27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það bregzt aldrei, að þegar einhver af flokksmönnum hv. 1. þm. Reykv. verður sér til minnkunar í þingsölunum, þá finnur þessi góði forustumaður þingflokks sjálfstæðismanna hvöt hjá sér til þess að koma honum til hjálpar. Þetta er sjálfsagt hans skylda, enda lét hann nú ekki á sér standa að koma hv. 5. þm. Reykv. til hjálpar, enda var þess engin vanþörf, og það fann hann, og ég er honum alveg sammála um það.

Meðverkandi ástæður til þess, að hann kom nú í ræðustólinn, voru þær, að það var minnzt á lánastofnun hér í bæ, Sparisjóð Reykjavikur og nágrennis, sem gerir hvort tveggja að kaupa húseignir af mönnum hér í bænum og að lána út á húseignir í bænum. Það er bezt að víkja þá nokkrum orðum að þessari lánastofnun.

Seðlabankinn hafði tekið það að sér að leitast eftir því við banka og sparisjóði og tryggingafélög að leggja ákveðinn hundraðshluta af aukningu sparifjár í hverri stofnun til lánastarfsemi í húsnæðismálum, og vitanlega leitaði seðlabankinn, þegar samningar voru hafnir við hann eins og undanfarin ár um þessa fjárútvegun, einnig til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis mun hafa gert grein fyrir því, að hann hafi frá fyrstu byrjun starfað mjög að því að veita lán til húsnæðismála og teldi það hafa truflandi áhrif á sína starfsemi, ef hann yrði að láta þennan ákveðna hundraðshluta, sem seðlabankinn fór fram á, af hendi við húsnæðismálastofnunina til lánveitinga á hennar vegum. Um þetta ræddi seðlabankastjórinn við mig, oftar en einu sinni og fór fram á, að þessi sparisjóður og Sparisjóður Keflavíkur fengju að vera utan við húsnæðismálalánakerfið gegn því, að þeir veittu húsnæðismálalán með þeim hætti, sem þeir hefðu áður gert, þó þannig, að lánin féllu undir reglur húsnæðismálastjórnar að öllu leyti og gætu fengið staðfestingu af húsnæðismálastjórn. Því var þá trúað af mér, að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis mundi haga lánveitingum á árinu 1957 eftir þessum reglum og að lánin yrðu, jafnóðum og þau yrðu afgreidd til lánveitenda, send til húsnæðismálastjórnar til staðfestingar, svo að hún gæti gengið úr skugga um, hvort þau væru veitt í samræmi við reglur hennar og gætu hlotið staðfestingu hennar.

Nú upplýsir hv. 1. þm. Reykv., að engin lán til húsnæðismála hafi farið fram á vegum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á árinu 1957, maður vonist til þess, að það geti eitthvað orðið á árinu 1958. Mér finnst ástæða til þess að grennslast nánar eftir því hjá seðlabankastjóranum, hvort þetta sé svona, og mín undanþága til handa Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis var ekki veitt upp á það, að engin lánastarfsemi færi þar fram og að þeir yrðu samt leystir undan því að láta sömu prósentutölu af aukningu sparifjárins hjá þessari stofnun eins og aðrar stofnanir áttu að beygja sig undir, en þessi lánastofnun gat veitt til sama manns nokkra tugi lána á árinu á undan og gaf skýrslu um það eftir dúk og disk.

Svo segir þessi hv. þm., 1. þm. Reykv., að ég hafi staðið að því, að lögfest yrði fjáröflun gegnum skyldusparnað ungmenna, af því að ég hafi verið hræddur um samdrátt á sparifjáraukningunni. Þetta er alger heilaspuni hjá þessum skjaldsveini hv. 5. þm. Reykv. Skýrslur sýna, að sparifjáraukningin er meiri á árinu 1957, en á árinu á undan, og það var alls ekki gert út frá því, heldur út frá hinu, að það var viðurkennd þörf á auknu fjármagni til þess að leysa þann húsnæðisvanda, sem hafði skapazt í tíð fyrrv. ríkisstj. Þess vegna var einmitt lögfestur skyldusparnaðurinn. Þess vegna voru lögfest ákvæði um frjálsan sparnað. Þess vegna var lögfest að afla fjár til húsnæðismála með 1% aukaálagi á tolltekjur ríkisins. Og þess vegna var ákveðið að leggja á stóreignaskatt, sem að 2/3 hlutum skyldi fara til húsnæðismála, sem og eðlilegt var, að hluti af þeim gróða, sem hafði myndazt hér í fasteignum í Rvík, skyldi fara frá þeim einstaklingum, sem höfðu safnað honum, og til þeirra, sem stóðu í húsnæðisnauðum. Þetta er það, sem hv. sjálfstæðismenn telja ákaflega rangláta tilfærslu á fjármagni og standast ekki reiðari út af neinu öðru en því, að þetta skyldi vera gert. En þetta álit ég að sé réttmæt ráðstöfun og hafi varla verið hægt að hugsa sér eðlilegra hlutverk fyrir þennan samansafnaða gróða fasteignaeigenda í Reykjavík, þeirra sem höfðu eignazt meira en 1 millj. kr. skuldlausa eign, að sá gróði væri tekinn og honum varið til styrktar húsnæðisleysingjunum í Rvík.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða miklu meira um þetta. Ég get vel unað því, þó að upp spretti annar skjaldsveinn til styrktar hv. 5. þm. Reykv. og þó að fleiri yrðu. Það sýnir eingöngu það, að þeim finnst full ástæða til að reka styrktarstoðir undir og kannske báðum megin við hv. þm.