27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég get verið mjög stuttorður, en það er eitt atriði, sem mér fannst ástæða til að gera athugasemd við, og það eru ummæli hæstv. félmrh. um sparnaðinn í landinu. Ég hef áður gert það og vil enn endurtaka það, að ég aðvara alvarlega hæstv. félmrh, og samstarfsmenn hans í hæstv. ríkisstj. að lifa í þeirri sjálfsblekkingu að telja sparifjármyndunina í landinu saman standa annars vegar af spariinnlögunum og hins vegar af veltiinnlánunum. Það kann ekki góðri lukku að stýra að hugsa sér að byggja möguleikana til langra lána, eins og hér er um að ræða, 25 ára íbúðalána, á þeim innlögum, sem eru aðeins hlaupareiknings eða veltiinnlán. Og ég vil alveg sérstaklega taka það fram, hversu augljóslega þetta getur villt menn, að í bönkum landsins hafa veltiinnlánin t.d. aukizt stundum um milljónir kr., milljónatugi kr. rétt fyrir áramótin, og ætti það þá að teljast til sparifjármyndunar, vegna þess að t.d. í Búnaðarbankanum hefur verið lagt inn til bráðabirgða á hlaupareikning kannske milli 20 og 30 millj. kr., sem síðar á að veita sem lán til Ræktunarsjóðs af erlendum lántökum, og á sama hátt hefur verið lagt inn til bráðabirgða á hlaupareikning í Útvegsbankanum 10 eða 12 millj. kr. á hlaupareikning Fiskveiðasjóðs, sem síðar á svo að veita Fiskveiðasjóði sem lán af erlendri lántöku. Hljóta þó allir að sjá, að ekki geta lánveitingar til íbúðarhúsa í landinu grundvallazt á slíkri sparifjármyndun. Þetta er engin sparifjármyndun, þetta eru innlög á hlaupareikning, á veltiinnlán og allt annars eðlis, en sparifjármyndunin.

Fjölmargt annað kemur til greina í þessu sambandi, sem ég skal ekki eyða tímanum í að ræða nú. En ég vil aðeins vekja athygli á því, að hæstv. félmrh. hefur hvað eftir annað talað um, að bönkum og sparisjóðum hafi verið gert það af seðlabankanum að leggja tiltekinn hluta af sparifjáraukningunni í landinu í íbúðalán. Við hvað hefur þá verið miðað? Hefur þá nokkurn tíma verið miðað við veltiinnlánin? Nei, auðvitað ekki, auðvitað aldrei við veltiinnlánin. Mönnum er það ljóst, bankamönnum og sparisjóðsmönnum, að það er ekki hægt að byggja lánveitingar til langs tíma til íbúðalána eða annars á veltiinnlánum, heldur að einhverju leyti, miklu eða litlu, á spariinnlánunum sjálfum, og það hefur ævinlega verið miðað við tiltekinn hluta af þeim og reiknað með þeim, burt séð frá veltiinnlánunum, þegar reiknað hefur verið út hlutfallið á milli lánastofnananna, banka og sparisjóða annars vegar, um það, hve mikið þeir skyldu leggja til íbúðalána.