21.04.1958
Efri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Frsm. minni hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi setti núv. ríkisstj. lög um húsnæðismál o.fl., sem í aðalatriðum byggðust á þá gildandi lögum um sama efni, lögum, sem fyrrverandi stjórn hafði sett, en hin nýju lög fólu þó í sér ýmis nýmæli, sem að áliti okkar sjálfstæðismanna orkuðu mjög tvímælis. Voru af hálfu sjálfstæðismanna gerðar ýtarlegar tilraunir til breytinga á lögunum undir meðferð málsins, en fáum einum tókst að koma fram.

Vegna þeirrar reynslu, sem nú þegar er fengin af þessum lögum og framkvæmd þeirra, töldu sjálfstæðismenn nauðsyn til bera að gera nokkrar breytingar á löggjöfinni, sem færu í sömu átt og þeir höfðu áður hugsað sér við meðferð málsins í fyrstu. Þeir báru því fram á öndverðu þessu þingi frv. í Nd., sem fól í sér ýmsar breytingar á lögunum.

Frv. þessu var á sínum tíma vísað til heilbr.og félmn., en hefur enga afgreiðslu fengið þar. En síðar bar stjórnin fram frv. það, sem nú er hér til umræðu og er um nokkrar breytingar á húsnæðismálalöggjöfinni, eins og hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur nú skýrt frá.

Þegar þetta frv. kom fram til meðferðar í heilbr.- og félmn. Nd., þá mælti meiri hl. n, með því, að það yrði samþykkt óbreytt, en sjálfstæðismenn í n. tóku upp þær till., sem frv. sjálfstæðismanna, sem fyrir n. lá, hafði inni að halda, og fluttu þau ákvæði sem brtt. við stjórnarfrv. Þessar brtt. minni hl. heilbr.- og félmn., sjálfstæðismannanna, náðu ekki fram að ganga, og var frv. síðan samþ. í Nd. næstum óbreytt, aðeins með einni lítils háttar breytingu.

Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d, hefur haft málið til athugunar, en nm. ekki orðið á eitt sáttir um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt, en við, sem minni hl. skipum, leggjum til, að það verði samþykkt með nokkrum breytingum. Við mælum sem sagt ekki á móti frv. sjálfu, en óskum eftir að koma viðtækari breytingum að við lögin.

Brtt. okkar, sem eru á þskj. 420, eru næstum þær sömu sem sjálfstæðismenn fluttu í Nd., og vil ég nú fara um þær nokkrum orðum.

Í 1. brtt. okkar er svo ákveðið, að á undan 1. gr. frv. komi tvær nýjar greinar, svo hljóðandi:

„1. gr. laganna orðist svo: Húsnæðismálastjórn ríkisins skal beita sér fyrir umbótum í byggingarmálum, hafa á hendi stjórn byggingarsjóðs ríkisins og yfirumsjón lánsfjáröflunar og lánveitinga til íbúðabygginga í landinu.

Í húsnæðismálastjórn eiga sæti 5 menn, 4 kosnir hlutbundinni kosningu af sameinuðu Alþingi eftir hverjar alþingiskosningar og einn skipaður af félmrh. samkv. tilnefningu Landsbanka Íslands, seðlabankans. Varamenn skulu vera jafnmargir og valdir á sama hátt. Félmrh. skipar form. húsnæðismálastjórnar, en að öðru leyti skiptir hún með sér verkum.

Húsnæðismálastjórn ræður sér starfsfólk eftir þörfum, og greiðist allur kostnaður af störfum hennar úr byggingarsjóði ríkisins.“

Í þessari brtt. leggjum við til, að orðalagið, að setja skuli á stofn húsnæðismálastjórn ríkisins, sé fellt niður, enda virðist það orðalag tilefnislaust.

Þá er lagt til, að fellt verði niður það ákvæði laganna, sem felst í þessari grein, að fulltrúi Landsbankans í húsnæðismálastjórn skuli ekki hafa atkvæðisrétt þar um lánveitingar, en í 1. gr. l. segir svo um þennan mann, sem tilnefndur er af Landsbankanum og skipaður af félmrh.: „Hann skal eigi hafa atkvæðisrétt um lánveitingar.“ Þetta ákvæði leggjum við til að verði fellt niður, enda virðist það vera nokkuð einkennilegt ákvæði og ekki séð, hvað það hefur að þýða.

Að öðru leyti er meginefni gr. óbreytt. Þó er gert ráð fyrir því, að í stað þess, að í lögunum segir: „Þóknun húsnæðismálastjórnar og laun framkvæmdastjórans greiðist úr ríkissjóði, en annar kostnaður stofnunarinnar úr byggingarsjóði ríkisins,“ þá leggjum við til, að allur kostnaður af störfum n. greiðist úr byggingarsjóði ríkisins.

Þá er b-liður, þar segir: „Í stað orðsins „húsnæðismálastofnun“ í 1. mgr. 2. gr. komi: húsnæðismálastjórn. — Þetta er aðeins leiðrétting.

Þá er 2. líður brtt., sem segir, að í stað 2., 3. og 4. mgr. 2. gr. komi: „Setja skal á stofn tækniráð húsnæðismálastjórnar, er sé skipað fulltrúum frá eftirtöldum aðilum: húsnæðismálastjórn, iðnaðardeild atvinnudeildar háskólans, húsameistara ríkisins, teiknistofu landbúnaðarins, Landssambandi iðnaðarmanna, Félagi ísl. iðnrekenda, byggingarvörudeild Sambands ísl. samvinnufélaga og Félagi ísl. byggingarefnakaupmanna.“

Þarna eru þrjár mgr., sem lagt er til að falli niður úr 2. gr. — 1. mgr., sem lagt er til að felld verði niður, kveður svo á, að húsnæðismálastjórn sé heimilt að láta undirbúa byggingu íbúðarhúsahverfa í kaupstöðum með því að láta gera skipulagsuppdrætti af þeim í samráði við skipulagsnefnd ríkisins. Þegar slíkir skipulagsuppdrættir hafa verið samþykktir af skipulagsnefnd og félmrh., er viðkomandi bæjarfélagi skylt að heimila byggingarnar og láta af hendi eða útvega landssvæði fyrir þær, ef með þarf með eignarnámi, og fer um eignarnám samkv. lögum nr. 61 frá 1917. Sömuleiðis er viðkomandi bæjarfélagi skylt að leggja nauðsynlega vegi og leiðslur í slík hverfi innan hæfilegs tíma að mati húsnæðismálastjórnar og félmrh.

Þetta leggjum við til að verði alveg fellt niður úr lögunum, Eins og þarna segir, þá er húsnæðismálastjórn heimilt að undirbúa byggingu íbúðarhúsahverfa í kaupstöðum með því að láta gera skipulagsuppdrætti að þeim o.s.frv., undirbúa þetta allt saman, og síðan, þegar skipulagsuppdráttur hefur verið gerður og samþykktur af húsnæðismálastjórn og skipulagsnefnd, þá er viðkomandi bæjarfélagi skylt að láta framkvæma þetta, útvega land undir byggingahverfi, þó að það sé í eign annarra aðila, en bæjarfélagsins sjálfs, og þá með eignarnámi, ef þarf. M.ö.o.: allt vald í þessum málum þessu viðvíkjandi er tekið úr höndum viðkomandi bæjarstjórna og fengið í hendur húsnæðismálastjórnar. Sjá allir, í hvert óefni hér væri stefnt, ef þessum ákvæðum væri framfylgt.

Húsnæðismálastjórn getur sem sagt, hvenær sem henni sýnist, ákveðið byggingar í kaupstöðum, staðsett þær og skipulagt án þess að tala við viðkomandi bæjarstjórn um þessa hluti. Bæjarstjórnanna er bara að greiða oft láta framkvæma það, sem húsnæðismálastjórn fyrirskipar á þessu sviði. Það er augljóst, að þetta ákvæði í lögunum getur verið stórhættulegt, ef því er harkalega beitt, eins og húsnæðismálastjórn hefur fullt vald til að gera samkv. þessari mgr.

Eins og lögin eru nú, er húsnæðismálastofnun ríkisins heimilt að leita samvinnu við hvern þann aðila, sem hefur sérþekkingu á þessum málum, þ.e. húsbyggingarmálum, og er opinberum aðilum skylt að veita stofnuninni hverjar þær upplýsingar, sem hún óskar. Heimilt er félmrh, að skipa n. sérfróðra manna húsnæðismálastjórn til aðstoðar og ráðuneytis um tæknileg mál, og ákveður ráðherrann þóknun til nefndarmanna.

Í staðinn fyrir þessa liði leggjum við til að komi sérstakt tækniráð, tilnefnt af þeim aðilum, sem ég nefndi hér áðan.

Þá kem ég að 2. brtt. okkar, en hún er um það, að í stað stafliðar G í 1. mgr. og 2., 3. og 4. mgr. 6. gr. laganna komi einn stafliður (G), svo hljóðandi:

„Húsnæðismálastjórn skal setja almennar reglur um veitingu lána, Í samræmi við þær reglur skulu útbúin umsóknareyðublöð um lán, einföld, skýr og hentug til afnota fyrir almenning.“

Í staflið G, sem við leggjum til að felldur sé niður, segir:

„Félmrh. skal að fengnum till. húsnæðismálastjórnar setja með reglugerð nánari ákvæði um veitingu lána, er húsnæðismálastjórn hefur með höndum. Um lánveitingar til einstaklinga skal þar m.a. setja ákvæði, sem tryggi, að farið sé eftir ástæðum umsækjenda, húsnæði, fjölskyldustærð, efnahag, lántökumöguleikum o.fl., enn fremur um hámarksstærð íbúða, sem veita má lán til.“

Það er þessi liður, sem við leggjum til að verði felldur niður.

Eins og þessi G-liður ber með sér, þá er ýmislegt, sem lántakendur eða þeir, sem sækja um lán, verða að svara, áður en þeir geta fengið lán. Ég hef hér eyðublað fyrir umsókn um A- og B-lán. Þetta eyðublað hefur inni að halda ótalmargar spurningar, sem hver, sem um lán sækir, verður að svara.

Það er heilmikill lestur að fara í gegnum þetta eyðublað. Spurningarnar eru svo margar og margvíslegar, að það er heilmikill lærdómur, ef ætti að svara þeim öllum, eins og gert er ráð fyrir á eyðublaðinu og eins og hver, sem um þessi lán sækir, verður að gera, þar sem hann verður, eftir að vera búinn að fylla þetta blað út, að votta það að viðlögðum drengskap, að allar upplýsingar, sem þarna eru gefnar, séu réttar, „enda er mér ljóst,“ segir í þessari yfirlýsingu, sem viðkomandi maður verður að skrifa undir, „að vísvitandi rangar upplýsingar ógilda umsóknina um eitt ár“. En við að lesa þetta umsóknareyðublað hlýtur öllum, sem það gera, að vera ljóst, að þeim spurningum, sem þarna er varpað fram, er ógerningur að svara nákvæmlega eða að öllu leyti rétt. Þetta er svo mikið og flókið, sem hver maður verður að segja, enda hefur farið svo, að einstaklingar, sem hafa sótt um lán, hafa gefizt upp á að útfylla þessi eyðublöð. Mér er persónulega kunnugt um það af þeim stað, þar sem ég er kunnugastur, að menn gáfust alveg upp á að útfylla þetta og urðu að fá sérstaka hjálp, ef þeir áttu að geta gert það, og þessi eyðublöð eru gefin út, þegar búið er að veita lán í eitt eða tvö ár eftir öðrum einfaldari umsóknareyðublöðum, sem ekki varð séð annað, en húsnæðismálastjórn hefði fullt gagn af, þegar þau komu fram.

Meðal annars, sem viðkomandi umsækjandi þarf að upplýsa í þessu, er að gera kostnaðaryfirlit eða kostnaðaráætlun, eins og það heitir hér, um byggingu húss, sem hann ætlar að fara að sækja um lán til. Þessi áætlun er sundurliðuð í 14 liði með 52 undirliðum, og maður, sem ætlar að fara að byggja og er ekki byggingarfróður, verður aldeilis að halda á spöðunum, ef hann á að fá þessu öllu saman svarað, því að ég sé ekki annað, en hann verði að leita til allra sérmenntaðra manna í byggingariðnaðinum, t.d. trésmiða, múrara, pípulagningarmanna, rafvirkja, þeirra sem dúkleggja, rörlagningarmanna o.s.frv., til þess að fá að vita, hvað hver einstakur liður í húsinu kostar, því að ef þetta er ekki allt saman útfyllt, þá er ekki að sjá annað á eyðublaðinu, en að það geti kostað manninn, að hann sé útilokaður frá að fá lán í eitt ár, ef upplýsingarnar eru ekki réttar. En svo verður manni á að spyrja: Hvaða gagn hefur húsnæðismálastjórn af því að fá þúsundir umsókna þannig útfylltar? Vinnur hún úr þessu, og það, sem hún getur unnið úr því, að hvaða gagni kemur það? Ef þetta kemur ekki að neinu gagni, þá er til lítils að gera mönnum svona alveg sérstök óþægindi með þessari margföldu skýrslugjöf, sem hér er um að ræða. En það er trúlegt, að í skjóli þessa G-liðar hafi þessi mikla skriffinnska skapazt, og leggjum við því til, að hann sé felldur niður og að í staðinn fyrir hann komi bara einfaldlega: „Húsnæðismálastjórn skal setja almennar reglur um veitingu lána. Í samræmi við þær reglur skulu útbúin umsóknareyðublöð um lán, einföld, skýr og hentug til afnota fyrir almenning.“

Við stefnum sem sagt að því með þessari till. að koma í veg fyrir óhóflega skriffinnsku, eins og ég hef hér lýst, sem virðist vera orðin ríkjandi um lánamálin og þessi eyðublöð, sem ég var nú að gera að umtalsefni, bera ljóst vitni um. En það er vitaskuld, að það verður að setja reglur um lánveitingarnar, en þær reglur hljóta að geta orðið einfaldari en það, sem núna gildir, og komið samt að fullu gagni.

Ákvæðin í 2., 3. og 4. málslið, sem við leggjum til að verði felldir niður, eru ákvæði, sem virðast eiga frekar heima í reglugerð og ekki nauðsynlegt að hafa í lögunum.

Þá leggjum við til, og er það í samræmi við till. sjálfstæðismanna á síðasta þingi, að stofnað verði til frjáls sparnaðar í stað skyldusparnaðarins, sem lögfestur var. Við leggjum til, að setja skuli á stofn undir yfirstjórn húsnæðismálastjórnar og veðdeildar Landsbanka Íslands sérstakt form spariinnlána í bönkum og sparisjóðum, er nefnist húsinnlán.

„Húsinnlán skulu vera samningsbundin spariinnlán einstaklinga, er leggja inn fé af atvinnutekjum sínum, minnst 5 þús. kr. á ári í a.m.k. 5 ár.

Húsinnlán skulu bera 1% hærri ársvexti, en almennir sparisjóðsvextir eru á hverjum tíma, og skal það fé, sem sparað er á þennan hátt, vera undanþegið tekjuskatti og útsvari, þó ekki yfir 5 þús. kr. á ári.

Bankar og sparisjóðir skulu skyldir að taka við peningum til húsinnlána. Það fé, sem innborgast til húsinnlána, skal ganga til kaupa á A-bankavaxtabréfum hins almenna veðlánakerfis.

Húsinnlán skulu færð á sérstakan reikning lánastofnana, og skulu þær gefa húsnæðismálastjórn skýrslu um þau.

Húsinnlán fást útborguð að minnst 5 árum liðnum, frá því að innlög hófust. Öðlast þá eigendur þeirra rétt til að fá íbúðarlán hjá húsnæðismálastjórn, allt að 25% hærra, en venjulegt hámark er, þó aldrei yfir 2/3 hluta af matsverði viðkomandi íbúðar, og skylt er að láta þá sitja fyrir um lán.

Um framkvæmd þessarar greinar fer að öðru leyti eftir því, sem nánar verður ákveðið í reglugerð um húsinnlán, sem ráðherra setur að fengnum till. húsnæðismálastjórnar og veðdeildar Landsbanka Íslands.“

Þetta eru m.ö.o. þau ákvæði, sem við leggjum til að komi í staðinn fyrir ákvæðin um skyldusparnaðinn, sem lögfestur var á síðasta þingi og er nú gildandi í húsnæðismálalöggjöfinni.

Það er ekki hægt að áætla, hvað slíkar ráðstafanir gætu leitt til mikillar sparifjármyndunar, en við hyggjum, að frjáls sparnaður með sérstökum hlunnindum, eins og hér er gert ráð fyrir, sé líklegri til árangurs, en skyldusparnaður.

Framkvæmd ákvæðanna um skyldusparnaðinn hefur verið sú, að út hafa verið gefnar tvær reglugerðir um hann. Fyrri reglugerðin er gefin út 1. okt. 1957 eða staðfest þá, og hún fjallar um tilhögun innheimtunnar fyrir tímabilið frá 1. júní 1957 til 31. des. 1957, þ.e.a.s. frá því að skyldusparnaðurinn gengur í gildi 1. júní 1957 og til áramóta. Þessi hluti skyldusparnaðarins var ekki innheimtur jafnóðum af kaupi, eins og seinni reglugerðin, sem út var gefin 27. nóv., ef ég man rétt, gerir ráð fyrir og nú er framkvæmd á þann hátt, að skyldusparnaðurinn er innheimtur með sparifjármerkjum, sem greidd eru viðkomandi aðilum, sem eru skyldir að spara samkvæmt lögunum, — sparifjármerkjum, sem límd eru inn í sérstaka bók eftir reglum, sem um það gilda. En sá skyldusparnaður, sem féll í gjalddaga frá 1. júní 1957 til áramóta, er óinnheimtur enn þá, og gert er ráð fyrir, að hann verði innheimtur með tekju- og eignarskatti, sem álagður verður á þessu ári og miðast við tekjur ársins 1957. Hvernig það muni ganga að innheimta þennan skatt, er óséð enn, en ef til vill gengur það vel. Ég skal ekki spá neinu um það. En trúað gæti ég samt, að það yrði einhverjum erfiðleikum bundið að innheimta það.

3., 4. og 5. brtt. okkar eru um það, að 10., 11. og 12. gr. laganna falli niður, en það eru gr. laganna, sem fjalla um skyldusparnaðinn, en við viljum láta koma þar annað í staðinn.

6. brtt. okkar er í tveimur stafliðum, a og b. Í a-liðnum segir, að í stað „4 millj. kr.“ í 16. gr. l. komi: 12 millj. kr.

Samkv. húsnæðismálalöggjöfinni, sem sett var 1955, var viðurkennd sú meginregla, að ríkissjóður skyldi leggja fram jafnháa fjárhæð og sveitarfélögin til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Reyndar var framlag ríkissjóðs í fyrstu bundið við 3 millj. kr., þar sem óvíst var, um hve mikla fjárhæð yrði þarna að ræða, en það kom fljótlega í ljós, að þetta framlag ríkissjóðs yrði að hækka verulega, ef meginreglunni um jafnhátt framlag ætti að fullnægja. Það var því hvergi fullnægjandi, þó að upphæðin frá ríkissjóði væri hækkuð á s.l. ári í 4 millj. kr., en þá lögðu sjálfstæðismenn til að framlagið yrði haft óbundið samkvæmt meginreglunni um jafnt framlag.

Við leggjum því til, að í stað „4 millj. kr.“ komi 12 millj. kr. í þessari gr.

Þá leggjum við til samkv. b-lið 6. brtt., að á eftir 17. gr. l. komi ný grein, Í henni segir: „Nú stofnar sveitarfélag byggingarsjóð í því skyni að veita lán til nýbygginga, svo að útrýmt verði heilsuspillandi húsnæði, og skal þá ríkissjóður leggja slíkum sjóði jafnhátt árlegt framlag og veitt er úr sveitarsjóði.“

Undirbúningur mun nú hafinn að stofna slíkan byggingarsjóð í Reykjavík t.d., og búast má við, að fleiri bæjarfélög komi á eftir. Því er hér lagt til, að ákvæði þetta sé tekið upp í húsnæðismálalöggjöfina.

Ég hef þá minnzt á brtt. þær, sem við hv. 11. landsk. og ég berum fram við þetta frv., og læt því máli mínu lokið.