús., í B-lánum 7 millj. 473 þús., eða 12 millj. 440 þús., og önnur lán 1957 1 millj. 535 þús. í A-lánum og í B-lánum 1 millj. og 43 þús., eða samtals 2 millj. 578 þús. Samtals er þetta í A-lánum 24 millj. og 7 þús., B-lánum 19 millj. 167 þús. — og samtals 43 millj. 174 þús. Svo er meira að segja viðbótarsundurliðun á þessu, og það er, hvað hafi farið mikið af þessum lánum til Reykjavikur, ný lán og viðbótarlán og önnur lán, mjög greinargóð sundurliðun, ekkert öðruvísi fyrir árið 1957, en fyrir árið 1956 og fyrir árið 1955.