10.12.1957
Efri deild: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

72. mál, fæðingarheimili Reykjavíkurbæjar

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það var fyrir rúmum áratug, sem ríkið og Reykjavikurbær byggðu saman fæðingardeild Landsspítalans, og hefur hún síðan verið rekin með þeim hætti, að Reykjavíkurbær greiðir vissan hluta rekstrarhallans, en stjórn deildarinnar í höndum stjórnar ríkisspítalanna. Nú er það fyrir nokkru komið í ljós, að þó að þessi bygging bætti úr mjög brýnni þörf á sinni tíð, þá er hún orðin of lítil nú. Það hafa því verið raddir uppí um það að byggja við þetta hús, stækka það verulega, og liggja fyrir lauslegir uppdrættir frá húsameistara ríkisins um þá viðbyggingu. Það er gert ráð fyrir, að sú bygging, sem þeir uppdrættir fjalla um, muni kosta 10–12 millj. kr., en sjúkrarúmum þó aðeins fjölgað um 25, og er því hér um allkostnaðarsama leið að ræða, og tæki alllangan tíma, þangað til slíkt viðbótarhús kæmi að notum eða kæmist í gagnið. Þess vegna hefur verið rædd önnur leið til þess að bæta úr hinni brýnu þörf. Hún er sú að setja á stofn fæðingarheimili í tveim sambyggðum húsum, sem Reykjavíkurbær hefur átt í nokkur ár, við Eiríksgötu og Þorfinnsgötu. Þau hús hafa að undanförnu verið notuð fyrir fólk, sem hefur verið húsnæðislaust eða í miklum vandræðum, en nú hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að losa þau og þegar fluttar nokkrar af þeim fjölskyldum annað.

Nú er það svo, að skv. lögunum um bann við því að breyta íbúðarhúsnæði í annað húsnæði yrði þessi breyting væntanlega ekki talin heimil, nema sérstök lagaheimild komi til, og undanþáguheimild, sem eigi hér við, ekki til í gildandi lögum. Þess vegna er þetta frv. flutt, og er efni þess að heimila bæjarstjórn Reykjavíkur að taka íbúðarhúsnæði, sem er í eigu bæjarins, til afnota fyrir fæðingarheimili. Að sjálfsögðu mun bæjarstjórnin sjá þeim fjölskyldum, sem þarna búa, fyrir öðru húsnæði.

Ég vænti þess, að þetta frv. fái góðar undirtektir í hv. d. og að það fái greiðan gang í gegnum þingið, vegna þess að málið er mjög aðkallandi. Ég vil leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og væntanlega heilbr.- og félmn.