27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er þó gott að sjá, að það er einn maður enn í landinu, sem er ánægður með hæstv. félmrh., og það er hann sjálfur, en ég hygg, að það finnist ekki margir fleiri.

Hæstv. félmrh. talar af furðulegri vanþekkingu um þetta mál. Hann segir, að Sparisjóður Reykjavíkur hafi ekkert lán veitt til húsnæðismála á árinu 1957.

Ég hygg, að meginþorri, svo að ekki sé sagt hvert og eitt einasta, en yfirgnæfandi meiri hluti lána, sem Sparisjóður Reykjavíkur veitti á árinu 1957, hafi verið til húsbygginga hér í Reykjavík. Þetta liggur ljóst fyrir, og hæstv. félmrh, ætti að vera manna auðveldast að fá það staðfest, þar sem annar endurskoðandi þessarar stofnunar er annar hinna kunnu höfunda gulu bókarinnar, form. húsnæðismálastofnunarinnar, sérstakur trúnaðarmaður hæstv. félmrh„ og endurskoðun reikninga er nú nýlokið. Ég veit, að hæstv. félmrh. getur hjá þessum sínum sérstaka trúnaðarmanni fengið upplýsingar um það, til hverra lán þessarar stofnunar hafa gengið.

Hitt er annað mál, að Sparisjóður Reykjavíkur er ekki með þeim ósköpum fæddur, ef svo má segja, eins og hæstv. félmrh. að veita tvisvar sinnum sama hlutinn. Hæstv. félmrh. upplýsti það hér í umr. á dögunum, að hann hefði unnið það sér til frægðar á síðasta ári að lofa tvisvar sinnum sömu fjárhæðinni til húsnæðisframkvæmda og telja sér loforðin í bæði skiptin jafnmikið til ágætis. Hann hefur sem sagt þá aðferð að lofa fyrst, svíkja síðan og telja sig svo mikinn mann af því að lofa aftur því, sem hann var búinn að svíkja. Sparisjóður Reykjavíkur hefur ekki þetta sama eðli. Þegar hann er búinn að veita lán, þá verður hann að standa við það, og seðlabankinn féllst ekki á það meginskilyrði, sem Sparisjóður Reykjavikur setti fyrir því að taka þátt í þeim lánum, sem seðlabankinn var að safna fé til, fyrr en svo seint á árinu, að nær allri lánaúthlutun sparisjóðsins var þá lokið. Og ég vil ítreka það, að enn í dag er samkomulagið ekki komið á, vegna þess að seðlabankinn hefur ekki fallizt á öll þau skilyrði, sem sparisjóðurinn taldi sér skylt að setja, sumpart vegna beinna lagaákvæða, sumpart vegna skynsamlegrar ráðstöfunar á því fé, sem sparisjóðnum hefur verið trúað fyrir.

Við höfum ekki getað beðið eftir ákvörðun seðlabankans um þessi atriði, heldur urðum við að lána það fé, sem við höfum til ráðstöfunar á árinu 1957, eftir því sem samvizka okkar sagði til, að því bæri að ráðstafa, og að langsamlega mestu leyti fór það til lána til nýbygginga hér í bænum.

Á okkur stendur hins vegar ekki. Jafnskjótt og við höfum fé til á árinu 1958 og seðlabankinn er búinn að fallast á þau skilyrði, sem við höfum sett og öll eru skynsamleg og raunar óhjákvæmileg, þá mun ekki standa á okkur að veita þessa umtöluðu fjárhæð til þessara lána. En þau verða, eins og ég tók fram áðan, óhjákvæmilega af því fé, sem sjóðurinn hefur yfir að ráða á árinu 1958 og annars hefði farið til annarra húsalána hér í bænum.

Ég hygg, að þetta komi í raun og veru í einn stað niður að langsamlega mestu leyti fyrir sjóðinn og hans skjólstæðinga. Það eina, sem gerist, er það, að næst þegar skýrsla verður gefin, ef hæstv. félmrh. verður þá enn þá í sinni stöðu, þá getur hann haft þá fjöður í sínum hatti, að á vegum þessarar húsnæðismálastofnunar hafi þessu fé verið úthlutað, og hann hefur ekki af svo miklu sér að hæla, sá hæstv. ráðh., að ég sjái ofsjónum yfir því, þó að hann geti puntað sig með þeirri skrautfjöður.

Aðalatriðið er að verða málefninu að því gagni, sem hægt er, og styðja að því, að byggingarmálin og lánin til þeirra komist í sæmilegt horf, og það hefur sparisjóðurinn reynt að gera.

Svo fór hæstv. félmrh. að segja, að sparifjársöfnunin hefði 1957 orðið meiri en 1956. Við vitum hér á Alþingi, hvernig hæstv. stjórnarliðar finna út sparifjársöfnun. Þeir leggja þar við hlaupareikninga, sem eru gersamlega annars eðlis og miklu ótryggara fé en það, sem lagt er á sparisjóð. Með því móti reyndu þeir í umræðum á s.l. ári nokkuð að rétta við sinn hlut. Sennilega eru reikningar hæstv. félmrh. nú enn byggðir á sömu forsendum. Ég skal þó sleppa því að sinni, en vitna til þess, að nú talar hann um, að sparifjársöfnunin 1957 hafi orðið meiri, en á árinu 1956. En hún varð svo lítil á árinu 1956 sem skýrslur herma vegna þess mikla samdráttar, sem varð, eftir að hæstv. félmrh, og félagar hans tóku við völdum. Þá gerbreyttist sú þróun, sem verið hafði undanfarin ár. Það skal svo játað, að á þessu hefur orðið nokkur breyting á árinu 1957. T.d. hef ég þá sögu að segja varðandi Sparisjóð Reykjavíkur, að hvort sem það er þrátt fyrir eða vegna sérstakra rógmæla, sem hæstv. félmrh. lét sér hér sæma að víkja að sjóðnum í ræðu sinni áðan, þá hefur sparifjáraukning Sparisjóðs Reykjavíkur aldrei orðið meiri, en á árinu 1957. En það er vegna þess, að menn hafa frekar kosið að láta féð liggja hjá þeirri stofnun, sem sætti andúð og rógi frá félögum þessa hæstv. ráðh., heldur en hjá þeim stofnunum, sem hæstv. ráðh. hafði verið að setja sína trúnaðarmenn inn í. Eins er það, að það hefur aukizt sparifé hjá einstökum stofnunum, og það er mjög ánægjulegt. En því miður er engan veginn komið það jafnvægi og sá eðlilegi vöxtur í sparifjáraukninguna, sem allir hljóta að óska eftir, sem í raun og veru vilja, að hér þróist heilbrigt þjóðfélag. Við skulum vona, að það verði sem fyrst. En hæstv. félmrh. hefur hvorki nú né fyrr stuðlað að því með sínum aðgerðum. Annars er þess að minnast, að honum hefur þó um sumt farið fram. Nú talar hann hér af mikilli ánægju og fullvissu um samband möguleika fjárútvegunar til húsbygginga og aukningar sparifjár í landinu. En ég minnist þess, að þegar hann fyrst fór að tala um þetta, nýorðinn ráðh., á þinginu 1956 og 1957, þá spurði hann alveg með sama sjálfsþótta og hann talar nú: Hvað kemur sparifjáraukningin í landinu við möguleikanum til þess að afla fjár til húsbygginga? — Þá hafði hann ekki einu sinni þekkingu á þessu frumatriði þess viðfangsefnis, sem hann hafði tekið að sér að leysa.