03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

72. mál, fæðingarheimili Reykjavíkurbæjar

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Frv. þetta, sem fram kom í Ed. og hefur þegar verið afgr. þar, er efnislega á þá lund, að bæjarstjórn Reykjavíkur skuli heimilt að taka íbúðarhúsnæði, sem er í eigu bæjarins, til afnota fyrir fæðingarheimili.

Það er kunnugt, að hér í höfuðborginni er mjög mikill skortur á rúmum á fæðingarsjúkrahúsi, svo og að úr því verður ekki bætt í skyndi. Það eru að vísu mikil og mörg sjúkrahús í byggingu, en þess mun nokkuð að bíða, að þau verði nothæf. Þess vegna hefur verið athuguð sú leið — og að skoðun bæjarins er hún raunhæfust til aðgerða um stuttan tíma, eða þangað til hin nýju sjúkrahús koma að taka íbúðarhús, Eiríksgötu 37 og Þorfinnsgötu 16, sem áður hafa verið notuð fyrir sjúkrahús, undir fæðingarheimili fyrst um sinn.

Heilbr.- og félmn. hefur fjallað um þetta mál og mælir einróma með samþykkt frv.