07.02.1958
Efri deild: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

94. mál, húsnæði fyrir félagsstarfsemi

Flm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem ég hef hér leyft mér að flytja, er ekki mikið að sniðum eða um stórmál að ræða.

Eins og alkunnugt er, a.m.k. innan verkalýðsfélaganna, hefur það mjög háð starfsemi þeirra á undanförnum árum, hve húsakostur hefur verið hér óhentugur og þó öllu fremur hve lítið framboð hefur verið af því húsnæði, sem verkalýðsfélögin helzt þurfa á að halda. Það er einnig vitað, að í hugum allt of mikils hluta fólks er starfsemi verkalýðsfélaga einungis við kaupgjalds- og vinnudeilur, og hefur oft verið um það rætt af þeim, sem lítið þekkja til, að þessi félög hafi yfirleitt ekki aðra starfsemi með höndum. Þetta er mikill misskilningur. En þetta álit ýmissa manna kann þó að mega rekja til þess, að félögin hafa ekki haft aðstöðu til þess að reka aðra starfsemi, en beina félagsfundi og það, sem í kringum þá er nauðsynlegt að starfa. Af þessum sökum hafa mörg hin smærri félög verið á beinum vergangi hér í höfuðborginni og þó sérstaklega hin fátækari félög, sem erfitt eiga með að klófesta sér húsnæði. Það er eins um þessi tvö félög, sem hér eiga hlut að máli, eða réttara sagt styrktarsjóði þessara tveggja félaga. Félags íslenzkra rafvirkja og Múrarafélags Reykjavíkur, að þau festu á árinu 1956 kaup á húsi hér á góðum stað í bænum, nánast miðsvæðis og góðu til fundarsóknar hvað viðkemur legu hússins og staðsetningu. En það kom síðar í ljós, að hús þetta hafði á sínum tíma verið byggt sem íbúðarhús, og þó að kaupin hafi verið fest réttum 5 mánuðum, áður en bráðabirgðalögin voru selt um afnot íbúðarhúsnæðis, þá hafði það ekki verið tekið til afnota sökum fjárskorts og braut því í bága við þau lög. Meginuppistaða þessa frv. er því að heimila þessum félögum að taka þetta húsnæði sitt til afnota, eins og í grg. frv. er frá skýrt.

Hv. deild hefur þegar afgr. nokkuð hliðstætt mál tafarlaust til Nd., og ég vænti þess, að fullur skilningur hv. deildarmanna ríki einnig á því að ganga til móts við ákvæði þessa frv. og samþykkja það á sem tafarminnstan hátt. Ég tel ekki þörf á því á þessu stigi málsins það verður ef til vill tækifæri til þess, þegar málið kemur úr n. — að skýra það öllu frekar.