21.04.1958
Efri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Frsm. meiri hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Stjfrv. það, sem fyrir liggur til 2. umr., er komið frá hv. Nd., þar sem það var samþykkt með einni viðbót.

Þetta er frv. til l. um breyt. á l. nr. 42 1957, um húsnæðismálastofnun o.fl. Breytingarnar eru hvorki margar né veigamiklar, og skal ég gera grein fyrir þeim stuttlega.

Í 4. gr. l. er heimild handa Landsbankanum til að gefa út bankavaxtabréf í tveim flokkum, A og B. Skal B-flokkur vera með vísitölukjörum, þannig að greiðslur afborgana og vaxta séu bundnar við vísitölu framfærslukostnaðar. Í frv. er lagt til, að orðin „og vaxta“ falli burt, þannig að einungis greiðslur afborgana verði vísitölubundnar. Er litið svo á, að vísitölubundnar vaxtagreiðslur séu litt eða ekki framkvæmanlegar.

10. gr. l. ræðir um skyldusparnað fólks á aldrinum 16 til 25 ára. Í frv. eru þessi tímatakmörk nánar tilgreind með svofelldri mgr.: „Skyldusparnaður hefst við næstu mánaðamót, eftir að hlutaðeigandi verður 16 ára, og lýkur við næstu mánaðamót, eftir að hann verður 26 ára.“ Um annað, en þessa viðbót er þar ekki að ræða.

Við 11. gr. laganna er lagt til, að bætt verði við nýrri mgr., þess efnis, að útlendingar, sem hafi hér landvistar- og atvinnuleyfi um tiltekinn tíma og dveljist hér um stundarsakir, fái skyldusparifé sitt endurgreitt, er þeir hverfi af landi brott. Enn fremur er í frv. nýtt ákvæði um, að unglingar í sveitum, sem vinna hjá foreldrum sínum eða fósturforeldrum og leggja árlega 25% af kaupi sínu að frádregnu fæði í bústofnsaukningu, séu undanþegnir skyldusparnaði. Var þessu ákvæði komið inn í frv. í hv. Nd.

Inn í 12. gr. laganna eru ráðgerð heimildarákvæði um, að leggja megi sérstakt gjald á þá, sem vanrækja sparimerkjakaup, og að hverjum þeim, sem háður er sparnaðarskyldu, beri að gera skattyfirvaldi grein fyrir sparimerkjaeign sinni að viðlögðu 200 kr. gjaldi, en þessi gjöld skulu renna til byggingarsjóðs ríkisins og Búnaðarbankans.

Þá eru ákvæði um, að kostnaður við sparimerki og framkvæmd skyldusparnaðar í heild skuli greiðast úr ríkissjóði.

Loks er í 5. gr. frv. lagt til, að bætt verði í lögin nýrri grein um sektir við brotum á lögunum, en slíkt vantar í þau nú.

Þessar eru þá breytingarnar, sem felast í frv. á þskj. 337.

Hv. heilbr.- og félmn. ræddi frv. á tveim fundum og gat ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu þess. Ágreiningur varð þó ekki um breytingarnar, sem frv. ráðgerir, heldur um það, hvort gera bæri að þessu sinni fleiri breytingar á lögunum um húsnæðismálastofnun o.fl.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 408, leggur meiri hluti n. til, að frv. verði samþykkt óbreytt. Minni hl. mun gera grein fyrir sínu séráliti hér á eftir.