07.02.1958
Efri deild: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

94. mál, húsnæði fyrir félagsstarfsemi

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði hér áðan, að þau stéttarfélög, sem eru eigendur umrædds húss, höfðu keypt það, áður en lögin um bann við notkun íbúðarhúsnæðis til annarra nota, en íbúðar voru sett. En þeir voru ekki búnir að taka húsnæðið í notkun, þegar lögin komu, og þar með féll þessi húseign undir löggjöfina, að ekki var heimilt að taka þetta hús til annarra nota en íbúðar, eins og það upprunalega hafði verið teiknað.

Ég gerði það fyllilega með vilja að hafa enga undanþágumöguleika í þeirri löggjöf, og þess vegna er ekki heimilt að taka neitt íbúðarhúsnæði til annarra nota nema þá með þeirri aðferð, sem hér hefur nú verið farin í tveimur tilfellum, þ.e.a.s. þegar Reykjavikurbær flutti hér frv. um að mega taka húseign hér í bænum til afnota sem fæðingarstofnun, sem Reykjavíkurbær ræki. að fengnum ummælum frá landlækni um það, að hann teldi slíkrar stofnunar þörf, og sú þörf raunar viðurkennd af öllum, málið þess eðlis líka, að það var ekki hætta á, að sú breyting frá lögunum skapaði almennt fordæmi, það yrði varla komið á fót annarri fæðingarstofnun en þeirri, sem þar um ræðir, viðbót við þá, sem ríkið og Reykjavíkurbær eiga fyrir. Og eins er þetta mál. Þarna er um að ræða félagsheimili tveggja stéttarfélaga, og þeim er það mikil nauðsyn að fá slíkt húsnæði og ekki vitað um, að nein stéttarfélög önnur séu þannig á vegi stödd eins og þessi tvö eru. Önnur stéttarfélög, sem réðust í að útvega sér félagsheimili, mundu byggja nýjar byggingar frá grunni. En þarna stendur alveg sérstaklega á.

Út frá þessu sjónarmiði og með tilvísun til hins fyrra máls, sem afgreitt var hér út úr hv. deild fyrir jólin, lýsi ég því yfir, að ég legg ekki stein í götu þessa máls, og ríkisstj. mun telja, að ekki sé síður brýn nauðsyn til þess að verða við þörfum þessara tveggja stéttarfélaga, en leysa þörf Reykjavíkurbæjar að því er snertir fæðingarstofnun til bráðabirgða í húsnæði, sem þó hafði áður verið haft sem íbúðarhúsnæði. Það mál fannst mér vera rétt á mörkum þess, að hægt væri að mæla með því, og einungis það, hve nauðsynin var talin brýn, skar þar úr.

Ég tel, að það hafi verið mjög mikil nauðsyn á því að taka í taumana og stöðva það, að áður en bráðabirgðalögin um notkun íbúðarhúsnæðis voru sett, þá var sífellt verið að breyta íbúðarhúsnæði, gömlum húsum og nýjum, og svindilbrask komið í fullan gang með að teikna bara eldhúsinnréttingar í stórhýsi, sem allir vissu að voru hugsuð sem verzlunarhúsnæði og skrifstofuhúsnæði og fengu ekki fjárfestingarleyfi hins opinbera og byggingarleyfi, og þá var farið inn á þá braut bara að svindla með þetta, sýna byggingaryfirvöldum borgarinnar eldhúsinnréttingateikningar í þessum skrifstofusölum og láta það heita svo, að þarna væri verið að byggja íbúðarhús, smáíbúðir, sem að öllu leyti gætu farið fram hjá fjárfestingaryfirvöldunum, þyrfti ekki sérstök leyfi til. Þetta þurfti auðvitað að stöðva, og þetta var stöðvað. Enn er nokkurt vandkvæðamál með þær byggingar, sem þá voru á döfinni, en mönnum er ekki kunnugt um, að haldið hafi verið áfram með þessa starfsemi, sem var alveg að öllu leyti óþolandi í borg, þar sem húsnæðisskortur var ríkjandi og þjáði þúsundir íbúanna. Ég mundi því vilja vænta þess, að þessi tvö fordæmi, sem nú líklega verða veitt, — fordæmi, sem hér hafa komið fram í sérstöku frumvarpsformi á Alþ. að því er snertir fæðingarstofnun og félagsheimili, — séu þess eðlis, að þau verði talin nokkuð sérstæð, og ef fleiri mál koma hér á dagskrá þess eðlis að veita undanþágu frá lögunum um bann við notkun íbúðarhúsnæðis til annarra nota en íbúðar, þá verði hv. deildarmenn og alþm. yfirleitt mjög varfærnir, við að brjóta niður þessa lagasetningu, sem er í alla staði hin eðlilegasta, að það húsnæði, sem upphaflega er áformað og byggt til íbúðar, verði, meðan húsnæðisskortur er í bænum, ekki hrifsað til einna og annarra nota, hinna og þessara, þarfra sem óþarfra, og skapi þannig áframhaldandi og viðvarandi húsnæðisskort, eins og þessi þróun málanna hafði þegar skapað. Það var alveg sama, hvað mikið var byggt, því að það gat verið í gangi breyting á íbúðarhúsum, eins mörgum og verið var að byggja, og þær íbúðir skiptu mörgum tugum, sem var verið að breyta með miklum hraða, þegar löggjöfin var sett.

Ég vildi láta þetta koma fram hér, að það, sem hér um ræðir, er þess eðlis, að ekki muni skapa almennt fordæmi, og á hinn bóginn mikil þörf hjá tveimur stéttarfélögum til þess að fá breytingu á l. og geta þannig tekið þetta húsnæði sitt í notkun sem félagsheimili, — það sé þannig vaxið, að ég mun ekki leggjast á móti því.

Hins vegar stóð ég alveg eins og veggur gegn því að veita þessum vinum mínum í stéttarfélögunum undanþágu frá l., sem undir mig heyrðu, hversu knýjandi nauðsyn sem ég sá að var á því og hversu fast sem þeir sóttu á mig. Ég vissi, að ég var búinn að brjóta niður alla löggjöfina, ef ég fór að láta stéttarfélög eða aðra komast upp með það að fá undanþágu frá l., og það er auðvitað á valdi Alþ. eins að gera breytingar á l. í hvert einstakt skipti og meta þá þörfina og nauðsynina.