11.03.1958
Neðri deild: 64. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

86. mál, skólakostnaður

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég flutti á síðasta þingi frv. um breyt. á lögum um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Efni þessa frv. var það að rýmka nokkuð um fyrir sveitarfélögunum um þátttöku ríkissjóðs í kostnaði við þessa skóla, sem eru héraðsskólar og húsmæðraskólar, bæði að því er tekur til stofnkostnaðar skólanna og einnig rekstrarkostnaðar við þessa skóla. Sömuleiðis fólust í þessu frv. mínu nokkrar breytingar eða hliðstæð rýmkun á kostnaði við upphitun í þeim skólum, þar sem ekki er fyrir hendi jarðhiti.

Þessu frv. var þá vísað til menntmn., og meiri hl. hennar lagði til að víkja málinu til hliðar þá með rökstuddri dagskrá, sem fól í sér tilmæli til ríkisstj. um að taka málið að nýju til athugunar.

Þegar nokkuð leið á þetta þing og engar till. komu fram í þessa átt, þá flutti ég þetta frv. aftur, og var því einnig þá vísað til hv. menntmn.

Síðar bar svo menntmn. fram frv. á þskj. 144 um þetta efni, sem aðeins tók þó til eins liðar í mínu frv., þ.e. kostnaðar við rekstur þessara skóla. Það er efni þessa frv., sem menntmn. flytur f.h. ríkisstj. um þetta efni. Nú hef ég ekki til hlítar getað gert mér grein fyrir, hvort þeim tilgangi, sem felst í brtt. minni um þetta efni, verður náð með ákvæðum þessa frv. Þar verður reynslan að skera úr, og það er líka nokkuð háð því, hvort viðhald kemur undir ákvæði frv. um rekstrarkostnað eða í hvað víðtækum mæli viðhald skólanna gæti komið undir þessi ákvæði. En hins vegar eru þessi ákvæði þannig, að ég tel, að við það megi hlíta, og hef því ekki flutt neinar brtt. við það atriði og tel verulegan vinning í því fyrir skólana að fá slík ákvæði samþykkt að því er snertir rekstur þeirra sem í frv. menntmn. felst.

En þá er eftir hin hliðin á málinu, þ.e. þátttaka ríkisins í stofnkostnaði þessara skóla, og er þar að sjálfsögðu um mjög mikið fjárhagsatriði að ræða, bæði fyrir ríkissjóð og líka fyrir þá einstaklinga eða þau sýslufélög, sem standa undir þessum kostnaði. Og það er alveg gefinn hlutur, að þó að brtt. mínar um að færa þátttöku ríkissjóðs úr 3/4 upp í 9/10 af þessum kostnaði auki náttúrlega það fjárframlag, sem lagt er á herðar ríkisins, þá er hitt vitað, að sá hluti þessa kostnaðar að óbreyttu nú verður miklu þungbærari, fyrir þau sýslufélög, sem undir þessu eiga að standa, því að sakir standa þannig nú fyrir þessum skólum, eins og ég skal upplýsa síðar í minni ræðu, að það þarf að gera mjög stórtækar endurbætur á þeim, auka og bæta þær byggingar, sem þar eru fyrir, svo framarlega sem þessar stofnanir eiga að geta þjónað því hlutverki, sem þeim er falið að inna af höndum. Við þetta bætist svo það, að mjög er gert upp á milli sýslufélaganna um þennan kostnað, þar sem sum sýslufélög eiga að bera 1/4 af þessum kostnaði, en önnur sýslufélög og það heill landsfjórðungur sleppa algerlega við allan hliðstæðan kostnað af þessu skólaviðhaldi og skólabyggingum, þ.e. Austfirðingafjórðungur. Þeirra héraðsskóli, Eiðaskólinn, er að öllu leyti borinn uppi, bæði hvað stofnkostnað og rekstrarkostnað snertir, af ríkinu, án þess að þau sýslufélög, sem að honum standa, þurfi þar nokkurt fé fram að leggja. Þetta er að sjálfsögðu einnig þungt á metunum í sambandi við breytingar á þessu máli.

Haustið 1956 héldu forráðamenn þeirra sýslufélaga, sem standa að héraðsskólum og ber að standa undir kostnaði við þá ásamt ríkinu, fund með sér hér í Reykjavík. Mér þykir rétt, þó að ég hafi áður gert grein fyrir þessu, að rifja þetta nokkuð upp að nýju, svo að ljósara liggi nú fyrir, hvernig þessi mál standa. Þessir fulltrúar voru: Úr Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, en þær standa að Skógaskólanum, var Björn Björnsson sýslumaður Rangæinga. Frá Árnessýslu var sýslumaður Árnesinga, Páli Hallgrímsson, og Bjarni Bjarnason skólastjóri á Laugarvatni, en Árnessýsla ber kostnað á móti ríkinu bæði af Laugarvatnsskólanum og einnig af húsmæðraskóla, sem þar er rekinn. Fyrir hönd Mýra- og Borgarfjarðarsýslu mætti á þessum fundi Jón Steingrímsson sýslumaður, en Mýra- og Borgarfjarðarsýsla standa undir kostnaði við bæði Reykholtsskólann og einnig húsmæðraskólann á Laugalandi. Frá N.-Ísafjarðarsýslu var mættur sýslumaður og bæjarfógeti þar, Jóhann Gunnar Ólafsson, og frá V:Ísafjarðarsýslu voru mættir Jóhannes Davíðsson bóndi í Hjarðardal og Sturla Jónsson á Suðureyri. Og frá V.-Húnavatnssýslu og Strandasýslu, en þær sýslur standa báðar að Reykjaskóla, var mættur Sæmundur Guðjónsson skólastjóri Reykjaskóla.

Þessir menn, fulltrúar, sem þarna mættu, höfðu einnig samband við ráðamenn í öðrum sýslufélögum, sem eins stendur á um í þessu efni, og þess vegna er óhætt að álykta, að á bak við þær samþykktir, sem þeir gerðu, standi allir þeir aðilar, sem bera sameiginlega kostnað með ríkinu af rekstri og stofnkostnaði þessara skóla. Þessir aðilar gerðu samþykktir um þetta efni og rökstuddu þær með grg., sem þeir létu fylgja þessum samþykktum. Samþykktin gekk út á það, að þeir beindu þeirri áskorun til ríkisstj. og alþm., að á Alþingi, sem sett var á árinu 1956, yrði gildandi lögum varðandi gagnfræðanám og húsmæðrafræðslu breytt þannig, að héraðsskólar og húsmæðraskólar í sveitum yrðu kostaðir og reknir að fullu af ríkinu, en til vara báru þeir fram þá till., að ríkissjóður greiddi öll kennaralaun við skóla þessa og 90% af stofnkostnaði, viðhaldskostnaði og öðrum rekstrarkostnaði þessara skóla, og það var einmitt varatill. þessara fulltrúa, sem ég hafði tekið upp í mitt frv.

Þeir rökstuddu þessa áskorun sína m.a. með því að benda á, að með lögum frá 1946 var gengið út frá því, að nokkrum sýslufélögum í landinu yrðu lagðar þær skyldur á herðar að greiða stofnkostnað og rekstrarkostnað héraðsskóla og húsmæðra, ákveðið hlutfall á móti ríkissjóði, en segja jafnframt, að engin samráð hafi verið höfð við forráðamenn þessara sýslufélaga um þessar álögur og að þeim hafi ekki jafnframt verið heldur séð fyrir neinum tekjum til þess að standa undir þessum kostnaði. En eftir ákvæðum eldri laga um skóla þessa, var styrkur úr ríkissjóði það ríflegur, að hann ásamt skólagjöldum stóð undir rekstri og að nokkru leyti undir stofnkostnaðarframlagi skólanna. Sýslufélög og jafnvel einstök hreppsfélög, veittu smávegis styrki til þessara skóla, segja þeir, og var það frjálst framlag og fór þá að sjálfsögðu eftir efnum og ástæðum hverju sinni.

Enn fremur taka þeir það fram, að við setningu skólalöggjafarinnar 1946, þeirrar sem við nú búum við, var ekki gengið formlega frá því, hvaða sýslufélög tækju þessa skóla að sér. Var það ekki raunar fyrr, en frá leið, að sýslunefndum var ljóst, hvað hér var í efni. Í hlut sumra sýslufélaganna komu tveir skólar, í annarra hlut einn skóli. Við framkvæmd hinnar nýju skólalöggjafar voru stofnaðir nýir framhaldsskólar í flestum hinna þéttbýlli staða.

Í Árnessýslu, segja þeir, sem stendur undir héraðsskóla og húsmæðraskóla ásamt ríkinu, eru t.d. 4–5 framhaldsskólar, sem kostaðir eru af sjóðum viðkomandi hreppa á móti ríkinu. Það er hvorki til þess ætlazt né heldur mögulegt, að sýslusjóðir veiti styrki til þessara skóla, einstakra hreppsfélaga. Aftur á móti verða þessi sömu hreppsfélög að bera hlutfallslega kostnað af héraðsskólanum á Laugarvatni. Sama ástand og hér hefur verið lýst er einnig innan sýslufélaga, er að hinum héraðs- og húsmæðraskólanum standa, og verður af þessu misræmi og réttmæt óánægja, segja þessir fulltrúar.

Þá benda þeir enn fremur á það, sem ég gat hér um í upphafi míns máls, að nokkur sýslufélög sleppa algerlega við allan kostnað af hliðstæðu skólahaldi. Heill landsfjórðungur, segja þeir, Austurland, fær allan kostnað við Eiðaskólann greiddan úr ríkissjóði, og sama er að segja um húsmæðraskólann á Staðarfelli í Dalasýslu.

Þá vilja þeir benda á það, að skólar þessir eru yfirleitt ekki nema að litlu leyti sóttir af nemendum úr þeim sýslum, sem kostnaðinn eiga að bera á móti ríkissjóði. Veldur þar að sjálfsögðu mestu fámenni sveitanna. Skal einnig á það bent, að varla mundu kaupstaðir landsins telja sér skylt að standa undir skólahaldi, sem væri um 50–75% vegna nemenda úr öðrum héruðum, að því er héraðsskólana snertir, og 50–97%, þegar húsmæðraskólarnir eru meðtaldir.

Þegar ég flutti þetta mál á síðasta þingi, birti ég skýrslur um það, hvernig skólasókn skiptist niður á héruðin í þessum skólum, og það var alls staðar mjög mikill minni hluti nemendanna, sem var úr þeim héruðum, sem standa undir kostnaðinum við þessa skóla með ríkinu Meirihlutinn var úr öðrum héruðum.

Að lokum, segja þeir svo, skal það nefnt, sem veigamest er, og það er féleysi sýslusjóðanna, hjá sumum m.a. vegna fámennis, hjá öðrum vegna margvíslegra bundinna útgjalda og hjá öllum vegna takmarkaðra tekjustofna. Afleiðing þess ástands er skuldir og vanskil við skólana annars vegar, en ónógt viðhald mannvirkja og skortur á hæfilegri aðbúð og aðbúnaði hins vegar.

Vér teljum hvorki sanngjarnt, segja þeir svo að lokum, né mögulegt að ætla einstökum sýslufélögum að standa undir kostnaði, sem að mestu leyti er vegna annarra skólahéraða, en láta önnur sýslufélög og heilan landsfjórðung sleppa algerlega við hliðstæð gjöld. Skal á það bent, að hér er um svo greinilega sérstöðu að ræða innan íslenzka skólakerfisins, að engin ástæða er til þess að gera ráð fyrir, að sú breyting, sem hér hefur verið farið fram á að gerð verði, geti orðið fordæmi um aðra skóla.

Þá hef ég í stuttu máli rakið aðalrök þessara fulltrúa fyrir þeim till., sem þeir báru fram um breytingar á kostnaði við þessa héraðs- og húsmæðraskóla.

Eins og ég minntist á áður, þá kom, eftir að ég hafði flutt frv. mitt að nýju á þessu þingi, nokkru síðar fram frv. frá menntmn., sem tekur annan aðalþáttinn úr mínu frv., breytingar á rekstrarkostnaði þessara skóla, og það er, eins og ég hef lýst, út af fyrir sig mjög góðra gjalda vert, þó að ég hins vegar geti ekki nú gert mér fulla grein fyrir því, hvort þær breytingar ná jafnlangt til leiðréttingar á þessu og í brtt. fólst. En hitt er, held ég, alveg gefið mál, að þetta frv. er að þessu leyti til mjög mikilla bóta.

Ég hef þess vegna leyft mér að bera hér fram brtt. við þetta frv. menntmn., að taka upp í það það, sem niður var fellt úr mínu frv., sem er breyting á hlutfallinu í stofnkostnaði milli ríkissjóðs og þeirra, sem að héraðsskólunum og húsmæðraskólunum standa, á þann veg, að í staðinn fyrir, að héruðin eða viðkomandi sýslur eigi að greiða 1/4 af þessum kostnaði, þá greiði þær 1/10 hluta þessa kostnaðar. Sömuleiðis hef ég tekið upp þá brtt., að í stað þess að nú greiðir ríkissjóður 3/4 hluta af hitakostnaði þeirra skóla, þar sem ekki er jarðhiti, þá verði sama hlutfalli fylgt, að hann greiði 9/10 af þessum kostnaði. Þessar breytingar mínar hafa nú þegar verið rökstuddar, fyrst og fremst með áliti þeirrar n., sem um þetta fjallaði á haustinu 1957, og svo því, sem ég hef aukið við það.

Ég ætla þess vegna þessu næst að gera nokkra grein fyrir því eftir upplýsingum, sem ég hef fengið hjá eftirlitsmanni skólamála hér, hvaða kostnaður er fyrir dyrum við endurbætur og viðauka þessara skóla, héraðsskólanna. Eftir þeim upplýsingum, sem Aðalsteinn Eiríksson hefur gefið mér um þetta, er gert ráð fyrir, að kostnaður við endurbætur á skólahúsinu í Reykholti muni verða um 2 millj. kr. Þar er auk þess mjög ófullnægjandi leikfimishús og vantar algerlega smiðahús fyrir nemendurna, og það er gert ráð fyrir því, að með því að byggja þar sæmilegt og viðhlítandi leikfimishús og smíðahús muni það kosta jafnháa upphæð og endurbótin á skólahúsinu sjálfu, eða um 2 millj. kr., svo að sá kostnaður, sem fyrir liggur nú að leggja í, í Reykholti, er 4 millj. kr. og af þessu á — samkvæmt gildandi lögum um þetta efni — Mýra- og Borgarfjarðarsýsla að bera 1/4 hluta eða 1 millj. kr.

Næst eru svo Reykir í Hrútafirði. Þar segir hann mér, að kosta muni um 3 millj. kr. endurbætur og viðbætur við skólahúsið þar. Mundi það þá verða 750 þús., sem kæmu í hlut Vestur-Húnavatnssýslu og Strandasýslu, en þær sýslur standa undir kostnaði við þennan skóla á móti ríkinu.

Næst kemur svo skólinn á Núpi í Dýrafirði. Það er einnig gert ráð fyrir því, að það muni kosta um 3 millj. kr. að endurbyggja skólahúsið þar og gera nauðsynlegar viðbætur í sambandi við rekstur þess skóla, og yrði þá hlutur Vestur-Ísafjarðarsýslu af þessu 750 þús. En það er eingöngu Vestur-Ísafjarðarsýsla ein, sem stendur undir kostnaði við Núpsskólann á móti ríkinu.

Næst kemur svo Reykjanesskólinn við Ísafjarðardjúp. Það er gert ráð fyrir, að kostnaður við endurbyggingar þar muni nema um 2 millj. kr., og hluti Norður-Ísafjarðarsýslu, því að hún stendur einnig ein að þeim skóla, yrði þá 1/2 millj. kr.

Þá er Laugaskólinn í Suður-Þingeyjarsýslu. Það er langminnst, sem þar þarf að gera. Það er þó talið að vera um 800 þús., sem þurfi að verja þar til umbóta, og yrði þá hlutur Suður-Þingeyjarsýslu 200 þús. af þeirri upphæð.

Sjötti liðurinn er svo Laugarvatn. Það er gert ráð fyrir því, að endurbætur þar muni kosta um 3 millj. kr., og hlutur Árnesinga yrði þá í þeim kostnaði samkvæmt reglunni 750 þús. kr.

Loks er svo Skógarskólinn undir Eyjafjöllum. Það er gert ráð fyrir, að kostnaður við hann sé um 3 millj. og 200 þús. og það yrðu því um 800 þús.., sem Vestur-Skaftafellssýsla og Rangárvallasýsla yrðu sameiginlega að standa undir af þeim kostnaði.

Þetta eru þær upplýsingar, sem ég hef fengið um endurbætur á þessum skólahúsum, sem allar eru taldar nauðsynlegar og sumar alveg bráðnauðsynlegar og óhjákvæmilegar, svo fremi sem ekki á að slitna þráðurinn og niður verði að fella skólahald á þessum stöðum, meðan úr því verður bætt.

Ég held, að allir hljóti að viðurkenna, að viðkomandi sýslufélögum verði erfitt að inna af hendi eins mikið framlag og sýnilega óhjákvæmilegt er að í þeirra hlut falli af þessum upphæðum nú á allra næstu árum. Þetta þyngir að sjálfsögðu einnig á ríkissjóði, en þar eru margir að verki til þess að standa undir hans þörfum, bæði hvað þetta snertir og annað, og það verða menn í þessum héruðum, þó að þessu yrði breytt, einnig að gera að því er til þeirra tekur. En hins vegar eru líkur til, að þeir mundu kljúfa þennan kostnað á móti ríkinu, ef það hlutfall yrði tekið upp, sem fulltrúar þessara skólahéraða gerðu í sínum till. eða í varatill. sinni. Það efast ég ekkert um, að við þær skuldbindingar mundu héruðin geta staðið.

Ég vil þess vegna vænta þess og þá alveg sérstaklega þar sem svo stendur á, að hér er ákaflega gert upp á milli héraða um kostnað við þetta skólahald, þar sem heill landsfjórðungur sleppur algerlega við þann mikla kostnað, sem hér hvílir á herðum annarra, og í skóla þeirra, sem standa undir þessum kostnaði, sækir mikill meiri hluti nemendanna úr allt öðrum héruðum og þ. á m. þeim, sem algerlega eru laus við þennan kostnað, — allt þetta fellur í einn og sama farveg, sem sé þann, að eðlilegt sé, að sú breyting verði gerð á um þetta hlutfall, sem fulltrúar þessara héraða fóru fram á og ég hef nú tekið upp í mitt frv. og nú að nýju upp í mínar brtt. við frv. menntmn.

Það er nú yfirleitt svo um kostnað við skólamál í þessu landi, að þau hvíla orðið langsamlega mest á ríkissjóði, á því breiða baki. Þess vegna virðist það vera mjög í andstöðu og mótsögn við þá almennu reglu, sem nú er í þessu landi um kostnað við að standa undir hinni almennu menntun borgaranna, að gera svo upp á milli sem gert er samkvæmt núgildandi lögum um þetta efni. Ég vildi þess vegna mjög mælast til þess, að hv.d. gæti séð sér fært að gera þær breytingar á þessu frv. að taka upp í það mínar till.

Merkur skólamaður, skólastjórinn í Reykholti, Þórir Steinþórsson, skrifaði mér mjög rækilegt bréf um þetta mál á síðasta ári, sem mjög fellur á sömu lund og þau rök, sem ég hef nú gefið hér dálítið yfirlit yfir að fólust í grg. fulltrúa sýslufélaganna, sem hér áttu fund með sér um málið haustið 1956. Þórir Steinþórsson segir, eftir að hann hefur rætt um þetta mál á við og dreif og mjög hvatt mig til þess að gera tilraun til að rétta hér hlut þessara héraða, — þá segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Og að síðustu vil ég segja þetta: Úr því að ríkið léttir alveg kostnaði af einum landshluta um slíkt skólahald sem þetta, getur ekki orðið stætt á því að hlaupa ekki betur undir bagga með öðrum landshlutum, sem standa undir sams konar skólum. Eiðaskóli hefur enga sérstöðu í þessu efni, og það er ranglæti, sem ekki verður þolað til lengdar, að láta Austfirði hafa sérréttindi umfram aðra landshluta hvað skólamál snertir.“

Þetta segir nú sá mjög hógværi og grandvari skólamaður um þetta atriði, og verður að viðurkenna, að það sé sízt of djúpt tekið í árinni hjá honum að benda fyrst og fremst á þetta misræmi og einnig gera kröfu til, að úr þessu misræmi verði bætt.

Ég skal svo ekki lengja mitt mál meira um þetta. En mér þótti rétt að láta hér koma fram, hvað fyrir liggur um endurbætur á þessum skólum, svo að það lægi alveg ljóst og skýrt fyrir, hvað hér er um miklar framkvæmdir að ræða og hve kostnaðarsamar þessar framkvæmdir eru. Þessar tölur sýna, að það eru ekki neinar líkur til annars, en það verði viðkomandi héruðum alveg um megn að standa undir svo miklum kostnaði sem af þessum framkvæmdum leiðir á næstu árum, og enn fremur, að þeim er rangt til gert með því að láta þennan kostnað lenda á þeim, þar sem önnur sýslufélög og landsfjórðungur, sem alveg eins stendur á um, sleppa gersamlega við að standa undir þessum kostnaði.