11.03.1958
Neðri deild: 64. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

86. mál, skólakostnaður

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Það er rétt, sem hv. þm. Borgf. (PO) vék að, að snemma á þessu þingi flutti hann frv. um breyt, á l. um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Því frv. var vísað til menntmn. þessarar d., en menntmn. hefur ekki afgreitt þetta frv. af þeirri ástæðu, að n. var kunnugt um það, að verið var að athuga þessi mál á vegum menntmrn, og fjármál eftirlits skólanna, og árangurinn af þeirri athugun varð frv., sem hér liggur fyrir og menntmn. flutti að beiðni ráðuneytisins. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er miðað að því að létta byrði héraðanna, sem standa að þeim skólum, sem hér um ræðir, að því er snertir rekstrarkostnaðinn. En í þessu frv. menntmn. er að sönnu farin önnur leið að því marki, en hv. þm. Borgf. hafði lagt til.

Nú er það rétt, sem hv. þm. Borgf. tók fram, að reynslan sýnir bezt, hver árangur verður af þeim ákvæðum, sem frv. menntmn. felur í sér. En ég hef ástæðu til að ætla eftir nokkra athugun á málinu, að leið sú, sem hér er lagt til að fara, muni jafngilda þeim till., sem hv. þm. Borgf. bar fram í haust, að því er rekstrarkostnað skólanna snertir, enda kemur það fram bæði af ræðu hv. þm. og af till. hans á þskj. 288, að hann fellst að mestu leyti á þá lausn málsins, sem menntmn. leggur til, að því er rekstrarkostnaðinn snertir. Aðalatriði brtt. hv. þm. fjallar um aukinn stuðning ríkisins við stofnkostnað þeirra skóla, sem hér ræðir um. Ég vil taka það fram, að menntmn. hefur enga samþykkt gert um þá brtt., sem hér liggur fyrir. Það, sem ég segi um hana, er því ekki sagt fyrir hönd nefndarinnar, heldur vil ég leyfa mér sem þm. að fara um hana örfáum orðum án tillits til afstöðu nefndarinnar.

Þær upplýsingar, sem hv. þm. Borgf. lagði hér fram í ræðu sinni um þann kostnað, sem endurbætur á núverandi skólum í ýmsum héruðum hefðu í för með sér, eru vafalaust réttar. En hann vitnaði til þess, að það væru rök í þessu máli, að einn landsfjórðungur hefði minni skyldur í þessu sambandi, en hinir landsfjórðungarnir. Ég skal nú ekki fara að ræða það atriði mikið. En mér virðast það út af fyrir sig ekki veigamikil rök, vegna þess að sú sérstaða er byggð á vissum, í raun og veru gömlum samningi, sem gerður var af hálfu sýslufélaganna í þeim landsfjórðungi við ríkisvaldið, og sá samningur tekur einungis til eins skóla. Nú hefur það komið fram í þessum umr. um sum önnur héruð, t.d. Árnessýslu, að hún léti sér ekki nægja hinn veglega skóla á Laugarvatni, heldur væru þar vegar starfandi nokkrir skólar á gagnfræðastiginu. Augljóst er, að ef Austfirðingar létu sér ekki nægja hinn gamla skóla á Eiðum og færu að reisa fleiri skóla í sínu byggðarlagi, sínum landsfjórðungi, þá féllu þeir undir ákvæði laganna, en hefðu enga sérstöðu.

Það er nú augljóst, og við hv. þm. Borgf. erum að mér skilst sammála um það, að þær till., sem hér liggja fyrir, miða óumdeilanlega að því að létta nokkuð byrði héraðanna gagnvart rekstri þessara skóla. Um leið og það er gert, standa héruðin betur að vígi, en áður gagnvart því að greiða sinn hluta af stofnkostnaði.

Ég vil einnig vekja athygli hv. þd, á því, að þótt ég dragi ekki í efa, að þær upplýsingar um kostnað við endurbætur á þeim skólum, sem fyrir eru, sem þm. Borgf. gaf hér, séu réttar, þá mundu ákvæði brtt. á þskj. 288, ef lögfest yrðu, ekki takmarkast við stuðning við þá skóla, heldur gilda um stofnframlag ríkisins, ef nýir skólar yrðu reistir, og þá verður að líta á þá hliðina, sem að fjárveitingavaldinu snýr, hvort fjárveitingavaldið sér sér fært að lögfesta slík ákvæði til frambúðar, sem eigi að gilda um stofnkostnað þeirra skóla, sem hér eftir kann að verða stofnað til. Nú veit hv. þm. Borgf. það sjálfsagt betur en ég, þar sem hann á sæti í fjvn. og hefur átt þar sæti um fjöldamörg ár, að við afgreiðslu fjárl. hverju sinni mun reynast erfitt og vera ærið vandamál að ráða fram úr því og greiða úr því, svo sem þörf er á, að leggja fram stofnkostnaðarframlög ríkisins til skólakerfisins, bæði skóla gagnfræðastigsins og barnaskólastigsins. Og okkur er það líka kunnugt, að þess munu dæmi hér á landi í sambandi við byggingu skóla og skólastarfsemina, að boginn sé jafnvel spenntur svo, að ekki sé fullrar hagsýni gætt. Allt hlýtur þetta að koma til álita í sambandi við lagaákvæði eins og þau, sem hér er fjallað um, og mun ég því ekki sjá mér fært að greiða atkv. með brtt. á þskj. 288.