27.02.1958
Neðri deild: 57. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

94. mál, húsnæði fyrir félagsstarfsemi

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um það, að styrktarsjóði Félags íslenzkra rafvirkja og sjúkrastyrktarsjóði Múrarafélags Reykjavíkur skuli heimilað að taka eignarhluta sinn í húsinu nr. 27 við Freyjugötu í Rvík til afnota fyrir félagsstarfsemi.

Hér er um að ræða tvö stéttarfélög í Reykjavík, sem hafa um 600 skráða félagsmenn og hafa búið við mjög þröngan húsakost fyrir starfsemi sína, annað félagið a.m.k. algerlega húsnæðislaust. Af þessum ástæðum keyptu þessi félög hluta húseignarinnar nr. 27 við Freyjugötu hér í bæ, sem var þá í byggingu. Þessi kaup fóru fram réttum fimm mánuðum áður, en bráðabirgðalög um afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum voru sett. Eftir setningu laganna hefur verið dregið í efa, að félögunum sé heimilt að halda áfram með fyrirætlanir sínar um notkun þessa húsnæðis, þrátt fyrir það að þegar við setningu laganna hafi verið búið að vinna þannig við húsið, að illframkvæmanlegt, ef ekki óframkvæmanlegt nema með ærnum kostnaði, er talið vera að breyta því í íbúðarhúsnæði. Hér er því farið fram á að skera úr þessum málum með því frv. til l., sem fyrir liggur.

Hv. Ed. hefur þegar afgreitt málið, og heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. hefur fjallað um það og mælir með samþykkt frv. Fjórir af fimm nefndarmönnum voru viðstaddir þá afgreiðslu nefndarinnar.